08.02.1968
Efri deild: 52. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1846 í B-deild Alþingistíðinda. (1856)

107. mál, síldarútvegsnefnd

Karl Sigurbergsson:

Herra forseti. Með frv. því frá sjútvn. hv. d., sem hér er til umr. og fjallar um breyt. á l. um síldarútvegsnefnd og útflutning saltaðrar síldar, fylgir grg., þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Frv. þetta flytur n. að beiðni hæstv. sjútvmrh., en honum hafði borizt beiðni um flutning þess frá sjö manna nefnd, sem skipuð var af rn. hinn 2. ágúst s. l. til að gera till. um framtíðarskipulag á sölu verkaðrar síldar til útlanda.“ Enn fremur segir í grg., að einstakir nm. geri fyrirvara um, að þeir hafi frjálsar hendur um afstöðu til efnisatriða frv. og brtt., sem fram kunna að koma.

Ég hef leyft mér að nota þennan fyrirvara af þeirri ástæðu, að ég get ekki verið sammála þeirri breytingu, sem hér er lagt til að gerð verði. Það er í fyrsta lagi vegna þess, að upphaflega hefur verið ætlazt til, að mér skilst, að gerð verði gagnger breyting á skipulagi síldarútvegsnefndar og þar með lögð drög að framtíðarskipulagi á sölu verkaðrar síldar til útlanda. Ég get ekki komið auga á gagngera breytingu hér í þessu frv. og enn síður framtíðarskipulag. En eftir því, sem hæstv. sjútvmrh. upplýsti hér rétt áðan, þá mun þessi sjö manna nefnd ekki hafa lokið störfum og þess er kannske að vænta, að hún geri einhverjar gagngerar breytingar á framtíðarskipulaginu. Sú breyting, sem lagt er til að gerð verði, er í stuttu máli sú, að fjölgað verði í síldarútvegsnefnd um einn mann, þ.e. úr 7 mönnum í 8. Og þessi eini maður, sem við bætist, á að vera tilnefndur af tveim aðilum sameiginlega. þ. e. a. s. Félagi síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi og Félagi síldarsaltenda á Suðvesturlandi. Nú má það vera, að þessir tveir aðilar hafi sérstakra hagsmuna að gæta umfram aðra, svo ég sé ekki ástæðu til að vera að amast við því, þó þeim sé hvorum um sig gefinn kostur á að eiga einn og hálfan fulltrúa í nefndinni, ef þeir á annað borð geta komið sér saman um þessa helmingaskiptareglu. En ég get ekki fallizt á, að þetta feli í sér neina gagngera breytingu, aðeins fleiri ósammála menn, fleiri menn með gamaldags hugmyndir, já, steinrunnar hugmyndir. Í öðru lagi get ég ekki fallizt á þetta frv. að því leyti, að þar er einum nm. gefið allt of mikið vald, þ.e.a.s. nefndarformanni, þar sem lagt er til, að séu jöfn atkvæði við atkvæðagreiðslu í nefndinni, ráði atkvæði formanns úrslitum.

Ég tek undir orð hv. 5. landsk. þm., er hann sagði hér í hv. d. í fyrradag eitthvað á þá leið, að vafasamt væri að gefa einum manni slíkt úrskurðarvald, ef um málefni væri að ræða, sem gæti haft úrslitaþýðingu og varðaði ýmsa aðila háum fjárhæðum. Það er einmitt með tilliti til þessarar stefnu í skipan nefndarinnar, sem ég hef leyft mér að leggja fram brtt. við frv. og get eigi látið hjá líða að fara nokkrum orðum um hana, með leyfi hæstv. forseta, vegna þess að þetta mun vera síðasti dagur minn hér á þingi að sinni. Í brtt. legg ég til, að í stað orðanna „8 mönnum“ í 2. málsgr. 1. gr. komi: 9 mönnum, í stað orðanna „5 menn“ komi: 6 menn og við málsliðinn bætist: og einn eftir tilnefningu Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, en það er eins og kunnugt er samband stéttarfélaga yfirmanna á far- og fiskiskipum. Með þessu fer ég inn á sjónarmið hv. 5. landsk., er hann lýsti hér yfir í fyrradag, að hann vildi að einum sjómanni væri bætt í nefndina. Ég get ekki séð, að það spilli neinu, ef á annað borð á að gera þessa nefnd fjölmenna, sjómenn hafa þar hagsmuna að gæta engu síður en aðrir. Og með því væri komið í veg fyrir, að einn maður í nefndinni hefði allsherjarúrskurðarvald, ef atkvæði yrðu jöfn. Hins vegar er það svo, að ég er ekki fyllilega ánægður með þessa úrlausn.

Um þriðja atriði frv. væri ýmislegt hægt að segja, en ég ætla ekki að orðlengja um það atriði, aðeins þetta til þeirra manna, sem á því hafa mestan áhuga: Ef á að staðsetja skrifstofu síldarútvegsnefndar annars staðar en segir skýrt til í gömlum l. þar um, að skrifstofan skuli vera á Siglufirði meðan á síldveiðum stendur, þá verður að ganga frá því, að nefndin sé einnig á þeim stað, sem skrifstofan er á á hverjum tíma. Slíkt ástand, sem gilt hefur og verið í „praxis“ á undanförnum árum, að skrifstofan sé norður í landi, en nefndin staðsett í Reykjavík og aðilarnir, sem þurfa að sækja eitthvað til nefndarinnar og skrifstofunnar, þurfi fyrst að skrifa skrifstofunni á Siglufirði, svo þurfi skrifstofan á Siglufirði að skrifa til nefndarinnar í Reykjavík, bíða eftir svari þaðan og afhenda það svo til aðila austur á landi og hér og þar um landið, þetta er framkvæmd, sem ekki er hægt að búa við. Það er álit mitt, að lög um síldarútvegsnefnd þyrftu gagngerðrar breytingar við, því mér er kunnugt um, að skipan og störf hennar hafa verið misjafnlega séð af mörgum á undanförnum árum og þá sérstaklega sjómannastéttinni. Upphaflega var þetta fimm manna nefnd, og mér leikur grunur á, að hún hafi átt að vera ríkisskipuð. Það hygg ég, að væri kannske það heppilegasta, að nefndin væri það og starfaði sem slík og ríkið sæi um markaðsöflun og sölu á verkaðri síld til útlanda. Í öðru lagi kæmi til greina, eins og hv. 2. þm. Vesturl. drap á í umr. hér í fyrradag, að hlutaðeigandi aðilar mynduðu með sér sölusamband, sem annaðist söluna. Varðandi framtíðarskipulag og sölu verkaðrar síldar til útlanda vildi ég taka fram, að það er ekki fyrir hendi með þessu frv., en það má ljóst vera, að það þarf að koma, því ekki virðist annað fram undan en veruleg breyting verði að eiga sér stað hvað viðkemur verkun síldar almennt. Reynslan af síðustu sumar- og haustsíldarvertíð sýnir, að við gildandi skipulag verði vart unað í náinni framtíð.

Herra forseti. Ég vænti þess, að till. mín verði tekin til vinsamlegrar athugunar, þótt ég hafi ekki persónulega tækifæri til að fylgja henni frekar hér eftir.