19.03.1968
Efri deild: 72. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1856 í B-deild Alþingistíðinda. (1874)

107. mál, síldarútvegsnefnd

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það var gert hlé á 3. umr. vegna brtt., er ég flutti við þetta mál um síldarútvegsnefnd, svo sem hv. d. er orðið vel kunnugt, því að oft hefur það borið á góma.

Sjútvn. hefur fengið umsagnir síldarútvegsnefndar og bréf frá LÍÚ varðandi efni þeirrar brtt., er ég bar fram. Í bréfi sínu staðfestir síldarútvegsnefnd, að það sé skilningur hennar, að þótt það standi ekki beint í l., þá nái hennar valdsvið yfir þá tegund saltsíldar, sem brtt. gengur út á, þ.e. síld, sem er söltuð um borð, og því bendir nefndin á, að ekki sé ástæða til að vera að setja nein ný lagaákvæði þar um. Orðrétt segir í bréfi nefndarinnar dags. 18. marz 1968, með leyfi forseta:

„Síldarútvegsnefnd vill taka skýrt fram, að hún telur þó enga ástæðu til breytinga á l. í þessu sambandi. Þar sem nefndin hefur fulla heimild til slíkra ráðstafana, mun hún gera þær, ef tilefni gefst til.“

Í þessu sambandi segir hún svo áfram varðandi meginefni till., að kjósi útgerð veiðiskipa, sem lætur salta síld um borð í skipum, að annast sjálf um móttöku, viðhald og frágang síldarinnar til útflutnings, í stað þess að afhenda hana á löggiltar söltunarstöðvar, skal síldarútvegsnefnd löggilda sérstakar pökkunarstöðvar í þessum tilgangi og setja reglur þar um. Nm. voru sammála um þetta og í mjög svipaða átt gengur bréf frá LÍÚ, en í því segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Samtökin hafa yfirfarið framangreindar brtt., og leggjum við til, að í l. verði sett skýr ákvæði um það, að síldarútvegsnefnd verði heimilað að veita eigendum fiskiskipa leyfi til að salta síld um borð í skipum sínum á síldarmiðunum og sigla með síldina að landi í erlendri höfn. Landssambandið telur eðlilegast, að slík sala sjósaltaðrar síldar fari gegnum síldarútvegsnefnd og setji hún nánari reglur um framkvæmd verkunar síldarinnar og annist yfirtöku á henni í þeirri erlendu höfn, sem síldinni yrði landað í.“

Mér virðist því, að megintilgangi þessarar brtt. sé náð, að því leyti, að nefndin lýsir yfir vilja sínum til framkvæmda í þeim anda, sem hún gengur út á, og samtök útvegsmanna hvetja til þess, að ef á reyni, sé gengið að þeirri hugsun, sem fram er sett varðandi sölu og söltun um borð í síldveiðiskipunum, og ég leyfi mér því, herra forseti, að draga till. til baka.