21.03.1968
Neðri deild: 79. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1864 í B-deild Alþingistíðinda. (1878)

107. mál, síldarútvegsnefnd

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Vissulega er það svo, að síldveiðar Íslendinga og síldarsala eiga nú við nokkuð mikla erfiðleika að stríða af ýmsum ástæðum, og hefði ekki verið óeðlilegt, að till. kæmu fram á Alþ. til þess að reyna að ráða fram úr þeim aðsteðjandi vandamálum. Það hafa líka verið hér frv. á ferðinni á þessu þingi. Það voru ekki færri en tvö frv. um síldarútvegsnefnd, og þar með sölumál síldarinnar, skyldi maður ætla, í hv. Ed. Þessi tvö frv. urðu nú reyndar að einu í meðferð Ed. og hafa nú til okkar komið í þeirri mynd, og mætti þá ætla, að með þessum tveimur frv., sem orðin eru að einu, væri tekið á aðalvandamáli þessara atvinnuvega. En þrátt fyrir það, þó þarna hafi tvö frv. runnið saman í eitt, er þó efni þessa sameinaða frv., sem fyrir okkur liggur hér í hv. Nd., ekki annað en það, að síldarútvegsnefnd skuli skipuð átta mönnum í stað þess, að hún er nú skipuð sjö mönnum, að formaður skuli fara með tvöfalt atkvæði, þegar atkvæði reynast jöfn í þessari átta manna nefnd, og er það atriði bara afleiðing af hinni fyrri till., og í þriðja lagi að heimili síldarútvegsnefndar, varnarþing og aðalskrifstofa skuli vera á Siglufirði, en nefndin skuli þó einnig hafa skrifstofur í Reykjavík og á Austurlandi. Þetta nýja atriði er, að aðalskrifstofan skuli að lögum vera á Siglufirði. Efni frv. er þá þetta, að nefndin skuli skipuð átta mönnum í staðinn fyrir sjö, að aðalskrifstofa síldarútvegsnefndar skuli vera á Siglufirði samkvæmt lögum og að formaður skuli hafa tvöfaldan atkvæðisrétt, þegar atkvæði reynast jöfn í nefndinni, þegar ekki er lengur oddatala í henni. Það er sagt, að þetta frv., það frv., sem fyrst var lagt fram í Ed., sé undirbúið af sjö manna nefnd, sem skipuð var af ráðh. til þess að gera till. um framtíðarskipulag á sölu verkaðrar síldar til útlanda. Sjö manna nefndin átti að gera till. um framtíðarskipulag á sölu verkaðrar síldar til útlanda, og svo kemur hún með frv., og frv. var um það eitt að fjölga um einn mann í nefndinni. Þar með var framtíðarskipulaginu ráðið til lykta. Og þetta frv. um málefni síldarútvegsins og síldariðnaðarins og síldarsölunnar var svo flutt af sjútvn. hv. Ed.

Ég skal ekki fara neitt í grafgötur með það, að ég tel engum vandamálum síldarútvegsins ráðið til lykta með þeirri lagabreytingu, að síldarútvegsnefnd verði skipuð átta mönnum í staðinn fyrir sjö. Ég tel þar hreint og beint stefnt til öfugrar áttar. Ég hefði heldur getað sætt mig við, að það hefði verið fækkað í síldarútvegsnefnd úr sjö í fimm, en till. hafa verið uppi um það að fjölga í henni, sem sé í átta samkv. frv., og till. komu fram um það í Ed. að fjölga í níu. Sú till. var að vísu felld, en hugur nokkurra manna stóð til þess, að fjölgað yrði í nefndinni upp í ellefu. En í því formi, sem frv. liggur fyrir hjá okkur, er talað um, að það verði að vera átta menn í nefndinni. Ég tel allt efni þessa frv., öll þessi þrjú atriði, sem ég nefndi, einberan hégóma, hismi og hégóma, sem sé, þegar svo stendur á fyrir þessum atvinnuvegi þjóðarinnar eins og nú stendur á fyrir honum og margvísleg vandamál þyrfti að leysa með löggjöf eða á annan hátt, að þá sé það næstum því niðurlægjandi fyrir Alþ. að vera að fást við svona sýndarfrv., því þau eru til einskis. En í þetta hefur farið mikill tími og sjálfsagt fer hér þó nokkur tími líka í umr. um málið, því þær eru þegar lagðar upp á allbreiðum grundvelli.

Það má vel deila um það, eins og gert var af hv. 4. þm. Austf., hvort það sé rétt skipulag þetta, að Alþ. kjósi hluta af síldarútvegsnefnd og geri hana þannig að nokkru leyti að ríkisstofnun, en ýmsar stofnanir tilnefni aðra menn í nefndina, í þessu tilfelli fjóra af sjö. Þetta fyrirkomulag er nú haft um margvíslegar stofnanir og nefndir, að Alþ. kýs hluta og ýmsar stofnanir tilnefna menn og ráðh. skipar þá samkv. tilnefningu. Ég held, að fáar af þeim meinsemdum, sem þjaka þennan atvinnuveg nú, verði raktar til þessa fyrirkomulags, en samt er sjálfsagt að líta á það, hvort svo muni vera. Síldarútvegsnefnd er þannig til komin, að reynslan sýndi, að síldveiðar og síldarsala var áhættusamur atvinnuvegur, blómgaðist stundum, en hrundi síðan í rúst vegna skipulagsleysis, og þjóðin — ekki aðeins einstaklingar, heldur þjóðin — fengu af því stór og þung áföll. Þá var gripið til þess, að ríkið hefði hönd í bagga með verkun og sölu síldarinnar, og það skipulag hefur nú fengið áratuga reynslu á sig, og a. m. k. ekki á bjátað stórlega, síðan þetta skipulag var upp tekið. Íslendingar hafa líka haldið betur velli á saltsíldarmörkuðum Vestur-Evrópu en nokkrar aðrar þjóðir, sem við höfum verið í samkeppni við.

Þannig standa sakir nú, allt fram á s. l. ár, að við áttum í meiri erfiðleikum en ella, vegna þess að síld veiddist ekki við okkar land. Síldarsaltendur hafa þó jafnan, eins og hv. 4. þm. Austf. minnti á hér áðan, átt þess kost að mynda frjálst samlag og fara sjálfir með sölumál síldarinnar, ef þeir hefðu óskað þess. Til þess er heimild í l. um síldarútvegsnefnd og þeir hafa stundum reynt að koma þessu á fót. T. d. gerðu þeir tilraun til þess á s. l. ári, en samkomulag varð þó ekki um þessi mál, og ég hygg, að oftast hafi viðleitni þeirra í þá átt strandað á því, að ekki náðist allsherjarsamkomulag þeirra á meðal um það. Einkasöluaðstaða síldarútvegsnefndar er ekki föst og bundin, hún er endurnýjuð af ráðh. frá ári til árs, og þannig hefðu saltendur getað tekið þessi mál í sínar hendur, ef þeir hefðu haft samstöðu til þess. En svo hefur ekki verið. Skipun síldarútvegsnefndar er, eins og hér var áðan drepið á, þannig, að Alþ. kýs þrjá menn og úr hópi þeirra skipar ráðh. formann og varaformann nefndarinnar. Þessir menn, sem Alþ. hefur þannig kosið, eru fyrrverandi síldarsaltendur og hafa þannig mikla þekkingu á þessum málum, og báðir eru þeir hinir mætustu menn, að mínum dómi. Þá eru það hinir fjórir aðilar, sem tilnefna menn í nefndina. Það eru LÍÚ, og mætti ætla, að þar væri aðeins maður, sem væri að skapi útgerðarmanna, síldarútgerðarmanna, til þess að fara með þeirra mál í nefndinni. Síðan er sinn maðurinn frá hvoru félagi síldarsaltenda, og til þessara starfa í nefndinni hafa valizt formenn þessara samtaka, formaður síldarsaltenda norðan og austan og formaður síldarsaltenda sunnan og vestan. ASÍ hefur svo átt kost á því að tilnefna einn mann, og um skeið hefur forseti sambandsins verið í síldarútvegsnefnd fyrir hönd ASÍ, þ. e. a. s. fyrir hönd síldarverkunarfólks og sjómanna, sem þarna eiga hlut að máli óneitanlega. Ég held því, að þó því sé haldið fram, að þetta sé gallað skipulag að setja þetta svona saman, þá sé ekkert víst, að Alþ. hefði valið fulltrúa frá hinum réttu aðilum frekar eftir leiðarvísi flokkanna heldur en þessi hagsmunasamtök, sem hlut eiga að máli gagnvart síldveiðum, síldarsölu og síldarverkun, hafa gert það. Þarna hafa forustumenn samtakanna, sem hlut eiga að máli, verið valdir, auk þeirra þriggja manna, sem Alþ. hefur valið, sem einnig eru menn, sem kennsl bera á þessi mál.

Ég er alveg sammála hv. 4. þm. Austf. um það, að það er alveg fráleitt að breyta lögunum til þess eins að skipta um heiti á mönnum í nefndinni eða bæta þar einum við, þegar hafður er ákveðinn maður í huga. Það getur leitt til breytinga frá ári til árs og engrar festu, og ég get ekki séð annað en það sé rétt, að í þessu tilfelli sé bara verið að breyta lögum að þarflausu og til einskis gagns. Breytingin er svo óveruleg, að það megi, eins og hv. þm. gerði, kalla þetta að breyta lögum út frá eintómum dyntum. Ég held því, að þetta frv. eigi ekki erindi til þess að verða að lögum og það færi bezt á því, að það yrði tekið til baka eða látið daga uppi. Ég sé ekki, að það leysi nokkurn minnsta vanda.

Það mun hafa á vissum tíma verið ýtt nokkuð á það af forráðamönnum síldarsaltenda, að sjö manna nefndin, sem átti að gera till. um framtíðarskipulag á sölu verkaðrar síldar til útlanda, bæri fram ósk um, að fjölgað yrði í síldarútvegsnefnd um einn eða tvo menn, en fyrir örfáum dögum átti ég samtal við báða formenn saltendafélaganna, norðan og austan og sunnan og vestan, og þeir sögðu, að eins og málin horfðu nú, hefðu þeir engan áhuga á framgangi frv., ekki hinn minnsta. Þessir menn eru, eins og mörgum er kunnugt, Jón Þ. Árnason og Ólafur Jónsson. Það er þess vegna hægt að grennslast eftir því, hvort þetta sé ekki rétt eftir þeim haft, en þetta er þeirra viðhorf nú fyrir örfáum dögum.

Það er rétt, að það var bundið í lögum á sínum tíma, þegar síldveiðamiðstöðin var Siglufjörður, að síldarútvegsnefnd skyldi um síldartímann, sem þá var yfirleitt svona 2–3 mán., hafa þar setu og fylgjast með allri framkvæmd veiðanna og söltun á stöðvunum, og það var lengi framkvæmt svo. En þegar síldveiðarnar færðust að Austfjörðum og jafnframt að Suður- og Suðvesturlandinu og stóðu meiri hluta ársins, held ég, að það hafi ekki valdið neinum ágreiningi, að síldarútvegsnefnd hætti að eiga setu á Siglufirði og þurfti í raun og veru, ef hún ætlaði að rækja sitt starf, að sitja þar, sem auðveldast var að ná sambandi við hana frá veiðisvæðum og söltunarstöðvum, þannig að starf hennar gæti gengið sem greiðlegast fyrir sig. Starf hennar er vitanlega þjónusta við þennan atvinnuveg á sjó og landi. Í lögum var þó heimild til þess, að nefndin réði því, hve lengi hún sæti á Siglufirði, því í lögunum stendur, að seta hennar þar eða dvöl hennar á Siglufirði skuli ákvarðast af því, sem nefndin sjálf ákveður. Þetta, að Siglufjörður var ekki lengur miðstöð síldveiða og síldariðnaðar á Íslandi, heldur engu síður Austfirðirnir og jafnvel Suður- og Suðvesturlandið, gerði það að verkum, að starfsemin færðist meira og meira til skrifstofu þeirrar, sem rekin var hér í Reykjavík, með stöðugu og eins nánu sambandi við skrifstofuna á Siglufirði og unnt var. Það hygg ég, að allir, sem til þekkja viðurkenni. Það hefur sem sé, síðan þessi skipan komst á, ekki verið haldinn svo fundur í síldarútvegsnefnd, að ekki hafi verið haft að meira eða minna leyti símasamband við framkvæmdastjórann og skrifstofuna á Siglufirði, auðvitað með ærnum kostnaði, til þess að framkvæmdastjórinn á Siglufirði fylgdist eins og unnt væri með öllum störfum og ákvörðunum nefndarinnar. En vitanlega var þetta bæði kostnaðarsamt, þungt í vöfum og erfiðleikum bundið og náði þó ekki fullum tilgangi sínum, því að allt annað er fyrir framkvæmdastjóra að fylgjast með öllum umræðum um mál og leysa síðan verkefni, sem fyrir hann eru lögð, heldur en þegar hann verður að fá þetta allt úr fjarlægð, þó hann sé hafður í sambandi við afgreiðslu málanna gegnum síma eins og möguleikar eru frekast til. Síldarútvegsnefnd tók svo ákvörðun um það á s. l. hausti að gera nokkra skipulagsbreytingu á sínu skrifstofuhaldi, allt með það fyrir augum, að starfsmannahald og störf á skrifstofunum í Reykjavík og á Siglufirði og Seyðisfirði kæmu að sem beztum notum og yrðu að sem mestu leyti samkvæmt óskum og vilja þeirra, sem þessi starfsemi á að þjóna, og ekkert var í þessu gert, fyrr en margítrekaðar óskir höfðu komið um það frá síldarsaltendum á Austurlandi einkanlega, að þeir gætu með flestöll sín mál snúið sér til skrifstofunnar í Reykjavík, og svo er það búið að standa um langa hríð, eða síðan síldveiðarnar færðust að Austurlandinu. Þeir sögðu: Ef við eigum að ná til Siglufjarðar, þá getur það hreint og beint tekið okkur heila daga frá störfum, þangað til við erum búnir að ná sambandi við framkvæmdastjórann, en það tekur okkur ekki nema mínútur að ná símasambandi við Reykjavík. Þetta var rökstuðningur síldarsaltendanna fyrir austan. Og þeir sögðu því, að þeir þyrftu að fá, ef vel ætti að vera, sem flest sín mál, einkanlega þau, sem þyrfti að afgreiða í skyndi, afgreidd frá Reykjavík.

Ég er alveg undrandi á því, þegar þetta mál er gert að byggðajafnvægismáli og hugmyndirnar um það að færa meira eða minna af störfum síldarútvegsnefndar til skrifstofunnar í Reykjavík, meðan síldin hagar sér eins og hún gerir nú og hefur gert á undanförnum árum, taldar fjandskapur við byggðirnar norðanlands og ráðstöfun í þá átt að tæma þær. Hvað sem öðrum nm. í síldarútvegsnefnd líður heldur en okkur, hv. þm. Jóni Skaftasyni og mér, hef ég verið kunnur að öðru fremur en því að vera ekki einmitt byggðajafnvægismaður. Ég tel mig hafa verið það og ég hygg ég hafi orð á mér fyrir að vera það, en ég tel það hreinustu firru, að verið sé að fjandskapast við Siglufjörð og höggva á einhverja líftaug, sem bæjarfélagið hvíli á, með þessari till., sem fram kom í síldarútvegsnefnd um það að breyta skrifstofuhaldinu í sem praktískast horf, þannig að það mætti verða að sem mestu gagni. Og Jón Skaftason er, eins og kunnugt er, fæddur og uppalinn Siglfirðingur og gætir hagsmuna fyrir síldarsaltendur og útgerðarmenn þar, að ég hygg, nálega fyrst og fremst. Hann var þessu einnig samþykkur af því að það vakti ekkert fyrir honum né mér né neinum síldarútvegsnefndarmönnum annað en það að koma störfunum og mannahaldi þannig fyrir, að það gæti veitt sem bezta þjónustu, sem er okkar fyrsta skylda. Ég skal þá víkja að samþykktum síldarútvegsnefndar, svo mönnum geti þá orðið það ljóst af orðanna hljóðan, hvort í ákvörðun hennar felst einhver fjandskapur við Norðurlandið eða nokkuð sé þar samþykkt, sem óeðlilegt sé, eins og atvik liggja og síldveiðarnar hafa þróazt. Hún er nokkuð langt mál, samþykktin, sem ég hér kynni hv. þm., með leyfi hæstv. forseta. Hún er gerð 12. sept. í haust. Þar segir:

„Svo sem kunnugt er, hefur síldarútvegsnefnd starfrækt tvær skrifstofur í tæpa tvo áratugi, þ. e. á Siglufirði og í Reykjavík, en áður hafði nefndin aðeins skrifstofu á Siglufirði. Skrifstofan á Siglufirði hefur m. a. haft umsjón með söltun og útflutningi saltsíldar frá Norður- og Austurlandi og séð um innkaup og dreifingu á tunnum, salti og ýmsum öðrum síldarsöltunarvörum fyrir það söltunarsvæði. Skrifstofa nefndarinnar í Reykjavík hefur annazt hliðstæð störf, að því er söltun á Suður- og Vesturlandi snertir. Auk þess hefur skrifstofan í Reykjavík haft umsjón með söltun og útflutningi á þeirri vetrarsíld, sem söltuð hefur verið á Austur- og Norðurlandi síðustu árin. Skrifstofa nefndarinnar á Siglufirði hefur séð um rekstur Tunnuverksmiðja ríkisins á Siglufirði og á Akureyri. Samkvæmt l. þeim um síldarútvegsnefnd og útflutning saltaðrar síldar, sem tóku gildi 21. apríl 1962, er gert ráð fyrir, að nefndin hafi skrifstofur á Siglufirði og í Reykjavík, en ekkert tekið fram um það, á hvorum staðnum skuli vera aðalskrifstofa nefndarinnar. Í hinum nýju l. segir, að ráðh. muni með reglugerð setja nánari fyrirmæli um framkvæmd l. Í reglugerðinni frá 1952 er tekið fram, að heimili og varnarþing nefndarinnar sé á Siglufirði, og verður að sjálfsögðu engin breyting á því gerð, nema nýja reglugerðin kveði þá á um annað. Svo sem kunnugt er, hefur svo til öll sölustarfsemi nefndarinnar um alllangan tíma verið undirbúin í Reykjavík, enda eru flestir stjórnarmeðlimir nefndarinnar búsettir í Reykjavík eða nágrenni. Einnig skal á það bent, að samningaviðræður þær, sem farið hafa fram hér á landi við fulltrúa erlendra síldarkaupenda, hafa um langt árabil farið fram í Reykjavík, enda er Reykjavík betur sett hvað samgöngur snertir, bæði við umheiminn og innanlands, en nokkur annar staður á landinu. Nefndinni hafa borizt endurteknar óskir frá Félagi síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi um það, að aðalskrifstofa nefndarinnar fyrir Norður- og Austurland verði í Reykjavík, og fer hér á eftir samþykkt aðalfundar félagsins 1967 um þetta efni. Síldarútvegsnefnd hefur ákveðið að verða við þeim óskum, en tekur fram, að skrifstofa nefndarinnar á Siglufirði verður starfrækt áfram. Enn fremur tekur nefndin fram, að skrifstofa sú, sem verið er að koma á fót á Seyðisfirði, mun starfa þar, eins og ráð hafði verið fyrir gert.“

Þetta var ákvörðun síldarútvegsnefndar. Samþykkt sú, sem borizt hafði frá aðalfundi síldarsaltenda norðan- og austanlands er ósköp stutt, og er þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Aðalfundur Félags síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi telur nauðsynlegt, að skrifstofu síldarútvegsnefndar í Reykjavík verði falin yfirumsjón með söltun Norður- og Austurlandssíldar, en skrifstofur verði þó áfram á Siglufirði og á Austurlandi.“

Felst nú nokkurt tilræði í þessum samþykktum? Er þarna verið að haga málum á nokkurn annan veg heldur en þann, sem atvik gera eðlilegt og nauðsynlegt? Ég held ekki. Þess vegna held ég, að þessi frv.-flutningur sé alveg út í bláinn og af allt of mikilli tilfinningasemi mótaður og af misskilningi. Fram komu í hv. Ed. ýmsar brtt., sem snertu málið sjálft, eins og það blasir við nú, þegar við horfum til þess, að á næsta sumri verðum við að reyna að stunda veiðar á mjög fjarlægum miðum og reyna að finna einhverja aðferð til þess að geta hagnýtt okkur síldina til söltunar. Það var um málefnið sjálft. En svo var leitað umsagnar síldarútvegsnefndar um þær till., og að fengnum upplýsingum um afstöðu nefndarinnar, sem bárust hv. Ed. með bréfi núna á dögunum, tók sá flm. sínar till. aftur. Þær voru málefnalegar, en þegar hann hafði athugað viðhorf nefndarinnar til þeirra mála, sá hann ekki tilefni til þess að halda sínum till. til streitu og tók þær aftur.

Þá skal ég að lokum víkja að viðhorfum síldarsaltenda, sem eiga nú formenn sína, bæði samtökin í síldarútvegsnefnd. En frv. fer fram á það, að þau þurfi endilega að eiga hálfan annan mann, hvort um sig, alveg bráðnauðsynlegt, flutt um það löggjöf, að það skuli ekki vera einn maður frá saltendum norðan og austan og frá saltendum sunnan og vestan og þar í sitja formenn beggja samtakanna, nei, það skuli koma einn sameiginlegur fyrir bæði saltendafélögin. Hvaða nauðsyn rekur til þess? Treysta menn ekki þessum mönnum til þess að túlka sjónarmið og verja hagsmuni saltenda? Ég hef ekki orðið var við það, að neinn úlfaþytur hafi risið gegn þeim út af því, að þeir hafi brugðizt í þessu hlutverki, og ég veit heldur ekki til þess, að þeir hafi verið bornir ráðum nokkurn tíma í síldarútvegsnefnd, þannig að síldarsaltendur geti haldið því fram, að þeir verði að fá sterkari aðstöðu í nefndinni til þess að þeirra mál séu ekki fyrir borð borin. Ef svo væri, væri það nokkurt tilefni.

Hvað segja þá saltendafélögin núna um þetta frv.? Er ekki verið að knýja það fram í þeirra þágu og ef ekki í þeirra þágu, þá í þágu hvers eða hverra? Það er fyrst hér bréf örstutt frá Félagi síldarsaltenda á Suður- og Vesturlandi, dags. núna 12. marz 1968. Þar segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Frv. það, sem samþ. hefur verið við 2. umr. í Ed. Alþ. varðandi síldarútvegsnefnd, teljum við varhugavert og til hins verra, ef að lögum yrði í því formi, sem það nú er, vegna þeirrar breytingar, er á því var gerð, þ. e. ákvæðið, sem fjallar um lögheimili og aðalskrifstofu nefndarinnar.

Nær allir síldarsaltendur á landinu eru eindregið þeirrar skoðunar, að eins og nú háttar — og hefur verið undanfarin ár — sé nauðsynlegt, að yfirstjórn síldarútvegsnefndar hafi aðsetur í Reykjavík, á sama hátt og allar aðrar greinar útflutningsframleiðslu sjávarafurða hafa.

Vér leyfum oss því að mótmæla eindregið, að nefnt atriði frv. verði að l. og skorum á hv. Nd. Alþ. að fella það úr frv.

Virðingarfyllst,

f. h. Félags síldarsaltenda á Suður- og Vesturlandi,

Ólafur Jónsson,

Margeir Jónsson.

Formaður sjútvn. Nd. Alþ.

Birgir Finnsson, Reykjavík.“

Þarna er algerlega mótmælt því atriði, að það eigi að lögfesta, að aðalskrifstofa síldarútvegsnefndar skuli vera á Siglufirði, og réttilega var á það bent hér, að hlálegt er að lögfesta, hvar skrifstofan og stólarnir skuli vera, en setja ekkert ákvæði um það, hvar mennirnir skuli vera búsettir. En eins og sagt var hérna áðan, eru sumir í Reykjavík og einn er vestur í Selárdal og hefur ekki komið að baga, því að ég hef getað mætt á fundum nefndarinnar svipað og aðrir. Það á kannske að banna það í l., það getur vel verið, kannske er það ástæðan til frv.-flutningsins. En Félag síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi hefur líka látið til sín heyra um frv., eins og það liggur nú fyrir Alþ. Það skrifar bréf, sem er dags. í Reykjavík 11. marz 1968, núna fyrir skömmu síðan, og hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Vér leyfum oss hér með að mótmæla harðlega fram komnu frv. fjögurra þm. úr Norðurlandskjördæmum þess efnis, að aðalskrifstofa síldarútvegsnefndar skuli vera á Siglufirði, og vísum til einróma samþykktar fjölmenns aðalfundar Félags síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi, þar sem þess var krafizt, að skrifstofu síldarútvegsnefndar í Reykjavík verði falin yfirumsjón með söltun síldar á Norður- og Austurlandi, en jafnframt tekið fram, að skrifstofur verði þó áfram á Siglufirði og Austfjörðum.

Vér vörum alvarlega við því, að hagsmunum saltsíldarframleiðslunnar sé fórnað í annarlegum tilgangi og bendum á, að félög síldarsaltenda og síldarútvegsnefnd, sem skipuð er fulltrúum margra hagsmunasamtaka, hljóti að hafa meiri þekkingu á málefnum og vandamálum saltsíldarframleiðslunnar en aðilar, sem hvergi hafa komið þar nærri.

Vér væntum þess fastlega, að við afgreiðslu þessa máls verði heildarhagsmunir saltsíldarframleiðslunnar og þeirra aðila, sem henni eru tengdir, látnir ráða.

Virðingarfyllst,

f. h. Félags síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi, Jón Þ. Árnason.“

Hér er sérstaklega mótmælt því, að lögfesta skuli, að aðalskrifstofan sé á Siglufirði, enda engin tilhneiging til þess að taka neina skrifstofu þaðan. Í mörg ár hafa margir þættir þessara mála verið afgreiddir frá skrifstofunni hér í Reykjavík, og ég veit ekki til, að nein stórvægileg breyting standi til um það. Hitt er annað mál, að það þykir nú heppilegra að hafa starfsskiptinguna með öðrum hætti, og hugmyndir eru ákveðnar uppi um það, ekki óáþekkar þeim hugmyndum, sem hv. 4. þm. Austf. lét í ljósi um sína skoðun hér áðan. Tunnuverksmiðja ríkisins er þar, stjórn hennar hefur verið falin síldarútvegsnefnd. Tunnuframleiðslunni verður að stjórna annaðhvort þar eða á Akureyri og dreifingu tunnanna, og hægt er að annast frá Siglufirði alveg eins og frá Reykjavík ýmiss konar þjónustustarfsemi fyrir þann landsfjórðung. En sala síldarinnar, sölumeðferðin er eðlilegast, að sé þá sameinuð á eina hönd, ef ekki fyrir norðan þá hér á skrifstofunni í Reykjavík og eins náið samband og nauðsynlegt er haft við síldarsaltendurnar á Austfjörðum gegnum skrifstofuna, sem þar er, að vísu skipaðri bara einum manni. Það vakti fyrir síldarútvegsnefnd að skipuleggja störfin þannig, að starfskraftar nefndarinnar á öllum þessum skrifstofum notist sem bezt og að einhver tilfærsla yrði á hlutföllum, eftir því sem haganlegast þætti, og af þessu er allt þetta moldviðri. Ég get ekki séð annað heldur en nefndin hafi eingöngu verið að gera sjálfsagða skyldu sína með því að taka mannaráðninguna í þjónustu nefndarinnar og starfsskiptinguna við svo breyttar aðstæður, sem orðnar eru, til meðferðar og afgreiðslu, knúin til þess af sífelldum kröfum samtaka saltendanna bæði norðan og austan og sunnan og vestan.

Nýlega hefur einn af saltendunum á Austurlandi, Guðmundur Björnsson á Stöðvarfirði, skrifað alllanga grein í blaðið Tímann, þar sem hann lýsir því yfir, að á aðalfundum saltenda fyrir norðan og austan hafi ár eftir ár, síðan síldin færðist á Austurlandssvæðið, verið gerðar kröfur um það, að þeir fengju frekar afgreiðslu á sínum málum gegnum skrifstofuna í Reykjavík, auðvitað af því, að þeir töldu það auðveldara og þeir fengju þannig betri þjónustu, og engu öðru. Hann tekur til meðferðar umr. um byggðajafnvægismálið, sem norðlenzku þm. hafa gert að stóratriði í þessu máli og sem veldur því, að þeir leggja til, að aðalskrifstofan sé á Siglufirði. Og hann segir: „Það er engu síður byggðajafnvægismál, að við fáum óskir okkar um góða þjónustu, síldarsaltendurnir á Austurlandi,“ og heldur því fram, að einmitt út frá þeim sjónarmiðum eigi að taka tillit til þeirra till. um, að þeir fái beina afgreiðslu gegnum skrifstofuna í Reykjavík fremur en á Siglufirði, af því að það sé þeim að öllu leyti erfiðara, tímafrekara og geri þeim lítt fært að sinna öðrum nauðsynlegum störfum, jafnvel heilu dagana, meðan þeir eru að bíða eftir tilkynningum frá Siglufirði eða að ná símasambandi þangað, sem þeir segja, að sé mjög erfitt oft og tíðum á sumrin, þegar mest er að gera og þegar mest er í húfi hjá þeim. Ég er ekkert undrandi á því, þó að það hafi verið hægt með undirskriftasmölun að fá Siglfirðinga til þess að undirrita áskorun um það að aðalskrifstofa síldarútvegsnefndar á Siglufirði verði ekki þaðan flutt í burt. Það hefur aldrei staðið til. En samt fór nú um sjóferð þá þannig, að áhugamaðurinn, sem beitti sér fyrir undirskriftasöfnuninni, fékk ekki alla síldarsaltendur til að skrifa undir þetta, og þar á meðal ekki formann saltendafélagsins á Siglufirði. Hann sá tilefnisleysið í þessu og það yfirdrifna, sem ekki studdist við neinn raunveruleika.

Ég skal nú vægja hv. þm. við lengri lestri um þetta mál, sem er eins smátt í sniðum og það getur verið sem frv. fyrir Alþ., þjónar engum tilgangi, leysir engan vanda og á auðvitað að sofna svefninum langa miklu fremur heldur en mörg nytjamál, sem látin eru farast hér á þingi og ættu frekar framgang að fá. En málið fer nú til n. og hún athugar málið að sjálfsögðu og reynir að finna út, hvaða vandi sé leystur með fjölgun í síldarútvegsnefnd um einn mann úr 7 í 8. Ég sé ekki, að það leysi nokkurn vanda og ég sé ekki, að það sé nokkur nauðsyn fyrir saltendafélögin að eiga 1½ mann sem fulltrúa hvort um sig, í staðinn fyrir að þau eiga þar sinn formann til að gæta sinna hagsmuna hvort félagið um sig. Og hitt atriðið um að lögfesta, hvar skrifstofur síldarútvegsnefndar skuli vera, tel ég alveg út í loftið. Það var eðlilegt, að þær skrifstofur væru á Siglufirði, meðan þungi síldveiðanna var þar fyrir Norðurlandinu. Það hefði ekkert verið óeðlilegt, að skrifstofur síldarútvegsnefndar hefðu bókstaflega verið fluttar til Austfjarðanna, þegar meginþungi síldveiðanna var þar fyrir þeim landshluta, en svo kom það til, að síldveiðarnar náðu yfir allt árið og voru hér líka suðvestanlands og þá var þetta þannig, að mjög mikill hluti af störfum á skrifstofum síldarútvegsnefndar fluttist til Reykjavíkur, þó með eins nánum tengslum við skrifstofurnar í hinum landshlutunum og unnt var. Ég held, að ákvæðin eins og þau eru núna um það, að skrifstofur skuli vera á Siglufirði og í Reykjavík, séu alveg nægileg, og svo hefur síldarútvegsnefnd tekið það upp hjá sér að setja upp skrifstofu á Austfjörðunum líka til nánari fyrirgreiðslu við athafnamennina þar og atvinnugreinina, sem hér er um að ræða. Ég mundi telja, eins og ég hef margsagt í þessari minni ræðu, frv. tilefnislaust og tilgangslaust og tel, að það eigi ekkert erindi inn í löggjöf landsins.