21.03.1968
Neðri deild: 79. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1875 í B-deild Alþingistíðinda. (1880)

107. mál, síldarútvegsnefnd

Jón Skaftason:

Herra forseti. Þetta mál hefur nú verið alllengi til meðferðar hér á hv. Alþ. og sýnist mér af þeim umr., sem hér hafa farið fram, að það sé nú óvíst um, hvort það muni ná fram að ganga eða hafa meirihlutafylgi í þessari hv. d. Ég fylgdist talsvert með þeim umr., sem urðu um þetta mál í hv. Ed., þegar það var þar á dagskrá, og ég verð að segja það, að ég varð stundum hissa á þeim staðhæfingum, sem þar komu fram hjá sumum þeim mönnum, er tóku þátt í umr. um það þar, staðhæfingum, sem maður hefði ekki getað trúað, að menn létu sér um munn fara, sem ættu að þekkja jafn vel til þessa atvinnuvegar eins og sumir þeirra, er þar tóku þátt í umr., gera. Vegna þessara villandi ummæla og staðhæfinga langar mig til þess að fara nokkrum almennum orðum hér í þessari d. um verksvið síldarútvegsnefndar og starfsemi hennar og sögu, en skal þó reyna að stikla á stærstu atriðunum í því. En til viðbótar langar mig til þess að koma örfáum orðum að þeim staðhæfingum, sem komu fram í ræðu hv. 4. þm. Norðurl. v., sem talaði hér rétt á undan mér.

Svo sem mörgum landsmönnum af eldri kynslóðinni mun kunnugt, stóð í áratugi jafnan mikill styrr um síldarútveg, síldariðnaðar- og síldarsölumálin. Þrátt fyrir þann auð, sem þessi atvinnuvegur hefur fært íslenzku þjóðinni, og þrátt fyrir þær framfarir, sem á honum hafa byggzt, hefur hann þó oft verið eitt af vandræðabörnum þjóðarinnar. Frá því að síldarsöltunin færðist yfir á hendur Íslendinga úr höndum erlendra manna á þessari öld og fram til ársins 1935, er síldarútvegsnefnd tók til starfa, var þessi atvinnugrein eitt af meiri háttar áhyggjuefnum Alþ. og þeirra ríkisstj., sem sátu að völdum á þessu tímabili. Landsmenn gátu skilið það, að útkoman væri slæm í lélegum aflaárum, en þeir áttu sem von var öllu erfiðara með að átta sig á því, hvað var á seyði, þegar hver síldarsaltandinn á fætur öðrum varð gjaldþrota í beztu aflaárum, sem stundum leiddi til þess, að síldarverkunarfólk og sjómenn héldu heimleiðis eftir stranga vinnudaga með tvær hendur tómar eða því sem næst. Menn virtust ekki skilja þá staðreynd, að vegna skipulagsleysis á framleiðslunni og markaðsöfluninni og vegna hins takmarkaða geymsluþols síldarinnar þurfti ekki nema tiltölulega litla umframsöltun til þess að orsaka verðfall og sölutregðu. Á þessum árum var það algengt, að þúsundir og jafnvel tugþúsundir tunna af íslenzkri saltsíld lægju óseldar á hafnarbökkum Kaupmannahafnar, Gautaborgar og fleiri erlendra hafnarborga, eftir að allir tiltækir markaðir höfðu verið yfirfylltir. Kunna fróðir menn margar ótrúlegar sögur af ástandinu í síldarsölumálunum á þessum tímum.

Til þess að freista þess að bæta úr ástandinu samþykkti Alþ. 29. des. 1934 sérstök lög um stofnun síldarútvegsnefndar og um útflutning á saltaðri síld. Í l. þessum var m. a. gert ráð fyrir, að útflutningur og framleiðsla saltsíldar yrði skipulögð, og skyldi nefndin hafa með höndum úthlutun útflutningsleyfa, veiðileyfa til verkunar og söltunarleyfa og jafnframt skyldi hún löggilda síldarútflytjendur. Eitt af verkefnum nefndarinnar skyldi vera að koma í veg fyrir verðfall og sölutregðu af völdum offramleiðslu, og sagði svo um það atriði í l. frá 1934:

„Nú verður það nauðsynlegt, að dómi síldarútvegsnefndar, til þess að tryggja gæði síldar eða sölu á síldarframleiðslu landsmanna, að takmarka veiði, og er nefndinni þá heimilt að ákveða, hvenær söltun megi hefjast, svo og að takmarka eða banna söltun um skemmri eða lengri tíma og ákveða hámark söltunar á hverju skipi.“

Á árunum fyrir síðari heimsstyrjöldina annaðist nefndin sjálf ekki sölu á annarri síld en svokallaðri matjessíld. En síðan 1945 hefur síldarútvegsnefnd verið einkaútflytjandi allrar saltaðrar síldar frá Íslandi. Einkaleyfið er þó ekki veitt nema til eins árs í senn og hefur nefndin oftast leitað álits síldarsaltenda og samtaka þeirra, áður en sótt hefur verið um einkaleyfi hverju sinni. Framan af var síldarútvegsnefnd falið að ákveða verð á fersksíld til söltunar og hafa forgöngu um alls konar tilraunastarfsemi varðandi síldarútveginn, en nú er ýmsum öðrum stofnunum ætlað þetta verkefni.

Árið 1962 voru samþ. ný lög um síldarútvegsnefnd og þau eldri felld úr gildi, enda höfðu kringumstæðurnar breytzt allmikið frá því að l. frá 1934 voru sett. Síldarútvegsnefnd er í dag fyrst og fremst sölu- og útflutningsstofnun, sem jafnframt skipuleggur saltsíldarsöluna með tilliti til þess, að markaðsmöguleikar nýtist sem bezt hverju sinni. Nefndin er skipuð 7 mönnum til þriggja ára í senn. Alþ. kýs þrjá, en sjútvmrh. skipar fjóra eftir tilnefningu ASÍ, LÍÚ, Félags síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi og Félags síldarsaltenda á Suður- og Vesturlandi. Ráðh. skipar formann og varaformann úr hópi hinna þingkjörnu nm. til 1 árs í senn.

Vegna villandi ummæla, sem fram hafa komið í sambandi við breytta starfstilhögun síldarútvegsnefndar, þykir mér rétt að gera hér nokkra grein fyrir því máli, en til viðbótar því, sem ég segi, vil ég benda á, að hv. þm. Hannibal Valdimarsson vék nú mjög að gangi þessa máls hér áðan, og skal ég reyna að forðast að endurtaka mikið af því, sem hann sagði. Í l. um síldarútvegsnefnd frá 1962 er gert ráð fyrir, að nefndin hafi aðsetur og um leið skrifstofur á Siglufirði og í Reykjavík og svo hefur verið um alllangan tíma. En ekkert er tekið fram um það, á hvorum staðnum skuli vera aðalskrifstofa nefndarinnar. í hinum nýju l. segir, að ráðh. muni með reglugerð setja nánari fyrirmæli um framkvæmd laganna. Í reglugerðinni frá 1952, sem er 10 árum eldri en gildandi l., er tekið fram, að heimili og varnarþing síldarútvegsnefndar sé á Siglufirði, og verður að sjálfsögðu engin breyting á því gerð, nema nýja reglugerðin kveði á um annað. Skrifstofan á Siglufirði hefur m. a. skipulagt söltun og séð um útflutning saltsíldar frá Norður- og Austurlandi og annazt innkaup og dreifingu á tunnum, salti og ýmsum öðrum síldarsöltunarvörum fyrir söltunarsvæðið. Skrifstofan í Reykjavík hefur annazt hliðstæð störf, að því er söltunina á Suður- og Vesturlandi snertir. Sölustarfsemi síldarútvegsnefndar hefur um alllangan tíma verið stjórnað frá Reykjavík, enda eru flestir fundir hennar haldnir þar. Framkvæmdastjórar eru tveir, annar fyrir Siglufjarðarskrifstofuna, hinn fyrir Reykjavíkurskrifstofuna. Nefndinni hafa borizt endurteknar óskir á undanförnum árum frá Félagi síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi um það, að aðalskrifstofa nefndarinnar fyrir Norður- og Austurland verði í Reykjavík. Fer hér á eftir samþykkt aðalfundar félagsins 1967 um þetta efni:

„Aðalfundur Félags síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi telur nauðsynlegt, að skrifstofu síldarútvegsnefndar í Reykjavík verði falin yfirumsjón með söltun Norður- og Austurlandssíldar, en skrifstofur verði þó áfram á Siglufirði og Austurlandi.“

Samþykkt þessi var gerð með samhljóða atkvæðum á aðalfundi félagsins. Síldarútvegsnefnd hefur ákveðið að verða við þessum óskum, en tekur fram, að skrifstofa nefndarinnar á Siglufirði verði starfrækt áfram. Sömuleiðis að skrifstofa sú, er komið hefur verið á fót á Seyðisfirði, muni starfa þar áfram, eins og ráð hefur verið gert fyrir. Nefndin, sem sjútvmrh. skipaði á s. l. ári til þess að gera till. um breytingar á l. um síldarútvegsnefnd, hefur einnig lagt til að skrifstofur verði á þremur stöðum: Í Reykjavík, á Siglufirði og á Austurlandi. Í n. þessari áttu sæti fulltrúar tilnefndir af síldarútvegsnefnd, Félagi síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi, Félagi síldarsaltenda á Suður- og Vesturlandi, LÍÚ og ASÍ.

Ég gat þess í upphafi, að allmikils misskilnings hefði gætt undanfarið, að því er starfssvið síldarútvegsnefndar snertir, og þykir mér rétt að minnast lítilsháttar á þau atriði. Síldarútvegsnefnd hefur verið ásökuð fyrir það, m. a. hér á hv. Alþ., að hafa ekkert gert til þess að selja saltaða síld í neytendaumbúðum eða láta vinna vöruna frekar í landinu. Þessu er haldið fram, þrátt fyrir það, að í l. sé skýrt fram tekið, að sala á saltaðri síld í neytendaumbúðum, svo sem á niðurlagðri og niðursoðinni síld, sé algerlega óviðkomandi verksviði síldarútvegsnefndar, enda hefur Alþ. oftar en einu sinni sett l. um sérstakar ríkisstofnanir, sem ætlað hefur verið að hafa forgöngu á þessum vettvangi.

Þegar síldin breytir skyndilega göngu sinni og söltunarstöðvarnar skortir hráefni, hefur síldarútvegsnefnd stundum verið ásökuð fyrir það, að hafa ekki strax brugðið við og séð um flutning á fersksíld til lands, enda þótt framkvæmd söltunar og öflun hráefnis heyri ekki undir verksvið nefndarinnar eins og l. bera ótvírætt með sér. Þrátt fyrir þetta hafa víðtækar tilraunir verið gerðar á vegum nefndarinnar í þessu skyni á undanförnum árum, þannig að ítarlegar upplýsingar liggja nú fyrir varðandi ýmsa þætti í sambandi við flutning og geymslu á fersksíld.

Þótt síldarútvegsnefnd hafi á s. l. sumri á ýmsan hátt hvatt til þess, að reynt yrði að hefja söltun um borð í veiðiskipum vegna fjarlægðar veiðisvæðisins frá ströndinni, hefur nýlega verið kvartað yfir því á opinberum vettvangi, að söltun um borð í veiðiskipum væri bönnuð að l. Hafi skemmda orðið vart í saltaðri síld hjá einhverri söltunarstöðinni, hefur skuldinni stundum verið skellt á síldarútvegsnefnd þrátt fyrir það, að nefndinni er, eins og áður er sagt, ekki ætlað það verkefni að hafa með höndum framkvæmd söltunar eða sjá um daglegt viðhald síldarinnar. Um þetta atriði eru skýr ákvæði í lögum og reglugerð.

Eins og hér hefur verið sýnt fram á, hafa þær aðfinnslur, sem einkum hafa komið fram varðandi störf síldarútvegsnefndar byggzt á því, að hún hefði ekki blandað sér í málefni, sem skv. l. heyra ekki undir verksvið hennar. Aftur á móti veit ég ekki til þess, að neinar eða teljandi kvartanir hafi komið fram varðandi sölumálin, sem er aðalverksvið og aðalverkefni hennar, enda held ég, að flestir séu sammála um, að nefndin hafi leyst þau mál vel af hendi, þrátt fyrir erfiðar kringumstæður á stundum. Síldarútvegsnefnd hefur tekizt á undanförnum árum að stórauka sölu á saltaðri síld og það á sama tíma sem ýmsir keppinautar okkar hafa tapað mörkuðum og samtímis hefur nefndinni þó allt fram á síðastliðið ár tekizt að fá verulegar verðlagshækkanir á útfluttri saltsíld.

Þá vil ég leyfa mér að minna til viðbótar þessu á þann stóra þátt, sem síldarútvegsnefnd hefur átt í því að byggja upp markaði fyrir Suðurlandssíldina, sem engin tök voru á að selja að neinu ráði, áður en nefndin hóf það uppbyggingarstarf fyrir u. þ. b. tveim áratugum síðan.

Það frv., sem hér er verið að ræða og hefur valdið nokkrum úlfaþyt hér á hv. Alþ. og eins utan veggja þingsins, er undirbúið af sjö manna nefnd, eins og ég gat um áðan, sem skipuð var af hæstv. sjútvmrh. 2. ágúst 1967, skv. eindregnum og ítrekuðum óskum frá síldarsaltendum. Þrýstingurinn frá saltendum í þessu máli laut að því, að þeir töldu, að þeir ættu siðferðilegan rétt á að fá meiri áhrif í síldarútvegsnefnd og óskuðu eftir því, að fulltrúum í nefndinni yrði fjölgað, helzt um tvo, og að þeir fengju þá fulltrúa báða. Eins og komið hefur fram hér í umr., þá hafa ræðumenn bent réttilega á, það, að lítið hafi komið út úr störfum þessarar sjö manna nefndar annað en það, að fjölga skyldi um einn mann í síldarútvegsnefnd. Þetta er rétt. Í skipunarbréfi til sjö manna nefndarinnar var m. a. talað um það, að hún ætti að gera till. um framtíðarskipulag sölumála saltsíldar. En þegar farið var að athuga l. um síldarútvegsnefnd, urðu þeir, sem sæti áttu í sjö manna nefndinni fljótt sammála um það, að lögin væru þess efnis, að heimildir væri í þeim að finna fyrir öllum þeim skipulagsbreytingum, sem hugsanlegt væri að gera, eða sem efst voru á baugi í þann tíma í sambandi við fyrirkomulag sölumálanna og skipulagsmálanna, þannig að af þeirri ástæðu þurfti ekki að dómi nefndarmanna að setja nein ný lög til þess að koma þessari skipulagsbreytingu á. Það er af þessari ástæðu fyrst og fremst, sem sá árangur, sem þessi sjö manna nefnd skilaði frá sér, er ekki viðameiri heldur en raun ber vitni um. Þetta frv. um fjölgun í síldarútvegsnefnd um 1 mann var svo lagt fyrir hv. Ed. af sjútvn. þeirrar d. Og þá fóru ýmsir skrýtnir hlutir að gerast í sambandi við þetta meinlausa mál og kannske þarflitla. Þá upphófust raddir þar innan þings um það, að með frv. væri stefnt að því að grafa undan Siglufirði sérstaklega, þar sem í frv. væri að finna ákvæði um það, að síldarútvegsnefnd skyldi hafa skrifstofur í Reykjavík, Siglufirði og á Seyðisfirði, en ekkert var um það sérstaklega getið, á hverjum þessara staða aðalskrifstofan skyldi vera. Út af þessu voru haldnar margar hjartnæmar ræður í Ed., ýmsir menn gengu fram í því að skrifa um þetta tilræði hjartnæmar greinar í stærsta blað landsins og mikill leikur var settur á svið í kringum þetta allt saman.

Ég skal ekki fara langt út í það að rekja þennan leik allan, og sannast sagna á ég dálítið erfitt með að taka þátt í þeim deilum, sem hafa orðið um það hér á hv. Alþ., hvar aðalskrifstofa síldarútvegsnefndar skuli vera, því að sem gamall Siglfirðingur hef ég að sjálfsögðu miklar taugar til þess staðar og vil veg hans á allan hátt sem mestan, en mér er þó ómögulegt að láta þær tilfinningar ráða um afstöðu mína, þegar öll skynsemi og öll rök hníga að því, að nauðsynlegt sé að breyta nokkuð til um skrifstofuhaldið, eins og það hefur verið á undanförnum árum. Þetta þekki ég vel vegna starfa í nokkuð mörg ár í síldarútvegsnefnd. Mér er fyllilega kunnugt um þá miklu erfiðleika, sem eru því samfara, að nefndin situr hér suður í Reykjavík og heldur sína fundi þar og fjallar um þessi málefni, en þarf svo í gegnum síma að sjá um, að framkvæmdar séu ýmsar af samþykktum nefndarinnar af aðilum, sem eru ekki í öðru sambandi mikinn hluta ársins við nefndina en símasambandi einu saman. Ég get ekki lokað augunum fyrir þessu. Til viðbótar því vil ég svo benda á, eins og hér hefur komið fram í umr. áður, að ítrekaðar kröfur, samhljóða kröfur aðalfunda saltendafélagsins á Norður- og Austurlandi hafa verið settar fram til síldarútvegsnefndar um það að koma á þeirri skipulagsbreytingu í skrifstofuhaldi, sem frv. heimilar og síldarútvegsnefnd hafði ákveðið fyrir nokkru að ráðast í. Síldarútvegsnefnd gerði þessar breytingar þó ekki fyrr en í seinustu lög. Hún hefur ekki tekið sig sérstaklega fram um að koma fyrirhugaðri breytingu á laggirnar. Þar hafa síldarsaltendurnir sjálfir og samtök þeirra haft alla forustu.

Því hefur verið haldið fram hér á hv. Alþ., að með þessari fyrirhuguðu skipulagsbreytingu, sem ekki er nú stórkostlegri en það, að ég gizka á — þó að ég geti ekki um það fullyrt, enda er það ekki endanlega ákveðið, — að hún þýddi í reynd það, að hugsanlega yrði fækkað um einn eða tvo starfandi menn á skrifstofunum á Siglufirði og þeim þá annaðhvort sagt upp, ef það þætti fært, til þess að spara eða þá færðir hingað á skrifstofuna fyrir sunnan, skipulagsbreytingin er nú ekki stórtækari en það — með þessu væri verið að ráðast að jafnvægi í byggðlandsins. Ég minnist þess ekki þau ár, sem ég hef setið hér á hv. Alþ., að ég hafi heyrt öllu fráleitari staðhæfingu en þessa, og hef ég þó hlustað á margt misjafnt á hv. Alþ. um ýmis mál. Flutningur á einum eða tveimur skrifstofumönnum suður til Reykjavíkur, ef að því yrði horfið, eða það, að einum eða tveimur skrifstofumönnum á Siglufirði yrði sagt upp, er tilræði við jafnvægi í byggð landsins að sögn ýmissa manna. Og undir þessu herópi hefur hér á hv. Alþ. verið reynt að safna fylgi við frv. eða breytingu á l.. sem ákveður það, að aðalskrifstofa síldarútvegsnefndar skuli bundin á Siglufirði, hvað sem allri skynsemi líður og hvað sem þeir, sem að þessum atvinnuvegi, síldarsöltuninni, vinna, hafa um þetta mál að segja og hverjar sem óskir þeirra eru. Ég held, að hv. Alþ. geti ekki verið þekkt fyrir að taka undir jafnfráleita stað- hæfingu með því að samþykkja frv., eins og það liggur nú fyrir, eftir að það kom frá hv. Ed. Ég held, að það væri verið að misbjóða á hinn herfilegasta hátt virðingu Alþingis með slíkri afgreiðslu mála.

Hv. 4. þm. Norðurl. v. (EKJ) sagði hér áðan, að ef af þessari skipulagsbreytingu yrði, væri þar með verið að gera baráttu þeirra manna erfiðari, sem vilja viðhalda jafnvægi í byggð landsins. Ekki rökstuddi hann nú þessa fullyrðingu neitt frekar. Ég skal ekki þreyta hv. þd. á því að fara mörgum orðum um þessa fráleitu staðhæfingu, og ég skal ekki fara að munnhöggvast við hv. þm. út af þessu. En svo að menn haldi ekki, að það eigi nokkra pólitíska rót, að ég er ekki á sömu skoðun og hv. þm. um þetta atriði, þá vil ég vitna í smágrein, sem mikilsvirtur síldarsaltandi og athafnamaður á þessu sviði um marga áratugi skrifaði í Morgunblaðið 7. des. s. l., en hann heitir Sveinn Benediktsson. Sveinn Benediktsson er, eins og allir vita, bróðir hæstv. forsrh. og mikill flokksbróðir hv. 4. þm. Norðurl. v. Fyrst vitnar Sveinn orðrétt í grein, sem hv. 4. þm. Norðurl. v. hafði ritað í Morgunblaðið daginn áður, 6. des., er sýnir vel þau gífuryrði og þær staðhæfingar, sem ýmsir menn hafa leyft sér að viðhafa í sambandi við þessa skipulagsbreytingu, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þessi áform mega ekki takast. Ef nefndin yrði flutt suður, mundi skrifstofa verksmiðjanna fylgja á eftir og þá hefðu þeir menn, sem vilja byggja Ísland allt, beðið slíkan ósigur, að ólíklegt er, að vörn yrði úr því snúið í sókn. Það er hér og einmitt hér, sem sköpum skiptir.“

Flutningur á einum skrifstofumanni suður eða hugsanlega tveim á sem sagt að áliti þessa hv. þm. að valda því, að landsbyggðin, eftir því sem helzt verður skilið, bara þurrkist út. Hún bara flytji öll á einu bretti suður í Reykjavík. Það er ekkert minna, sem er í veði að hans áliti. Hér er um svo fráleitar staðhæfingar að ræða, að raunar ætti ekki að þurfa meira til en rétt aðeins að benda á þær til þess að sýna, hversu málflutningur þeirra, sem standa að baki þessu, er fráleitur. Í grein Sveins Benediktssonar, þar sem hann er að svara ýmsu, sem komið hefur fram, segir m. a. þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Hverjir eru líklegri en síldarsaltendur sjálfir og 7 fulltrúar þeirra í síldarútvegsnefnd til þess að geta dæmt um það, hvað bezt henti í þessu efni? Er þessi ritstjóri Morgunblaðsins fær um það? Hann er svo ókunnugur málavöxtum, að hann telur allt í voða um byggð landsins og að sköpum skipti, ef nefndin yrði flutt suður. Hann virðist ekki vita eða vilja vita, að nefndin hefur ekki komið til Siglufjarðar eða haldið þar fundi árum saman, en fjöldi nefndarfunda verið haldnir í Reykjavík, oft með mjög ófullnægjandi tengslum við aðalskrifstofuna fyrir Norður- og Austurland á Siglufirði, m. a. vegna þess, hve illa gengur oft og tíðum að ná símasambandi við skrifstofuna, þrátt fyrir sjálfvirkt símasamband. Ég get ómögulega fallizt á það sjónarmið, að þeir, sem vilja verða við óskum síldarsaltenda í hinum dreifðu kauptúnum og kaupstöðum á Norður- og Austurlandi, vilji þar landauðn, en sá, sem ekki vill taka tillit til óska þeirra, sé bjargvætturinn. Mér virðist hinn góði ritstjóri Morgunhlaðsins hafa í þessari ritsmíð sinni gerzt fullkeimlíkur sumum öðrum í málflutningi sínum, þegar hann telur, að sjálfsagðar ráðstafanir, sem gerðar eru eftir ósk þeirra, sem hlut eiga að máli, horfi til niðurrifs og landauðnar, einungis ef Reykjavík er viðurkennd sem miðstöð viðskipta og verzlunar landsins. Hið einkennilegasta við þetta er, að þeir, sem hæst gala um, að þeir óttist, að allt og allir flytjist til Reykjavíkur og annars staðar horfi til landauðnar, vilja sjálfir hvergi vera nema þar. Þetta virðist mér eiga meira skylt við atkvæðaveiðar en síldveiðar eða sölu saltsíldar.“

Þetta segir Sveinn Benediktsson í þessari grein, þar sem hann er að svara flokksbróður sínum, hv. 4. þm. Norðurl. v. Ég veit nú ekki, hvort ástæða er til þess fyrir mig að víkja að fleiri atriðum í sambandi við þetta mál. Það er þegar svo vel upplýst. En ég vil að endingu aðeins undirstrika það, að tilgangurinn með þessari skipulagsbreytingu í skrifstofuhaldi síldarútvegsnefndar er sá að auka á hagræðingu og sparnað í skrifstofuhaldinu. Hann er sá að auka þjónustu við síldarsaltendur í landinu, sem er fyrsta og fremsta verkefni nefndarinnar að lögum. Sem gamall Siglfirðingur, eins og ég sagði hér áðan, vil ég ekki á nokkurn hátt gera nokkuð til þess að grafa undan grundvelli þess staðar. Ég á þar mína fjölskyldu og er alinn þar upp til fullorðinsára og ber því hlýjan hug til þess staðar og fólksins, sem þar býr. Ég hef heldur ekki orðið var við það, að forustan í andstöðunni fyrir umræddri skipulagsbreytingu hafi komið frá Siglfirðingum eða heimamönnum á Siglufirði. Það er fjarri lagi. Fulltrúar siglfirzkra síldarsaltenda, sem setið hafa á aðalfundum Félags síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi, hafa verið sammála öðrum síldarsaltendum um, að þessi skipulagsbreyting væri æskileg og greitt henni atkv. á aðalfundum sínum. Nei, forustan í þessu máli kemur frá þm., sem margir hverjir eru ekki sérstaklega þekktir að því að þekkja neitt sérstaklega til þessa atvinnuvegar. Ég held því, að tilgangurinn sé ekki fyrst og fremst sá að vinna hagsmunamálum Siglufjarðar sem slíks neitt sérstakt með þessu og ekki til þess að vinna hagsmunamálum síldarsaltenda í landinu neitt gagn með þessu andófi. Tilgangurinn er svo auðsæilega sá að reyna að slá pólitískar keilur með þessum andróðri, en svo mikið þekki ég til Siglfirðinga, að ég dreg það mjög í efa, að þeir, sem hæst tala og mest gala um þetta og hafa reynt að blása þetta mál upp úr öllu valdi, hafi nokkurn sóma af því, og ég stórefa, að nokkur pólitískur ávinningur verði að því fyrir þá á Siglufirði. Ég efa það.