21.03.1968
Neðri deild: 79. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1886 í B-deild Alþingistíðinda. (1882)

107. mál, síldarútvegsnefnd

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður að þessu sinni. Hv. 4. þm. Norðurl. v. ræddi hér um þetta mál af nokkrum tilfinningahita og þótti mikið fyrir því, að mér og hv. 4. þm. Austf. skyldi bera nokkuð saman í þessu máli. Ég held, að hann þurfi engar áhyggjur af því að hafa. Við erum oft sammála um meginmál, og svo fór að þessu sinni. En hann taldi, að við hefðum orðið sammála um illt mál. Við vildum báðir með afstöðu okkar til þessa máls veikja byggðajafnvægið og flytja aðalstöðvar síldariðnaðarins til Reykjavíkur. Þetta væri nokkuð alvarlegt, ef svo væri, en það er ákaflega lítið, sem á að flytja frá Siglufirði. Það á enga skrifstofu að leggja þar niður. Þar verður skrifstofa og framkvæmdastjórn Tunnuverksmiðja ríkisins áfram, og þar er áformað, að skrifstofa sé fyrir síldarútvegsnefnd áfram. Það var skýrt og greinilega fram tekið af hv. 2. þm. Reykn. (JSk) hér í dag, að það, sem stendur til í sambandi við breytta starfsskiptingu hjá síldarútvegsnefnd, getur í mesta lagi verið að flytja einn eða tvo skrifstofustóla og skrifstofumenn. Og mér er alveg óskiljanlegt, hvernig hægt er að blása slíka breytingu upp í það að raska öllu byggðajafnvægi, svo að byggðum Norðurlands standi ógn af, eins og hefur verið útmálað í leiðurum Morgunblaðsins og fólk hefur fengið með morgunkaffinu um land allt núna í langan tíma og sem hefur valdið því, að menn hafa tekið sig til og beitt sér fyrir undirskriftum um að afstýra þessari ógn, þessum voða. En ég skildi, hvers vegna hv. 4. þm. Norðurl. v. hljóp svona mikið kapp í kinn út af því, að ég hafði getið þess, að menn hefðu farið af stað með undirskriftir norðanlands meðal síldarsaltenda til þess að biðja þá að mótmæla því, að aðalskrifstofur síldarútvegsnefndar yrðu fluttar frá Siglufirði, eins og það var orðað í haus að undirskriftaskjölum, en árangurinn hefði ekki orðið sá, sem vænzt var, þar sem formaður síldarsaltendafélagsins á Siglufirði hefði neitað að skrifa undir, og skýringin á því, að hv. þm. varð svo ákafur í þessu máli, næst eftir að ég hafði talað, er einmitt sú, að hann er maðurinn, sem beitti sér fyrir þessum undirskriftum og skorti þetta á að fá góðan árangur af undirskriftasöfnuninni. (Gripið fram í: Ekki er það nú rétt.) Það mundi nú vera rétt samt.

Hv. þm., sem nú talaði seinast, hv. l. þm. Norðurl. e. (GíslG) talaði nú aðallega í gamansömum tón um þetta mál, þó að hann gerði sig alvarlegan í röddinni svona við og við, og það er rétt við hæfi, því að málið er ekki stórt. Það er ekkert stórmál, hvort það eigi að vera 7 eða 8 menn í síldarútvegsnefnd né heldur það, hvort skuli heita aðalskrifstofa eða bara skrifstofa á Siglufirði. Hvort partur skrifstofunnar í Reykjavík, sem er á Siglufirði, eigi að heita að lögum aðalskrifstofa. Það, sem máli skiptir, er það, hvaða verkefni leggjast með eðlilegum hætti til þessara tveggja skrifstofa. Og þar sker heitið aðalskrifstofa eða skrifstofa ekki úr. Þróun málanna hefur orðið slík á undanförnum árum, að margir þættir mála, sem eðlilega lögðust til skrifstofunnar á Siglufirði, þegar Siglufjörður var miðstöð síldveiða og síldariðnaðar, hafa á undanförnum árum fyrir löngu síðan lagzt til skrifstofunnar í Reykjavík, af því að það þótti auðveldara að sinna þjónustunni fyrir saltendurna á Austurlandi og jafnframt á Suður- og Suðvesturlandi þaðan, og hefur enginn úlfaþytur orðið af, fyrr en síldarfitvegsnefnd ákvað að verða við margendurteknum óskum saltendafélaganna og sérstaklega þess stóra saltendafélags, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. talaði hér um, að ætti hér mikinn rétt í þessu máli. Það voru einkanlega þeir, sem óskuðu þess, að starfsbreyting yrði gerð á þann veg, að þeir fengju beina þjónustu frá skrifstofunni í Reykjavík. Mér skildist, að ágreiningur hv. 1. þm. Norðurl. e. væri aðallega um það, að hann vildi ekki láta sér nægja hálfan mann fyrir hið stóra síldarsaltendafélag norðan- og austanlands, heldur ætti það að fá manninn allan eða a. m. k. meiri hluta í honum, kannske 3/4, reikna þetta eftir síldartölu á mann. Ég er vitanlega farinn að gera að gamni mínu líka um þetta mál eins og hv. þm. (GíslG) gerði. En hann las hér gögn í málinu, sem ég hafði lesið áður í dag, og það fór ekkert á milli mála, ég hafði lesið rétt. Félag síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi mótmælti frv., sem við erum hér að ræða um, sérstaklega því atriði þess, að það skyldi vera lögfest, að aðalskrifstofa síldarútvegsnefndar sé á Siglufirði, og eins var það með umsögnina frá félagi síldarsaltenda sunnan- og vestanlands, að þar var þessu sama atriði mótmælt. Og þessi mótmæli las hv. þm. upp enn á ný og ég er honum þakklátur fyrir það, því að mér finnst, að slík mótmæli frá þeim, sem öll starfsemin er unnin fyrir, hafi nokkuð um málið að segja.

Í viðbót við það, að félög síldarsaltenda hafa mótmælt þessu ákvæði í frv., vil ég benda á það, að mér er kunnugt um viðhorf fjölda margra forustumanna síldveiðisjómanna og útgerðarmanna til þessa máls, og afstaða þeirra er einmitt hin sama og félaga síldarsaltendanna. Menn eru í röðum sjómanna og útgerðarmanna andvígir því, að það sé farið að lögfesta það, að aðalskrifstofan sé norður á Siglufirði. Það nægir að segja eins og í l., að síldarútvegsnefnd skuli hafa skrifstofur á Siglufirði, í Reykjavík og á Seyðisfirði og það er það ástand, sem við búum við. Það má segja það, að eðlilegast hefði verið að flytja aðalskrifstofur síldarútvegsnefndar til Austfjarða, þegar síldargengdin færðist þangað austur. En Austfirðingar hafa ekki beðið um það. Þeir treysta einhvern veginn á, að Austfirðir leggist ekki í auðn, þó að það sé ekki lögfest, að aðalskrifstofa síldarútvegsnefndar sé á Seyðisfirði eða á Egilsstöðum. Þeir virðast trúa því, að byggð geti haldizt í þeirra landsfjórðungi, þó að svo sé ekki ákveðið í l. En þeir hafa óskað annars. Þeir hafa óskað annars og talið, að þeir fengju betri þjónustu við það, að þeirra mál yrðu afgreidd í gegnum skrifstofudeildina í Reykjavík. Þetta er þeirra álit. Aðrir þykjast kannske vita betur. Hér er fullyrt gegn þeirra samhljóða vitnisburði, að það sé miklu auðveldara að ná símasambandi á milli Austfjarðahafna og Siglufjarðar heldur en frá Austfjarðahöfnum til Reykjavíkur. Ég trúi nú frekar þeim, sem í þessu hafa staðið og hafa reynsluna af því, því að hvorki ég né hv. 4. þm. Norðurl. v. hefur verið á Austfjarðahöfnum í annríki og prófað þetta. Við erum hvorugur eiginlega vitnisbær um þetta, við höfum ekki reynsluna. Svo mikið er víst, að einhver rök liggja til þess, að síldarsaltendur á Austfjörðum, hvar í flokki sem þeir standa, hafa lagt þetta til, að þeir fengju sína þjónustu gegnum skrifstofu nefndarinnar hér í Reykjavík. Ég fæ því ekki annað séð heldur en það liggi ljóslega fyrir hv. þd., að óskir eru ekki frammi frá síldarsaltendum um, að þetta frv. fái afgreiðslu og verði samþ. Þeir leggja ekki lengur neina áherzlu á það að fá fjölgun í nefndinni, enda verður ekki annað sagt heldur en hagsmunir síldarsaltenda séu eiginlega í yfirgnæfandi meiri hl. í síldarútvegsnefnd og þarf ekki til þess að bæta neinum manni í hana. Og meginstarfsemin varðandi sölusamninga og afgreiðslu í sambandi við síldveiðarnar hefur þegar fyrir mörgum árum flutzt að verulegu leyti til Reykjavíkur. Endurskipulagning hefur síðan þótt sjálfsögð á skipan mannahalds vegna þessarar breyttu verkefnaskipunar og það veldur öllum gauraganginum. Þetta með byggðajafnvægið er ekkert annað en hugarórar, það er augljóst hverjum manni, og hafi menn haldið, að það væru vænlegar atkvæðaveiðar, held ég, að svo sé ekki. Ég held, að það sé alveg fráleitt.

Ég hef því ekki skipt um skoðun við þær umr., sem hér hafa farið fram, og ég held, að þetta frv. sé bezt komið núna í skauti sjútvn. d., og mér þykir ótrúlegt, að því sé lífs auðið í gegnum þá n. og þoli athugun þar, nema því aðeins, að hv. sjútvn. d. sæi ástæðu til að gefa þessu frv. eitthvert innihald varðandi hin miklu aðsteðjandi vandamál þessa atvinnuvegar, sem blasa við okkur enn þá að litlu leyti leyst og jafnvel óleyst, en varða kannske að verulegu leyti lífsafkomu þjóðarinnar á komanda sumri. Það væri allt annað mál.