21.03.1968
Neðri deild: 79. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1889 í B-deild Alþingistíðinda. (1883)

107. mál, síldarútvegsnefnd

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Það hafa orðið hér allmiklar umr. um þetta frv. um breyt. á l. um síldarútvegsnefnd. Það er nú liðið á dag, og ég skal ekki lengja þessar umr. með langri ræðu. Og ég get stytt mál mitt að mun, vegna þess að hv. 1. þm. Norðurl. e. tók ýmislegt fram af því, sem ég vildi sagt hafa, og ég skal ekki heldur tala um málið í neinum ádeilutón, þannig að umr. þurfi að lengjast þess vegna. Hinu lofa ég ekki að ræða málið algerlega tilfinningalaust, eins og mér virðist, að hv. 9. þm. Reykv. óski helzt eftir. Ég verð að segja það, að ég hef svo oft hlýtt á þennan ágæta þm. og sjaldnast heyrt hann tala um mál hér tilfinningalaust, og er það enginn ljóður á hans ráði að mínum dómi, því að ég sé enga ástæðu til þess, að tilfinningum sé varpað fyrir róða í umr. hér á Alþ. Ég vil alls ekki segja, að hann hafi látið tilfinningar sínar bera skynsemina ofurliði í sínum ræðuhöldum, og ég mótmæli því alveg, að tilfinningar hafi verið látnar bera skynsemi ofurliði í þessu máli. Það er síður en svo.

Ef ég man rétt, voru lög fyrst sett um síldarútvegsnefnd á árinu 1934, og árinu síðar eða 1935 var sett reglugerð í samræmi við þessi lög og í þeirri reglugerð var skýrt tekið fram, að aðalskrifstofa síldarútvegsnefndar, heimili og varnarþing skyldi vera á Siglufirði. Sú reglugerð mun hafa verið endurskoðuð og gefin út á ný árið 1952, og sama ákvæði mun hafa verið einnig í þeirri reglugerð. Svo gerðist það á árinu 1962, að sett voru ný lög um síldarútvegsnefnd og eldri l. breytt á þá lund, að síldarútvegsnefnd skyldi hafa aðsetur á Siglufirði um síldveiðitímann eða þegar síldin veiddist fyrir norðan, og hér í Reykjavík, þegar síldin veiddist hér við Faxaflóa. En það var engin ný reglugerð sett í sambandi við þessi lög, og lít ég svo á, að reglugerðin frá 1952 sé enn í gildi, enda lítur síldarútvegsnefnd þannig á málið. Og hef ég það til marks um það, að síldarútvegsnefnd hefði annars ekki gert þá samþykkt, sem hún gerði á s. l. sumri í september, þar sem hún samþykkir að flytja aðalskrifstofur nefndarinnar frá Siglufirði til Reykjavíkur eigi síðar en í lok yfirstandandi reikningsárs eða 30. apríl 1968.

En hver er ástæðan fyrir því, að síldarútvegsnefnd gerir þessa samþykkt? Hv. alþm., sem eru jafnframt fulltrúar í síldarútvegsnefnd, hafa verið að skýra það mál fyrir okkur hér í dag. Það hefur komið m. a. skýrlega fram í þeirra máli, eins og hv. 1. þm. Norðurl. e. var að benda á hér áðan, að eina ástæðan fyrir því, að þeir leggja þetta til, er sú, að síldarútvegsnefndarmenn eru búsettir hér í Reykjavík eða næsta nágrenni höfuðborgarinnar. Ég get ekki fallizt á, að það sé rétt að breyta heimilisfangi eða aðalskrifstofu stofnunar eins og síldarútvegsnefndar fyrir það eitt, að þeir menn, sem eiga að starfa í þessari nefnd og eiga að stjórna þeim málefnum, sem hún fer með, séu búsettir einhvers staðar víðs fjarri þeim stað, þar sem aðalstöðvar nefndarinnar eiga að vera. Ég held einmitt, að það væri alveg eins eðlilegt að fara að þeim ráðum, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. benti hér á, að Alþ. gæti þess, þegar um slíkar kosningar er að ræða eins og í síldarútvegsnefnd, að velja menn í nefndina, sem eiga heima nær aðalstöðvum hennar. Mér dettur ekki í hug að gera lítið úr þeim mönnum, sem eiga sæti í síldarútvegsnefnd, ég veit, að þeir eru allir mikilhæfir menn. En hitt er líka alveg víst, að við norðan heiða eigum nóg af mönnum, sem eru fullfærir til þess að starfa í þessari nefnd og vinna þau störf, sem henni er ætlað að vinna. Það fer ekki hjá því, það vita allir.

Því er borið við, og ég viðurkenni, að það er þyngra á metunum, að síldarsaltendur óski þess eindregið, að þessi nefnd sé flutt burtu frá Siglufirði og hingað suður. Nú vitum við það, að allmikill fjöldi af þessum mönnum, sem verka og salta síld, eru búsettir hér í Reykjavík. Þeir eru Reykvíkingar. Það er ósköp eðlilegt, að þeir óski eftir því, að aðalstöðvar síldarútvegsnefndar séu hér suður í Reykjavík. Ég held einmitt, að það séu áhrif frá þessum mönnum, sem hér hafa mikið að segja, og ef síldarútvegsnefnd getur ekki gegnt þeirri skyldu sinni að koma út á landsbyggðina og fylgjast með störfum og verkum þeirra, sem salta og verka síld, þá held ég, að þessir menn ættu bara hreint og beint að segja sig úr þessari nefnd, svo að það væri hægt að kjósa nýja.

Hv. 2. þm. Reykn. sagði hér í dag, að þessi áróður, sem nú er uppi um það, að aðalstöðvar síldarútvegsnefndar yrðu ekki fluttar frá Siglufirði, væri runninn undan rifjum stjórnmálamanna. Þeir væru að slá pólitískar keilur. Ég mótmæli þessu alveg. Þessi áróður er alls ekki runninn undan rifjum stjórnmálamanna neitt sérstaklega. Gripið fram í: Hverra?) Hverra? spyr hv. þm. Ég skal svara því og gera það með því að biðja forseta að leyfa mér að lesa upp samþykktir, sem gerðar hafa verið norður í landi. T. d. var á fundi fjórðungsráðs Norðlendinga, sem haldinn var að Hólum í Hjaltadal á síðastliðnu sumri, nánar tiltekið 19. ágúst, gerð svofelld ályktun og samþykkt þar samhljóða:

„Fundur í fjórðungsráði Norðlendinga haldinn að Hólum í Hjaltadal laugardaginn 19. ágúst 1967 mótmælir harðlega fyrirhuguðum flutningi á aðalskrifstofu síldarútvegsnefndar úr Norðlendingafjórðungi til Reykjavíkur, sem fundurinn telur, að gangi í berhögg við tilgang og markmið stjórnvalda varðandi Norðurlandsáætlun og gefin heit hana varðandi. Í stað þess að styrkja og efla stofnanir á Norðurlandi tengdar atvinnulífinu, mun nú í ráði að færa aðalstöðvar síldarútvegsnefndar í faðm Reykjavíkur, þótt ekkert það hafi gerzt, sem ýtir undir breytingu í þessu efni frá því, sem verið hefur á undanförnum árum og áratugum, nema síður sé, þar sem samgöngur allar hafa stórbatnað við Siglufjörð og síldin hefur nú í sumar undirstrikað rækilegar en oftast áður, að enginn getur fyrir sagt, hvar aðalstöðvar veiði og vinnslu verði. Skorar fundurinn á stjórn síldarútvegsnefndar að endurskoða afstöðu sína í þessu efni og sjútvmrh. að beita áhrifum sínum gegn því, að þessi breyting nái fram að ganga.“

Á þingi fjórðungsráðs Norðlendinga mæta menn úr flestum sveitarfélögum og þeir eru áreiðanlega ekkert pólitískari heldur en gengur og gerist yfirleitt. Og þessi ályktun frá fjórðungsráði Norðlendinga er ekki sprottin af neinum pólitískum skoðunum eða pólitískum illvilja, heldur er það aðeins það sama, sem hefur gerzt þarna, og við erum að berjast fyrir hér á þingi, að ekki verði allt, sem er úti á landinu, dregið hingað suður til Reykjavíkur.

Ég get bent á aðra samþykkt að norðan líka, með leyfi hæstv. forseta. Á fundi bæjarstjórnar Siglufjarðar, sem haldinn var 8. sept. í haust, var samþykkt fjórðungsráðsins, sem ég las hér áðan, áréttuð og flutningi aðalskrifstofu mótmælt með öllum atkv. bæjarfulltrúa. Þessi ályktun er svo hljóðandi:

„Aðalskrifstofur síldarútvegsnefndar hafa frá fyrstu tíð verið staðsettar á Siglufirði. Fyrirhugaður flutningur á skrifstofunum til Reykjavíkur, þegar samgöngur allar til Siglufjarðar hafa stórbatnað, sjálfvirkt símasamband við bæinn er komið á og fyrir liggja yfirlýsingar stjórnvalda um byggðaáætlanir og atvinnulega uppbyggingu í Norðlendingafjórðungi, kemur því eins og reiðarslag yfir íbúa bæjarins og raunar Norðlendinga alla, sbr. ályktun fjórðungsráðs Norðlendinga á Hólum í Hjaltadal 19. ágúst s. l.

Þetta er samróma ályktun sem gerð er í bæjarstjórn Siglufjarðar. Það má náttúrlega segja, að það séu pólitískir menn, sem eiga sæti í bæjarstjórn Siglufjarðar, en það er þó eftirtektarvert, að þeir eru allir sammála um þetta. Og ég fullyrði það, að það er nokkuð til í því, þegar segir í þessari ályktun, að hún sé reiðarslag fyrir íbúa bæjarins, þessi till. síldarútvegsn. Ég hef verið á Siglufirði, og ég veit ósköp vel, hvernig hugur fólksins þar er til þessa máls. Það má náttúrlega segja, að það sé tilfinningasemi, jú, ég skal viðurkenna það, þetta er að vissu leyti tilfinningamál, og það er ekkert óeðlilegt við það. Það er tilfinningamál alveg sérstaklega fyrir Siglfirðinga, íbúa eina kaupstaðarins á landinu, sem hefur á undanförnum árum mátt upp á það horfa, að þar hefur íbúum fækkað. Vitaskuld mundi þetta verka á Siglufjörð eins og reiðarslag, vil ég segja, að taka opinbera stofnun, sem er búin að hafa aðsetur þarna milli 30 og 40 ár, og leggja til, að hún verði flutt til Reykjavíkur. Mér finnst ósköp eðlilegt, að Siglfirðingar líti þannig á þetta mál. Vitaskuld mundi það orsaka það, að Siglfirðingar misstu enn meir trúna á bæjarfélagið sitt og möguleikana á að lifa þar, ef að þessu ráði yrði horfið.

Og ég vil bara segja, að það er á sig leggjandi, þó að það kosti eitthvað, að drepa niður þessa trú Siglfirðinga.

Þess vegna trúi ég því ekki, að það komi fyrir hér í þinginu, að það samþykki að flytja aðalskrifstofu síldarútvegsnefndar hingað til Reykjavíkur. Það er ekkert lítið að flytja, hv. 9. þm. Reykv. (Gripið fram í.) — það er verið að flytja aðalskrifstofuna og það er ekkert lítið. Og ég mótmæli því algjörlega, að það verði gert, og ég mun gera allt, hvað ég get, til að spyrna á móti því. Og eins og ég segi, ef þið getið ekki, góðir fulltrúar í síldarútvegsnefnd, lagt það á ykkur að fara norður til Siglufjarðar nú, þegar göngin eru komin, þá skuluð þið bara segja af ykkur, svo að við getum kosið í nýja nefnd aðra menn og létt þessu fargi af herðum ykkar. Það er langhreinlegast.

Já, og svo er talað um erfitt símasamband við Siglufjörð. Það er nú kominn þangað sjálfvirkur sími, og væntanlega líður ekki á löngu, þar til kemur sjálfvirkur sími, samtengdur, milli Siglufjarðar og Austfjarða. Það er unnið að þeim málum núna, og ég vænti þess, að það líði ekki mörg ár, þangað til það gerist, og vitaskuld verður það til þess að bæta allt samband við Siglufjörð. Og það hefur verið gert svo mikið einmitt nú á undanförnum árum til að bæta öll sambönd við Siglufjörð, að það er ekki bægt að bera sér það í munn, að erfitt sé að hafa samband við Siglufjörð. Ég man það hér um árið, þegar hv. 9. þm. Reykv. kom einu sinni til mín, gerði mér þann sóma að heimsækja mig, það var held ég í júní- eða júlímánuði, þá komst hann ekki til Siglufjarðar, varð, minnir mig, að snúa við, því að þá var skarðið á kafi í snjó. En þetta gerist ekki framar, a. m. k. ekki að sumri til. Því mega þeir treysta, hv. 9. þm. Reykv. og aðrir síldarútvegsnefndarmenn.

Nei, ég held, að við eigum ekki að gera svona hluti, að flytja jafnrótgróna stofnun eins og aðalskrifstofu síldarútvegsnefndar frá Siglufirði. Það hefur miklu fleira illt í för með sér heldur en við jafnvel gerum okkur grein fyrir í fljótum hasti.