17.04.1968
Neðri deild: 100. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1894 í B-deild Alþingistíðinda. (1889)

107. mál, síldarútvegsnefnd

Frsm. meiri hl. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Aðalatriði þessa frv., eins og það var fyrst lagt fyrir í hv. Ed., eru tvö. Í fyrra lagi var lagt til að fjölga í síldarútvegsnefnd úr 7 mönnum í 8 og skyldi ráðh. skipa áttunda manninn eftir sameiginlegri tilnefningu Félags síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi og Félags síldarsaltenda á Suðvesturlandi. En samkv. gildandi lagaákvæðum um skipun síldarútvegsnefndar eiga bæði þessi félög fulltrúa í síldarútvegsnefnd, þannig að þarna var um viðbótarmann að ræða, sem útnefndur skyldi af þeim sameiginlega. Í öðru lagi var meginbreytingin samkv. frv. sú, að síldarútvegsnefnd skyldi hafa skrifstofu á Austurlandi, en í gildandi fyrirmælum um síldarútvegsnefnd er aðeins gert ráð fyrir, að hún hafi skrifstofu á tveim stöðum, þ. e. a. s. í Reykjavík og á Siglufirði. Þessu síðara meginefni frv. var breytt í meðförum hv. Ed. í það horf, sem það nú er í á þskj. 350, þar sem segir: „Heimili síldarútvegsnefndar, varnarþing og aðalskrifstofa skal vera á Siglufirði.“

Um það leyti, sem þetta frv. var til meðferðar í hv. Ed., bárust sjútvn. þessarar hv. d. mótmæli gegn þessari breytingu frá eftirtöldum aðilum: Í fyrsta lagi frá Félagi síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi, í öðru lagi frá Félagi síldarsaltenda á Suður- og Vesturlandi og í þriðja lagi frá LÍÚ.

Eftir að frv. var komið til n. í þessari hv. d., sendi n. það með áorðinni breytingu að sjálfsögðu síldarútvegsnefnd til umsagnar, og var beðið með afgreiðslu á málinu í n. eftir svari síldarútvegsnefndar. Það barst henni í gær, 16. þ. m., og segir þar m. a. „Síldarútvegsnefnd mælir eindregið gegn því, að frv., eins og það er eftir afgreiðslu í Ed., verði samþ.

Í mótmælum Félags síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi, þar sem flestir eða allir síldarsaltendur á Siglufirði munu vera aðilar, segir svo: „Vér leyfum oss hér með að mótmæla harðlega framkomnu frv. fjögurra þm. úr Norðurlandskjördæmum þess efnis, að aðalskrifstofa síldarútvegsnefndar skuli vera á Siglufirði, og vísum til einróma samþykktar fjölmenns aðalfundar Félags síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi, þar sem þess var krafizt, að skrifstofu síldarútvegsnefndar í Reykjavík verði falin yfirumsjón með söltun síldar á Norður- og Austurlandi, en jafnframt tekið fram, að skrifstofur verði þó áfram á Siglufirði og Austfjörðum.“

Þessi mótmæli eru, eins og orðalagið ber með sér, send í tilefni af þmfrv., sem flutt var í hv. Ed., áður en frv. það, sem hér liggur fyrir, var lagt fram, en meginefni þess þmfrv., þ. e. a. s. að aðalaðsetur síldarútvegsnefndar skuli vera á Siglufirði, var tekið upp í frv., sem hér liggur fyrir. Þetta bréf á þannig að sjálfsögðu alveg eins við um það frv. Enn fremur segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Vér vörum alvarlega við því, að hagsmunum saltsíldarframleiðslunnar sé fórnað í annarlegum tilgangi og bendum á, að félög síldarsaltenda og síldarútvegsnefnd, sem skipuð er fulltrúum margra hagsmunasamtaka, hljóti að hafa meiri þekkingu á málefnum og vandamálum saltsíldarframleiðslunnar en aðilar, sem hvergi hafa komið þar nærri.

Vér væntum þess fastlega, að við afgreiðslu þessa máls verði heildarhagsmunir saltsíldarframleiðslunnar og þeirra aðila, sem henni eru tengdir, látnir ráða.

Virðingarfyllst,

f. h. Félags síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi,

Jón Þ. Árnason.“

Þetta bréf var sent til formanns sjútvn. Nd. Alþ. Þá eru það mótmælin frá Félagi síldarsaltenda á Suður- og Vesturlandi. Þau hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Frv. það, sem samþ. hefur verið við 2. umr. í Ed. Alþ. varðandi síldarútvegsnefnd, teljum við varhugavert og til hins verra, ef að lögum yrði í því formi, sem það nú er, vegna þeirrar breytingar, er á því var gerð, þ. e. ákvæðið, sem fjallar um lögheimili og aðalskrifstofu nefndarinnar. Nær allir saltendur á landinu eru eindregið þeirrar skoðunar, að eins og nú háttar — og hefur verið undanfarin ár — sé nauðsynlegt, að yfirstjórn síldarútvegsnefndar hafi aðsetur í Reykjavík, á sama hátt og allar aðrar greinar útflutningsframleiðslu sjávarafurða hafa.

Vér leyfum oss því að mótmæla eindregið, að nefnt atriði frv. verði að lögum og skorum á hv. Nd. Alþ. að fella það úr frv.

Virðingarfyllst,

f. h. Félags síldarsaltenda á Suður- og Vesturlandi,

Ólafur Jónsson,

Margeir Jónsson.“

Þetta bréf er einnig sent til formanns sjútvn. þessarar hv. d.

Í umsögn LÍÚ segir svo: Landssamband ísl. útvegsmanna lætur í ljós furðu sína yfir breytingu þeirri, sem Ed. Alþ. hefur samþykkt á frv. til l. um breyt. á l. um síldarútvegsnefnd á þskj. Ed. 236, en breyting deildarinnar á frv. er þess efnis, að heimili, varnarþing og aðalskrifstofa síldarútvegsnefndar skuli vera á Siglufirði. Frv. á þskj. 236 var flutt að heiðni hæstv. sjútvmrh. samkv. ósk um flutning þess frá sjö manna nefnd, sem skipuð var af rn. s. l. sumar til þess að gera till. um framtíðarskipulag á sölu verkaðrar síldar til útflutnings. Samkv. till. nefndarinnar skyldi síldarútvegsnefnd hafa skrifstofur í Reykjavík, Siglufirði og á Austurlandi. Var þessi till., sem sjútvmrh. tók upp í frv. um breyt. á l. um síldarútvegsnefnd gerð í einu hljóði af sjö manna nefndinni. Till., sem gengu í sömu átt, höfðu áður verið samþykktar einnig í einu hljóði af Félagi síldarsaltenda norðan- og austanlands, Félagi síldarsaltenda suðvestanlands og af síldarútvegsnefnd. Þessir aðilar eru kunnugastir málavöxtum, og ber þeim öllum saman um, að mjög óheppilegt sé, að aðalskrifstofa nefndarinnar sé í Siglufirði og á öðrum stað en síldarútvegsnefnd heldur fundi sína. Hefur það leitt til mikilla tafa á afgreiðslu mála hjá síldarútvegsnefnd, sem aftur veldur truflunum á framleiðslu og sölu síldarinnar. Hefur þetta oft bakað síldarsaltendum og viðskiptamönnum þeirra, útgerðarmönnum og sjómönnum, og síldarútveginum í heild stórtjón, sem auðvelt er að sanna með dæmum. Auk þessa hefur þetta fyrirkomulag í för með sér mikinn aukakostnað við starfsemi nefndarinnar. LÍÚ skorar því á hæstv. Alþ. að færa frv. í upphaflegt horf hvað þetta snertir, þ. e. að: „Nefndin skal hafa skrifstofur í Reykjavík, Siglufirði og á Austurlandi.“

Virðingarfyllst,

F. h. LÍÚ,

Sig. H. Egilsson.

Til sjútvn. Nd. Alþ.“

Og loks segir í umsögn síldarútvegsnefndar á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Á fundi síldarútvegsnefndar í dag var svo hljóðandi samþykkt gerð sem svar við bréfi sjútvn. Nd. Alþ., dags. 25. marz s. l.:

„Síldarútvegsnefnd hefur móttekið bréf sjútvn. Nd., dags. 25. marz s. l., ásamt frv. til l. um breyt. á l. nr. 62 21. apríl 1962, um síldarútvegsnefnd og útflutning saltaðrar síldar. Í bréfi sjútvn. er óskað eftir umsögn síldarútvegsnefndar um frv., eins og það liggur fyrir eftir 2. umr. í Ed.

Síldarútvegsnefnd mælir eindregið gegn því; að frv., eins og það er eftir afgreiðslu í Ed., verði samþykkt.

Síldarútvegsnefnd telur fráleitt, að Alþ. samþykki lagabreytingu varðandi starfstilhögun og daglegan rekstur síldarútvegsnefndar, sem gengur í berhögg við álit þeirra aðila, sem falið hefur verið að hafa yfirumsjón með sölu- og framleiðslumálum saltsíldar, enda mætti ætla, að þeir, sem að þessum málum starfa, séu líklegastir til þess að geta dæmt um það, hvað bezt henti í þessu efni. Vísar nefndin í þessu sambandi til fyrri samþykkta sinna svo og samþykkta félaga síldarsaltenda og LÍÚ, sem sendar hafa verið sjútvn. Nd.

Þar sem allmikils misskilnings gætti í umr. í Ed. varðandi starfsemi síldarútvegsnefndar, leyfum vér oss að senda yður ályktun, sem samþykkt var með öllum atkv. á fundi síldarútvegsnefndar 12. sept. s. l., svo og afrit af aths., er formaður síldarútvegsnefndar sendi formanni sjútvn. Ed. þann 12. febr. s. l. Samþykkt þessi var gerð með atkvæðum allra nm. (7) í síldarútvegsnefnd.

Virðingarfyllst,

F. h. síldarútvegsnefndar,

Njáll Ingjaldsson.

Til sjútvn. Nd. Alþ.“

Ég sé nú ekki ástæðu til að rekja efni eldri aths. síldarútvegsnefndar, sem hún sendi hv. Ed. varðandi meðferð málsins þar og ummæli, sem þar féllu. Þó vil ég geta þess, að í þeim plöggum kemur það fram, að nefndin mun hafa á sínum tíma sagt upp öllu starfsfólki sínu með það fyrir augum að geta komið við aukinni hagræðingu og sparnaði í rekstri. Þessi ráðstöfun mun að einhverju leyti hafa verið misskilin, að mér skilst af þeim á Siglufirði, á þann veg að það stæði til að leggja starfsemi nefndarinnar þar alveg niður. Í þessum gögnum kemur það fram, að sú er alls ekki ætlun síldarútvegsnefndar, heldur er þar gert ráð fyrir að halda áfram að reka þar skrifstofu á hennar vegum, sem að sjálfsögðu annast þar viðskipti tunnuverksmiðjunnar og önnur nauðsynleg viðskipti, sem að starfsemi síldarútvegsnefndar lúta á Siglufirði. Ég er ekki nægilega kunnugur því, hvernig allt þetta mál varðandi aðalaðsetur síldarútvegsnefndar hefur komið til, og mætti segja mér, að þetta væri tilefni þess, að allur sá málarekstur hefur farið í gang, sem kominn er af stað út af þeirri ætlun síldarútvegsnefndar að endurskipuleggja sinn rekstur. En ég verð að segja það sem mína skoðun, án þess að ég vilji Siglufirði neitt illt, að ég tel, að síldarútvegsnefnd verði eins og önnur fyrirtæki að hafa nægilegt svigrúm til þess að geta hagrætt sínum rekstri og gert á honum skipulagsbreytingar, eftir því, sem starfsemin krefst hverju sinni.

Auk þessara gagna, sem sjútvn. hefur haft til meðferðar í sambandi við þetta mál, er svo að geta þess, að n. barst ljósrit af bréfi nokkurra síldarsaltenda á Siglufirði, dags. 10. des. s. l., þar sem þeir mótmæla fyrirhuguðum flutningi á aðalskrifstofum síldarútvegsnefndar til Reykjavíkur. Er þarna, að mig minnir um 10 eða 11 saltendur að ræða af um 20, sem reka síldarsöltun á Siglufirði.

Loks er svo þess að geta, að bæjarstjórnin á Siglufirði sendi n. símskeyti, dags. 25. marz, með umsögnum nokkurra símstöðvarstjóra á Norðurlandi og Austurlandi um símaþjónustu milli síldarbæja eystra og Siglufjarðar. Kemur það fram í þeim umsögnum, að talið er, að símaþjónustan hafi verið nokkuð viðunandi, a. m. k. s. l. 2 ár.

Eins og fram kemur í nál. sjútvn. á þskj. 631, varð n. ekki sammála um afgreiðslu þessa máls. Minni hl. n., þeir Björn Pálsson, Pétur Sigurðsson og Guðlaugur Gíslason, hafa lagt til, að frv. verði samþ., en tveir þeirra hafa þó gefið það álit út með fyrirvara. Meiri hl. n. metur fram komin mótmæli, sem ég hef rakið, gegn frv. þannig, að þeir aðilar,. sem studdu upphaflega frv., afturkalli raunverulega stuðning sinn við það eftir breytinguna, sem Ed. gerði á því, og að þeir óski ekki eftir að frv. nái fram að ganga. Í þessu sambandi vil ég láta það í ljós sem mína skoðun, að jafnvel þótt sú leið yrði farin hér í þessari hv. d. að breyta frv. í upphaflegt horf, efast ég um, að það mundi ná fram að ganga í hv. Ed. miðað við afstöðu manna þar til þessa umdeilda atriðis. Út frá því hefur það orðið niðurstaða okkar, sem meiri hl. sjútvn. skipum, að við viljum taka til greina mótmæli þeirra aðila, sem við teljum að hafi staðgóða þekkingu á starfsemi síldarútvegsnefndar og hafa sjálfir mikilla hagsmuna að gæta í sambandi við starfsemi nefndarinnar, bæði fyrir sig og sitt starfsfólk, þ. e. a. s. sjómenn og verkafólk. Við viljum mæta mótmælum þeirra gegn frv. með því að leggja til, að málinu verði vísað til ríkisstj. eins og fram kemur í nál. okkar á þskj. 631. Við teljum, að það sé eðlilegt, að síldarútvegsnefnd haldi uppi starfsemi á Siglufirði og sunnanlands og austan, og annars staðar á landinu, miðað við þarfir og aðstæður á hverjum tíma. Við teljum, að vegna hinna alkunnu breytinga á síldveiðunum, megi ákvæði um þetta ekki vera allt of einskorðuð í lögum. Við leggjum sem sé til, herra forseti, að frv. verði vísað til ríkisstj.