19.04.1968
Neðri deild: 103. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1907 í B-deild Alþingistíðinda. (1896)

107. mál, síldarútvegsnefnd

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég hef áður sagt það hér, að ég tel þetta frv., sem hér er til umræðu, ekki grípa á neinum þeim vandamálum, sem síldarútvegurinn í landinu á nú við að búa. En eðlilegast hefði verið, að Alþ. hefði gripið á einhverjum þeirra stóru vandamála, tekið þau til meðferðar. Hér er um frv. að ræða, sem hefur tvö ný efnisatriði. Í fyrsta lagi að fjölga í síldarútvegsnefnd um einn mann, þannig að þar verði 8 menn í staðinn fyrir 7, og af því leiðir svo, að þegar atkvæði verða jöfn í þessari 8 manna nefnd, þá fari formaður með tvöfaldan atkvæðisrétt. Nú er síldarútvegsnefnd þannig upp byggð, að í henni eiga að vera fulltrúar fyrir sjómenn og verkamenn, fulltrúar fyrir síldarútgerðarmenn og fyrir síldarsaltendur. Og allir þessir aðilar hafa nú fulltrúa í nefndinni. Síldarsaltendur sunnan- og vestanlands hafa raunar fulltrúa í henni út af fyrir sig og félagsskapur síldarsaltenda norðan- og austanlands hefur annan fulltrúa. Í nefndinni eru þegar formenn hvors saltendafélagsins um sig. En ef frv. væri samþykkt að þessu leyti og bætt við manni, þá fengju þessi tvö saltendafélög sameiginlega fulltrúa í viðbót. Ég sé ekki neina þörf þess. Ég held, að saltendafélögin séu ágætlega „representeruð“ með formönnum beggja félaganna og að það hafi ekki verið troðið á þeirra hagsmunum eða þeir á nokkurn hátt verið bornir atkvæðum í nefndinni. Ég minnist þess ekki í þau 6 eða 7 ár, sem ég hef átt sæti í síldarútvegsnefnd.

Hitt atriðið, sem frv., eins og það liggur nú fyrir, fjallar um, er það, að af þeim þrem skrifstofum, sem síldarútvegsnefnd nú starfrækir — þ. e. skrifstofan á Siglufirði, skrifstofan í Reykjavík og skrifstofan á Seyðisfirði, sem allt eru þjónustufyrirtæki fyrir síldarútgerðarmenn og sjómenn og landverkafólkið, sem á þarna hagsmuna að gæta líka, allt saman þjónustufyrirtæki fyrir þessa menn og síldarsaltendurna — þá skuli nú ákveðið, að ein af þessum skrifstofum sé aðalskrifstofa. Og það getur ekki verið, að ætlunin sé önnur með því að leggja kapp á, að lögfest sé, að ein skrifstofan sé aðalskrifstofa, þ. e. Siglufjarðarskrifstofan, það getur ekki vakað fyrir mönnum annað heldur en að aðalverkefnin færist þá þangað. Annars er þetta hégómi. En það væri að mínu áliti umhendis, að aðalverkefni síldarútvegsnefndar flyttust til Siglufjarðar, eins og síldveiðum er nú háttað við okkar land. Ef ætti að setja aðalskrifstofuna einhvers staðar niður og lögfesta það, sem ég tel vera óráð, þá ætti það auðvitað að vera á Austfjörðum, annaðhvort á Egilsstöðum eða á Seyðisfirði, það væri það eðlilega. En ég lít svo á, að það sé hreint framkvæmdaratriði síldarútvegsnefndar að ákveða það, hvern þátt starfsins hún láti framkvæma á þessari eða hinni skrifstofunni.

Það er auðvitað langskynsamlegast, að síldarútvegsnefnd láti framkvæma þá þjónustustarfsemi norðanlands, sem þjónar þeim landshluta sérstaklega. Og þar heyrir auðvitað til stjórn Tunnuverksmiðju ríkisins og dreifing á tunnum til saltenda hvar sem væri á landinu og ýmis önnur atriði varðandi framkvæmd síldveiðimála og síldarsöltunarmála, sem eins vel er hægt að þjóna þaðan eins og annars staðar. Að öðru leyti er þjónustan fyrir síldarsaltendur á Austfjörðum. Það er spurningin, hvort heppilegra er að framkvæma hana frá skrifstofunni á Siglufirði eða í Reykjavík, og held ég, að engir séu dómbærari um það en síldarsaltendurnir á Austfjörðum. Og þeir hafa árum saman, síðan þeir komust í þá aðstöðu, sem þeir eru í nú, látið í ljós óskir um það, að þeir vildu fá sem mest af sinni þjónustustarfsemi afgreitt í Rvík. Mér finnst, að það séu engir aðilar fremur en síldarsaltendurnir, sem eigi að vera dómbærir um það, með hvaða hætti þeir geti tryggt sér betri þjónustu. Það var út frá þessu, að síldarútvegsnefnd taldi ástæðu til að endurskipuleggja nokkuð starfsmannahald og þjónustuaðstöðu fyrirtækisins og gerði till. um það. Sammála voru þar fulltrúar sjómanna, verkafólks, útgerðarmanna og síldarsaltenda úr öllum stjórnmálaflokkum, og ég fullyrði, að það vakir ekki fyrir síldarútvegsnefnd að framkvæma neitt níðingsverk á nokkrum manni, hvorki á Siglufirði né annars staðar, eða að framkvæma ótímabæran flutning á neinum stofnunum. Það er allt saman hugarburður, ef menn ganga með þær skoðanir í brjósti. Það er þetta, sem vakir fyrir síldarútvegsnefnd, að haga starfrækslu mannahalds og skrifstofuhalds í samræmi við þau þjónustustörf, sem síldarútvegsnefnd er skylt að inna af hendi, og ekkert annað, Og ef Alþingi grípur þar fram fyrir hendurnar á síldarútvegsnefnd í þeirri viðleitni hennar, sem er hennar skylda, þá verður það áreiðanlega tekið upp með nokkurri þykkju — að mér finnst mjög eðlilega — af síldarútvegsnefnd. Hún hefur byggt þessar aðgerðir sínar á því að fullnægja óskum þeirra manna, sem hún á að þjóna. Og hér er um algjört rekstrarfyrirkomulagsatriði að ræða, og það heyrir undir daglegan rekstur síldarútvegsnefndar og á auðvitað ekki að binda hendur hennar á bak aftur í svo sjálfsögðum hlutum sem þessum.

Ég held, að ég telji ekki ástæðu til að segja meira um þetta. Þetta á ekkert skylt við það, að hér sé verið að raska jafnvægi í byggð landsins og að það séu fjandmenn jafnvægisins, sem hér hafi séð sér leik á borði og ætli að leika Norðlendinga grátt, að því er það snertir. Öllum þeim verkefnum, sem eðlilegt er að framkvæmd séu á Siglufirði, verður haldið til þeirrar skrifstofu, en önnur þjónusta verður sett til Reykjavíkurskrifstofunnar, því að saltendurnir á Austurlandi telja sér bezt þjónað þaðan, og reynt að afgreiða þeirra mál á Austfjörðum með skrifstofunni á Seyðisfirði, eftir því sem hægt er þar, með sambandi þaðan við aðra hvora skrifstofuna, á Siglufirði eða í Reykjavík, eftir því sem hentugast þykir, og verkefnum verður skipt út frá því eingöngu, hvað hentugt sé og veiti bezta þjónustu. Þetta er málið og ekkert annað, og mér þykir ákaflega fyrir því, ef ekkert tillit verður tekið til þess hér á hinu háa Alþingi, að nú telja allir þeir aðilar, sem þessu máli var hreyft fyrir, að frv. í því formi, sem það er nú, sé ekki til bóta og hafa samþykkt og sent Alþingi sitt álit, Félag síldarsaltenda á Suður- og Vesturlandi, Félag síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi, síldarútvegsnefnd og LÍÚ. Hér eru allir þeir aðilar, sem með þessi mál eiga að fara og eiga hagsmuna að gæta í sambandi við framkvæmd þeirra, og hafa nú allir látið í ljós þá skoðun við Alþingi í skriflegum plöggum, sem hingað hafa borizt, að þeir óski ekki, að frv. í núv. mynd verði samþykkt. Alþingi gengur því gegn vilja allra þeirra aðila, sem málið varðar, ef það verður afgreitt á þann hátt að lögfesta, að aðalskrifstofa síldarútvegsnefndar skuli vera fremur á þessum stað heldur en hinum. Ef frv. verður ekki samþykkt í þeirri mynd, heldur sú brtt., sem hér liggur fyrir, þá verður skrifstofuhaldinu hagað eingöngu eftir því, sem hagkvæmast er út frá þjónustuskyldu síldarútvegsnefndar. Og það held ég að ætti að vera nokkur leiðarvísir fyrir hv. Alþingi. Ég tel, að málið verði afgreitt móti óskum allra aðila, sem það varðar mest, ef till. sú, sem hér liggur fyrir, brtt. við frv., verður felld.