19.04.1968
Neðri deild: 103. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1909 í B-deild Alþingistíðinda. (1897)

107. mál, síldarútvegsnefnd

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég skal ekki mikið lengja þennan fund með þeim fáu orðum, sem ég segi hér, enda er ég í eðli mínu ekki mikill málþófsmaður, nema eitthvað sérstakt og brýn þörf krefjist þess. Ég held, að ég muni það rétt, að það var einu sinni mikið auglýsingaslagorð hjá einu dagblaðanna hér í Reykjavík, ég held, að það hafi verið Vísir, þetta: Vísir flýgur fyrstur með fréttirnar. En þegar ég las Morgunblaðið frá í gær, þá sýndist mér að þarna kynni Vísir að hafa eignazt nokkuð skæðan keppinaut, sem skýrði frá fréttum og staðreyndum raunar áður en þær yrðu til, því ég sé það í Morgunblaðinu frá í gær á bls. 2, að þar er frá því skýrt með nokkuð stóru letri, að aðalskrifstofa síldarútvegsnefndar skuli staðsett á Siglufirði, og þar er skýrt frá því, að í gær hafi frv. um þetta verið samþykkt endanlega í Nd., en eins og hv. þm. vita, heyra og hafa séð og haft sumir gaman af, þá stendur nú ennþá umr. um frv. og það er ekki endanlega afgreitt.

Mig langar til þess að segja örfá orð og reyna að draga fram það, sem mér finnst aðalatriðin í þessu máli. Og það er þá fyrst þetta: Forustan að þeim skipulagsbreytingum í skrifstofuhaldi síldarútvegsnefndar, sem stendur til að gera og hefur staðið til um nokkuð langan tíma, hún er öll fram knúin af síldarsaltendum alls staðar um Norður- og Austurland. Og þar eru ekki einu sinni undanskildir fulltrúar siglfirzkra síldarsaltenda, sem mættu á síðasta aðalfundi Félags síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi. Síldarútvegsnefnd hefur enga forustu haft um, að þessi skipulagsbreyting verði. Mér þykir rétt, að þetta komi fram.

Í öðru lagi: Ég hef orðið nokkuð víða var þess misskilnings, að það væri verið að taka eitthvað frá Siglufirði og Siglfirðingum með því að hafa í l. ákvæði eins og þau, sem voru í frv. um síldarútvegsnefnd, þegar það var lagt fram í Ed., þ. e. að því er tekur til þess, hvar hún skuli hafa skrifstofur, en þar segir, að nefndin skuli hafa skrifstofur á Siglufirði, í Reykjavík og á Seyðisfirði. Það hefur aldrei verið í l. neitt ákvæði um það, að síldarútvegsnefnd skuli hafa aðalskrifstofu á einhverjum ákveðnum stað. Það er fyrst núna á þessu þ., að það kemur inn í Ed. með því að fjórir hv. þm. í þeirri d. flytja um það frv. Ég vil líka, að þetta komi fram. — Brtt., sem hér hefur verið talað fyrir af hv. meðflm., lýtur að því einu að færa þau ákvæði frv., sem fjalla um, hvar skrifstofur skuli vera, í það horf, sem þar var upphaflega. Þá þykir mér ástæða til þess að benda á það, að ég tel það meira en vafasamt fordæmi, ef hv. Alþ. ætlar að fara að lögbjóða einhverjum samtökum framleiðenda í landinu, hvar þeir skulu hafa aðalskrifstofuhald sitt, eins og meiningin er að gera hér með því frv., sem verið er að ræða. Ég tel það vafasamt fordæmi í meira lagi, og menn hljóta að sjá, að ekki á það sízt við um skrifstofur, sem þurfa að skipuleggja og stjórna síldarvinnslu í landinu, sem er unnin á þessu landshorninu kannske þetta árið eða þessi 5 árin, en flytur svo til allt annarra stöðva nokkru síðar. Ekki sízt tel ég þetta varhugavert í þessu tilfelli, vegna þess að það er staðreynd, að síldarútvegsnefnd er ekki ríkisstofnun, hún fær enga peninga til síns reksturs úr ríkissjóði, ekki eina einustu krónu. Ef hv. Alþ. finnst sérstök ástæða til þess að lögbjóða, hvar aðalskrifstofur slíkra samtaka sem síldarsaltenda og annarra eigi að vera; þá finnst mér, að það ætti að byrja á ríkisstofnun — ef hún er þá til, ég er ekki alveg klár á því, — einhverri stofnun, sem er hrein ríkisstofnun og eðlilegt er, að Alþingi ráði yfir sem slíkri. En síldarútvegsnefnd er ekki, eins og ég segi, ríkisstofnun. Hún hefur sínar tekjur af gjaldi á útflutta saltsíld, og það er samkv. óskum og ég vil segja nær einróma kröfum síldarsaltenda og þeirra, sem eiga þetta verðmæti, saltsíldina, sem þessar breytingar á að gera, og það er þeirra að borga skrifstofuhaldið.

Þá er það eitt af þeim furðulegustu fyrirbærum, sem ég man eftir þau 9 ár, sem ég hef verið á hv. Alþingi, að gera úlfalda úr jafnlítilli mýflugu og þarna er verið að gera. Það er svo furðulegt, hvernig þetta mál hefur þróazt í það að verða eitthvert stórmál hjá mörgum mönnum, bæði innan þings og utan. Það er alveg furðuleg þróun og ég kann náttúrlega á því vissar skýringar, en ég skal ekki þreyta hv. alþm. með því að vera að rekja þær hér. En ég hef áður lýst því yfir, að það, sem til stendur að gera í sambandi við fyrirhugaðar skipulagsbreytingar á skrifstofuhaldinu, er það — og ég skýri frá þessu eftir að ég hef ráðfært mig við mína meðnefndarmenn allflesta og leitað þeirra álits um það, hvort ég gæti ekki hér frá því skýrt og endurtekið það, sem ég hef áður sagt — það, sem til stendur að gera, er að færa kannske einn eða tvo skrifstofumenn af Siglufjarðarskrifstofunni hingað suður. Það er þetta, sem stendur til, og ég segi satt, þegar ég er að halda því fram. Og það er svo furðulegt, að menn skuli láta sér það um munn fara, að það sé verið að ráðast gegn jafnvægi í byggð landsins með því að framkvæma slíkan flutning á einum eða tveim skrifstofumönnum. Ég hygg, satt að segja, að þeir, sem eru miklir áhugamenn um það ágæta málefni, jafnvægi í byggð landsins, að þeir setji það á vissan hátt ekki í mjög skemmtilegt kastljós með því að vera að telja þessa fyrirhuguðu smáskipulagsbreytingu eitthvert dæmi um það, að það eigi að fara að ráðast sérstaklega gegn landsbyggðinni.

Og þá vil ég koma að einum punkti, sem ég vil sérstaklega leggja áherzlu á, og beini ég þá máli mínu fyrst og fremst til þm. Norðurlandskjörd. v., sem af eðlilegum og skiljanlegum ástæðum eru helztu forustumenn þessara aðalskrifstofutillagna. Ég vil spyrja þessa ágætu menn, sem hér eru inni: Finnst þeim það virkilega ráðlegt hagsmuna Siglufjarðar vegna að egna á móti sér í þessu máli nálega alla framleiðendur í síldarsöltuninni? Ég fullyrði: nálega alla framleiðendur í síldarsöltuninni á öllu Norðurlandi, á öllu Austurlandi. Ég hef séð mótmæli, sem seint og um síðir, eftir að hitinn fór að koma í þetta mál, komu frá Siglfirðingum, og ég þekki þetta ákaflega vel, af því að ég er Siglfirðingur. Það hefur tekizt að fá 7 stöðvar á Siglufirði til þess að mótmæla þessu með miklum eftirgangsmunum, og ég gæti sagt af því ýmsar skemmtilegar sögur, þegar verið var að reyna að safna undirskriftunum þar. En stöðvarnar eru 21. Það hefur sem sagt þriðjungur fengizt eftir mikla fyrirhöfn til þess að senda þetta mótmælaskjal. Mér er fyllilega kunnugt um það, og þar get ég haft eftir form. síldarsaltendafélagsins á Siglufirði, Eyþóri Hallssyni, miklum stuðningsmanni hv. aðalforgangsmanns þessa máls, Eyjólfs Konráðs Jónssonar, hv. þm., að hann hefur sagt í áheyrn margra manna, að þetta væri bara píp, sem hann blési á.

Þá skal ég ekki, eins og ég lofaði hér áðan, telja þennan fund, en ég vildi í lokin aðeins beina vinsamlegum tilmælum til míns ágæta formanns þingflokks framsóknarmanna, sem ég hef séð í atkvgr. og veit raunar, að hefur talsverðan áhuga og greiddi hér við 2. umr. atkv. með því, að aðalskrifstofan skyldi verða á Siglufirði. Ég vil benda honum á það, af því að hann hefur skv. þessu mikinn áhuga á að halda stofnuninni eins og nú með sína aðalskrifstofu fyrir norðan, að hann gæti litið í kringum sig víðar og kannske þar, sem honum ekki bæri síður skylda til að gera, en hann á sæti í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins og þar er beinlínis lögboðið skv. 4. gr. l., að ekki einasta skuli verksmiðjustjórn síldarverksmiðjanna sitja á Siglufirði árlangt, heldur allir stjórnarnefndarmeðlimir S. R., meðan verksmiðjurnar eru í rekstri. Nú er það þannig, að tveir eru framkvæmdastjórar Síldarverksmiðja ríkisins. Þeir eru báðir fluttir suður fyrir nokkru, og á Siglufirði stendur stórt og mikið hús, sem annar þessara framkvæmdastjóra bjó í, og það stendur autt mikinn hluta ársins. Ég hygg, að jafnvel þó að samþ. yrði í þessum l. um síldarútvegsnefnd, að aðalskrifstofan skyldi verða á Siglufirði, þá yrði það álíka dauður bókstafur og tilvitnuð 4. gr. l. um Síldarverksmiðjur ríkisins, og eigum við, hv. alþm., að leggja okkur sérstaklega í það að samþykkja lög, sem við vitum, að verður ekkert sérstaklega farið eftir, eins og vinur minn, hv. þm. Norðurl. v., sagði raunar hér í gær, ef ég man rétt — eða fyrradag. Eigum við nokkuð að vera að gera svoleiðis? Ég held ekki. En að endingu þetta: Sem gamall Siglfirðingur vil ég ennþá vara hv. þm. Norðurl. v. við því að ganga svo langt í þessu máli, að það geti leitt til stóróhappa fyrir Siglufjörð. Hér talaði maður á undan mér, hv. þm. Sverrir Júlíusson, og í hans ræðu komu fram ýmsar upplýsingar, sem ég hygg að menn skilji, hvað mundi þýða fyrir Siglfirðinga, ef framkvæmdar yrðu.