19.04.1968
Neðri deild: 103. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1912 í B-deild Alþingistíðinda. (1898)

107. mál, síldarútvegsnefnd

Frsm. minni hl. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Ég hélt að hv. 4. þm. Austf. ætlaði nú að tala, en hann hefur víst hætt við það. Þeir hafa nú ekki alveg einkarétt, þessir hérna úr stjórn síldarútvegsnefndar, á að tala.

Það er ýmislegt hjákátlegt, sem hefur komið hér fram, t. d. eins og að það sé eitthvað hliðstætt að hafa aðalskrifstofuna á Siglufirði og að borgarstjórnin í Reykjavík byggi austur á Loðmundarfirði. Hann er nú bara í eyði, en ég hélt, að það væri söltuð síld á Siglufirði og hann væri ekki í eyði, og hvort er söltuð meiri síld á Siglufirði eða í Reykjavík að sumrinu? Ætli að það sé ekki fyrir norðan? Þegar menn fara að nota svona öfgar í staðinn fyrir rök, þá sér maður, að málstaðurinn er nú ákaflega hæpinn. Eins og ég tók hér fram, þegar ég talaði fyrir hönd minni hl. n., þá er þetta ekkert stórmál og alveg furðulegt, hvernig mennirnir geta blásið sig út af jafnmiklum smámunum og þetta er. Og hann sat nú yfir mér, þessi maður — formaður n., sem var vitnað til í dag, og var að reyna að sannfæra mig um, að þeir mundu stofna sérfélag — jú, jú, ef þetta væri nú ekki alveg orðalagið, sem þeim þóknaðist. Já, það veltir lítil þúfa þungu hlassi þar, en það endaði nú með því, að ég sýndi honum fram á það, að það skipti ósköp litlu, þeir hefðu þetta eftir sínu höfði og mundu líklega gera það áfram eins og hingað til.

Hv. 2. þm. Reykn. sannaði það ósköp vel, að þeir eru ekkert mjög löghlýðnir þarna í síldarverksmiðjustjórninni. En það er einmitt þetta, sem er að gerast. Þessir herrar, sem eru í stjórn síldarverksmiðjanna, eða framkvæmdastjórar, þeir eru fluttir suður, og þeir eru búnir að tapa útgjöldunum af þeim, Siglfirðingar. Þeim finnst straumurinn liggja frá sér og þetta eru sálræn áhrif. Reykjavík hefur bara alveg nóg, og þetta er bara að stela lambi fátæka mannsins og ekkert annað. Það er hér fullt af vænum dilkum, en þeir eiga bara þetta eina lamb, Siglfirðingar, sem hefur verið þeirra stolt og þeirra metnaður. (Gripið fram í.) Á ekki að taka það? Hvað eruð þið þá að burðast við, ef þið ætlið ekki að taka það? Þú varst síðast að segja, að það ætti að flytja þessar tvær hræður, sem eftir væru og borguðu einhver útsvör fyrir norðan, hingað suður. Það væri meiningin með þessu. Það er þetta, sem Siglfirðingar vita.

Hv. 4. þm. Austf. er að flissa og gera að gamni sínu og það er nú af því, að þeir hafa saltað dálítið mikið fyrir austan núna — þá á að flytja allt austur. Og ef það hættir að veiðast fyrir austan, á þá að flytja allt vestur? Og svo er það bezta: þegar ekkert veiðist hér af síld fyrir Suðvesturlandi til að salta, þá vilja þeir samt hafa mennina og skrifstofurnar hér. Annars eru það engar fyrirmyndarskrifstofur hér í Reykjavík að sumrinu. Það er varla mögulegt að ná í mann á þeim. Þeir eru að sóla sig úti um helgarnar í sumarbústöðum eða á flækingi með konu og börn úti um alla landsbyggð. Því geta þeir þá ekki verið úti á landsbyggðinni að sumrinu? Þetta er alveg ámóta, öfgarnar hjá einum og svo staðhæfingarnar hjá öðrum: það á nú að flytja tvo menn suður, og svo austfirzkan hjá þeim þriðja, af því að það veiðist síld hjá þeim þarna í bili.

Það væri rétt, að ég leiðrétti ræðumann, sem talaði hér áðan, ég nennti nú ekki upp þá. Hann sagði, að ég væri í einhverjum kröggum út af óhappi með bátinn og að tryggingarnar mundu ekki borga. Ég er nú ekki sá auli í viðskiptum. Auðvitað læt ég Sjóvá semja við stöðina. Hún borgar allt og ég kem þar hvergi nærri, svo að það hefur nú engin áhrif á mig, viðvíkjandi þessum tryggingargjöldum, sem hann var að tala um. Af því að ég veit, hvað maðurinn er sannorður — hann gerði þetta af þekkingarleysi — þá vildi ég, að þið stæðuð í þeirri meiningu, að það félli enginn blettur á sannleiksást hans með þessu. Þetta hefur bara verið óviljandi hjá hv. 4. þm. Austf.

Já, þeir eru ekki alltaf á skrifstofunni hérna. Það skaut hér einn fram í, að það væru víst ekki margir fundir, sem þeir hefðu haldið fyrir norðan í síldarútvegsnefnd undanfarið. Það var einn, sem var að tala fyrir málinu. Ætli það geti ekki orðið áfram, hvar sem „aðal“ stendur, hvort það stendur hér eða þar, fundirnir yrðu þar, sem þeim hentaði bezt, þar sem þeir eru. Og þá er nú vissara með fiskinn að grípa hann nógu fljótt. Þeir eru líklegir til að grípa hann, þegar þeir eru að flækjast, vinna fáa tíma í viku. Þeir grípa hann líklega anzi fljótt, framkvæmdastjóragarparnir í Reykjavík, eða stjórnin þá. Það má nærri geta, hvort hann verður þá ekki alltaf á skrifstofunni. Annars er það einn háborinn ósiður, þegar menn geta ekki bjálfast til þess að vera þar, sem þeir eiga að vinna, hafa einhverja fína herra, sem hvergi þykjast geta verið nema í höfuðstaðnum, og láta svo hina vera að vinna einhvers staðar, allt eftirlitslaust, og svo gengur allt í slóðaskap og drabbi. Húsbóndinn á að vera á heimilinu og hugsa um sín verk. Hann er ekkert of góður til þess, og ef hann getur ekki gert það, þá hefur hann heldur ekkert með það að gera að vera og heita húsbóndi.

Já, það var verið að tala um að setja skrifstofuna upp á Egilsstöðum. Ég held, að það hafi verið form. ASÍ, sem fann það upp. Annaðhvort á Seyðisfirði eða Egilsstöðum. Jú, þeir væru fljótir að hrifsa silfurfiskinn þar, ef þeir væru uppi á Egilsstöðum. Ég ætlaði ekki að tefja tímann allt of mikið, en þetta er, eins og ég sagði metnaðarmál. Og það er ekkert annað, sem Siglfirðingar fara fram á, en að þið vilduð ekki vera að taka fleiri af þessum mönnum, sem hafa dálítil laun, eiginlega hálfgert af opinberu fé, og flytja þá hér suður, þar sem allt er fullt af launamönnum, þar sem svo að segja öll þjónusta fyrir ríkið fer fram og Reykjavík er auðvitað byggð að mestu leyti á. Það er Reykjavík, sem lifir á að starfa fyrir landsbyggðina. Það fer eiginlega ekkert í gegn, hvorki það, sem fólkið kaupir eða selur, án þess að það sé skattlagt af höfuðborginni. Svo á að flytja þessa launamenn, þessa yfirmenn líka suður og hafa bara þjónana, sem eru í vinnufötum, úti í byggðunum. Þeir þykjast of fínir til að vera þar sjálfir. Það er nú þetta, sem er að gerast. Það er þetta, sem er að verða alveg afskaplegt í okkar þjóðfélagi, að allir, sem geta eiginlega náð landsprófi, þeir bjálfast hingað suður og reyna að verða stúdentar. Svo verða þeir lögfræðingar, eða óbreyttir rukkarar réttara sagt, og hanga hér, og eftir er skilið fólk, sem ekki nær í stúdentshúfuna. Það er þetta manndómsleysi, að ef menn geta eitthvað lært, þá þykjast þeir vera of fínir til að vinna. Það er þetta, sem er að verða stórhættulegt í þjóðfélaginu, að menn, sem eru vel gefnir, þeir eru að reyna að sitja svona 10–12 ár á skóla, flytja svo hingað suður og fá verkefni, sem ekki eru við þeirra hæfi og gerir þá að litlum körlum. Svo hverfa þeir bara í fjöldann og úrkynjast. Það getur enginn verið kóngur nema hafa þegna. Og það þarf hver byggð að hafa sinn höfðingja. Það er ekki sama, hvernig hann er. Og það er miklu meira stolt fyrir þessa menn, sem eru búnir að fá góða menntun, að fara og verða framtaksmenn og héraðshöfðingjar úti á landsbyggðinni heldur en að hlaupa hér um á milli fátækra manna, rukka þá og taka svo um 20% fyrir að innheimta féð. Þeir yrðu að meiri mönnum og þeirra börn á þann hátt. Að maður tali ekki um þá fínu menn, læknana, sem hvergi geta verið nema hér og selja manni recept upp á pillur, sem verða þeim held ég að litlu gagni. Nei, það er nefnilega þessi ómennska, þessi bjálfaháttur að vera svo að segja hræddur við að koma út í golu. En það er bara þetta, sem er að gerast og sem borgarstjórinn hérna í Reykjavík skilur og þess vegna stendur hann með okkur í þessu máli, að Siglfirðingar eiga aðeins eitt lamb, og það er þetta stolt, sem þeir eiga, þessi síld Og þá langar þessa herra, sem hér eru komnir, þá langar til þess að stela þessu lambi, ná í það. Hér er svo þægilegt að koma saman og halda fundi, en þeir halda nú bara fundina eftir sem áður, en ef þeir vildu bara lofa þessum tveimur mönnum að vera kyrrum, fyrst síldarverksmiðjustjórnin er öll orðin svona fín og stór og framkvæmdastjórarnir líka, að þeir geta hvergi verið nema hér, ef þeir vildu bara leyfa þeim að hafa þetta, þeim þarna fyrir norðan, þeir eru ekki svo ríkir. Þeir hafa þó unnið síldariðnaðinn upp hér á landi í byrjun. Svo hvarf þetta til Austfjarða og þá hætti nú vinur minn, hv. 4. þm. Austf., að skilja smábátaútveginn, meðan síldin var þarna, fiskibátana og svoleiðis, þá miðaðist nú allt við síldina. En svo gæti nú skeð, að það lækkaði á þeim risið, ef síldin hyrfi kannske eitthvað annað og kæmi þá kannske meira til Siglufjarðar eða verðið yrði svo lágt eða lítill afli, að það yrði ekkert á henni að græða og þeir þyrftu að fara að lifa á þorskinum, eins og þeir gerðu og þá færu þeir kannske að skilja fátæktina. - En þetta er það, sem Siglfirðingar biðja um. Ég bý uppi í sveit og þetta snertir mig ekkert persónulega. En ég skil bara þeirra hugsunarhátt og tilfinningar, þeir biðja bara um að fá að halda því, sem þeir hafa. Ekkert að reyna að taka neitt frá öðrum. Þetta er sálrænt tilfinningamál, en ekki það, að þetta séu neinar óskapa fjárhæðir, og það er raunverulega réttilega tekið fram hjá þeim mönnum, sem hafa talað á móti þessu, að þetta er svo ósköp auvirðilegt og lítið. En ef það er auvirðilegt og lítið fyrir Siglfirðinga, ætli það sé þá ekki auvirðilegt og lítið fyrir þessa háu herra sjálfa og allar þær stofnanir og ráð og nefndir og þjónustu, sem hér fer fram? Það er nefnilega eins og með ríka manninn; hann skilur ekkert í því, að fátæka manninn muni um það eina lamb, sem hann á. Hann á sjálfur mörg lömb, en hann verður endilega að taka þetta lamb.