17.04.1968
Sameinað þing: 53. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1955 í B-deild Alþingistíðinda. (1906)

Almennar stjórnmálaumræður

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Á þessu ári verða 10 ár liðin síðan núverandi stjórnarflokkar bundust samtökum um það að freista þess að endurreisa efnahagslíf þjóðarinnar úr því öngþveiti, sem vinstri stjórnar ævintýrið hafði komið því í. Það er því ekki úr vegi að horfa um öxl og gera sér grein fyrir því, sem áunnizt hefur á þessum áratug. Að mínu áliti eru lífskjör þjóðarinnar og þær breytingar, sem á þeim hafa orðið, bezti mælikvarðinn á það, hvort þokað hefur í framfaraátt eða hið gagnstæða. Og hvað sem öllu öðru líður, er enginn vafi á því, að lífskjör þjóðarinnar hafa batnað mjög á þessum tíma, þannig að varla er ofsagt, að um byltingu hafi verið að ræða. Það er að vísu ógerningur að gefa það til kynna með neinni einni tölu, hvað mikið lífskjör almennings hér á landi hafa batnað síðan í árslok 1958. Að mínu áliti gefur það þó mikilvæga vísbendingu í því efni, að bera saman niðurstöður neyzlurannsókna þeirra, sem vísitölugrundvöllur sá, sem gekk í gildi um s. l. áramót, byggist á, og þeirra neyzlurannsókna, er hinn eldri grundvöllur, sem einmitt var lögfestur í ársbyrjun 1959, var byggður á. Fyrri neyzlurannsóknin var að vísu gerð á árunum 1953–1954. En þar sem engar verulegar breytingar munu hafa orðið á lífskjörum almennings frá þeim tíma þar til vísitölugrundvöllurinn var lögfestur, ætti hann að gefa nokkuð rétta mynd af lífskjörum launafólks, eins og þau voru í upphafi umrædds tímabils. Síðari neyzlurannsóknin var framkvæmd á árunum 1964–1965, en sé látin mætast sú hækkun raunverulegra tekna launþega, sem varð frá þeim tíma til ársins 1967, og sú kjaraskerðing, sem orðið hefur síðan á s. l. hausti, sem ekki ætti að vera fjarri lagi, ætti nýi vísitölugrundvöllurinn að gefa nokkurn veginn rétta mynd af lífskjörum launafólks eins og þau eru í dag. Báðar rannsóknirnar byggjast á upplýsingum um neyzluútgjöld 80–100 launþegafjölskyldna, en það úrtak hefur að dómi kauplagsnefndar og Hagstofunnar verið talið nægilega stórt til þess að gefa viðunandi rétta mynd af neyzluvenjum launafólks, eins og þær höfðu verið á hverjum tíma. Ef niðurstöður þessara tveggja neyzlurannsókna eru bornar saman, kemur í ljós, að ársútgjöld meðalfjölskyldu samkv. eldri grundvellinum námu að frádregnum fjölskyldubótum 143 þús. kr. með því verðlagi, sem var um s. l. áramót, það voru þær árstekjur, sem þurfti til þess að geta veitt sér þau lífskjör, sem meðalfjölskylda veitti sér samkv. eldri neyzlurannsókninni. En samkv. nýju neyzlurannsókninni námu útgjöld meðalfjölskyldu um s. l. áramót reiknuð á sama hátt 265 þús. kr. eða 122 þús. kr. meiru en það, sem þurfti til þess að veita sér það sama og meðalfjölskyldan veitti sér samkv. eldri grundvelli. Samkv. þessu ættu rauntekjur meðallaunþegafjölskyldu að hafa aukizt um nálægt 85% á þessu tímabili. Auðvitað er hér um mjög grófan mælikvarða að ræða, og sennilega nokkurt ofmat á þeirri aukningu rauntekna, sem átt hefur sér stað, þar sem fleiri útgjaldaliðum var sleppt úr eldri vísitölugrundvellinum en þeim nýja, auk þess sem raunverulegur vinnutími kann að hafa lengzt á tímabilinu, þó að það vegi hins vegar á móti þessu tvennu, að meðalstærð vísitölufjölskyldunnar hefur minnkað og tekjur, skattar og útsvör voru tekin með í eldri grundvellinum en ekki þeim nýja. Samt gefur þessi samanburður alveg ótvírætt til kynna, að launafólk hefur öðlazt stórkostlegar kjarabætur á þessu tímabili, varla undir neinum kringumstæðum minni en 50–60%. Samanburður á skiptingu heimilisútgjalda á einstaka liði gefur einnig glöggt til kynna þær miklu kjarabætur, sem hafa átt sér stað. Samkv. eldri grundvellinum námu útgjöld til kaupa á matvöru og óáfengri drykkjarvöru 45% heildarútgjalda, en aðeins 28½% samkv. þeim nýja. En margir telja það einhvern bezta mælikvarðann á lífskjör þjóða, hver hlutdeild matvörukaupa er í heildarútgjöldum, þannig að þeim mun lægri, sem sú hlutdeild er, þeim mun betri séu lífskjörin. Á sama tíma uxu útgjöld vegna hljóðvarps, sjónvarps, skemmtana og þess háttar úr 2.5% í 8.2% og útgjöld vegna einkabifreiðar, fargjalda og þess háttar úr 2.7% í 10.3%. Í því sambandi ber þess þó að gæta, að útgjöldum vegna eigin bifreiðar var sleppt úr eldri grundvellinum, en þá áttu aðeins 19% þátttakenda í neyzlurannsókninni eigin bíl, en 55% samkv. þeim nýja. Nú munu hv. stjórnarandstæðingar segja sem svo, að vitanlega hafi lífskjörin batnað verulega á þessum tíma, en það sé hvorki stefnu ríkisstj. né aðgerðum hennar í efnahagsmálum að þakka, heldur sé það eingöngu vegna hagstæðs verzlunarárferðis, meiri síldarafla og annarra utanaðkomandi áhrifa. Auðvitað ber ekki að vanmeta þann þátt, sem þessar ytri orsakir hafa átt í þeirri aukningu þjóðartekna og þjóðarframleiðslu, sem auðvitað hefur verið undirstaða aukinnar velmegunar. En á hinu má ekki missa sjónar, að skynsamleg stefna í efnahagsmálum kemur þar einnig mjög við sögu, og því til stuðnings vil ég leyfa mér að benda á eftirfarandi þrjú atriði.

Það er í fyrsta lagi a. m. k. ósannað mál, að hinn stóraukni síldarafli undanfarin ár sé vegna aukinnar fiskigengdar í sjónum. Það, sem þar hefur haft úrslitaþýðingu, eru framfarir í veiðitækni, betri skip og fullkomnari veiðarfæri. Hagnýting þeirrar tækni hefur vitanlega haft mikinn kostnað í för með sér, en ég leyfi mér að fullyrða, að í þann kostnað hefði aldrei verið lagt, ef gamla uppbótakerfinu, sem hélzt fram til 1960, hefði verið haldið áfram, eins og hv. stjórnarandstæðingar vildu þá. Þessar uppbætur voru mjög mismunandi eftir því, sem einstakar greinar útflutningsframleiðslunnar voru taldar þurfa. Þannig voru t.d. jafnvel eftir þá lagfæringu, sem þó var gerð á uppbótakerfinu, með bjargráðunum sælu vorið 1958, greiddar aðeins 55% bætur á Norður- og Austurlandssíld, en á aðrar afurðir allt að 150% eða meira. Hinar svokölluðu sérbætur á sumarveiddan smáfisk eða „framsóknarýsuna“, sem gárungarnir nefndu svo, voru fræg dæmi um það. Þessar háu bætur á afurðir, sem skiluðu þjóðarbúinu litlum arði, gátu gert það að verkum, að frá sjónarmiði einstaklinga var hagkvæmara að stunda slíka framleiðslu en t.d. síldveiðar, sem voru stórkostlega skattlagðar með því að skipa þeim í lægsta bótaflokk. Það eru því engar líkur á, að útvegsmenn hefðu séð sér fært að leggja í hinn mikla tilkostnað við að taka upp nýja síldveiðitækni að óbreyttu uppbótakerfinu. Frá þeirra sjónarmiði hefði það verið miklu öruggara fjárhagslega að halda áfram að veiða smáýsuna.

Í öðru lagi má á það benda, að þótt engan veginn beri að vanmeta hagstæða þróun verðs útflutningsafurða okkar á heimsmarkaðinum fram á mitt ár 1966, hefur viðskiptafrelsið tvímælalaust átt sinn þátt í bættum viðskiptakjörum okkar gagnvart útlöndum, sem hafa verið svo mikilvægur þáttur í auknum þjóðartekjum okkar. Meðan vöruskiptaverzlunin var ríkjandi, urðum við að kaupa sem mest af þeim varningi, sem við þurftum að flytja inn, í þeim löndum, þar sem markaður var fyrir útflutningsafurðir okkar, þótt við gætum fengið þessar vörur á hagstæðara verði annars staðar. Með því að gefa innflutningsverzlunina að mestu frjálsa, hafa áðurnefnd tengsl verið rofin, þannig að nú er hægt að flytja inn vöruna frá þeim löndum, sem bjóða hana ódýrast og óháð því, hvort við seljum nokkuð til þeirra landa eða ekki. Ég tel víst, að þetta hafi ekki átt lítinn þátt í þeim bættu viðskiptakjörum, sem við höfum lengst af notið á þessu tímabili.

Þá er ótalið þriðja atriðið, það, sem að neytendunum snýr og ekki hefur að mínu áliti átt hvað minnstan þátt í bættum kjörum þeirra. En með því á ég við hið frjálsa neyzluval, sem komið hefur verið á með afnámi innflutningshaftanna. Áður voru það opinberar nefndir, sem réðu því, hvað fékkst flutt inn og hverjir máttu flytja inn. Nú er það hins vegar fólkið sjálft og val þess, eins og það kemur fram á markaðinum, sem ákveður þetta. Af hálfu stjórnarandstæðinga hefur því að vísu verið haldið fram, að verzlunarfrelsið væri aðeins heildsölunum í hag, en almenningi nánast til óþurftar, og virðist það vera mat þeirra, að slíkur hugsunarháttur eigi sér talsverðan hljómgrunn meðal verkalýðsins. Ég skal ekki fullyrða um það, hvort svo sé eða ekki, en minna má á það, að um s. l. aldamót, þegar fyrst fór að myndast vísir að verkalýðshreyfingu hér á landi, var öðru vísi á þetta litið af forystumönnum verkalýðsins á þeim tíma. Þá var það fyrirkomulag ríkjandi í launagreiðslum, að fólkið fékk kaup sitt greitt ekki í peningum, heldur úttekt hjá atvinnurekanda sínum, sem gjarnan rak verzlun ásamt útgerð eða öðrum atvinnurekstri. Þá var það aðalbaráttumál verkalýðsins að fá kaup sitt greitt ekki í úttekt, heldur í peningum, sem væru til frjálsrar ráðstöfunar til kaupa á varningi samkv. eigin vali og í þeirri verzlun, sem bauð bezt kjör. Það kostaði harða baráttu að fá þessu framgengt, því að atvinnurekendur þeirra tíma hafa vafalaust sagt við verkamenn sína og sjómenn, að það yrði þeim sjálfum fyrir verstu að fá kaup sitt til frjálsrar ráðstöfunar, því að þá mundu þeir freistast til þess að eyða því í gráfíkjur og döðlur, sem mér skilst samkv. frásögnum eldra fólks, að hafi verið tertubotnar þeirra tíma, eða í annan óþarfa, sem keppinautar þeirra hefðu á boðstólum. En það er í rauninni þessi hugsunarháttur selstöðukaupmannanna, sem fram kemur hjá hv. stjórnarandstæðingum, ef þeir gagnrýna viðskiptafrelsið, þótt hann komi fram í nokkuð dulbúinni mynd vegna breyttra aðstæðna frá því, sem var um s. l. aldamót. En þeir segja alveg eins og selstöðukaupmennirnir, að þegar fólkið fái að ráðstafa fjármunum sínum eftir eigin vild, kaupi það útlenda tertubotna og kex og annan óþarfa og geti þannig komið þjóðarbúinu á vonarvöl. Það þurfi því að takmarka þetta frelsi með því að setja að nýju á fót gjaldeyrisúthlutunarnefndir, sem ákveði, hvaða erlendur varningur megi vera á boðstólum fyrir landslýðinn, og hverjir megi verzla með hann. En erum við nú ekki flest í rauninni þannig gerð, að við mundum frekar kjósa nokkru lægri tekjur, sem við hefðum til frjálsrar ráðstöfunar, en hærri tekjur, sem við aðeins mættum ráðstafa eftir fyrirmælum einhverrar opinberrar n., jafnvel þótt hinir ágætustu menn skipuðu hana. Það er því skoðun mín, þegar þjóðarbúið verður fyrir áföllum svipuðum þeim, sem nú hafa átt sér stað, þannig að kjaraskerðing er óhjákvæmileg, að betra sé fyrir launafólk að taka hana á sig í mynd skertrar vísitöluuppbótar, en njóta áfram hins frjálsa neyzluvals heldur en láta úthlutunarnefndir ákveða það, hvað fólk megi veita sér og hvað ekki.

En þó að mikið hafi áunnizt í bættum lífskjörum þjóðinni til handa á þeim 10 árum, sem liðin eru síðan samstarf núverandi stjórnarflokka hófst, og því megi ekki gleyma, mun þó flestum ofar í huga sá mikli vandi, sem nú er við að etja í atvinnulífi okkar, en hann á rót sína að rekja til óviðráðanlegra ytri orsaka, þar sem er verðfall útflutningsafurða og lakari aflabrögð á s. l. ári en verið hafa undanfarin ár. Þjóðin hefur því minni verðmæti til ráðstöfunar en áður og verður því bæði að skerða neyzlu sína eða lífskjör og draga nokkuð úr framkvæmdum. Þessu getur enginn neitað, heldur ekki stjórnarandstaðan. En stjórnarandstæðingar segja, að allur þessi vandi mundi verða miklu léttbærari, ef þeirra ráðum væri fylgt og skipt um stefnu, eins og þeir orða það. En takið eftir því, hlustendur góðir, að þótt stjórnarandstæðingar muni í þessum umr. verða margorðir um það, að eitt og annað fari aflaga, og muni brýna raust sína á fullyrðingum um það, að öllu megi kippa í lag með því að breyta um stefnu, þá munu þeir ekki fara mikið út í það að gera ykkur grein fyrir því, í hverju þessi nýja stefna eigi að vera fólgin. Form. Framsfl., sem hér talaði áðan, vék að vísu að því með nokkrum orðum, hver væri stefna Framsfl. En allt, sem hann sagði um það, var svo almenns eðlis, að ég held ekki, að neinn hafi orðið nokkru nær um það, hverjum tökum flokkurinn vill taka efnahags- og atvinnumálin a. m. k., og kæmi mér mjög á óvart, ef aðrir, sem á eftir honum tala, bættu þar um. Það vantar sem sagt botninn í þá vísu, sem stjórnarandstæðingar söngla einum rómi.

En að því leyti, sem þeir ympra á ákveðnum ráðstöfunum til lausnar þeim vanda, sem atvinnuvegirnir eiga við að stríða, þá virðast þær helzt eiga að vera í því fólgnar að sjá atvinnuvegunum fyrir auknu fjármagni til reksturs og fjárfestingar með auknum útlánum Seðlabankans. Vissulega er fjármagnsskorturinn alvarlegt vandamál. En sá vandi verður ekki leystur á þann einfalda hátt að auka útlán Seðlabankans. Það myndast ekkert fjármagn í Seðlabankanum, heldur aðeins með sparnaði einstaklinga, fyrirtækja eða opinberra aðila. Seðlabankinn getur áð vísu gefið ávísanir á þau verðmæti, sem skapast í framleiðslunni, og verði þær ávísanir of margar, leiðir það til verðþenslu og öngþveitis í gjaldeyrismálum, án þess að nokkur vandi sé að öðru leyti leystur. Þessi sannindi voru hv. þm. Eysteini Jónssyni ljós, er hann flutti fjárlagaræðu sína haustið 1955. En þá komst hann m. a. svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Frelsi í viðskiptum og framkvæmdum verður t.d. ekki til lengdar viðhaldið nema tekið sé öruggum tökum á peningamálunum og þau tök notuð til þess að styðja þetta frelsi. Jafnvel þó að gera þurfi ýmsar ráðstafanir í því skyni, sem verða hlyti til þess, að allir fengju ekki öllu fram komið, sem þeir vildu helzt.“

Tími minn leyfir ekki, að ég fari með fleiri tilvitnanir úr þessari ágætu ræðu, en hún er á sínum stað í alþingistíðindum, og þó að margt hafi breytzt síðan hún var flutt, fyrir rúmum 12 árum, er hún enn þann dag í dag hollur lestur öllum þeim, sem kunna að hafa trúað boðskap þeim, sem hv. framsóknarmenn fluttu fyrirsíðustu kosningar. En hann fólst í því, að hægt væri að losna við þær aðgerðir í peningamálum og fjármálum, sem vissulega valda sínum óþægindum, en eru óhjákvæmileg skilyrði viðskiptafrelsisins, án þess þó að þurfa að grípa til hafta að nýju. Þetta var það, sem framsóknarmenn nefndu „þriðju leiðina“.

Vafalaust er þetta líka sá kosturinn, sem flestir mundu helzt velja, ef hann væri til. En eins og Eysteinn Jónsson sýndi einmitt með glöggum rökum fram á í áðurnefndri ræðu, er sá galli á „þriðju leiðinni“, að hún er ekki til, og þau rök standa óhögguð enn. Það er vissulega við mikinn vanda að etja í atvinnumálum okkar Íslendinga í dag, og engum dettur í hug að neita því, að þær ýmsu ráðstafanir, sem ríkisstj. hefur gert á s. l. vetri, hafa haft í för með sér margvíslega kjaraskerðingu og óþægindi. Við, sem þær ráðstafanir höfum stutt, teljum þó, að þær hafi verið nauðsynlegar til þess að forða öðru verra, nefnilega stórfelldu atvinnuleysi og samdrætti. Eðlilegt er þó, að allar slíkar ráðstafanir verði umdeildar, og sérhver ábending um einhver önnur hugsanleg úrræði verðskuldar athugun, frá hverjum, sem hún kemur. En neikvætt nöldur eins og stjórnarandstaðan hefur tamið sér ásamt almennri fullyrðingu um það, að það þurfi stefnubreytingu án þess að gefa nokkuð í skyn um það, í hverju sú stefnubreyting eigi að vera fólgin, er ekki framlag til þess að þoka málefnum þjóðarinnar fram á við. En ég er samkvæmt áðursögðu ekki bjartsýnn á það, að hv. stjórnarandstæðingar muni í þessum umr. bæta ráð sitt í þessu efni og botna vísu sína. En ef slíkir óvæntir hlutir skyldu ske, væri það vissulega fagnaðarefni. — Góða nótt.