17.04.1968
Sameinað þing: 53. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1963 í B-deild Alþingistíðinda. (1908)

Almennar stjórnmálaumræður

Jón Skaftason:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það vill svo til, að þingmannsaldur minn er nákvæmlega jafnlangur valdatímabili ríkisstj. Ég hef stundum reynt að gera mér grein fyrir helztu breytingunum í fari stjórnarinnar og starfsaðferðum á þessum langa tíma, og þar sem mér finnst ekki ósennilegt, að fleiri hafi hugleitt það mál, langar mig til þess að víkja nokkuð að því til íhugunar. Efnahagslöggjöfin í ársbyrjun 1960 var um margt róttæk breyting frá þeirri stefnu, er fyrri ríkisstjórnir höfðu fylgt, sem m.a. hafði einkennzt af víðtæku uppbóta- og styrkjakerfi, vaxtalágum stofnlánum atvinnuveganna, nokkrum takmörkunum á gjaldeyrisnotkun og fjárfestingu og verðtryggingu launa. Um hina nýju stefnu sagði svo í stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar: „Markmið hinnar nýju stefnu er að skapa framleiðslustörfum og viðskiptalífi landsmanna traustari, varanlegri og heilbrigðari grundvöll en atvinnuvegirnir hafa átt við að búa undanfarandi ár.“ Þetta átti að tryggja með stórfelldri gengisfellingu, afnámi verðtryggingar kaupgjalds, haftaminni verzlun og hækkun vaxta, er leiddi til jafnvægis í peningamálum. Mörgum þóttu till. þessar nokkuð djarfar og vafasamar. Samtíma varð mikil gengislækkun, og stórfelld vaxtahækkun var nýmæli í efnahagssögu okkar. En hvað um það, stefnan var mörkuð, og ríkisstj. tók að sér ótvírætt forystuhlutverk á þjóðarbúinu og leitaðist við að beina uppbyggingunni í ákveðinn farveg. Hún þorði að stjórna, var uppáhaldsslagorð stuðningsmanna hennar í öndverðu. Að sumu leyti var sæmilega af stað farið, og lánið hefur á ýmsan hátt leikið við stjórnina, mikil árgæzka til lands og sjávar og afburða hagstæð viðskiptakjör við útlönd meiri hluta stjórnartímans. En skyndilega er eins og grunnurinn bresti og erfiðleikarnir blasa hvarvetna við. Nálega allur atvinnurekstur berst í bökkum og daglaun tugþúsunda launþega hafa aldrei verið fjær því að nægja fyrir nauðþurftum en nú. Gjaldeyrissjóður minnkar um meira en helming á einu ári eða á annan milljarð króna, og aukning sparifjár á s. l. ári varð tæpur þriðjungur þess, er varð 1965. Hvað hefur skyndilega breytt hinni glæstu mynd, sem upp var dregin af ástandinu dagana fyrir kjördag á s. l. ári? Mikið verðfall á erlendum mörkuðum og minni afli segja stjórnarliðar. En nægir sú skýring? Er það ekki staðreynd, að meðalútflutningsverð s. l. árs er hærra en árið 1963, og í flestum tilfellum hærra en 1964, sem voru góð ár í þessu tilliti? Var líka aflamagn s. l. árs ekki það fjórða hæsta í Íslandssögunni? Hér vantar því frekari skýringar. Á sjálf stjórnarstefnan engan þátt í óförunum eða starfsaðferðir hennar? Lítum á það nánar.

Markverðasta breytingin í fari ríkisstj. á löngum valdaferli er uppgjöfin á því forystuhlutverki, er hún tók að sér í ársbyrjun 1960. Hún virðist nú fórnarlamb þeirra kringumstæðna, sem til staðar eru hverju sinni, og er vanmáttug í viðureign við stærstu vandamál, lætur reka. Allflestir munu sammála um, að meginviðfangsefni allra ríkisstjórna sé að leggja þann grundvöll og mynda þá umgjörð, er efnahagsstarfsemi þróast bezt við. Mikill hagvöxtur og góð lífskjör eru markmiðin, um leiðir er deilt, en ekki sjálft takmarkið. Hátt á þriðja áratug hefur dýrtíðarvöxturinn verið bein orsök flestra okkar efnahagsvandræða. Stöðvun verðbólgu á því að vera meginskylda og takmark allra ríkisstjórna. Ríkisstj. hefur illa brugðizt í þeim efnum, og tjóar ekki nú að kenna öðrum um ófarirnar. Verðlagshækkanir hafa sum stjórnarár hennar verið tvöfalt og stundum þrefalt á við það, sem er í helztu viðskiptalöndum okkar. Framleiðslukostnaður útflutningsatvinnuveganna hefur vaxið að sama skapi, og þegar erlenda markaðsverðið dugir ekki til er gripið til gengisfellinga og uppbóta. Þrívegis hefur gengið verið fellt á valdatímabili stjórnarinnar, nú síðast 24. nóv. um 25%, og þó eru uppbætur miklu minni nú en þær voru fyrir gengisfellingardag. Ég er ekki í vafa um, að of mikil og mjög oft röng fjárfesting er meginorsök þessarar óheillaþróunar ásamt gegndarlausri eyðslu, bæði í ríkisrekstrinum og miklu víðar. Það er einmitt á þessum mikilvægu sviðum, sem viðreisnarstefnan hefur brugðizt hrapallegast. Verðlagsþróunin og rýrnandi gildi peninga hefur ýtt undir hvers kyns fjárfestingu, skipulagslausa og án skynsamlegrar yfirsýnar. Ríkisstj. horfir aðgerðalítil á og hefur allt til þessa reynzt ófáanleg til þess að koma heildarskipulagi á framkvæmdir, er miðist við getu þjóðarinnar og þarfir. Þess eru jafnvel dæmi, að hún hefur haft forystu um að stórauka á þensluna eins og gert var kosningaárið 1963, er 240 millj. kr. brezku láni var dembt á yfirspenntan framkvæmdamarkað, enda hefur verðbólgan aldrei í sögunni tekið svo stórt stökk upp á við sem það ár. Af þessu m. a. erum við nú að súpa seyðið. Nú er unnið að því fyrir forystu ríkisstjórnarinnar að fækka frystihúsum, þar sem þau eru talin of mörg. Jóhannes Nordal seðlabankastjóri lýsti þeirri skoðun sinni fyrir nokkru að fækka bæri ríkisbönkunum með því að sameina Útvegsbankann og Búnaðarbankann og einnig fækka einkabönkunum. Þessir aðilar hafa þó fjárfest svo hundruðum millj. skiptir í dýrum húsum og útbúnaði.

En gildir bara eitthvað sérstakt um hagræðingarþörf þessara aðila? Hvað finnst mönnum um rekstur ríkisins, olíufélaganna, tryggingafélaganna dg innflutningsverzlunarinnar, svo nokkur dæmi séu tekin? Þarf engrar hagræðingar þar við? Fleiri dæmi um forystuleysið vil ég nefna, sem landsfólkið geldur nú í lakari lífskjörum. Allir höfuðatvinnuvegir þjóðarinnar, sjávarútvegur, iðnaður og landbúnaður, hafa byggzt upp undangengin veltiár, án þess hagræðis og þeirrar hagkvæmni, sem heildaráætlunargerð veitir. Í þeim öllum eru því í dag miklir skakkar, sem stórfé og fyrirhöfn kostar að lagfæra. Markaðsmálin eru afar þýðingarmikil. Þar er hlutur hins opinbera í algeru lágmarki og það, sem áunnizt hefur í þeim málum, annarra verk. Þó gæti ríkisvaldið veitt dýrmæta aðstoð án allt of mikils kostnaðar, m. a. með því að endurskipuleggja starfsemi utanríkisþjónustunnar og færa hana í hagnýtara form eins og allar menningarþjóðir hafa gert. Fyrir um tveim árum var samþ. þáltill. frá mér um markaðsmálefni. Viðskiptamálaráðuneytið tók að sér að vinna að málinu. Á síðasta þingi og eins þessu hef ég spurt viðskmrh., Gylfa Þ. Gíslason, hvernig þessi mál standi, og hefur hann talið niðurstöðu vera á næsta leiti. Enn þá hefur engin lokaskýrsla verið lögð fram á Alþ. till.

En það er ekki nóg, að forystuna vanti. Stefnuleysi og hringlandaháttur í stærstu málum virðist hafa heltekið ríkisstj. Því til sönnunar nefni ég aðeins eitt dæmi. Árið 1960 fékk ríkisstj. lögfest bann við verðtryggingu launa. Í samningnum 1964, sem stjórnin átti aðild að, var upp tekin verðtrygging launa. Undir árslok 1967 voru verðtryggingarákvæði um kaupgjaldssamninga felld niður með lagaboði, en í marz s. l. tekin upp á ný í samningum, sem ríkisstj. átti aðild að.

Tímans vegna læt ég þetta nægja. Fátt er þjóðum, sem skammt eru á veg komnar með atvinnuuppbygginguna, þarfara en einbeitt og víðsýn forysta. Íslendingar gengu flestum þjóðum síðar að þessu verkefni sökum ófrelsis, fátæktar og þess kunnáttuleysis, er einangrun fyrri tíma skapaði. Öll mistök eru dýr í uppbyggingarstarfinu og seinka því, að við stöndum svipað og aðrar iðnvæddar þjóðir, eftir því sem aðstæður frekast leyfa. Nýverið las ég eftirtektarverða grein í enska tímaritinu „The Economist“. Þar var því haldið fram og vel rökstutt, að yfirburðir Bandaríkjanna í framleiðsluafköstum stöfuðu ekki af því, að Bandaríkjamenn hefðu fleiri tæknimenntuðum sérfræðingum á að skipa hlutfallslega en Bretar og fleiri þjóðir, heldur af því, að þeir hefðu langtum fleiri betur þjálfuðum og menntuðum stjórnendum og starfsfólki á að skipa í atvinnulífinu en aðrir. Af þessu leiði, að þeir séu öðrum fljótari m.a. að hagnýta tækninýjungar í atvinnulífinu, þar sem ríkari skilningur sé á gildi þeirra hjá þeim. Tímaritið telur, að Sovétríkin hafi komizt að svipaðri niðurstöðu og undirbúið stórauknar ágóðagreiðslur til stjórnenda og starfsfólks þeirra fyrirtækja, sem bezt eru rekin. Væri ekki þörf á aðgerðum ríkisvaldsins í þessum efnum, m. a. með því að koma fræðslukerfinu í hagnýtara nútímaform?

Lítið bólar á aðgerðum í þeim efnum. Ég minnist þess, að árið 1966 skilaði stjórnskipuð n., sem ég átti sæti í, frv. til sjútvmrh. um stofnun og starfrækslu fiskiðnskóla. Það frv. hefur ekki enn þá séð dagsins ljós á hv. Alþ. Er það ekki kaldranalegt dæmi um úrelta fræðslulöggjöf, að á sama tíma og krafizt er fjögurra ára sérnáms til þess að öðlast full réttindi við að klippa hár af höfði manns, þá eru nánast engar kröfur gerðar til sérmenntunar þeirra manna, sem stjórna vinnslu fiskafurða, en fiskvinnslan er einn veigamesti þátturinn í íslenzku atvinnulífi, og oft eru hundruð milljóna verðmæti í húfi? Hversu lengi má svo standa? Það verður að mínu viti aldrei um of undirstrikað, að þekking og aftur þekking ræður mestu um afkomu okkar, því almennari, sem hún er, þeim mun betra. Til þess að svo geti orðið, þurfa ráðamenn þjóðfélagsins að gefa sér tíma til þess að brjóta þessi mál til mergjar og skipa fræðslumálunum á heppilegan máta. Á það skortir ábyggilega mjög, þótt miklum fjármunum sé til þeirra varið.

Herra forseti. Talið er, að þjóðin telji um 400 þús. manna um næstu aldamót. Það er fagnaðarefni og því fylgja auðsæir kostir fyrir þjóðarbúskapinn. Á okkur, sem komnir erum til manndómsára, hvílir sú skylda að búa í haginn fyrir þessa óbornu Íslendinga og æsku landsins. Vaxandi þjóð þarfnast sífelldrar uppbyggingar og nýrra tækifæra til menntunar. Þetta krefst átaks, ekki sízt markvissrar stefnu í atvinnumálum, af því að öll okkar afkoma byggist á gengi eigin atvinnuvega. Þessa skulum við vel minnast. — Góða nótt.