18.04.1968
Sameinað þing: 55. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2006 í B-deild Alþingistíðinda. (1918)

Almennar stjórnmálaumræður

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Ég mun að þessu sinni eingöngu tala um landbúnaðarmál.

Þegar 6 manna n. hóf störf á síðasta hausti, lá það fyrir, að rekstrarkostnaður landbúnaðarins hefði stórhækkað, afurðir minnkað og meðaltekjur viðmiðunarstéttanna hækkað um 22–26%. Það lá á borðinu, að verðlagningin frá haustinu 1966 skilaði bændum ekki þeim tekjum, sem lög ætlast til, ósamræmi þarna á milli aldrei verið meira. Meðaltekjur bænda árið 1966 voru meira en 33% minni en viðmiðunarstéttanna, þótt fullt tillit sé tekið til þeirra hliðarráðstafana, sem fylgdu samningunum haustið 1966. Þrátt fyrir allar þessar staðreyndir lögðu viðsemjendur bænda í 6 manna n. til, að verðlagsgrundvöllurinn yrði lækkaður til muna frá haustinu áður. Það kann að vera að almenningi sé það hulið, hvaðan þessar till. voru komnar. En ef menn virða fyrir sér framhald þessara mála og hvernig þau standa nú, þá hljóta augu manna að opnast. Svo var úrskurðurinn upp kveðinn 1. desember, 5 vikum síðar en dæmi eru til um áður. Og hver varð útkoman? Verðlagsgrundvöllurinn hækkaði um 0.23%, en hefði átt að hækka um 23% til þess að bændur næðu kaupi sínu. Í grg. þeirri, sem yfirdómnum fylgdi, er það viðurkennt, að úrskurðurinn um vinnuliðinn sé byggður á fráviki frá 4. gr. framleiðsluráðslaganna. Úrskurðurinn er því ekki byggður á gildandi lögum.

En hvernig skal dæma? Ef ekki liggja fyrir fullar upplýsingar að mati dómenda, á þá ekki að miða úrskurði eða dóma við það, sem næst verður komizt? Á það sér hliðstæðu, að dómarar víki sér undan því að byggja dóm á lögum, en í stað þess sé ógildur samningur látinn taka gildi á ný, þó að aðstæður séu gjörbreyttar frá því að samið var? Fyrst yfirnefnd óskaði eftir breytingu á framleiðsluráðslögunum, sbr. grg. hennar, því óskaði hún ekki einnig eftir, að ákvörðun um vinnuliðinn yrði líka breytt, fyrst hún taldi sig ekki geta úrskurðað hann eftir lögunum? Hefði verið farið eftir úrtaki viðmiðunarstéttanna, sbr. eldri ákvæði l., átti vinnuliðurinn að hækka a. m. k. um 22.2%, sem þýddi 13.1% á verðlagsgrundvellinum. Eftir slíka lagabreytingu hefði ekki verið hægt að komast hjá hækkun til bænda. Það mun skýra vinnubrögðin. Dómsniðurstaðan var, að samningur, sem gerður var haustið 1966, skyldi gilda út þetta verðlagsár. Þar af leiðir, að hliðarsamningarnir, sem þá voru gerðir sem lausn á verðlagsmálum bænda það ár, hljóta að fylgja með í þessum dómi. Þeir voru hluti af tekjum bænda það ár, án þeirra hefði verðið á afurðunum orðið hærra. Verð á ull og gærum hefur fylgt heimsmarkaðsverði og verð á kjöti breytzt eftir því. Hefði verið verðlagt á réttum tíma, þurfti að flytja frá ull og gærum, vegna verðfalls erlendis, um 50 millj. á kjötið, miðað við síðasta verðlagsár. Eftir boði ríkisstj., sbr. grg. yfirnefndar, var verð á ull og gærum ákveðið eftir hinu breytta gengi krónunnar og miðað við það, að gengishagnaðurinn af útfluttum landbúnaðarvörum færi til að verðbæta þær vörur. Þó var búið að lögfesta, að allur gengishagnaður af landbúnaðarvörum ætti að fara til landbúnaðarins, en ekki til þess að greiða niður verð á kjöti á innanlandsmarkaði. En þessi ráðstöfun á gengishagnaðinum er ekkert annað.

Aukafundur Stéttarsambands bænda var haldinn í febrúarmánuði s. l. Þar var yfirdómnum harðlega mótmælt og samþ. m. a. að bera eftirfarandi fram við ríkisstj.: Að bændum verði tryggt grundvallarverð á framleiðslu yfirstandandi verðlagsárs og á þær birgðir framleiðsluvara, sem til vöru við upphaf þess. Að lausaskuldum bænda verði breytt í föst lán með hóflegum vöxtum. Að gefinn verði frestur á afborgun stofnlána. Að tilbúinn áburður verði greiddur niður, þannig að hann hækki ekki frá fyrra ári. Að felld verði brott gengistrygging á stofnlánum vinnslustöðva og ræktunarsambanda. Að tollar á landbúnaðarvélum og varahlutum til þeirra verði felldir niður eða lækkaðir. Að ríkisstj. verðbæti ull og gærur af framleiðslu 1966–1967.

Við framsóknarmenn fluttum frv. og einnig till. við afgreiðslu fjárl. um flest þessi atriði, en mál landbúnaðarins hafa ekki náð eyrum valdhafanna á þessum vetri. Svar ríkisstj. til Stéttarsambandsins er dags. 23. marz og var alger synjun. Því var borið við, að ekki sé til fé aflögu í ríkissjóði til að verða við óskum bænda. Felst ekki í þessu svari ríkisstj., að hún líti á landbúnaðinn sem eins konar annars eða þriðja flokks atvinnuveg, sem ekki þurfi að líta til með, nema fé sé aflögu í ríkiskassanum frá annarri eyðslu eða þörfum annarra atvinnuvega? Þetta er sá skilningur, sem mætir bændum nú, þegar fjölmargir þeirra eru komnir í greiðsluþrot og sjá enga leið til þess að fá áburð. En ekki er langt í endalok búskapar hjá þeim, sem ekki tekst að bera á tún sín.

Þegar hér var komið, skrifaði stjórn Stéttarsambands bænda þingflokkunum bréf og óskaði eftir, að þeir reyndu í sameiningu að finna lausn á erfiðleikum landbúnaðarins. Þessu höfnuðu stjórnarflokkarnir, en Framsfl. og Alþb. tjáðu sig reiðubúin að taka þátt í slíkum viðræðum. Þar sem sýnt er, að á útflutningssjóðinn muni vanta yfir 80 millj. á þessu ári miðað við eðlilegar birgðir í landinu í lok verðlagsársins, hefur framleiðsluráð hækkað verðjöfnunargjald á kjöti upp í 3.60 á kg á innlagt kjöt á síðasta hausti og í 28 aura á mjólk frá 1. jan. s. l. að telja. Það liggur því á borðinu, að bændur ná ekki grundvallarverði á þessu ári.

Þó að verðþensla og rekstrarfjárskortur sé höfuðástæðan fyrir vandræðum landbúnaðarins, hefur einnig orðið verðfall á útfluttum landbúnaðarvörum, t. d. á gærum fast að helming og enn meiri á ull, og á sama tíma höfum við misst okkar bezta kjötmarkað. Með þetta allt í huga hafa framsóknarmenn lagt fram í Ed. frv., sem felur það í sér að draga ögn úr erfiðleikum bænda nú. Þegar Framsfl. hafði úrslitaáhrif á þessi mál, voru vextir af stofnlánum helmingi lægri en nú, lánstíminn lengri og lánin hlutfallslega hærri. Þá var enginn stofnlánasjóðsskattur, engir veltu- eða söluskattar á landbúnaðarvörum og þá var höfuðstefnan sú að halda niðri verði á rekstrarvörum landbúnaðarins og stuðla að aukinni ræktun og hagkvæmari rekstri með beinum framlögum. Þetta er einnig sú stefna, sem allar nágrannaþjóðir okkar fylgja í landbúnaðarmálum, því að landbúnaðarvörur eru mjög stór hluti af allri verzlun almennings og verð þeirra hefur því mikil áhrif á kaupkröfur neytendanna og þar af leiðandi framleiðslukostnað í viðkomandi landi.

Landbúnaður nágrannaþjóðanna hefur yfirleitt aðgang að nægu fjármagni til langs tíma með lágum vöxtum. Bændurnir þar þurfa ekki að byggja upp sína lánasjóði sjálfir með sérstökum skatti og háum vöxtum, eins og íslenzkir bændur eru látnir gera. Og víða erlendis er verðlagi á rekstrarvörum haldið niðri með beinum niðurgreiðslum og landbúnaðurinn að ýmsu öðru leyti aðstoðaður, og þó að verð á framleiðsluvörum hans sé lágt, hafa bændur þess vegna víðast hvar sæmileg kjör miðað við aðrar stéttir. Menn ættu að hafa þetta í huga, þegar þeir bera saman framleiðslukostnað hér og erlendis.

Þegar núv. ríkisstj. komst til valda var stefnunni breytt. Bændunum var sagt, að þó að vextir hækkuðu og allar rekstrarvörur, gerði það ekkert til, þeir fengju allt aftur í hækkuðu verði afurðanna. Við framsóknarmenn vöruðum við þessari stefnubreytingu og fórum ekki dult með það, til hvers hún mundi leiða. Og þessi vetur hefur verið lærdómsríkur fyrir íslenzka bændur. Nú er afleiðingin af viðreisnarstefnunni að koma fram, og tómlæti ríkisstj. fyrir málum landbúnaðarins hefur heldur ekki leynt sér, þrátt fyrir prestlega hugvekju séra Gunnars Gíslasonar hér í gærkvöldi. En slíkt tal dugar bændum lítið til að borga með. Það þarf meira til. Séra Gunnar sagði, að stofnlánin væru hærri nú en á árunum 1955–59. Ef hann miðar við krónutöluna, er það satt. En sé miðað við framkvæmdamáttinn, er það alrangt. Hann átaldi mjög, að því hefði verið haldið fram, að landbrh. skorti skilning á málum bænda. Þetta getur ráðh. með hjálp prestsins afsannað í verki. Til þess er gott tækifæri nú. Nú er einmitt sá tími ársins, sem ýmsum er gefið fyrir frammistöðuna á vetrinum, og nú hefur Búnaðarsamband Suðurlands gefið landbrh. sína einkunn. Þar segir m. a., með leyfi forseta:

„Fundurinn skorar á ríkisstj. og Alþ. að endurskoða afstöðu sína gagnvart bændastéttinni, áður en algert efnahagslegt hrun fjölda bænda er skollið á. Fundurinn átelur alveg sérstaklega þá ákvörðun að neita um niðurgreiðslu á áburði.“ Og enn fremur segir í ályktuninni: „Fundurinn skorar á landbrh. að hlutast til um tafarlaust, að áburðarsalan í Gufunesi hefji nú þegar afgreiðslu á áburði án sérstakra neyðarkjara um greiðslutryggingu. Krefst fundurinn þess, að sama greiðslutrygging gildi nú eins og að undanförnu, og telur allt annað freklega móðgun við bændur.“ Og í lok ályktana sinna segja þeir, eftir að hafa mótmælt verðlagningunni í haust: „Telur fundurinn því siðferðislega skyldu hins opinbera að greiða fyrir, að þessar aðgerðir komi ekki það hart niður á hændum, að alvarlegt tjón hljótist af.“

Þetta segja sunnlenzkir bændur. Og hvað segja þá hinir, sem búa við enn erfiðari skilyrði? Ég tel, að ástandið hjá bændum sé þannig, að óverjandi sé með öllu, að Alþ. hætti störfum fyrr en viðunandi lausn er fundin á erfiðleikum stéttarinnar. Ef ekkert er að gert nú, er ekkert líklegra en af því muni hljótast þjóðfélagslegt slys, sem erfitt gæti reynzt að bæta fyrir. En sinni hæstv. ríkisstj. ekki erfiðleikum landbúnaðarins nú, eftir það sem á undan er gengið, heiti ég á alla bændur í landinu að standa saman sem einn maður og knýja fram rétt sinn. Verum þess minnug, að blómlegur landbúnaður er bezta trygging hvers þjóðfélags, þegar á reynir. Góða nótt.