18.04.1968
Sameinað þing: 55. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2009 í B-deild Alþingistíðinda. (1919)

Almennar stjórnmálaumræður

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Þegar hæstv. forsrh. var um daginn að tala á móti endurskoðun stjórnarskrárinnar og sýna fram á, að ekki væri þörf á einmenningskjördæmum, sagði hann m. a., að það hefði verið svo mikil festa í stjórnarfarinu undanfarin ár, að slík festa í stjórnarfari hefði ekki þekkzt hér á landi fyrr. Mér skildist, að hann ætti við það, að svonefnd viðreisnarstjórn frá 1960 hefði nú verið 8 ár við völd. En þó að nokkrir stjórnmálamenn hafi af einhverjum ástæðum orðið svo fastir við ráðherrastóla, að þeir sitja þar lengur en sætt er, kalla ég það ekki festu í stjórnarfari. Festa í stjórnarfari er allt annað. Það hefði verið festa í stjórnarfari, ef stjórnin hefði komið hér á stöðugu verðlagi og atvinnulífinu á traustan grundvöll, eins og hún sagðist ætla að gera fyrir 8 árum. En þetta fór því miður á annan veg. Í staðinn fyrir festu í stjórnarfari hefur komið lausung í stjórnarfarið, og sú lausung fer vaxandi.

„Vakri-Skjóni hann skal heita,

honum mun ég nafnið veita,

þó að meri það sé brún.“

En í dag skal það viðreisn heita, sem stjórnin hefst að. Það hét viðreisn að banna vísitölutryggingu og það hét einnig viðreisn að leiða hana í lög á ný. Það hét viðreisn að afnema verðuppbætur og nú heitir það viðreisn að veita fé til þeirra. Það var viðreisn í júní að vernda, krónuna með verðstöðvun, en í nóvember var það viðreisn að fella krónuna. Eitt árið var hófleg kauphækkun samsæri gegn þjóðarhag. Annað ár var meiri kauphækkun viðreisn. Hin breytilega viðreisn, í því fólgin að afnema það í ár, sem gert var í fyrra, og þannig á víxl, hefur verið snar þáttur í lausung stjórnarfarsins.

Látum oss draga tjaldið eina örskotsstund frá sögusviði þjóðmálanna á þessum 8 árum. Hvað sjáum við þar? Við sjáum þrjár gengisfellingar, við sjáum vísitölusúluna hækka misseri eftir misseri, eins og kvikasilfursúluna, sem mælir viðbrögð líkamans við elnandi sótt. Og þó hefur þjóðarlíkaminn í seinni tíð fengið reglulega sitt aspirín, niðurgreiðslu lífsnauðsynja í stækkandi skömmtum. Við sjáum kostnaðarverð samskonar íbúðar hlaupa úr 450 þús. upp undir 1100 þús. samkv. hagstofutölum. Við sjáum niðurstöðutölur ríkisfjárl. og þar með álögurnar fara hamförum upp á við ár frá ári, úr 1100 millj. kr. árið 1959 upp í 5000 millj. árið 1968. Við sjáum fjmrh. þann, sem var, og þann, sem kom, slá staf sínum á helluna einu sinni á hausti, einu sinni um miðjan vetur og einu sinni á útmánuðum, og í hvert sinn spretta þar upp nýir skattar. Þeirra tala er legió. Það byrjaði með söluskattinum, sem nú í ár er áætlaður 1350 millj. fyrir utan það, sem sveitarfélög fá. Núna fyrir páskana var það benzínskatturinn, þungaskatturinn og gúmmígjaldið, eftir páskana útflutningsgjald á sjávarafurðum. Við sjáum hinar 7 feitu kýr, afla- og markaðsgóðærin miklu, fara yfir sjónarsviðið og stritandi hendur keppast við að skapa verðmæti á sjó og landi. Við sjáum vaxandi peningaflóð þrengja sér inn í banka og sparisjóði og þó meira í aðrar áttir. Við sjáum það í vaxandi mæli streyma yfir í gagnslitla eyðslu, af því að lausung er í stjórnarfarinu og krónan minni í ár en í fyrra. Við sjáum innstæður og sjóði visna í dýrtíðarrokinu. Úti í löndum sjáum við hilla undir smávaxandi fúlgur af dollurum, og sterlingspundum, sem ekki hefur tekizt að eyða og er íslenzk eign. Þetta er gjaldeyrisvarasjóðurinn okkar, sem okkur þykir mikils verður, þó að hann nægi raunar ekki nema fyrir ársfjórðungsúttekt. En erlenda gjaldeyrinn má ekki spara. Það er trúarjátning ríkisstj. Gjaldeyri skal hver hirða, sem vill og getur. Og önnur gr. Byggja má hver, sem vill, og hvað, sem hann vill, og hvað dýrt, sem hann vill, ef hann getur náð í krónur. Þetta er hið mikla sjálfræði, öðru nafni frelsi. Svo skyggir á sviðinu og magra kýrin kemur. Þessi eina magra kýr er þar nú, og hinar eru horfnar eins og í draumi Faraós. Gjaldeyrisvarasjóðurinn er á þrotum og erlendu skuldirnar komnar úr 2600 millj. í lok Alþfl.-ársins upp í 4900 millj., hvort tveggja reiknað á sama gengi. Atvinnuvegirnir verjast í vök, vinnudeilur, verkföll, og í vetur hefur víða verið talað um atvinnuleysi, en það voru kosningar í fyrra. Hér er hvert orð staðreynd, en hagskýrslum breytt í mælt mál.

Stjórnin okkar frá 1960 hefur eins og aðrar stjórnir átt þátt í æskilegri þróun á sumum sviðum. En hið góða, sem hún sagðist ætla að gera í öndverðu, hefur hún ekki gert. Kannske varð henni aflfátt, kannske fór hún skakkt að.

Í haust, sem leið flutti forsrh. þingræðu og bað um ráð. Hann sagðist vilja hlusta á góð ráð. Það var vel mælt. Bændasamtök ein á Norðurlandi tóku þetta eins og það var talað. Þau gáfu stjórnarformanninum sitt ráð, að hann skyldi segja við þingið eins og spámaðurinn forðum: Lát þú nú, herra, þjón þinn í friði fara. Hér þarf til að koma samstarf allra þingflokka. Þeir eiga að gera tilraun til að koma upp sameiginlegri landsstjórn til að leysa hinn mikla vanda, reyna að skapa um sig þjóðareiningu um stund, því að þar sem hver höndin er upp á móti annarri er ekki hægt að leysa svona mikinn vanda. Þetta vildu þeir, að ráðh. segði. En forsrh. okkar fannst þetta ekki heillaráð. Hann lét málgagn sitt breyta skætingi í þá, sem gáfu honum ráðið af góðum hug. En þið, hv. þm. og hlustendur um land allt, hvað finnst ykkur nú?

Ég held, að við verðum að sætta okkur við orðinn hlut, að hér hefur engin stjórnarfarsleg viðreisn átt sér stað á þessum áratug. Samt hafa landsmenn víða sótt fram á leið á hinu sýnilega sviði þjóðlífsins, enda þótt við kunnum að hafa misst eitthvað af þeim verðmætum, sem hvorki verða mæld né vegin. Í skugga tveggja heimsstyrjalda hefur eitthvað af þeim gróðri bliknað, sem fyrrum var til lífgrasa talinn. Einangrunarsinnar heita þeir stundum, sem ekki vilja opna hurðir upp á gátt fyrir allra þjóða veðrum. Margur verður af öðrum api eða af aurum api. En við skulum ekki hafa hugann um of við þetta né heldur hitt, þó að eitthvað, sem hann álítur stjórnarfarslega viðreisn, hafi mistekizt. Þegar mikið er í húfi skulum við muna innan þings og utan, að við erum ekki bara flokksmenn og kannske ekki það fyrst og fremst. Það er framtíð þjóðarinnar, sem mestu máli skiptir. Þrátt fyrir mistök og áföll fyrr og síðar, þrátt fyrir misæri á landi og sjó og í viðskiptum, þrátt fyrir kal og ísavetur skal þess minnzt, sem stöðugt stendur enn. Við Íslendingar erum á sérstakan hátt rík þjóð. Við eigum margt, sem vinna kynslóðanna hefur skapað, en þó fyrst og fremst stærra og betra land en nokkur önnur þjóð í hlutfalli við mannfjölda. Það verður okkar stærsta mál á komandi tímum að tryggja okkur áfram þennan óviðjafnanlega þjóðarauð, landið, með því að halda áfram landsbyggð og búa þannig á landinu, að við glötum ekki ábúðarréttindum að dómi umheimsins. Stephan G. talaði um að hugsa ekki í árum, en öldum. Það á við enn. Við verðum að vera menn til að heyja sjálfstæðisbaráttu, eins og aðrar þjóðir. Það er léleg landvörn að syngja „Land míns föður, landið mitt“ eða „Ég vil elska mitt land“ á stórhátíðum, ef við getum ekki sýnt föðurlandsástina í verki. Það má t. d. ekki ske eftir áratug, að Ísland sé þá enn vanþróað land í vegamálum. Við þurfum að gera og framkvæma 10 ára áætlun um að ljúka fullnaðaruppbyggingu þjóðvegakerfisins um land allt, að eignast þá hringbraut um byggðir landsins og milli þeirra, sem að jafnaði yrði vel fær, taka lán í bili, skila umferðinni aftur nokkru af því, sem frá henni er tekið í ríkissjóðinn. Það má ekki bæta skatti á skatt ofan án takmarks. Með lokatakmarkið og stund þess í huga skal þjóðarátak hafið, þegar þar að kemur. Þetta og fleira mun takast, ef við getum komið okkur saman um, að allar hendur njóti sín og að þjóðin og framtíðin njóti þess vel, sem unnið er. Eftirlátum fortíðinni skreytiskrum viðreisnarinnar, sem engin viðreisn var. Vormenn Íslands, ykkar bíður þetta land. Ég þakka fyrir áheyrnina.