18.04.1968
Sameinað þing: 55. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2012 í B-deild Alþingistíðinda. (1920)

Almennar stjórnmálaumræður

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Skömmu fyrir páska gerðust þau tíðindi einn dag hér á Alþ., að menn heyrðu háreysti úti á götu, hróp og köll. Þustu margir þm. út að gluggum til að sjá, hvað um væri að vera. Það er ekki oft, sem hv. kjósendur í þessu landi heimsækja Alþ. til að fylgja eftir óskum sínum og nú vissu menn ekki, hvaðan á þá stóð veðrið. Það voru raunar ekki kjósendur, sem stóðu um 200 saman í Kirkjustræti utan við þinghúsið, það voru unglingar, skólabörn úr Kópavogi og Reykjavík, en þau báru fjöldann allan af kröfuspjöldum, eins og við á. Á þeim mátti lesa: „Niður með úreltar skólabækur“, „Betri kennsluaðferðir“, „Við erum ekki páfagaukar“, „Engan þurrbókarlærdóm“, „Æskan í dag er þjóðin á morgun“, og loks gaf að líta eitt kröfuspjaldið, sem á stóðu þessi orð: „Við treystum Gylfa.“ Páskabyltingu skólafólksins lauk á friðsamlegan hátt. Menntmrh. bauð hópi ungmennanna upp á skrifstofu sína og sat lengi dags og ræddi við þau. Fór vel á með ráðh. og nemendum, enda hafði framkoma unga fólksins verið hin prúðmannlegasta, og það hafði skynsamlegar og ljósar hugmyndir, sem það vildi koma á framfæri. Því fannst margt í kennslu, kennslubókum og kennsluaðferðum vera úrelt og vildi koma öllu þessu í nútímaform. Þessir atburðir eru ekki einsdæmi. Undanfarin misseri hefur mátt sjá og heyra umr. um skólakerfi okkar, margvíslega gagnrýni á ýmsu því, sem betur má fara, og óskir um endurbætur. Mest hefur þessi hreyfing verið meðal unga fólksins, ýmist þess, sem er enn í skólum, eða hins, sem er að senda fyrstu börn sín gegnum skólana. Þessi hreyfing í skólamálum sýnir nýjan áhuga, sem er ástæða til að gleðjast yfir. Þessi hreyfing sýnir skilning á þeirri staðreynd, að lífið hefur breytzt ört í seinni tíð og skólarnir verða að breytast með því. Þessi hreyfing sýnir skilning á því, að nemendur verða að fá að taka lifandi þátt í námsstarfi, í stað þess að láta troða í sig minnisatriðum. Þessi hreyfing sýnir skilning á hinu gamla máltæki, sem segir, að „lítið lærist leiðum strák“. Í hinni umdeildu bók, Nútímaljóðum, sem Ríkisútgáfa námsbóka hefur gefið út, segir eitt af ungu skáldunum: „Fáið mér dýnamít til að sprengja í loft upp öll þessi orð, sem eru að drepa okkur með lygi og leiðindum.“ Við skulum ekki fá æskunni dýnamít, en við skulum styðja hana með því að berjast gegn lygi og leiðindum, fyrst og fremst með því að reyna að gera skólakerfið stöðugt betra.

En hvað er þá að skólakerfinu? Flestir þeir, sem tala um þessi mál, hafa einhverjar ávirðingar íslenzkra skóla á takteinum. Þeir nefna úreltar kennsluaðferðir, eldgamlar kennslubækur, þjakaða kennara eða ofsetin skólahús. Sumir nefna dýrt framhaldsnám í dreifbýli, aðrir tala um ófullkomna skólalöggjöf, en flestir staðnæmast þó við landsprófið. Og hvað er til ráða? Þegar kemur að till. til bóta, vill oft verða lítið um úrræði, sem kalla má raunhæf, og menn skiptast í fylkingar með eða móti svo til hverri hugmynd.

Skömmu eftir að Gylfi Þ. Gíslason varð menntmrh., fyrir meira en áratug, skipaði hann 12 manna n. til að fjalla um endurskoðun fræðslulöggjafarinnar. Þegar þessir tólfmenningar höfðu setið á rökstólum á þriðja ár, skiluðu þeir áliti. Lögðu þeir til ýmsar breytingar, en töldu þá ekki ástæðu til að endurskoða sjálfa fræðslulöggjöfina. Sannleikurinn er sá, að fræðslulög eru að verulegu leyti rammalöggjöf, en nánar er kveðið á um flesta hluti í reglugerð. Þess vegna hefur skólakerfið ekki verið óbreytt síðustu 20 ár, þótt löggjöfin hafi verið það. Þvert á móti hafa átt sér stað stöðugar breytingar og framfarir, sem rúmast innan ramma laganna.

Ég hygg, að nú sé tímabært að gera aðra atrennu til endurskoðunar fræðslulöggjafarinnar. Verður að vanda mjög til þess starfs, ekki aðeins að velja til þess góða og reynda menn, heldur að tryggja þeim tíma til að vinna verkið og nauðsynlega starfskrafta til aðstoðar. Hins vegar er rétt að vara við þeirri hugmynd, að sjálf endurskoðun löggjafarinnar muni gerbreyta á svipstundu íslenzkum skólum til batnaðar. Skólarnir munu halda áfram að þróast og breytast, margvíslegum tilraunum verður haldið áfram, prófum og námsskrá verður breytt, nýjar bækur eða kennsluaðferðir koma til skjalanna, allt án tillits til endurskoðunar laga. Hins vegar verður með nýjum fræðslul. að ákveða meginatriði, eins og það, hvort æskilegt sé eða fjárhagslega mögulegt að lengja skólaskylduna um eitt ár, að hún verði 6–15 í stað 7–15 ára eins og nú er. Þá er hugsanlegt að afnema landsprófið með nýrri löggjöf, það verður ekki gert á annan hátt. Í því sambandi er rétt að gera sér grein fyrir, að l. segja aðeins, að eitt samræmt próf skuli vera til inngöngu í menntaskóla. Þótti það á sínum tíma mikil framför og er réttlætismál, að þetta inntökupróf sé hið sama um land allt. Um hitt er deilt, hvort prófið sé of þungt eða of létt, hvort það gefur rétta hugmynd um, hvaða ungmenni eiga helzt erindi í framhaldsnám og hvort það er í samræmi við okkar tíma. Ég bý yfir miklum efasemdum um landsprófið eins og það er, en ég tel ekki rétt að afnema það. Námsefni fyrir prófið verður að byggjast á einhverju fleiru en stagli og minnisatriðum, sem skilað er aftur við prófborðið rétt áður en það gleymist. Við lendum strax í vandræðum, ef við afnemum landsprófið, en við hljótum að geta endurbætt það til muna. Þar kemur raunar til kasta sérstakrar landsprófsnefndar, sem starfar algerlega sjálfstætt og er ekki bundin neinum öðrum sjónarmiðum skólayfirvalda.

Oft heyrist gagnrýni ungra og gamalla nemenda á þeim kennslubókum, sem notaðar eru í skólum okkar. Mikið af þeirri gagnrýni er á rökum reist, enda er það staðreynd, að íslenzkt námsfólk verður að sætta sig við fábreyttari bókakost á móðurmáli sínu en tíðkast hjá stærri þjóðum. Þetta er óhjákvæmileg afleiðing fólksfæðarinnar. Til að bæta úr þessu vandamáli var stofnuð Ríkisútgáfa námsbóka fyrir liðlega þremur áratugum. Er mér sagt, að það skipulag sé óþekkt meðal þjóða, sem við höfum viðskipti við. Það er alíslenzk lausn á íslenzku vandamáli. Námsbókaútgáfan starfar fyrst og fremst fyrir skyldunám skólanna og hefur gefið út um 2100 mismunandi bækur og hjálpargögn. Er algengt, að bækur séu prentaðar í 15–20 þús. eintökum og hafa farið upp í 40 þús. Að sjálfsögðu á þessi útgáfa mörg verkefni óleyst, en þá staðreynd verður að viðurkenna, að hún hefur, þegar á heildina er litið, gert mikið gagn á sínu sviði. Mun vera erfitt að finna betri íslenzka lausn á svo vandasömu máli.

Geta útgáfunnar fer að sjálfsögðu eftir því fé, sem hún fær til að starfa fyrir. Þegar Alþfl. tók við stjórn fræðslumála, voru tekjur námsbókaútgáfunnar 1,3 millj. kr. 10 árum síðar, í fyrra, voru tekjur útgáfunnar 11,3 millj. Þetta er mikil aukning úr einni millj. í ellefu, og verður ekki annað sagt en að verulegt átak hafi verið gert á þessu sviði. Um innihald bókanna verður án efa deilt, svo lengi sem þær verða notaðar. Sérstök námsbókanefnd ræður útgáfunni, en þar sitja reyndir skólamenn, og er við þá að sakast um efni kennslubókanna, sem notaðar eru í barna- og unglingaskólunum.

Enda þótt 12 manna n. 1950 hafi ekki talið tímabært að hreyfa við grundvallarlögum um skólaskyldu, hefur mikið löggjafarstarf verið unnið á Alþ. fyrir skólakerfið undanfarinn áratug. Sérstök n. hefur starfað og starfar enn að endurskoðun laga um menntaskóla, en þar fyrir utan má segja, að ný og fullkomnari löggjöf hafi verið sett um nálega allt skólakerfið. Árið 1957 voru sett ný lög um Háskóla Íslands, en nú situr n. á rökstólum og á að gera áætlun um þróun háskólans næstu 20 ár. Það er mikið verkefni og verður þar þörf stórfelldra átaka. Í þessari viku var einmitt samþykkt hér á Alþ. ný löggjöf um Félagsstofnun stúdenta og er merk nýjung. Árið 1961 var gefin út reglugerð með nýrri námsskrá fyrir allt skyldustig fræðslukerfisins og segir þessi reglugerð, en ekki sjálf l., aðallega til um það, hvað nema skuli og kenna á hverju ári. Árið 1963 voru sett l. um Tækniskóla Íslands og þar með stigið eitt þýðingarmesta skrefið í tækniþróun þjóðarinnar. Sama ár voru samþykkt lög um kennaraskóla og kennaranám og var skólinn gerður að stúdentaskóla. Þetta er e. t. v. þýðingarmesti liður alls kerfisins, þar sem á að draga að kennarastéttinni góða krafta og búa væntanlega kennara vel undir ævistarf sitt. Árið 1965 voru sett ný lög um iðnfræðslu, sem einnig marka tímamót á því sviði. Kennslunni verður nú smám saman beint inn á nútímabrautir, vonandi með góðum árangri. Til viðbótar þessari upptalningu má nefna ný lög um tónlistarskóla, um handíða- og myndlistarskóla, húsmæðrakennaraskóla og fjölmarga aðra sérskóla, svo og sérstakar fræðslustofnanir, eins og Handritastofnunina, sjóði til náms- og fræðistyrkja og hvað eina fleira af því tagi.

Einn merkasti þátturinn í starfi menntmrh. undanfarinn áratug hefur verið stöðugar og mjög miklar hækkanir á námsstyrkjum og lánum, bæði til náms innanlands og utan, og algjörlega nýtt kerfi á því sviði. Með námslánum skila menn síðar á ævinni aftur þeirri aðstoð, sem þeir hljóta í skóla, og greiða þannig fyrir öðrum, sem eru að brjótast menntaveginn.

Hingað til hafa öðru hverju verið skipaðar n. til að fjalla um endurskoðun á grundvallaratriðum fræðslukerfisins. Hefur starf þeirra verið takmarkað vegna tímaskorts og lítillar sérfræðilegrar aðstoðar, sem þær hafa notið. Hefur um skeið verið augljóst, að hér yrði annað og betra kerfi að koma til skjalanna eins og tíðkazt hefur lengi í öðrum löndum. Í þessum efnum var flett við blaði, er menntmrh. setti á stofn skólarannsóknir sem fasta deild í rn. og réð þar til starfa sérmenntaða menn. Hefur þegar verið unnið mikið rannsóknarstarf, en er þó aðeins byrjun þess, sem þarf að verða og mun verða á komandi árum. Ýmsir tala um íslenzka skóla eins og þar ríki algjör kyrrstaða og allt sé að verða lengra og lengra á eftir tímanum. Þetta er harður dómur og rangur. Að sjálfsögðu þarf margt að breytast og mörgu að fara fram. En sannleikurinn er sá, að í fjölmörgum skólum eru gerðar ýmiss konar tilraunir með nýjungar, sem munu hafa áhrif á komandi árum. Sem dæmi má nefna, að nýi menntaskólinn við Hamrahlíð má heita samfelld tilraunastofnun, hve þar eru farnar nýjar brautir, og svo er á mörgum sviðum. Virðist vera ríkjandi mikill áhugi á þessu starfi meðal kennara og nemenda, enda þótt hið mikla skólahús sé hálfsmíðað og aðstaða þröng og frumstæð enn sem komið er, eins og oft gerist hjá frumherjum. Í mörgum barnaskólum eru gerðar tilraunir með tungumálakennslu, sums staðar er enska kennd allt niður í 10 ára aldur og danska allt niður í 11 ára. Þá er víða kennd hin nýja stærðfræði, en sjónvarpið kom þar til aðstoðar og flutti foreldrum fræðslu, svo að þeir hefðu einhverja hugmynd um, hvernig börnin eiga nú að reikna. Þetta var í fyrsta en ekki síðasta sinn, sem sjónvarpið kemur beint við sögu fræðslumála hér á landi, sjónvarpskennsla fyrir skólana er eitt af málum næstu framtíðar, en dýrt eins og flest það, sem til merkrar nýjungar telst á þessu sviði. Ýmsar aðrar tilraunir eru gerðar. Sumir skólar hafa breytt einkunnagjöf og nota jafnvel umsagnir í stað einkunna. Í öðrum er ný bekkjaskipting reynd. Þá eru valdir menn að endurskoða kennslubækur í eðlisog efnafræði og hið sama má segja um bækur í félagsfræði. Mörg fleiri dæmi mætti nefna því til sönnunar, að það er hreyfing í skólunum okkar, það er verið að reyna ýmislegt nýtt, og fleira er á döfinni. Þetta er skylt að viðurkenna og veita kennarastéttinni hvatningu í stað þess að hafa sífellt á lofti sleggjudóma og fordæma bæði kennara og aðra skólamenn, rétt eins og þeir séu steinrunnin nátttröll, sem ekkert kunni og engan áhuga hafi á starfi sínu.

Fræðslumálin, framtíð barna okkar og framtíð þjóðarinnar eru sérstaks eðlis, og mætti ætla, að samhugur ríkti um að leggja áherzlu á framfarir skólakerfisins. Þessi mál ættu helzt að geta verið fyrir utan deilur stjórnmálaflokka; til þess eru þau allt of viðkvæm og mikilsverð að vera þar bitbein.

Samt sem áður hafa ýmsir aðilar ekki getað á sér setið að reyna að skapa sér pólitískan ávinning á þessu sviði og hafa þeir magnað ýmiss konar gagnrýni og árásir beinlínis í þeim tilgangi. Þessir menn, sem stunda slíka iðju, munu ekki reynast íslenzkum fræðslumálum til heilla heldur hið gagnstæða.

Í lok heimsstyrjaldarinnar hófst tímabil mjög mikillar fólksfjölgunar hér á landi. Frjósemin jókst og árgangar tóku að stækka. Þetta leiddi til þess, að álag á skólakerfinu fór vaxandi með miklum hraða og varð gífurlegt. Hefur þurft risavaxið átak til að byggja skóla til að taka við hinum mikla fjölda nemenda, enda eru nú um 43% allrar þjóðarinnar innan við 20 ára aldur. Þetta mikla álag kom fyrst á barnaskólastigið, en er nú í framhaldsskólunum, ekki sízt menntaskólunum.

Þegar athugað er af sanngirni, hvað íslenzka þjóðin hefur reist af nýju skólahúsnæði á undanförnum árum, verður að telja það stórvirki. Sem dæmi get ég nefnt, að 1966 var fjárfesting í skólum 225 millj. kr. og í ár mun hún nálgast 300 milljónirnar. Mér kæmi ekki á óvart, þótt nú væru í smíðum um allt land skólahús, sem muni kosta í kringum þúsund milljónir króna, þegar þau verða öll fullgerð.

Þrátt fyrir svo mikið átak ár eftir ár, hafa verið þrengsli í skólunum og tvísett í þá flesta eða alla með þeim afleiðingum, að svigrúm nemenda og kennara til náms og starfs hefur verið mun minna en æskilegt væri. Þrengslin eiga sök á ýmsum þeim meinsemdum, sem finna má í skólunum, en fjárskortur flestum hinna. Nú er svo komið, að fjölgun þjóðarinnar er nokkru hægari en verið hefur síðustu 20 árin. Þetta hefur þær afleiðingar, ef ekki verður breyting á, að fjölgun skólabarna verður ekki eins ör, en fullvaxta borgurum, sem greiða skattana, fjölgar hins vegar tiltölulega meira. Ættu því byrðar skólakerfisins að verða örlítið léttari og möguleikar skapast til að gera ýmislegt, sem við höfum því miður ekki haft ráð á undanfarin ár, enda þótt fjárveitingar til fræðslumála hafi verið mjög miklar og sífellt hækkandi.

Að lokum langar mig til að spyrja: Er ekki öllum ljóst, að í næstu framtíð verður hvert einasta skólabarn að hljóta einhvers konar sérþjálfun eða sérmenntun til að komast áfram í lífinu? Er ekki öllum ljóst, að þetta gerir fræðslumálin að þýðingarmesta verkefni þjóðarinnar, sem skiptir mun meira máli en flest allt dægurþras? Er ekki öllum ljóst, að íslenzka þjóðin hefur á undanförnum árum lyft grettistaki í skólabyggingum, er þörf á að níða þetta átak niður? Er ekki öllum ljóst, að Alþ. hefur undanfarin ár sett margþætta nýja löggjöf fyrir frumkvæði ríkisstj. og menntmrh. um flest svið fræðslumála, að nýjungar blasa alls staðar við sjónum, ef menn vilja sjá þær, og víða standa yfir tilraunir fyrir framtíðina? Okkur Alþfl.-mönnum er enn fremur ljóst, að þjóðin má ekki og mun ekki staðnæmast í sókninni til betra fræðslukerfis. Það verður enn að byggja mikið af skólahúsnæði. Það verður enn að auka leitina að nýjum og betri kennsluaðferðum, betri kennaramenntun, betri kennslubókum, betri skólum. Við erum, þegar á heildina er litið, á réttri leið, en við eigum langan veg ófarinn. Við skulum minnast þess, að leiðin að hinu fullkomna skólakerfi tekur aldrei enda. Þökk og góða nótt.