30.01.1968
Sameinað þing: 31. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2073 í B-deild Alþingistíðinda. (1936)

Framkvæmd vegáætlunar 1967

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Það var nú fyrir mér líkt og síðasta hv. ræðumanni, að ég gat af sérstökum ástæðum ekki heyrt alveg alla ræðu hæstv. samgmrh., þegar hann talaði fyrir vegaskýrslunni, svo að það má vel vera, að hann hafi komið inn á það, sem ég ætla að spyrja um, en ég verð nú samt að minnast aðeins á nokkur atriði.

Þessi atriði, sem ég ætlaði að minnast sérstaklega á, eru í sambandi við Suðurland, og eru nokkrar fsp. til hæstv. samgmrh. Í vegaskýrslunni kemur það fram, að Þrengslavegur hefur haft 3.2 millj. kr. fjárveitingu og af þessari fjárveitingu hefur 2.4 millj. verið ráðstafað til almennrar fjáröflunar til vegaframkvæmda samkv. framkvæmdaáætlun ríkisstj., en 0.8 millj. til greiðslu vaxta og afborgana af lánum til Suðurlandsvegar frá 1966. Nú langaði mig að spyrja um það, hvenær vænta megi, að Þrengslavegur fái þetta fé aftur endurgreitt. Ég veit, að vegurinn þarf mjög á því að halda. Það vantar ennþá nokkuð á, að uppbyggingu hans sé lokið, og nú hin síðustu misserin hefur þessi vegur verið mjög mikið notaður, sérstaklega að vetrinum til, síðan hætt var að moka snjó af Hellisheiði. Það má segja, að Þrengslavegur sé farinn allan veturinn, og þá fer það nú svo, að vegna þess sérstaklega, að hann er ekki að öllu leyti fullgerður, verður hann stundum allslæmur yfirferðar. Honum veitti því sannarlega ekki af því að fá talsverðar umbætur, og ég geri ráð fyrir, að þetta fé mundi ekki einu sinni duga til þess, og þess vegna vildi ég leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh. um það, hvenær vænta megi þess, að hann fái þetta fé og haldið verði áfram framkvæmdum við hann.

Þá langar mig enn fremur til þess að vita, hvað skuldin er mikil, sem hvílir á Suðurlandsvegi. Ég sé, að þarna er varið af þessu fé, sem Þrengslavegurinn átti að fá, 0.8 millj. til greiðslu á afborgunum og vöxtum frá 1966. Þá eru á vegáætlun verulegar lántökuheimildir til vega á Suðurlandi. Það er þá fyrst að geta um Suðurlandsveginn sjálfan, að þar er lántökuheimild á árinu 1967 upp á 17½ millj. kr. Ég sé, að það hefur ekki verið notað eða það sést ekki í áætluninni, að þessi upphæð hafi verið notuð, heimildin hafi verið notuð. Að vísu er sagt hér í áætluninni, að það hafi verið gerð frumáætlun um kaflann Lækjarbotnar-Svínahraun, og um Blesugróf-Rauðhóla og það hafi verið gerðar undirbúningsathuganir og áætlunargerðir og jarðvegskönnun frá Blesugróf um Hellisheiði að Selfossi og grunnmælingar á þessari leið og gerð loftmyndakorta sé nú að hefjast. Sjálfsagt hefur þetta allt kostað nokkurt fé, og mig langar til þess að fá upplýsingar um það hjá hæstv. ráðh., hvað þessar undirbúningsframkvæmdir, sem þarna hafa verið gerðar, hafi kostað mikið fé.

Ég veit, að hæstv. ráðh. hefur ekki síður áhuga heldur en ég á því, að bæta samgöngur austur um Suðurlandsundirlendið. Ég hef oft heyrt hann tala um það fyrr og síðar, hversu það væri nauðsynlegt, og heyrt hann tala um það, að þetta verk yrði að gera með lántöku. Ég er honum alveg sammála um það, að þetta verk verður ekki framkvæmt öðru vísi heldur en með lántöku. Umferðin hefur aukizt alveg gífurlega á þessum vegi, og við vitum það, sem ferðumst um þennan veg, sérstaklega á sumrin, hvað hann er þá vondur, þegar ofaníburðurinn rýkur úr honum og eftir verður aðeins grjótið og undirstaðan. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að hefja sem allra fyrst framkvæmdir í því að gera hér varanlegan veg frá Reykjavík austur að Selfossi, og ég vil segja, að sá vegur, þær varanlegu framkvæmdir, þurfi að ná austur að Hvolsvelli alla leið, það sé alveg lágmark að koma varanlegum vegi þangað. Þessar 17½ millj. kr., sem var lántökuheimild fyrir, hafði ekki verið notuð, og nú vildi ég spyrja hæstv. ráðh., hvað er nú fyrirhugað að gera á þessu ári. Er nú fyrirhugað að ráðast í einhverjar verulegar framkvæmdir á þessu ári og nota þær lántökuheimildir, sem fyrir hendi eru til þess? Ég álít, að hér þurfi sem fyrst að bregðast vel og hraustlega við í þessum efnum og taka þarna til starfa, og ég veit það, að hæstv. samgmrh. hefur áhuga fyrir því. Þá voru smávegis lántökuheimildir til nokkurra annarra vega á Suðurlandi það var Gullfossvegur, Eldhraunsvegur og Mýrdalsvegur, það var ½ millj. kr. í hvern þessara vega, veitt lántökuheimild á s. l. ári, og í Þykkvabæjarveg 200 þús. kr. lántökuheimild. Þetta hefur ekki, sýnist mér, verið notað, og ég hefði hug á því að fá að vita, hvað sé nú hugsað að gera á þessu ári, hvort hugmyndin sé sú að nota þessar lántökuheimildir og leggja þarna í framkvæmdir. Ég veit, að Sunnlendingar hafa yfirleitt mikinn áhuga, eins og yfirleitt allir landsmenn, á því að fá bættar samgöngur. Mér dettur ekki í hug að ætlast til þess, að það sé hægt að gera allt í einu, hvorki hjá okkur Sunnlendingum né öðrum, en mér finnst vera til lítils að vera að samþykkja hér á hinu háa Alþ. heimildir til handa ríkisstj. um lántökur til nauðsynlegra framkvæmda, þegar lítið sem ekkert af þessum heimildum er notað, og það vekur óneitanlega þá spurningu í hugum manna, hvort ríkisstj. hafi ekki lánstraust, hvort hún hafi ekki getað fengið þessi lán, því að ég er ekki í neinum vafa um það eins og ég hef sagt áður, að það vantar ekki áhuga fyrir framkvæmdum hjá henni.

Nú finnst mér, að þurfi eiginlega í raun og veru að leggja kannske enn ríkari áherzlu á það að nota þessar lántökuheimildir líka með tilliti til atvinnuspursmálsins. Nú hefur, eins og kunnugt er, þrengzt um á atvinnusviðinu og þá væri nú e. t. v. rétt að nota tækifærið og reyna að lífga atvinnulífið upp með því að leggja í ýmsar framkvæmdir, sem nauðsynlegar eru, eins og t. d. í samgöngumálum, nýjar vegagerðir og endurbætur á vegakerfinu.

Ég held, að ég sjái ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð fleiri, vonast til þess, að hæstv. ráðh. veiti þær upplýsingar, sem ég bað um.