20.03.1968
Sameinað þing: 46. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2075 í B-deild Alþingistíðinda. (1945)

Framkvæmd vegáætlunar 1967

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það er orðið nokkuð langt um liðið síðan vegaskýrslan 1967 kom til umr. hér í Sþ. Það var 26. jan., sem hæstv. samgmrh. fylgdi málinu úr hlaði. Ég bar þá fram nokkrar spurningar fyrir hæstv. samgmrh. um framkvæmd vegamálanna 1967. Ég óskaði jafnframt eftir því, og það gerðu reyndar fleiri þm., að umr. færi fram á tveimur þingfundum með stuttu millibili, svo að hæstv. ráðh. gæfist kostur á að hafa handbærar þær upplýsingar, sem spurt var um á hinum fyrra fundi. Við þessu var orðið. Var málið svo til umr. í annað sinn 4 dögum síðar eða 30. janúar. En það var ekki útrætt þá, og síðan eru nú liðnar 7 vikur. 7 sinnum hefur málið verið á dagskrá og 7 sinnum hefur það verið tekið út af dagskrá án umr. Ég veit ekki af hverju þetta hefur stafað. Mér þykir líklegt, að ef hæstv. samgmrh. hefði haft áhuga á að ræða málið, mundi hann hafa ýtt á það. Ég kemst ekki hjá að rifja upp í fáum orðum það helzta úr spurningum þeim, sem fyrir hæstv. ráðh. voru lagðar, og þeim svörum, sem hann gaf.

Ein af þeim spurningum, sem ég lagði fyrir hæstv. ráðh., var sú, hvernig á því stæði, að ekki hefði verið unnið fyrir nema nokkurn hluta þess lánsfjár, sem samkv. vegáætlun var ætlað Vestfjarðavegi sunnan Þingmannaheiðar, þrátt fyrir það, að féð var handbært. Og ég spurði jafnframt, hvort þessu fé, sem ekki var unnið fyrir þá, yrði ekki bætt við það fé, sem vegurinn ætti að fá á þessu ári.

Síðara atriðinu svaraði hæstv. ráðh. á fullnægjandi hátt, á þann veg, að það kæmi ekki annað til mála en vegurinn fengi það fé á þessu ári, sem ekki var unnið fyrir í fyrra. Mér líkar þetta vel, þykir gott að heyra það og vil treysta því, að það skorti ekkert á það fé, sem þessi vegur á að fá samkv. ákvæðum vegáætlunarinnar á því fjögurra ára tímabili, sem rennur út með þessu ári. En með þessum vegarkafla er ætlazt til þess að leggja að fullu niður hina illfæru leið um Þingmannaheiði, sem mörgum er kunnugt um, og það er því full nauðsyn á að notfæra sér þá peninga, sem til eru, til að ná því marki.

Um hitt atriðið, hvers vegna ekki var unnið í veginum í fyrra fyrir það handbæra fé, sem þá var til, verð ég að segja það, að ég skil ekki skýringar hæstv. ráðh. á því fyrirbrigði. Hann segir, að vegagerðin hafi reynzt dýrari en áætlað var. Ég sé ekki, að það komi neitt þessu máli við. Vegáætlun er ekki um það, hversu langa vegi eigi að leggja á hverju ári, heldur er hún aðeins um hitt, hversu miklu fé á að verja í hvern veg, og verði einhver vegur dýrari en hann hefur verið áætlaður, er nauðsynin þeim mun meiri að nota peningana, sem til eru, til að vinna í veginum. Þá sagði hæstv. ráðh., að ráðagerðir væru uppi um það að breyta fjögurra ára áætlun í fimm ára áætlun, og ég skildi hann svo, að hann væri þarna að tala aðeins um Vestfjarðavegina. — Ég er ekki alveg viss um það. Það er hugsanlegt, að hann hafi átt við þjóðvegina yfirleitt í landinu, og væri þá gott að fá vitneskju um það. En ég átta mig ekki á þessari ráðagerð, hvernig fjögurra ára vegáætlun verður nú breytt í fimm ára áætlun, þar sem ný fjögurra ára vegáætlun tekur við af þeirri, sem nú er að renna út með þessu ári samkv. ákvæðum vegal. En hafi hæstv. ráðh. átt þarna við 5 ára áætlun um vegagerð í landinu, skil ég það svo, að nú eigi að koma eins árs vegáætlun næst, í staðinn fyrir fjögurra ára. En til þess þarf breytingu á vegal. Ég átta mig þess vegna ekki fyllilega á þessum hugleiðingum um að breyta fjögurra ára áætlun í fimm ára.

Þá gerði hæstv. ráðh. að umtalsefni og það alveg að tilefnislausu, að nú hefði ég þó loksins komið auga á Vestfjarðaáætlunina. Já, ég hefði nú loksins komið auga á hana, sem ég hefði ekki séð í fyrra, þegar þetta mál bar á góma hér í hv. Alþ. Þó að ég hafi gagnrýnt það, að Vestfjarðaáætlunin væri ekki lögð fram hér á Alþ., var ég ekki að kvarta um að hafa ekki fengið að sjá hana hjá hæstv. ráðh. Nei, hann fer þarna húsavillt. Það var annar hv. þm., sem gerði þetta að umtalsefni í þessum ræðustól fyrir réttum 11 mánuðum síðan. Það var hv. þm. Hannibal Valdimarsson. Hannibal Valdimarsson gerði þetta að sérstöku umtalsefni hér í fyrra, og hélt þá um það mjög athyglisverða og skemmtilega ræðu, sem enginn hæstv. ráðh. bar við að mótmæla í einu eða neinu. Og til þess nú að minna hæstv. samgmrh. á þetta, hver þetta var og hvað hann sagði, ætla ég aðeins með leyfi hæstv. forseta að minna hér á kafla úr ræðu hv. þm. frá því í fyrra. Hann segir:

„Vestfjarðaáætlunin hefur áður dregizt inn í umr. hér á hv. Alþ. og í skýrslu ríkisstj. hefur hún stundum verið nefnd, og þá ekki verið annað að heyra en hún væri fullgerð og eiginlega að mestu leyti komin til framkvæmda, og mætti a. m. k. ætla, að ef hún er fullgerð og verið að framkvæma hana, væri hún a. m. k. kunnug í heild og í einstökum atriðum þm. Vestf.“ Ég þarf varla að taka það fram, að hv. þm. var þá þm. Vestf. „En það hefur gerzt nokkrum sinnum, þegar þessi áætlun hefur borizt í tal hér á hv. Alþ., að ég hafi gengið mig upp í Efnahagsstofnun og óskað eftir sem Vestf.-þm. að fá áætlunina í hendur. En alltaf hefur það farið svo, að ég hef farið áætlunarlaus til baka og með þær upplýsingar, að áætlunin væri ekki til og hana væri ekki hægt að afhenda. Einu sinni man ég það, að mér var sagt, að það væru að vísu til drög að samgöngumálaþætti hennar á norsku, en það væri ekki búið að þýða hana, þennan kafla enn þá. Ég sagðist kunna dálítið í norsku og mér mundi notast þessi kafli, ef ég fengi hann óþýddan. En þá bar það þriðja að, að það væri ekki hægt, en þá bara af því að það var ekki talið ráðlegt að gera það að sinni, en það skyldi athugað síðar. Núna í desember, rétt fyrir jólafrí þingsins, barst Vestfjarðaáætlunin í tal hér á þingfundi, ég held, að það hafi verið af tilefni hæstv. fjmrh. í sambandi við fjárlög eða einhverja skýrslu, sem hann gaf þinginu, og hann talaði um Vestfjarðaáætlunina sem plagg, sem Norðurlandsáætlunin mundi að einhverju leyti miðuð við og byggð á. Þarna væri komin reynsla í sambandi við Vestfjarðaáætlunina. Ég hringdi því í Efnahagsmálastofnunina í desember í haust og bað í símann um þann mann í stofnuninni, sem hefði sérstaklega með Vestfjarðaáætlunina að gera. Stúlkan, sem svaraði í símann, sagði: Já, það er hann Bjarni Einarsson. Ég gef yður samband við hann. Og ég fékk samband við Bjarna Einarsson. Ég sagði honum, hver ég væri, og óskaði eftir, að ég fengi nú í hendur Vestfjarðaáætlunina, sem unnið hefði verið að í nokkur ár og oft dregizt inn í opinberar umr. Já, því miður, hún er nú ekki tilbúin, og auk þess höfum við fengið fyrirmæli frá ríkisstj. um það að afhenda hana engum. Ekki einu sinni þm. kjördæmisins? spurði ég. Nei, engum. Og til þess að það verði gert, verðið þér að fá heimild ríkisstj. sérstaklega. Svo ræddum við nokkuð um þetta mál, og hann vildi fáar upplýsingar gefa, en sagði: Það er bezt, að ég gefi þér samband við forstöðumann stofnunarinnar, Jónas Haralz. Já, það er ágætt, sagði ég. Og ég fékk síðan samband við forstöðumanninn.

Já, um Vestfjarðaáætlunina. Það hefur ekki verið samin nein Vestfjarðaáætlun, segir hann. Það hefur ekki verið samin nein Vestfjarðaáætlun, segir hann, nema þáttur um vissa þætti samgöngumála, þ. e. a. s. um flugvelli og vegi. Ekki alla þætti samgöngumálanna? spurði ég. Ekki um samgöngur á sjó? Nei, ekkert slíkt snert. Og það er eiginlega ekkert til um þetta annað en þau drög að áætlun, sem norsku sérfræðingarnir gerðu, sem ferðuðust um hér fyrir nokkrum árum til athugunar á undirbúningi á vissum þáttum Vestfjarðaáætlunarinnar. Og hefur ekki verið unnið að áætluninni nú upp á síðkastið? spurði ég. Nei, ekkert síðan 1965, sannast sagna. Þá höfðum við engan vinnukraft til þess að sinna þessu verkefni hérna í stofnuninni. Þetta skrifaði ég niður hjá mér þarna jafnóðum og símtalið fór fram og á það minnisblað í fórum mínum, þótt ég hafi það ekki hér við höndina. En ég hef nokkrum sinnum litið á þetta furðublað og held þess vegna, að ég fari nokkurn veginn rétt með það, sem á því stendur. Þessir þættir samgöngumálanna. Búið er þá eitthvað að vinna og setja á blað? segi ég. Hvað eru meginþættirnir í því? Jú, það er í raun og veru ekkert annað en lántakan og það að verja þessari lántöku eða ákveðnum hluta til flugvallar á Patreksfirði, í Sandodda, og við Ísafjörð og til vegalagningarinnar á milli þessara flugvalla. Það er þátturinn um samgöngurnar, sem unninn hefur verið, og annað felst ekki í honum en þetta. Hinn þátturinn, sem einnig varðar samgöngumálin og atvinnumálin, það er að nokkrum hluta eða réttara sagt, að erlenda láninu hefur að öðru leyti verið varið til hafnarbóta á Vestfjörðum, þ. e. a. s. til Patreksfjarðarhafnar, til Þingeyrarhafnar og til Suðureyrarhafnar. Og núna á s. l. sumri var unnið fyrir þetta lánsfé í Bíldudalshöfn, og til stendur á næsta ári að vinna í Flateyrarhöfn. Hafið þér ekkert meira að upplýsa um þetta? spurði ég. Nei, það er ekkert annað. Vestfjarðaáætlunin, — það, sem til er af henni, — er þetta. Það er hin erlenda lántaka, það eru drög að till. norsku sérfræðinganna og síðan ákvarðanir, sem hafa verið teknar um að verja þessu lánsfé til flugvallanna, vegagerðarinnar á milli þeirra og til nokkurra hafna. Verður unnið að áframhaldi áætlunarinnar? spurði ég. Það var einmitt þá, sem hann svaraði: Nei, við höfum engan vinnukraft til þess, og við þessu verkefni hefur ekki verið snert síðan 1965. Ég fékk ekki þessi slitur af samgöngumálaþætti áætlunarinnar þrátt fyrir það, þó að ég óskaði þess eindregið, og var sagt, að það, sem Bjarni Einarsson hefði um það sagt, væri rétt. Ríkisstj. hefði bannað að afhenda þetta, það litla, sem til væri af drögum að áætlun. Ég verð að segja það, að mér finnst það furðulegt, að það skuli vera árum saman búið að tala um Vestfjarðaáætlunina sem einhverja staðreynd, vitnað til hennar af þm. og ráðh. og meira að segja í opinberum skýrslum til þingheims, og svo skuli það sannast og reynast, að engin slík áætlun er til.“

Þetta var kaflinn úr ræðu hv. þm., Hannibals Valdimarssonar, sem ég vitnaði núna í til sannindamerkis um það, að hæstv. ráðh. hefur ekki beint ástæðu til þess að saka mig um, að ég hafi ekki verið búinn að koma auga á þessa Vestfjarðaáætlun í fyrra. Við sjáum nú, hvernig þetta hefur gengið hjá þessum hv. þm. og enginn hefur véfengt eitt einasta orð, sem hann hefur sagt í þessari ræðu. Já, svona fór nú um sjóferð þá hjá hv. þm., Hannibal Valdimarssyni, þegar hann fór á stúfana að reyna að fá að sjá hjá valdhöfunum Vestfjarðaáætlun. Allir vita, að hún hefur ekki verið birt Alþ. enn, og af einhverjum ástæðum má sennilega ekki birta hana, nema þá hvað snertir lánsfé til veganna. Hún er sennilega nokkurs konar einkaeign og á þess vegna að notast þannig, vera til einkanota. Það hefur hins vegar verið rækilega auglýst, hversu feiknamiklu lánsfé hafi verið varið til vegagerðar á Vestfjörðum, m. a. í vegáætluninni, og rétt er það, mikil bót var af því fyrir Vestfirðinga að fá það lánsfé í vegi, sem fékkst, hvort sem það er kölluð Vestfjarðaáætlun eða ekki, eftir að við Hermann Jónasson voru búnir að berjast fyrir því í 5 ár. En hinu vil ég vekja athygli á, að það er fjarri því, að Vestfirðir hafi sogað til sín mestan hluta af því lánsfé, sem varið hefur verið eða ákveðið hefur verið til þjóðvega. Á því fjögurra ára tímabili, sem núv. vegáætlun hefur gilt, er ráðgert lánsfé samkv. henni, til hraðbrauta, þjóðbrauta og landsbrauta, samtals 460.9 millj. kr. Af því á að fara til Vestfjarða 35.9 millj. eða tæplega 7.8% af heildarupphæðinni. Og hér er um landshluta að ræða, sem búið hefur við lakasta vegakerfi í landinu, svo að mér sýnist, að hér sé alls ekki um neina ofrausn að ræða, þó að sjálfsögðu sé mikils virði að fá það, sem enn hefur þó fengizt.

Í upphafi þessara umr. spurði ég hæstv. ráðh., hvernig viðhaldsfé þjóðvega skiptist á einstaka vegi 1967. Hæstv. ráðh. svaraði því, að viðhaldsféð væri ekki uppgert fyrir árið 1967, og væri þess vegna ekki hægt að svara þessu. Mér kemur þetta dálítið einkennilega fyrir eyru, vegna þess að hæstv. ráðh. segir sjálfur í þessari vegaskýrslu, sem hér er til umr., á bls. 4, að fjárveiting til vegaviðhalds hafi verið 134 millj. kr. á árinu sem leið, og á bls. 3 segir hann, að viðhaldið hafi farið 5 millj. kr. fram úr áætlun. Ég get ómögulega fengið annað út úr þessu en viðhaldið hafi þá kostað 139 millj., og af þeirri upphæð eru 20 millj. í snjómokstur. Hvernig var nú hægt að fá þessa heildarniðurstöðutölu, ef viðhaldskostnaðurinn var óuppgerður? Auðvitað hefur hann verið uppgerður, eins og bezt var vitað á þessum tíma, þegar skýrslan er gerð. Því aðeins er hægt að segja frá heildarkostnaðinum, og þá hefur líka auðvitað verið uppgerður í öllum aðalatriðum kostnaðurinn á hverjum vegi fyrir sig. Í svari hæstv. ráðh. finnst mér því, að það felist ekkert annað en það, að hann telji ekki þörf á því að láta þm. í té þessar upplýsingar. Ég spurði hæstv. ráðh. einnig að því, hvernig kostnaður af snjómokstri skiptist á einstaka vegi 1967. Þessu svaraði hann bókstaflega engu. Þá spurði ég að því, hvernig væru þessar nýju reglur, sem hæstv. ráðh. hefur sett um snjómokstur, þ. e. a. s. ég spurði að því, á hvaða vegum Vegasjóður borgar nú snjómokstur að fullu, og á hvaða vegum hann borgar hann að hálfu. Svör hæstv. ráðh. við þessu voru efnislega á þá leið, að tíðarfar á Íslandi væri með þeim hætti, að snjóþyngsli yrðu mjög misjafnlega mikil frá ári til árs og það væri ekki hægt að setja neinar reglur fyrirfram um það, hversu oft þyrfti að moka á hverjum vegi fyrir sig.

Mér finnst þetta ekki beinlínis neinar fréttir fyrir þm. A. m. k. snertir þetta ekkert það, sem ég var að spyrja um. Mér fannst, að það væri ákaflega auðvelt að svara þessu, á hvaða vegum Vegasjóður borgi snjómokstur að fullu, og á hvaða vegum borgað er að hálfu, samkv. þessum nýju reglum sem hæstv. ráðh. hefur sett. Það kemur harla lítið hinu við, hversu oft þarf að moka af þessum og þessum vegi eða hvort það snjóar mikið eða lítið. Niðurstaðan um snjómoksturinn er því alveg sama og um vegaviðhaldið, hæstv. ráðh. telur auðsjáanlega ekki nauðsynlegt að láta þm. í té upplýsingar um, hvernig þetta skiptist á einstaka vegi, og heldur ekki, hvernig þessar reglur eru, sem settar hafa verið um greiðslu á snjómokstri. Þá spurði ég, hvernig á því stæði, að í vegáætluninni 1967 var gert ráð fyrir lánsfé til nýbyggingar þjóðvega 138.2 millj. kr., en svo hefur ekki verið unnið nema fyrir 57.6 millj. í sumar sem leið. Þarna vantaði yfir 80 millj. Hæstv. ráðh. svaraði því, að ríkisstj. hefði aldrei lofað neinu um það að nota að fullu þær lánsheimildir, sem Alþ. hefði samþykkt með vegáætlun. Ég held, að þarna gæti allmikils misskilnings. Í vegáætlun felst engin lántökuheimild, enda hefði slík heimild ekkert gildi í þál. Lántökuheimildir verður að samþykkja með sérstökum l. og þetta hefur verið gert. Lánsfjárupphæðir til einstakra vega í núgildandi vegáætlun eru aðeins úthlutun Alþ. og ríkisstj. á þeim lánum, sem hæstv. ríkisstj. hafði áður fengið lánsheimild til með l. og sem hún sjálf hafði flutt frv. um. Í þessum efnum ætla ég, að Alþ. hafi ekki samþ. neitt annað en það, sem hæstv. ríkisstj. hafði áður verið búin að ákveða, fengið heimildir til, og féllst á undir meðferð mála hér á Alþ.

Ég tel því, að ég hafi ekki fengið skýringar á því, að s. l. vor, þegar þessar umr. fóru fram, eða þegar verið var að ganga frá viðbótarvegáætluninni fyrir 1967–1968, að þá segist ríkisstj. í till. sínum ætla að verja yfir 130 millj. kr. lánsfé til nýbyggingar vega. Þannig voru hennar eigin till., sem hún flutti hér í þinginu. En svo kemur það á daginn í fyrra sumar, að það er ekki unnið fyrir nema rúmar 57 millj. Ég tel það enga frekju, þótt spurt sé, hvernig á þessu standi. Hvað gerðist þarna á milli, að þessar 130–140 millj. voru samþykktar og þangað til farið var að framkvæma vegagerðina í landinu á s. l. ári?

Ég hef rifjað upp helztu atriðin, sem ég hreyfði á þeim síðasta fundi, sem þetta mál var rætt, og þau svör, sem hæstv. ráðh. lét í té og ég tel næsta ófullnægjandi að undantekinni einni spurningunni, sem ég fékk svarað að fullu. Ég veit ekki, hvernig stendur á þessu, að hæstv. ráðh. er svo tregur til að láta þinginu í té svona upplýsingar að því leyti, sem það er hægt, og ég álít, að það hafi verið hægt að láta þær í té flestar. Kannske eigi að skilja þetta svo, að það sé bezt fyrir okkur að flytja skriflegar fsp. samkv. þingsköpum og þá fái maður svörin. Það er sjálfsagt að athuga það.

Þá gerði ég í upphafi þessara umræðna að umtalsefni horfurnar í vegamálunum og taldi, að þær væru vægast sagt heldur óglæsilegar. Fjárveitingar úr Vegasjóði á yfirstandandi ári til nýbyggingar hraðbrauta, þjóðbrauta og landsbrauta eru samtals 57½ millj. kr., voru ofurlítið hærri í fyrra. En vextir og afborganir af lánum, eftir því sem næst verður komizt, á þessu ári munu verða milli 60 og 70 millj., eða nokkru hærri en allt nýbyggingaféð. Viðhald þjóðveganna er nú eins og allir vita og ekki er neinn ágreiningur um, óviðunandi, enda er það vel skiljanlegt, þegar þess er gætt, að bifreiðum hefur fjölgað í landinu á s. l. 5 árum um 17000, eða 67%. Og í ofanálag lengdust vegirnir verulega með setningu vegalaganna 1963, og mætti reyndar bæta því við, að vöruflutningar á landi hafa stórkostlega aukizt, og ég held, að ekkert reyni svo á vegina sem þessir þungu og stóru vörubílar. Mér finnst því, að horfurnar séu þannig, að það verði varla mikið um steypta eða malbikaða vegi núna á næstunni, og það getur orðið æði mikil bið á því, að menn fái hringveg um landið, ef þessu verður haldið áfram eins og nú horfir um fjármál Vegasjóðs. Ég tel því, eins og ég sagði, að horfurnar séu mjög óglæsilegar og það verði ekki við þetta unað, nema með verulega auknum tekjum Vegasjóðs til nýbyggingar vega. Eða fyrir hvaða fé á að byggja nýja vegi, þegar vextir og afborganir af lánunum eru hærri upphæð en allt nýbyggingaféð? Og ég veit ekki til, að það sé hægt að borga afborganir og vexti með öðru fé en fjárveitingunum úr Vegasjóði til nýbyggingar vega? Ég gerði þetta að umtalsefni um daginn, og þetta tel ég náttúrlega langsamlega alvarlegasta málið og höfuðatriðið í þessum umræðum, verð ég að segja. Mér fannst hæstv. samgmrh. taka þetta nokkuð létt. Hann virtist eiginlega ekki hafa áhyggjur af þessu. Það getur verið misskilningur minn. Hann sjálfsagt getur haft þær, þótt hann láti ekki á því bera. En út af þessu, að vextir og afborganir eru orðnar hærri en fjárveitingin til nýbyggingar veganna, þá held ég, að hann hafi sagt eitthvað á þá leið, að þó að þurfi að taka lán vegna afborgana og vaxta, sé það ekki alvarlegt, því að það sé í raun og veru jafngilt því og að lengja lán, lengja eldri lán. Ég hef ekki skilið það svo, þegar verið er að lengja lán, að það sé sama og nýjar lántökur. Þegar lengd eru lán, þá skil ég það svo, að lántakandinn fær að greiða lánið upp á lengri tíma. Hann fær ekkert nýtt lán fyrir það. En ef á að líta svona á slíkar lántökur vegna vaxta og afborgana, sem saklausa lengingu eldri lána, er ég hræddur um, að þessi lán geti orðið nokkuð löng á endanum. Að minnsta kosti ætti mönnum að vera það ljóst, að skuldabyrði Vegasjóðs vex ákaflega ört með þessum hætti. Vegaskuldirnar voru á síðustu áramótum samkv. þessari vegaskýrslu um 368 millj. kr. og ráðgerðar lántökur í nýbyggingu vega á yfirstandandi ári samkvæmt vegáætluninni eru 150 millj. Þessar skuldir ættu þá samkvæmt þessu, ef lánin verða tekin, að verða um 518 millj. Mér telst svo til, að ef þessi lán væru öll til 10 ára og vextirnir væru að meðaltali ekki nema svona 7½%, yrði vaxta- og afborganagreiðslan orðin 85–90 millj.; og með hverju á að borga það? Ég veit ekki um neitt annað en nýbyggingaféð. Og ég er hræddur um, að það verði ansi erfitt fyrir þann gjaldkera, sem á að fjalla um þessi mál, að borga 85–90 millj. með 60 millj. kr. tekjum. Hins vegar eru lántökur til nýbyggingar vega oft réttmætar og nauðsynlegar og hafa komið að miklu gagni. Það er fjarri því, að það þurfi að mínum dómi að hverfa frá því að taka lán til nýbyggingar vega. En ég lít svo á, að árlegar vaxta- og afborganagreiðslur af lánum megi aldrei verða meiri en einhver hluti af nýbyggingarfénu, svo að það sé í raun og veru hægt að byggja nýja vegi, jafnframt því sem borgað er af hinum eldri lánum. Ef þess er ekki gætt, verður afturför í vegagerð í landinu. Og ástandið eins og það er núna stefnir mjög í þá átt. Ég hef viljað gera þetta að umtalsefni vegna þess, að vegáætlun til 4 ára, á að koma fyrir næsta þing, og það er mikils virði, að hún sé svo undirbúin, fjáröflun, tekjustofnar séu undirbúnir fyrir Vegasjóð, að áframhaldandi þróun og vöxtur geti orðið í uppbyggingu vegakerfisins í landinu. Ég held, að það hefði ekki verið nein vanþörf á því að hefjast strax handa um þetta viðfangsefni, það er svo stórt og mikilsvert.