18.04.1968
Sameinað þing: 54. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2112 í B-deild Alþingistíðinda. (1951)

Framkvæmda- og fjáröflunaráætlun 1968

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þær aðfinnslur, sem hér hafa komið fram í sambandi við það, hvernig þetta mál er lagt hér fyrir Alþ., á hvaða tíma og hvernig. Ég hef gert sams konar athugasemdir hér árlega í nokkur ár, og þá farið fram á það, að þessar skýrslur fjmrh., sem um þetta mikilvæga málefni fjalla, verði fluttar á öðrum tíma en rétt aðeins í bláþinglokin, eins og gert hefur verið nú æ ofan í æ, og það verði veittur einhver tími til þess, að hægt sé að ræða þessi mikilvægu mál, sem skýrsla ráðh. vissulega fjallar um. En það hefur sem sagt ekki tekizt betur til nú en hin fyrri árin og jafnvel öllu lakara í þetta skiptið, því það má segja það, að það sé nokkurn veginn útilokað, að hér gefist tími til að ræða þetta mál eða að þm. fái í rauninni aðstöðu til þess að lesa þau gögn, sem er verið að leggja fram, áður en þingi lýkur, og það er vitanlega með öllu ósæmilegt. Lágmarkið hefði auðvitað verið það, að hæstv. fjmrh. hefði flutt þessa skýrslu sína með því frv., sem hann lagði fyrir þingið rétt fyrir páskahátíðina, um lántökuheimild, og þar sem einnig var þá gerð grein fyrir framkvæmdaáætlun ársins 1968. Sú skýrsla, sem hæstv. ráðh. flutti nú á þessum fundi, þurfti að sjálfsögðu að fylgja því máli sem eðlileg grg. með því, en þar auðvitað skorti stórkostlega á, þegar það mál var lagt fram, að nægar upplýsingar fylgdu því. En auðvitað kom það mál, eins og hér var bent á áður, fram óeðlilega seint, það hefði helzt af öllu átt að koma fram um leið og afgr. fjárl. fór hér fram á þinginu, og það ber auðvitað að stefna að því, að þessi mál verði tekin hér til umr. og afgr. um sama leyti, eins og hæstv. ráðh. tók hér fram í sinni ræðu, að hann vildi stefna að, og því vil ég fagna út af fyrir sig. En þessi vinnubrögð, sem hér eru á höfð í þessum efnum, eru alveg forkastanleg. Og það er eins og hér hefur verið sagt, að núna skuli berast hér á borðið til hv. þm. bréf frá forstöðumanni Efnahagsstofnunarinnar, bréf, sem dags. er 18. apríl, þ. e. a. s. í dag, þykk bók og langar skýrslur með miklu af tölum, og tekið síðan til umr. á þingfundi, auðvitað áður en nokkur þm. hefur haft aðstöðu til að lesa þessi plögg, það er vitanlega algjörlega ósæmilegt að bjóða þm. upp á þetta, og ég undrast það mikið, að hæstv. ráðh. skuli ekki biðjast afsökunar á því að standa að jafnmikilvægu máli og þetta er á þennan hátt. Það væri betur, að hér yrði breyting á vinnubrögðum.

Ég mun ekki heldur ræða þetta hér í löngu máli, hvorki skýrslu hæstv. ráðh. né þau plögg, sem hér hafa verið lögð fyrir, til þess er í rauninni ekki aðstaða á þessum fundi, en þó vildi ég gera hér nokkrar athugasemdir og þá einkum um þau atriði, sem ég tel mikilvægust, og þar sem skoðanir mínar fara mest á aðra lund en þær, sem fram komu hér í ræðu hæstv. ráðh. varðandi þessi mál. Í þessum gögnum, sem hér eru lögð fram, er m.a. gert ráð fyrir því, hver muni verða fjármunamyndunin í þjóðarbúskapnum á árinu 1968. Um það atriði hefur hæstv. ráðh. fjallað hér í skýrslu sinni, en ég efast um það, að hv. þm. hafi allir áttað sig á því, ég áttaði mig ekki á því, a. m. k. ekki að fullu, hver voru hér aðalatriðin í sambandi við það að hlusta á hans skýrslu, en nokkrum mikilvægum einstökum atriðum hef ég þó glöggvað mig á með því að lesa þessi fylgigögn, sem hér eru með, og ég vil vekja sérstaka athygli á því, sem ég hef lesið út úr þessum tölum. Það er sem sagt augljóst mál, að það er gert ráð fyrir því á árinu 1968, að mjög veruleg tilfærsla verði í framkvæmdum í landinu frá því, sem verið hefur, og talsverður samdráttur einnig, þegar á heildina er litið. Það er sérstaklega gert ráð fyrir því, að hér verði um miklu minni fjármunamyndun að ræða í öllum helztu greinum atvinnulífs landsmanna. Það er t. d. gert ráð fyrir því, að fjármunamyndun í landbúnaði dragist saman á sambærilegu verðlagi við árið 1967 sem nemur 55 millj. kr. Fjármunamyndun í fiskveiðum dragist saman um 365 millj. kr., minnki um meira en helming. Þá er einnig gert ráð fyrir því, að fjármunamyndun í vinnslu sjávarafurða dragist saman um 50 millj. kr. Þetta eru nokkur dæmi. Það er gert ráð fyrir því, að talsvert verði minna um fjármunamyndun í vega- og brúargerð, en lækkunin þar nemur um 35 millj. kr., í gatna- og holræsagerð um 20 millj. kr., í almennri hafnargerð í landinu um 60 millj. kr., þegar framkvæmdirnar í Straumsvík eru ekki taldar með, en þær eru alveg sérstaks eðlis og geta ekki með neinum hætti talizt undir almennar hafnarframkvæmdir, sem tilheyra atvinnulífi landsmanna.

Nokkur annar samdráttur er áætlaður hér í framkvæmdum í atvinnulífi landsmanna, en á móti þessu kemur aftur það, að um verður að ræða allverulega aukningu í fjármunamyndun í sambandi við framkvæmdirnar við Búrfell og í Straumsvík, eða sem nemur í kringum 885 millj. kr. aukningu. Það er nauðsynlegt, að menn átti sig fyllilega á því, hvað þetta þýðir í raun og veru. Ég efast fyrir mitt leyti ekki um það, hvað þetta þýðir, þetta þýðir mjög hættulega tilfærslu á vinnuafli í landinu og þetta getur komið óþyrmilega niður í sambandi við atvinnurekstur landsmanna, hinn almenna og venjulega atvinnurekstur landsmanna, fyrir utan sjálfar stórframkvæmdirnar. Ég tók líka eftir því, að hæstv. fjmrh. sagði, að það væri gert ráð fyrir því í þessum áætlunum, að það minnkaði allverulega fjármunamyndunina í atvinnuvegunum, og hann lét orð falla eitthvað á þá leið, að það myndi ekki koma svo mikið að sök, vegna þess að þar væri ekki nú um aðkallandi framkvæmdir að ræða. Í þessum efnum hef ég allt aðra skoðun, ég tel, að megingreinar okkar atvinnulífs séu einmitt þannig á vegi staddar nú, að þar sé eftir að takast á við stærstu og þyngstu verkefnin, ef okkar atvinnuvegir eiga að duga á komandi árum. Það er kannske ein grein, þar sem við gætum hugsað okkur, að nokkuð yrði dregið úr þeim hraða, sem verið hefur í uppbyggingunni, það er í sambandi við kaup á hinum stærri fiskiskipum, sem aðallega hefur verið beitt til síldveiða, en hvað hefur t. d. verið gert í því að byggja upp íslenzkan fiskiðnað á breiðari grundvelli, hvað hefur verið gert til þess að reyna að koma hér upp t. d. niðursuðuiðnaði, sem ég hygg þó að allir landsmenn viðurkenni, að við verðum að stefna að, við getum ekki látið það verkefni liggja endalaust. Það er engu líkara en þeir, sem gert hafa þessa áætlun og tekið hafa ákvarðanir um það, í hvað það fjármagn skuli ganga, sem þjóðin ræður yfir, telji, að t. d. sá þáttur okkar atvinnulífs, sem byggist á auknum fiskiðnaði, sé með öllu útilokaður okkur Íslendingum, við eigum ekki um hann að hugsa, við getum ekki í hann ráðizt.

Ég vil t. d. víkja að enn fleiri þáttum. Hvað er að segja um íslenzka togaraútgerð, hefur sú uppbygging þessa atvinnuþáttar, hefur hún farið fram, er hún búin, þarf ekki frekar að hugsa fyrir henni? Auðvitað eru þar stór verkefni fyrir höndum, sem hafa dregizt óeðlilega úr hömlu, og okkur ber skylda til þess, ef við viljum hugsa eitthvað um framtíðina, að sjá um það, að nokkru af því fjármagni, sem við ráðum yfir, hvort heldur það kemur frá innlendum aðilum eða við öflum þess með erlendum lántökum, verði varið til þess að byggja upp þá atvinnugrein.

Það eru ekki aðeins þessar greinar, heldur er um miklu fleiri greinar að ræða. Það er mikið talað um það, að við þurfum að reyna að gera okkar atvinnuvegi fjölbreyttari en þeir hafa verið, það er rétt, við þurfum að eignast fleiri útflutningsatvinnuvegi heldur en aðeins okkar sjávarútveg. Það er hægt að koma hér upp vissum útflutningsiðnaði, en þá þarf líka að áætla fjármagn í því skyni, það þarf að reyna að byggja upp þær atvinnugreinar. En það hefur ekki verið gert.

Hæstv. ráðh. minntist á það í ræðu sinni, að það mikla tekjufall, sem hefði orðið á s. l. ári vegna minnkandi sjávarafla og lækkaðs verðs á erlendum mörkuðum, hafi bitnað að langmestu leyti á atvinnuvegunum. Jú, það er enginn vafi á því, að þetta tekjutap hefur bitnað með allmiklum þunga á ýmsum atvinnufyrirtækjum. En hvað hefur þá verið gert til þess að rétta þessum atvinnufyrirtækjum höndina til hjálpar? Sú atvinnugreinin í þessum efnum, sem hefur orðið fyrir hörðustu eða mestu áfalli, er atvinnufyrirtæki í okkar síldarútvegi. Fyrir þessa grein hefur beinlínis ekkert verið gert, a. m. k. ekkert, sem getur komið að fullu gagni fyrir þessa atvinnugrein. Það má segja, að hún njóti nokkurra bóta í sambandi við gengisfellingu, en það er þó um tiltölulega mjög litlar bætur að ræða vegna þess, hvernig ástatt er með sölumarkaði þeirrar framleiðsluvöru, sem fer inn á hina óhagstæðari markaði, en aftur er um hitt að ræða, hvernig háttar innkaupum á rekstrarvörum þess iðnaðar, sem kemur aftur frá þeim mörkuðum, þar sem gengisbreytingin varð miklu meiri. Fyrir þessi atvinnufyrirtæki hefur því sáralítið sem ekkert verið gert annað en þá það helzt, að hæstv. ríkisstj. sér ástæðu til að koma hér fram með frv. um það, að leggja auknar byrðar á þessa framleiðslu, sem orðið hefur fyrir þessum miklu áföllum. Og það eru ekki aðeins þessi atvinnufyrirtæki, sem orðið hafa fyrir áföllunum, heldur einnig starfsfólk þessara atvinnugreina. Sjómennirnir á síldveiðiflota okkar hafa tvímælalaust orðið fyrir gífurlegu áfalli á s. l. ári. Það er talið af Fiskifélagi Íslands, að hrein tekjulækkun íslenzkra sjómanna muni hafa numið á s. l. ári um 400 millj. kr. Það er engin smáræðis tekjulækkun, og það leikur enginn vafi á því, að það fólk, sem vinnur við fiskvinnsluna í landi, það hefur einnig orðið fyrir hliðstæðri tekjulækkun, kannske ekki alveg eins mikilli, en þó mjög verulegri. Boðskapur hæstv. ríkisstj. í sambandi við þessa áætlun, sem hér liggur fyrir, gagnvart þessum aðilum, sem ég nú hef verið að víkja að, er í stuttu máli sá, að það er t. d. sagt við þá, sem orðið hafa fyrir hinum miklu áföllum í sambandi við minnkandi afla og lækkandi verðlag, það er sagt við þau fyrirtæki: Þið skuluð bera ykkar bagga sjálf, þið fáið enga aðstoð, að vísu ætlum við að leggja á ykkur nokkru meiri gjöld en áður. Og það er sagt við það fólk, sem vinnur við þessi fyrirtæki: Þið verðið sjálf að taka á ykkur þann vanda, sem breyttar aðstæður hafa í för með sér, en hins vegar ætlum við — er raunverulega sagt í þessari áætlun — að auka nokkuð vinnu við Búrfell og í Straumsvík. Hefur kannske hæstv. ríkisstj. hugsað sér, að það sé hægt að komast út úr þeim vanda, sem hér er við að glíma, á þann hátt, að þeir, sem orðið hafa fyrir þessum áföllum, ættu að snúa sér að framkvæmdunum í Straumsvík og við Búrfell og gefa þá hitt upp á bátinn? Ég er hræddur um það, að ef viðbrögð manna yrðu þau, þá yrði heldur þunnt um tekjur í ríkiskassanum á eftir.

Það er enginn vafi á því, að það hefur legið fyrir, að það mundi verða nokkru meiri fjármunamyndun á árinu 1968 við framkvæmdirnar, sem standa yfir við Búrfell og í Straumsvík, þetta hefur legið fyrir að mundi verða, og ég er ekki fyrir mitt leyti að finna að því, það er bara aðeins eðlilegur hlutur, eðlileg afleiðing af því, sem áður hafði verið ákveðið. En ég finn að því, að það skuli vera gert ráð fyrir því, að sú aukning, sem þar er um að ræða í framkvæmdum, geti komið í staðinn fyrir það, sem þurfti að gera til eflingar okkar atvinnuvegum, og þá ekki sízt þeim atvinnugreinum okkar, sem orðið hafa fyrir hörðustu og mestu áfalli vegna aflabrestsins og lækkaðs verðs á s. l. ári. Ég tel fyrir mitt leyti, að þessi þróun, sem hér er gert ráð fyrir, sé stórkostlega háskasamleg. Ég tel einnig, að full ástæða hefði verið til þess, að það erlenda lánsfé sem nú hefur verið tekið, hefði sérstaklega verið notað til þess að styðja við bakið á þeim fyrirtækjum, sem við álítum þýðingarmikil í okkar framleiðslulífi og orðið hafa fyrir áföllum, og til þess að efla hér nýjar greinar í undirstöðuframleiðslu okkar á þeim svæðum, þar sem þörf er á að auka við framkvæmdir, m. a. vegna þess samdráttar, sem þar hefur orðið af öðrum ástæðum. En eftir því sem fram kemur hér í þeim fylgigögnum sem hér hafa verið lögð fram, og í ræðu hæstv. ráðh., þá er beinlínis gert ráð fyrir því, að hin erlendu lán verði notuð jafnvel til aukinna framkvæmda hér á því svæði, þar sem ástandið ætti eðlilega að vera bezt, vegna hinna stóru framkvæmda við Búrfell og í Straumsvík.

Það voru ýmis önnur atriði, sem fram komu í ræðu hæstv. ráðh., sem voru þess efnis, að þau hefðu vissulega gefið tilefni til umr., en ég mun ekki fara langt út í það að sinni. Hann drap hér t. d. á það, að íslenzk atvinnufyrirtæki eða þeir, sem fyrir þeim standa, þyrftu að athuga betur en þeir hefðu gert til þessa, um arðsemismöguleika í rekstri fyrirtækjanna, og að allar áætlanir væru betur gerðar en þær hafa verið til þessa um framkvæmdakostnað. Út af fyrir sig get ég tekið undir orð eins og þessi hjá hæstv. ráðh., það er vissulega mikil þörf á því, að þeir, sem með stjórn atvinnufyrirtækja hafa að gera, athugi vel hvaða möguleikar eru fyrir hendi til þess að láta fyrirtækin bera sig. En þeir, sem stjórna eða hafa á hendi yfirstjórn í landinu, þeir verða þá ekki síður að gera sér grein fyrir því, að þeir verða að haga málunum þannig, að þeir, sem með atvinnureksturinn síðan hafa að gera, geti byggt áætlanir sínar og ráðagerðir sínar á einhverju föstu, en það hefur komið fyrir hvað eftir annað, að þær áætlanir, sem gerðar hafa verið fyrir hin einstöku fyrirtæki og voru raunhæfar á sínum tíma, stóðust ekki eftir örstuttan tíma, vegna þess að þá hafði ríkisvaldið gripið inn í og sett löggjöf um það að hrifsa góðan hluta af tekjunum til sín, þetta hefur gerzt hvað eftir annað og það er ekki gott að átta sig á því, þegar þannig er á málum haldið, út í hvaða framkvæmdir á að ráðast og hverjar ekki.

Ég skal ekki hafa þessar athugasemdir mínar lengri að sinni, en vil endurtaka það, sem var aðalatriðið í því, sem ég vildi segja hér um þessa skýrslu nú, en það var, að ég tel óverjandi með öllu að halda áfram þeim vinnubrögðum, sem hér eru viðhöfð í sambandi við skýrslugjöf eins og þessa. Hér verður að gera á verulega breytingu, og síðan hlýtur það að vera gagnlegt, að hér geti farið fram á Alþ. umr. um þessi mikilvægu mál með eðlilegum hætti. En það er ekki hægt við þær aðstæður, sem hér er boðið upp á.

Á 56. fundi í Sþ., 19. apríl, var tekin á dagskrá: Skýrsla utanrrh. um Atlantshafsbandalagið og varnarsamninginn við Bandaríkin.