19.04.1968
Sameinað þing: 56. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2122 í B-deild Alþingistíðinda. (1953)

Skýrsla utanrrh. um Atlantshafsbandalagið og varnarsamninginn

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir skýrslu þá, sem hann hefur nú gefið. Það er sérstök ástæða til þess að þakka honum fyrir hana, vegna þess að hann gefur hana í tilefni af þáltill., sem við flytjum saman, þrír Alþb.-menn og verður við tilmælum okkar í þessari till., án þess þó að till. hafi verið samþ. Hins vegar verð ég að segja, að skýrsla hæstv. ráðh. veldur mér nokkrum vonbrigðum. Á endurskoðun þá, sem til stendur samkv. yfirlýsingu hæstv. forsrh. í haust, er varla minnzt í þessari skýrslu. En hvað um það, nú er eðlilegt, að upphæfust miklar umr. um málið, margir kveddu sér hljóðs og fluttar yrðu langar ræður, eins og stundum ber við hér á Alþ., þegar ýmis mál, hvergi nærri eins þýðingarmikil og þetta, eru til umr. En því miður, ríkisstj. virðist ekki telja neina þörf á slíku. Þessi fundur, sem haldinn er á næstsíðasta degi þingsins, hófst kl. 5, og honum mun eiga að ljúka kl. 7, þannig að okkur eru ætlaðir tveir tímar og af þessum tveimur tímum hefur hæstv. utanrrh. þegar notað 25 mínútur, þannig að okkur alþm. er ætluð 1½ klukkustund samtals til að fjalla um þetta mikilvæga mál. Ég verð að segja það fyrir fram að ég mun nú gerast álíka stórtækur og hæstv. ráðh. og tala sennilega álíka lengi, enda engin vanþörf á.

Ég gat sem sé ekki heyrt, að hæstv. ráðh. hefði neitt nýtt fram að færa. Þrátt fyrir þá gerbreytingu í hernaðartækni og allri aðstöðu á alþjóðavettvangi, sem orðin er, síðan hinn svonefndi herverndarsamningur var gerður, telur hann það sem sé enn sem fyrr fásinnu að vísa hinum erlenda her úr landi. Og þrátt fyrir það að ribbaldaháttur og ódæði ýmissa þátttökuríkja Atlantshafsbandalagsins hafi verið að flekka skjöld þess æ því meir sem árin hafa liðið, þá telur hæstv. utanrrh. sem sagt enn sem fyrr, að Íslendingum sé það næstum að segja siðferðileg skylda að eiga aðild að þessu stríðsfélagi.

Í ræðu, sem hv. 6. þm. Reykv. flutti hér á Alþ. ekki alls fyrir löngu, sýndi hann fram á það, hversu gersamlega þróun mála hefur sannað haldleysi þeirra röksemda, sem í upphafi var heitt til að réttlæta hersetuna, þ. e. a. s. 1951. Fyrsta og helzta röksemdin var Kóreustyrjöldin, eins og hæstv. utanrrh. vék að hér áðan, og í sambandi við hana hætta á stórstyrjöld milli Sovétríkjanna og Bandaríkjanna. En einmitt um sömu mundir og hinn bandaríski her kom hingað, var Kóreustyrjöldin að fjara út, og svo ekki löngu seinna var saminn friður þar eystra. Eftir sem áður var þessi styrjöld notuð sem forsenda þeirrar fullyrðingar, að Sovétríkin væru komin í vígahug og Íslendingum stafaði stórhætta af árásaráformum þeirra. Sovétríkin voru sögð ógna heimsfriðnum og frelsi okkar Íslendinga sem og annarra vestrænna lýðræðisþjóða, og margir trúðu þessu. En núna, hver trúir þessu í dag? Getur nokkrum heilvita manni dulizt sú staðreynd lengur, að það verða ekki Sovétríkin, sem ógna heimsfriðnum, heldur þvert á móti. Þvert á móti hefur utanríkisstefna þeirra hneigzt æ meir í átt til málamiðlunar á alþjóðavettvangi, á meðan utanríkisstefna Bandaríkjanna hefur stefnt í öfuga átt, til æ meira ofríkis og yfirgangs og ribbaldaháttar, sem berlegast hefur í ljós komið í stríðinu í Víetnam. Blasir það ekki við allra augum, að það eru Bandaríkin, þessi öflugasti bandamaður okkar Íslendinga, þessi stoð og stytta Atlantshafsbandalagsins, sem í dag ógnar heimsfriðnum? Og er ekki kominn tími til, að við Íslendingar vísum frá okkur allri ábyrgð á þessari ógnun, þessari tortímingarhættu, sem sífellt vofir yfir öllu mannkyni vegna ofríkisstefnu Bandaríkjanna, vísum frá okkur þessari ábyrgð, sem fylgir því að veita Bandaríkjunum hernaðaraðstöðu í landi okkar, aðstöðu, sem er liður í hernaðarbrölti þeirra, sem spanar upp allan heiminn? Hæstv. utanrrh. vill, að við veitum Bandaríkjunum áfram slíka aðstöðu. Ég spyr: Til hvers eigum við að gera það? Og hæstv. utanrrh. mun eflaust svara eins og hingað til: Til þess að tryggja öryggi okkar og efla heimsfriðinn. M. ö. o.: við eigum að efla heimsfriðinn með því að efla þann, sem ógnar heimsfriðnum. Er nokkur glóra í slíkri röksemdafærslu? Af hverju segir ekki hæstv. utanrrh. og aðrir þeir menn, sem mæla með áframhaldandi bandarískri hersetu, af hverju segja þeir ekki, að herseta þessi sé okkur nauðsyn samkv. því gamla heilræði, að heiðra skaltu skálkinn, svo að hann skaði þig ekki. Slíkt væri þó a. m. k. röksemd, þó að hún gæti hins vegar ekki talizt lýsa neinum sérstökum stórhug eða stórmannlegum hugsunarhætti.

Þeir, sem ábyrgð báru á inngöngu okkar Íslendinga í Atlantshafsbandalagið árið 1949, lýstu því þá hátíðlega yfir, að hér skyldi ekki vera her á friðartímum. Ýmsir þessara manna eiga enn sæti hér á Alþ. og þ. á m. hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. Þeir hafa æ ofan í æ verið minntir á þessa yfirlýsingu og jafnframt verið að því spurðir, hvenær þeir mundu telja, að friðartímar væru. Þessari spurningu hafa þeir hins vegar aldrei fengizt til þess að svara, svo að nokkuð væri á byggjandi. Enn og aftur hljóta þeir þó að verða krafðir svars: Hvenær mundu að dómi þeirra teljast vera friðartímar? Ef dæma skal af boðskap þeirra um áframhaldandi hersetu, virðist mega ætla, að þeir telji ekki, að nú séu þeir friðartímar, sem geri hersetuna óréttlætanlega samkv. hátíðlegri yfirlýsingu þeirra frá 1949. Og satt er það, að víða er ástand ótryggt, eins og hæstv. utanrrh. vék að hér áðan, víða er barizt. En heimsfriðnum er fyrst og fremst ógnað í Suðaustur-Asíu, þar sem Bandaríkin heyja eitt hið blóðugasta og viðurstyggilegasta stríð, sem háð hefur verið í allri sögu mannkynsins. En á þá slíkt stríð að teljast réttlæting fyrir bandarískri hersetu á Íslandi? Sú vernd, sem látið er heita að herseta Bandaríkjanna veiti okkur gegn árás og gegn stríði, er hún þá nauðsynleg fyrir þá sök fyrst og fremst, að Bandaríkin standa sjálf í árásarstríði? Ég fæ ekki betur séð en þetta hljóti að vera niðurstaðan, svo þversagnarkennd sem hún er og hláleg í öllum sínum óhugnanleik. En ef þessi röksemd á að gilda, má gera ráð fyrir, að herseta á Íslandi, bandarísk vernd gegn stríði, verði lengi enn réttlætt með einhverju slíku stríði, einhverju slíku bandarísku stríði. Jafnvel þó að friður verði saminn í Víetnam, svo sem allir góðir menn hljóta einlæglega að vona, þá er því miður allt útlit fyrir það, að Bandaríkin eigi eftir að heyja mörg stríð af sama tagi og það, sem þau heyja nú austur þar. Stjórnarvöld í Washington og hershöfðingjar þeir, sem mestu ráða í Pentagon, fylgja einni meginreglu varðandi öryggi Bandaríkjanna, og hún er sú, að þessu öryggi sé ógnað, og þetta yrði í samræmi við Trumankenninguna svonefndu frá 1947, að þessu öryggi sé ógnað hvar í heiminum sem uppreisnir eru gerðar eða til valda koma ríkisstj., sem stofnað gætu í hættu kapítalískum hagsmunum og öðrum áhrifum og ítökum Bandaríkjanna. Bandarískir hermenn hafa þegar víða barizt til þess að framfylgja þessari kenningu, og nægir þar að nefna Víetnam, Kúbu og Guatemala, Dóminikanska lýðveldið og fleiri staði. Alþýða Suður-Ameríku gnístir tönnum undir oki bandarískra auðhringa, og það meginland er því allt eins og það leggur sig hugsanlegur vettvangur fyrir bandaríska hernaðaríhlutun. Ítökum bandarískra auðhringa í Afríku er líka víða ógnað með aukinni sókn til sósíalískra þjóðfélagshátta í mörgum hinna nýju ríkja, og sömu sögu er að segja úr ríkjum Araba, þar sem róttæk þjóðfélagsöfl, sem krefjast réttarbóta handa hinum fátæku, bíða færis að þjóðnýta olíulindir þær, sem bandarískir aðilar nýta sér til auðs og áhrifa þar um slóðir.

Því miður, það virðist úa og grúa af hugsanlegum tilefnum fyrir Bandaríkjamenn að grípa til vopna til að tryggja öryggi sitt, eins og það heitir á þeirra máli, eða eins og það heitir á réttu máli: til að viðhalda með ofbeldi forréttindaaðstöðu sinni í heiminum. Maður leyfir sér því enn að spyrja: Hljótum við Íslendingar að una hersetu Bandaríkjanna í landi okkar, hljótum við að una henni allan þann langa tíma, sem líklegt er að þeir muni halda áfram að streitast við að beita slíku ofbeldi? Á hvert eitt bandarískt stríð að verða réttlæting fyrir bandarískri hersetu á Íslandi, fyrir svonefndri bandarískri vernd gegn stríðinu?

6. þm. Reykv. gerði í ræðu sinni hér um daginn glögga grein fyrir þeim breytingum í hermálum Vestur-Evrópu, sem siglt hafa í kjölfar breyttra aðstæðna. Ég læt nægja að rifja upp helztu atriðin úr þeim kafla ræðu hans og bæta við nokkrum frá mér sjálfum.

Frakkar hafa umturnað öllum hernaðaráætlunum Atlantshafsbandalagsins og í rauninni gert þær með öllu marklausar með því að slíta allri hernaðarsamvinnu við bandalagið og taka hersveitir sínar í Þýzkalandi, 70 þús. manns, undan yfirstjórn þess, jafnframt því sem þeir hafa skipað Bandaríkjamönnum að hafa sig á brott úr þeim herstöðvum, sem þeir höfðu á franskri grund, og rekið aðalstöðvar Atlantshafsbandalagsins úr landi. Sú styrjaldarhætta í Evrópu, sem talað var um með stofnun Atlantshafsbandalagsins, er úr sögunni að dómi Frakka, og nú telja þeir, að mestu skipti, að Evrópuþjóðir losi sig undan húsbónda valdi Bandaríkjanna, sem með utanríkisstefnu sinni eru í sífellu að tengja aðrar þjóðir Atlantshafsbandalagsins við styrjaldarátök, sem eru þessum þjóðum vægast sagt lítt að skapi. En í stað þess að þessar aðgerðir Frakka yrðu til þess, að önnur bandalagsríki teldu óhjákvæmilegt að taka á sig nýjar hernaðarbyrðar í Evrópu, eins og ýmsir höfðu spáð, hafa þær haft þveröfug áhrif. Síðan þetta gerðist, hafa þessi ríki dregið úr hervæðingu á ýmsum sviðum. Bretar lækka hernaðarútgjöld sín og hyggjast nú á þessu ári fækka um 6 þús. manns í herliði sínu í Þýzkalandi. Þjóðverjar hafa líka fækkað allverulega í her sínum. Og Baunsgaard hinn danski hefur skorið niður hernaðarútgjöld um 125 millj. danskar kr. og bannað heræfingar NATO, sem fyrirhugaðar voru í Danmörku á næsta sumri, jafnframt því sem hann boðar þá stefnu stjórnar sinnar að vinna að almennum öryggissáttmála fyrir alla Evrópu, austur jafnt sem vestur.

Um Noreg er það að segja, að þar í landi er nú risin öflug hreyfing, sem berst fyrir því, að Noregur segi sig úr NATO á næsta ári. Til fróðleiks og gamans fyrir hæstv. utanrrh. og fyrir aðra hv. þm. Alþfl. má geta þess, að hreyfing þessi er ötullega studd af ýmsum áhrifamönnum í norska Verkamannaflokknum, og til marks um hugsunarháttinn í þeim herbúðum má t. d. hafá það, að á fundi í stærsta flokksfélagi Verkamannaflokksins í Osló, sem haldinn var fyrir hálfum mánuði, var till. um úrsögn úr NATO samþ. með 101:23 atkv. Atkvgr. er talin mikill sigur fyrir Karl Trasti flokksstjóra og fyrrum ráðh., sem hefur beitt sér mjög gegn NATO-stefnu flokksforustunnar. Í langri ályktun, sem félag þetta gerði þarna, segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Í stað þess að fá NATO pólitísk verkefni, sem það getur ekki sinnt fyrir sakir þeirra hernaðarlegu markmiða, sem samtökin setja sér, hlýtur stefna Noregs að verða sú að vinna að upplausn bandalagsins og í stað þess að beita sér að því, að öll Evrópuríkin leysi öryggismál sín í sameiningu. Noregur á að segja sig úr NATO 1969 til að leggja fram sinn skerf til endurskipulagningar á öryggismálum Evrópu.“

Þarna kveður sem sé við nokkuð annan tón heldur en hjá hæstv. utanrrh., einum helzta forustumanni Alþfl. sem kallar sig bróðurflokk Verkamannaflokksins norska. En þess má hann vera fullviss, hæstv. ráðh., að flokksmenn hans ýmsir og þá sérstaklega hinir yngri fylgjast vel með þessari þróun úti í Noregi og annars staðar í Skandinavíu. Sú norska hreyfing, sem ég var að neina, berst undir kjörorðinu „Norge ut av NATO“. Ef sams konar hreyfing kæmi upp hér, sem ég vona að verði, þá mundi þetta góð fyrirmynd að kjörorði handa henni: Ísland úr Atlantshafsbandalaginu. Og ekki þætti mér ólíklegt að einhverjir af hinum ungu flokksmönnum hæstv. utanrrh. yrðu þar meðal þátttakenda, hvað sem svo honum kynni að finnast um það sjálfum.

Ég las það í norsku blaði nýlega sem dæmi um fáránlegan málflutning hjá andstæðingum hreyfingar þessarar þar úti í Noregi, að þeir héldu því fram, að hreyfingin væri andvíg alþjóðlegu samstarfi yfirleitt, og sams konar málflutningur hefur nú reyndar heyrzt einnig hérna hjá okkur. Því er oft haldið fram, að andstaða gegn þátttöku okkar Íslendinga í NATO sé andstaða gegn alþjóðlegu samstarfi yfirleitt, því samstarfi, sem nú á tímum sé brýn nauðsyn til aukins skilnings milli þjóða og heilbrigðra samskipta til blessunar öllu mannkyni. Þátttöku okkar í NATO er jafnvel stundum líkt við þátttöku okkar í Sameinuðu þjóðunum eða öðrum slíkum samtökum. Sumir ganga meira að segja svo langt að halda því fram, að við, sem erum andvígir þátttöku okkar Íslendinga í NATO, hljótum líka að vera andvígir þátttöku okkar í Sameinuðu þjóðunum. Ég vænti þess þó, að ég þurfi ekki hér að taka það fram, að ég er eins og við aðrir Alþb.-menn fylgjandi alþjóðlegu samstarfi, enda er það rétt, að í slíku samstarfi felst eina von okkar og alls mannkynsins um líf og frið og giftusamlega framtíð hér á þessari jörð. Og það er einmitt vegna skilnings á þessu, sem við Alþb.-menn berjumst fyrir úrsögn okkar Íslendinga úr NATO. Þátttaka okkar í þessu bandalagi er andstæð hugsjóninni um heilbrigt alþjóðasamstarf, vegna þess að bandalag þetta elur á tortryggni milli þjóða, eykur fjandskap milli þjóða, torveldar alla viðleitni til aukins skilnings milli þjóða. Þátttöku okkar í þeim alþjóðlegu stofnunum, eins og t. d. Sameinuðu þjóðunum, sem horfa til blessunar fyrir einstakar þjóðir og mannkynið allt, þá þátttöku þarf einmitt að okkar dómi að auka, og okkur ber að rækja hana af miklu meiri reisn en hingað til. Þátttaka okkar í alþjóðlegu samstarfi er ekki annað en nafnið tómt, ef við látum þar ekkert að okkur kveða, og hún er raunar verri en ekki, meðan við lútum vilja þeirra, sem harkalegast ganga fram í rangsleitni og ofríki á vettvangi heimsmálanna, svo sem því miður hefur æðioft orðið raunin, t. a. m. að því er varðar framferði fulltrúa okkar á þingi Sameinuðu þjóðanna. Slíkt er ekki samboðið fullvalda þjóð og hlýtur að valda öllum þorra Íslendinga gremju og blygðun.

Nauðsynin á þátttöku okkar í alþjóðlegu samstarfi er æðioft rökstudd með því einu, að við getum haft af henni svo og svo mikil not sjálfir. Sá hugsunarháttur er okkur einnig vafasamur virðingarauki. Við eigum að ganga til slíks samstarfs einnig og miklu fremur með því hugarfari, að þátttaka okkar geti haft þýðingu fyrir aðra. Við erum að vísu fámennir og ekki mikils megandi miðað við ýmsa aðra. En þar fyrir er engin ástæða til að láta framferði okkar á alþjóðavettvangi einkennast af manndómsleysi og lágkúru.

Í þessu sambandi má minna á þá starfsemi, sem fer fram á vegum Sameinuðu þjóðanna til hjálpar svonefndum vanþróuðum ríkjum og öllum þeim hundruðum millj., sem hvern dag verða að þola og þjást af hungri, sjúkdómum og hvers kyns annarri kröm. Skerfur okkar til þeirrar starfsemi hefur hingað til verið smánarlega lítill. Sóma okkar vegna, sjálfsvirðingar okkar vegna og samvizku okkar vegna ber okkur að auka hann til stórra muna.

Við Alþb.-menn og aðrir þeir, sem berjast gegn hersetu á Íslandi og fyrir úrsögn okkar úr Atlantshafsbandalaginu, leggjum ekki alltaf sama skilning í þýðingu alþjóðlegs samstarfs eins og ýmsir aðrir. En við leyfum okkur að halda því fram, að við séum að ýmsu leyti a. m. k. miklu einlægari fylgjendur hvers konar jákvæðrar og hollrar samvinnu á alþjóðavettvangi heldur en andstæðingar okkar ýmsir sem miða flestar slíkar samvinnuhugsjónir sínar við það eitt að gera íslenzku þjóðina samábyrga um styrjaldarbrölt og hvers kyns ódæði voldugra ofríkismanna. Við krefjumst nýrrar stefnu, sem tekur fullt tillit til þeirra staðreynda, sem í dag blasa við á vettvangi alþjóðamála. Og þá koma að sjálfsögðu fyrst í hug frændþjóðir okkar á Norðurlöndum. Við eigum að sjálfsögðu að auka og efla samvinnuna við þær. Norðurlandamenn eru okkur hollur félagsskapur og það jafnvel svo, að hæstv. ráðh. okkar virðast yfirleitt hressast stórlega og eflast að siðferðisþreki, þegar þeir koma innan um kollega sína á Norðurlöndum. Ég hygg t. d., að það hafi verið á norrænum utanríkisráðherrafundi í hitteðfyrra, sem hæstv. utanrrh. Íslendinga dró það í fyrsta sinn í efa opinberlega, að Bandaríkjamenn hefðu endilega átt að hafa rétt fyrir sér í Víetnam. En nú ber svo við, að jafnhliða þeirri hreyfingu, sem upp er komin í Noregi, og vaxandi gagnrýni á NATO og Bandaríkin um alla Skandinavíu hefur hin gamla hugmynd um norrænt bandalag aftur fengið byr undir vængi. Þessi hugmynd um stofnun hlutlauss bandalags Norðurlandaþjóða, sem síðar neytti sameiginlegrar aðstöðu sinnar og þeirrar virðingar, sem þær njóta í heiminum, til þess að miðla málum í deilum þjóða, sú hugmynd er í þeim anda, sem við eigum að marka stefnuna. Slík hugmynd mun eflaust hljóta hljómgrunn með íslenzku þjóðinni, enda ætti að vera auðvelt að sýna fólki fram á möguleikana til fatsællar framkvæmdar hennar með skírskotun til þess, að tvær þessara þjóða hafa þegar fyrir löngu lýst yfir hlutleysi sínu og staðið við það, sjálfum sér til mikillar blessunar, auk þess sem önnur þeirra, þ. e. a. s. Svíar, hefur í krafti hlutleysis síns aflað sér mikils álits og trausts með öllum þjóðum heims.

Við megum ekki láta staðar numið við Norðurlönd. Hugmyndina um hlutlaust bandalag Norðurlandaþjóða eigum við að tengja ýmsum till., sem uppi eru til þess að draga úr stríðshættu í Evrópu á næstunni, t. d. till. Pólverja, Rapatski-áætluninni svonefndu um kjarnorkuvopnalaust belti í Evrópu. Að sjálfsögðu ættu Norðurlöndin öll að tilheyra slíku belti. Og í framhaldi af hlutlausu handalagi Norðurlandaþjóða eigum við að stuðla að hlutlausu bandalagi Evrópuþjóða. Þróunin í Austur-Evrópu gerist nú æ hliðhollari slíkum hugmyndum. Með auknu sjálfstæði hinna smærri þjóða í austri og vestri hlýtur að eflast sú stefna, hlutleysisstefnan, sem ein getur dregið úr spennu á alþjóðavettvangi og lækkað rostann í stórveldunum og tryggt heimsfriðinn. Og Ísland á að fylgja og Ísland hlýtur að fylgja slíkri stefnu.

Sú krafa hefur oft verið borin fram í sambandi við þessi mál, að Íslendingar fengju að segja álit sitt á þeim með þjóðaratkv. Þeirri kröfu hefur hins vegar ávallt verið synjað, m. a. á þeirri forsendu, að þjóðin fái að lýsa viðhorfi sínu í hverjum almennum kosningum og viðhorf hennar sjáist á þeirri prósentutölu, sem falli í hlut þeirra, sem eru fylgjandi herstöðvastefnunni annars vegar og svo hins vegar hinna, sem eru andvígir þessari stefnu. Slík rök eru þó næsta haldlítil. Í almennum kosningum falla atkv. eftir mati fólks á fjölda mála, oft persónulegra hagsmunamála, sem eru alls óskyld því stórmáli, sem hér um ræðir. Um það hefur þjóðin aldrei fengið að segja álit sitt sérstaklega, skýrt og ótvírætt. Það gæti hún aðeins gert við þjóðaratkvgr., þar sem spurt yrði um álit hennar á þessu máli og engu öðru.

Nú liggur fyrir viðurkenning fyrir því af hálfu stjórnvaldanna, að aðstæður séu þó það breyttar, að nauðsynlegt sé að endurskoða nokkuð svonefnd varnarmál, athuga, hvernig öryggi Íslands, eins og það er kallað, verði bezt tryggt í framtíðinni. Hæstv. utanrrh. hefur að vísu lýst yfir þeirri afstöðu stjórnvaldanna, að þó að þau telji, að nokkra nauðsyn beri til að endurskoða eitthvað þessi hernámsmál, telja þau eftir sem áður, að landið skuli vera hernumið, að hér skuli vera herstöðvar. En það eru ekki einkaskoðanir stjórnvaldanna, sem eiga að ráða hér úrslitum, heldur skoðanir þjóðarinnar sjálfrar, fólksins í landinu. Mér sýnist því tímabært að setja enn fram hina gömlu kröfu um þjóðaratkv. Að dómi okkar Alþb.-manna hefur aldrei síðan bandarískum her var fyrir 17 árum hleypt inn í landið að þjóðinni forspurðri, aldrei verið meirihlutafylgi fyrir því að leyfa her þessum setu hér. Meiri hl. þjóðarinnar hefur verið andvígur þessu. Og það sannaðist að vísu svart á hvítu í undirskriftasöfnun undir kröfu um brottför hersins, sem samtök hernámsandstæðinga efndu til um allt land árin 1960–1961. Formælendum herstöðvastefnunnar hefur síðan farið stöðugt fækkandi, og andstaðan gegn henni hefur harðnað innan þeirra stjórnmálaflokka, sem áður fylgdu henni skilyrðislaust. Samtök ungra framsóknarmanna hafa krafizt brottfarar hersins, já, og trúi ég Framsfl. sem slíkur, þó að hinir eldri hafi kannske ekki verið alveg eins skeleggir og ákveðnir í þessum ályktunum. Og ungir áhrifamenn í Alþfl. hafa einnig tekið einarðlega undir þessa kröfu. Þessir ungu menn, ungir framsóknarmenn og ungir jafnaðarmenn, eru sammála okkur Alþb.-mönnum um það, að endurskoðun á svonefndum varnarmálum geti aðeins leitt til einnar raunhæfrar niðurstöðu, að hinn bandaríski herafli fari úr landi og lagt verði niður allt hernaðarbrölt á íslenzkri grund.

Forustumenn Framsfl. og Alþfl., sem eiga sæti hér á hinu háa Alþ., hljóta að verða að taka tillit til vilja þessara ungu flokksbræðra sinna. Og ég þykist raunar viss um, að hv. þm. Framsfl., a. m. k. flestir ef ekki bara allir, séu þeim inn við hjartað innilega sammála. Mér sýnist sem sé, að gjarnan mætti beina þeirri fsp. til stjórnarvaldanna, hvort þau gætu ekki á það fallizt, að þjóðaratkv. yrði nú látið ganga um hernámsmálin, þegar fyrir stendur endurskoðun á þeim. Í hæstv. ríkisstj. eiga sæti menn, sem frá öndverðu hafa borið höfuðábyrgð á því, að þjóðinni hefur verið synjað um þann skýlausa rétt sinn að fella úrskurð í því máli. Með því hafa þeir vakið grunsemdir um, að þeir setji annarlega hagsmuni ofar vilja íslenzku þjóðarinnar. Nú er tækifæri fyrir þá að sanna, að svo sé ekki.