14.11.1967
Neðri deild: 17. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2146 í B-deild Alþingistíðinda. (1957)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Eins og mönnum er kunnugt, er að skapast mikið erfiðleikaástand víða úti á landi vegna olíuskorts, sem stafar af farmannaverkfalli. Þegar verkfallið hófst, var Litlafellið hlaðið olíu statt á Patreksfirði með olíu til hafna þar vestra og til Norðurlands- og Austurlandshafna. Afgreiðsla fékkst engin, en þegar mjög var knúið á um afgreiðslu, fékkst undanþága um afgreiðslu til fjögurra hafna, tveggja á Norðurlandi og tveggja á Austurlandi. Skipið sigldi síðan burt með olíuna og skildi hafnirnar á Vestfjörðum eftir, flestar olíulausar. Þar er þannig ástatt að það er tveggja, þriggja og fjögurra daga forði til og hreinn voði fyrir dyrum. Ég vil beina því til hæstv. ríkisstj., (Því miður er hæstv. sjútvmrh. ekki viðstaddur, en ég vona, að því verði til hans komið.) að hlutast nú til um, að úr þessu verði bætt. Það er með öllu óskiljanlegt, að ekki verði bjargað því, sem bjargað verður á þessum stöðum, því að það er bókstaflega voði fyrir dyrum.