16.12.1967
Neðri deild: 43. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2151 í B-deild Alþingistíðinda. (1961)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð í tilefni af því, sem hér hefur verið sagt undir þessum lið að ræða hér málefni utan dagskrár. Í fyrsta lagi vil ég undirstrika það, að sá réttur hefur ekki verið af þm. tekinn að geta kvatt sér hljóðs utan dagskrár og ræða mál utan dagskrár. Og það er því alveg ástæðulaust, bæði af hæstv. forseta og öðrum, að gera ráð fyrir því, að hér geti aðeins verið um það að ræða, að menn rétt skjótist upp í pontuna og leggi einhverja tiltekna fsp. fyrir ráðh. Umr. utan dagskrár geta átt sér stað og hafa átt sér stað á Alþ. um langan tíma, og er ekkert við því að segja. Og a. m. k. þegar svo stendur á, að fjallað er um mikilvæg mál, sem eðlilegt er, að Alþ. fjalli um, og þegar aðstaða er til slíks, er vitanlega alveg ástæðulaust að ætla að skera sérstaklega niður slíkar umr.

En það var aðallega eitt atriði, sem ég vildi víkja að í sambandi við það, sem hér hefur verið sagt, en það er um það, hvort nú sé ríkjandi óbreytt afstaða okkar Íslendinga til Grikklands eða grísku stjórnarinnar. Ég hélt, að málum væri þannig háttað, að formlega séð hefðum við okkar stjórnmálasamband við konunginn í Grikklandi, svo að mér kom það í rauninni nokkuð á óvart, þegar hæstv. utanrrh. sagði í sjónvarpsviðtali, að hér væri um algerlega óbreytt ástand að ræða á milli Íslands og Grikklands og ég vildi gjarnan, að það kæmi hér fram í þessum umr., hvort svo gæti verið að hans áliti, þegar hann hugleiðir það nánar. Er ekki ástandið þannig í dag, að raunverulega sé rofið stjórnmálasamband á milli Íslands og gríska konungsins eða Grikklands, nema þá það hafi verið tekið sérstaklega upp stjórnmálasamband samkv. ákvörðun ríkisstj. eða þeirra, sem fara með utanríkismál, við þá stjórn, sem nú hefur hrifsað til sín völdin í Grikklandi. Þetta tel ég fyrir mitt leyti skipta allmiklu máli varðandi þetta atriði, að þetta komi skýrt fram, því að ég hélt satt að segja að okkar samband við Grikkland væri með þessum hætti, þannig að það léki enginn vafi á því, að raunverulega væri þetta samband rofið með því, að konungurinn hefur farið úr landi og ný stjórn hefur þar hrifsað til sín völdin með þeim hætti, sem við vitum.

Þá vil ég einnig taka undir það, sem hér hefur komið fram, að ég tel, að það sé bæði rétt og sjálfsagt, að utanrrh. gefi Alþ. skýrslu, en vísi ekki til einhverra almennra yfirlýsinga, sem sendar hafa verið frá slíkum fundi eins og þeim, sem hann sat á nú. Ég tel eðlilegt, að hann gefi Alþ. skýrslu um slík fundahöld og öll þau markverð mál, sem þar hafa komið fram, svo að alþm. gefist þá kostur á því að ræða um þau mál, svo að það geti komið skýrt fram, hver er afstaða Alþingis til þeirra mikilvægu atburða, sem um hefur verið að ræða. Þessi ósk hefur verið sett hér fram nokkrum sinnum áður, og ég fyrir mitt leyti vil undirstrika það enn einu sinni, að það er ósk okkar Alþb.-manna, að hæstv. ráðh. sjái sér fært að gefa Alþ. skýrslur af slíkum fundum sem þessum, hafi þar verið fjallað um einhver umtalsverð mál, svo að Alþ. gefist kostur á að ræða málin.

Ég endurtek svo það, að ég vildi gjarnan, að það kæmi skýrt fram hjá hæstv. utanrrh., hvort hann lítur svo á, að það sé enn í gildi fullt stjórnmálasamband á milli Íslands og þeirrar ríkisstj. sem nú hefur hrifsað völdin til sín í Grikklandi, þrátt fyrir það að konungur þeirra sé hlaupinn úr landi. Ég tel fyrir mitt leyti, að svo sé ekki.