23.01.1968
Neðri deild: 53. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2153 í B-deild Alþingistíðinda. (1963)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs hér utan dagskrár vegna mjög alvarlegs atburðar, sem gerðist í nágrannalandi okkar, Grænlandi, á sunnudaginn var. Bandarísk þota hlaðin fjórum vetnissprengjum fórst þá í nánd við Thule-flugvöll, en óvíst er enn, hvað um sprengjurnar hefur orðið eða hver geislavirkni kann að stafa af þeim. Grænland er sem kunnugt er hluti af Danmörku, en samt leið nær sólarhringur þar til danska ríkisstj. fékk að vita um þennan atburð. Hefur þetta mál að vonum vakið mikinn óhug í Danmörku, og danska ríkisstj. hefur ítrekað þær yfirlýsingar sínar, að það sé stefna danskra stjórnarvalda, að óheimilt sé að geyma kjarnorkuvopn á danskri grund og óleyfilegt að fljúga með slík vopn yfir danskt land. Hins vegar hefur nú sannazt, að Bandaríkjastjórn virðir ekki þessa stefnu Dana. Menn spyrja að vonum hvort nokkurn tíma hefði frétzt um þennan atburð, ef sprengjuþotunni hefði tekizt að lenda á Thule-flugvelli, án þess að slys hefði hlotizt af.

Þessi atburður er afleiðing af þeirri stefnu Bandaríkjastjórnar að hafa flugvélaflota hlaðna kjarnorkuvopnum stöðugt á sveimi í háloftunum. Flugflotar þessir taka sig að jafnaði upp í Bandaríkjunum, fljúga í átt að landamærum Sovétríkjanna norðanverðum og sunnanverðum og halda síðan heim aftur. Þrjár flugleiðir af þessu tagi liggja norður yfir Kanada og Alaska, en síðan er snúið við í nánd við Sovétríkin og þessar flugsveitir allar fljúga suður með vesturströnd Grænlands samkv. áætlunum bandarísku herstjórnarinnar. Fjórða leiðin liggur austur yfir Atlantshaf yfir Spán, Miðjarðarhaf og Ítalíu, en síðan er snúið við í nánd við vesturmörk Balkanskaga. Þessar kjarnorkuógnanir Bandaríkjanna hafa sem kunnugt er vakið miklar umr. og deilur árum saman og allavega ættu þær að sýna hverjum hugsandi manni, hversu valtur er hinn vopnaði friður, einnig í okkar heimshluta. Hinir ógnarlegustu atburðir geta ekki aðeins hlotizt af stefnu valdamanna, heldur og af óaðgæzlu eða veilum í fari þeirra flugmanna, sem fljúga með farm tortímingarinnar.

En ég stóð hér ekki upp til þess að ræða um aðild Íslands að þessari háskalegu stefnu og ábyrgð okkar á henni með þátttöku í Atlantshafsbandalaginu og með hernámssamningnum. Þau mál verða tekin fyrir hér á annan hátt. En á hitt vildi ég leggja áherzlu, að hæstv. ríkisstj. gæti þess í sífellu, að háskanum af þessu kjarnorkuflugi sé bægt frá Íslandi og íslenzku þjóðinni. Þau lönd sem eru í námunda við flugleiðir bandarísku kjarnorkuflugflotanna eru í mikilli hættu af slysum. Þetta sannaðist m. a. 17. janúar 1966, þegar bandarísk sprengjuþota af gerðinni B-52, sams konar vél og nú hefur hrapað yfir Grænlandi, rakst á eldsneytisvél yfir Spáni með þeim afleiðingum, að fjórar vetnissprengjur féllu til jarðar. Ein fór í sjóinn, en þrjár féllu á land í nánd við fiskimannaþorpið Palomares í héraðinu Almeria. Hver sprengja jafngilti að eyðingarmætti 20 millj. tonna af TNT. Bandarísk og spænsk stjórnvöld reyndu að halda atburði þessum leyndum. Opinberar tilkynningar um hann voru ekki birtar fyrr en í marzbyrjun, hálfum öðrum mánuði seinna. Hins vegar kvisaðist fljótlega, hverjir atburðir höfðu gerzt, vegna þess að gera varð umfangsmikla leit að sprengjum og ýmsar ráðstafanir til þess að komast hjá enn alvarlegri afleiðingum. Sprengjan sem féll í sjóinn fannst ekki, fyrr en eftir 13 vikna umfangsmikla leit. Af sprengjunum, sem féllu á land, höfðu tvær laskazt, þegar þær skullu til jarðar. Hvellhetturnar höfðu sundrazt, en það var raunar ekki um að ræða hvellhettur í venjulegum skilningi, heldur plútóníum-sprengjur og dreifðust sprengjubrot ásamt geislavirkum ögnum af plútóníum og úraníum yfir allstórt svæði. Af þessum ástæðum varð að gera miklar ráðstafanir til þess að tryggja öryggi íbúanna, m. a. voru 1500 tonn af gróðri og jarðvegi sett í stálgeyma, flutt til Suður-Carolina í Bandaríkjunum og grafin þar. Eftir þennan atburð fóru spænsk stjórnvöld þess á leit við Bandaríkjastjórn, að hætt yrði að fljúga með kjarnorkusprengjur yfir spænsku landi. Ekki er vitað, að Bandaríkjastjórn hafi orðið við þeirra beiðni. Hins vegar hét hún því að hætta að láta vélar hlaðnar kjarnorkusprengjum taka eldsneyti yfir Spáni.

Ég rifja upp þennan atburð sökum þess, að hann gefur nokkra vísbendingu um, hversu alvarleg þau tíðindi eru, sem nú hafa gerzt á Grænlandi. Og við skulum gera okkur það ljóst, að það er ekki víst, að við fréttum einvörðungu um slíka ógnaratburði frá öðrum löndum. Hliðstæður háski getur vofað yfir hverju því landi, sem lagt hefur verið undir bandarískar herstöðvar. Það er að vísu ekki kunnugt, að flugleiðir kjarnorkuflugsveitanna séu í námunda við Ísland um þessar mundir. En bandaríska herstjórnin getur ævinlega breytt athöfnum sínum án þess að við séum um það spurð.

Og í annan stað er veðurfar slíkt yfir norðurslóðum, að flugvélar getur borið langt af leið, inn yfir Ísland ekki síður en Grænland.

Af þessum ástæðum fer ég þess á leit við hæstv. ríkisstj., að hún ítreki enn, vegna atburðanna í Grænlandi, þá stefnu sína, að óheimilt sé að hafa kjarnorkuvopn á Íslandi, að bannað sé að fljúga með kjarnorkuvopn yfir íslenzkt yfirráðasvæði og að óleyfilegt sé að lenda á Íslandi með slíkan farm hvernig sem á stendur.

Í annan stað fer ég þess á leit við hæstv. ríkisstj. að hún taki þegar í stað upp viðræður við Bandaríkjastjórn og geri kröfur til þess að ríkisstj. Bandaríkjanna lýsi yfir því, að hún muni í hvívetna virða þessa stefnu íslenzkra stjórnarvalda.

Ég í þriðja lagi fer ég þess á leit við hæstv. ríkisstj., að hún komi á eftirliti af sinni hálfu til tryggingar því, að við þessa stefnu verði staðið í verki af bandarískum valdamönnum, því að atburðirnir á Grænlandi gefa ótvírætt til kynna, að Bandaríkjastjórn hefur ekki virt stefnu og yfirlýsingar dönsku ríkisstj. um kjarnorkumál.