04.03.1968
Neðri deild: 69. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2183 í B-deild Alþingistíðinda. (1984)

Verkföll

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það er út af þessari fyrirspurn frá hæstv. viðskmrh. Hún gefur mér fyrst tilefni til að taka fram, að ég er ekki í stjórn Vinnumálasambands samvinnufélaganna, þar næst, að mínum félögum í stjórn SÍS er mjög vel kunnugt um mínar skoðanir á þessum málum, sem sé þær, sem ég lýsti hér áðan í þeirri stuttu ræðu, sem ég hélt. Þeim er vel kunnugt um þær. Síðan vil ég bæta því við, að einmitt þetta ástand, sem við stöndum frammi fyrir nú, að atvinnurekendur virðast a. m. k. ekki í dag, treysta sér til að fallast á jafn eðlilega lausn og þá að greiða verðlagsuppbætur á almenna kaupgjaldið, einmitt það ástand, að þetta skuli geta komið fyrir varðandi það kaup, sem ég var að lýsa, sýnir að mínu viti, að það á að lögfesta verðlagsuppbætur á kaupgjald. Það sýnir að mínu viti, að ríkisstj. og Alþ, eiga að taka þessi mál í sínar hendur og leysa þau eftir löggjafarleiðinni, og síðan með framkvæmd nýrrar stjórnarstefnu, sem væri þá fyrst og fremst fólgin í því að gera atvinnuvegunum kleift að greiða þetta kaup. Ekki með auknum uppbótum, heldur með því að breyta þjóðarbúskapnum í mörgum efnum. Það yrði of langt að fara að lýsa því hér nú, enda oft verið gert, en einmitt þetta ástand, að atvinnurekendurnir treysta sér ekki til að semja um óbreytt kaup eins og það, sem ég lýsti hér áðan, sýnir að mínu viti, að Alþ. og ríkisstj. eigi að taka málið í sínar hendur.