04.03.1968
Neðri deild: 69. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2183 í B-deild Alþingistíðinda. (1985)

Verkföll

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég ítreka það, sem ég sagði áðan, að ég efast mjög um, hvort það er til framdráttar farsælli lausn þessa máls, að við hefjum harðar deilur um það nú, meðan sáttafundir enn standa yfir og a. m. k. nokkrar vonir eru til þess að málið leysist á friðsamlegan hátt. Ég vil ekki gefa til kynna, að ég sé bjartsýnn í þeim efnum, en sáttafundir standa enn yfir, og þeir eru á milli aðila sjálfra, sem um þetta mál eiga að fjalla. Eðlilegt er, að menn leiti fyrst og fremst til þeirra á þessu stigi með sínar leiðbeiningar, ef þeir í raun og veru vilja leysa málið friðsamlega, eins og ég efast ekki um, að þm. í raun og veru vilja.

Ég hef oft svarað því áður, en ég tel þó ástæðulaust að láta það nú vera ómótmælt, sem hv. 1. þm. Austf. sagði hér áðan, að ríkisstj. eða ég hefðum breytt um skoðun á verðtryggingu frá því á árinu 1964. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp það sem ég sagði um þetta mál, þegar ég lagði verðtryggingarfrv. fyrir Alþ. í okt. 1964. Í þeirri ræðu segir orðrétt:

„Á sínum tíma var það skýrt fram tekið, að skuldbinding um gildi þessara l. gilti að sjálfsögðu ekki lengur en þeir samningar eða samkomulag, sem frv. byggir á. Það þótti hins vegar ekki ástæða til að hafa neinn slíkan gildistíma ákveðinn í frv. sjálfu. Það verður að fara eftir aðstæðum, við horfum á hverjum tíma, hvað í þessum efnum er ákveðið.

Frá því að vísitalan fyrst var hér upp tekin, hygg ég á árinu 1939, hefur um hana gilt margháttuð og mismunandi löggjöf. Hún veitir launþegum að vissu leyti tryggingu, það er óumdeilanlegt, en hins vegar hefur hún hættur í sér fólgnar varðandi of öran verðbólguvöxt, sem einnig kemur niður á launþegum eins og öðrum landsmönnum. Það er þess vegna hvorki hægt að segja, að verðtrygging eða vísitala skuli undir öllum kringumstæðum vera lögboðin né heldur að algert bann við þessu skuli að staðaldri vera í l. Það verður að fara eftir ástandi og horfum í efnahagsmálum hverju sinni, hvað tiltækilegt þykir í þessum efnum. Eins og á stóð 1960 vegna þeirra breytinga, sem þá voru taldar óhjákvæmilegar og leiddi af ástandi fyrri ára, þótti ekki fært að halda fyrri ákvæðum um vísitölubindingu kaups í l. Þessu fylgdi aftur á móti það, að kaupgjaldssamningar voru gerðir til mjög skamms tíma. Vinnufriður var ærið ótryggur, og þegar það kom í ljós í vor, að það var skilyrði af hálfu verkalýðshreyfingarinnar fyrir samningsgerð, sem að öðru leyti þótti viðhlítandi og átti að standa til eins árs, að verðtrygging kaups væri tekin upp að nýju á þessu tímabili og bannið úr l. numið, þá þótti ekki áhorfsmál, að rétt væri að verða við þeim óskum, enda hygg ég að það sé almannadómur, að mikið hafi áunnist með þeim vinnufriði, sem í vor tókst að semja um.“

Þetta sagði ég haustið 1964. Þar kemur það ljóst fram, að þá var einungis um að ræða skuldbindingu til eins árs, meðan það samkomulag var í gildi, sem náðist sumarið 1964, og ég tek það alveg skýrt fram, að svo geti staðið á, að það sé ekki skynsamlegt að hafa verðtryggingu, enda hefur Alþ. staðfest það, þ. á m. hv. 1. þm. Austf., með mjög breytilegum ákvæðum um þessi efni fyrr og síðar, og það hefur verið viðurkennt, að sérstaklega á slíkum tíma eins og nú, er varhugavert að hafa óskerta vísitölubindingu í l. En þar að auki kemur það atriði nú til greina, sem við höfum ekki átt við að búa, þegar fyrri gengisbreytingar hafa átt sér stað, stórfellt verðfall, tekjumissir, eins og er í þjóðfélaginu einmitt á síðasta ári, og enn því miður virðist ekki verða lát á. Þetta skapar alveg sérstakan vanda, sem við komumst ekki með nokkru móti fram hjá að gera okkur grein fyrir og taka afleiðingunum af.

Nú segir hv. 4. þm. Austf., að ríkisstj. hafi efnt til þessarar deilu, og þetta komi frjálsum samningsrétti ekkert við. Sannleikurinn er sá: Það, sem skeði í nóv. í haust, var það, að það var tekin úr l. fyrirskipun um greiðslu vísitölu, en í stað þess, sem hafði verið, t.d. 1960–1964, og menn voru að hugsa um í nóv., þá var ekki tekið upp bann við greiðslu vísitölu, þannig að nú er það algjörlega frjálst á milli aðila, hvort vísitala er greidd eða ekki. Um þetta fóru menn ekki í grafgötur í haust. Það er ekki verið að rjúfa neina samninga með því að borga ekki þessa vísitölu nú þegar, vegna þess að verkalýðshreyfingin sjálf hefur vegna sinna eigin hagsmuna kosið að vera samningalaus, allt frá því á árinu 1966. Þess vegna eru ekki samningar um vísitölu bundnir nú, og atvinnurekendur þurfa ekki að segja upp neinum samningum til þess að losna við slíkt ákvæði. Það er vegna þess að þetta er ósamningsbundið, sem verkalýðsfélögin þurfa nú að sækja á þetta með verkfalli, og það er óhjákvæmilega rökrétt og það eina eðlilega, að á meðan heimilt er almennt frelsi um ákvörðun grunnkaups, þá sé ákvörðun um greiðslu vísitölu einnig tekin með frjálsum samningum aðila.

Ég játa svo með hv. 1. og 4. þm. Austf. — og það er aðalvandi þessa máls, fram hjá því skulum við ekki horfa, — að vissar stéttir í þjóðfélaginu hafa orðið fyrir kjaraskerðingu vegna þess samdráttar, sem hefur leitt af efnahagsástandinu, sem skapaðist á síðari hluta árs 1966 og fram til þessa dags, af hverju sem sá samdráttur verður. Við játum það að vissar stéttir hafa þar orðið fyrir kjaraskerðingu. Við játum líka, að ríkisstj. og Alþ. hafa sýnt skilning á þessum vanda í verki með því að eiga hlut að því að veita fé til þess að hækka fiskverðið handa sjómönnunum, sem að þessu leyti höfðu orðið fyrir barðinu á þessari kjaraskerðingu, þannig að þetta sjónarmið hefur verið viðurkennt. En af því getur ekki leitt, að menn eigi undir öllum kringumstæðum og allir í þjóðfélaginu að fá tryggingu fyrir því, að kaup þeirra rýrni ekki að verðgildi á slíkum tímum eins og nú. Og ég legg á það áherzlu, að þó að ég telji slíkar umr. sem þessar vera varhugaverðar meðan menn enn sitja á sáttafundi, þá hjó ég í það annars vegar, að hv. 1. þm. Austf. talaði um, að verðtrygging eigi að greiðast á lægsta kaupið. Hann talaði þar fyrst og fremst um þá, sem ættu að lifa á í kringum 120 þús., fór víst eitthvað ofar, en lagði aðaláherzlu á þá lægstu. Og hv. 4. þm. Austf. talaði um verðtryggingu og vísitöluuppbót á dagkaup. Er það svo, að þessir þm. meini það, að aðrir en þeir, sem svona stendur á fyrir, að hafa ekki meiri tekjur en af þessu leiði, að þeir einir eigi að fá vísitölutrygginguna? Ég veit ekki hvort við bætum okkur nokkuð að fara að ræða þetta nánar hér í alþjóðar áheyrn á þessu stigi málsins, en þarna erum við komnir að þeim kjarna, sem ég vonast til, að umr. snúist um innan veggja hjá sáttasemjara, nú meðan enn er verið í alvöru að reyna að finna lausn á þessum vanda.