04.03.1968
Neðri deild: 69. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2185 í B-deild Alþingistíðinda. (1986)

Verkföll

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Þetta skal verða mjög stutt. Ég er í sjálfu sér sammála hæstv. ráðherrum um það, að langar eða harðar orðaskylmingar muni ekki stuðla að lausn hinnar alvarlegu deilu, sem nú er hafin. Hitt held ég hefði verið óeðlilegt með öllu, ef við hefðum gengið hér að okkar venjulegu verkefnum, án þess að ræða um það alvarlega ástand, sem upp er komið, eftir að hafið er allsherjarverkfall, sem ná mun til 20 þús. manna, ef það stendur eitthvað áfram. Ég held, að bæði við alþm. og þjóðin öll, hafi átt heimtingu á því að fá að heyra um mat hæstv. ríkisstj. á þessu ástandi. Mér þótti á ýmsan hátt fróðlegt að heyra svör hæstv. forsrh., en því miður fannst mér margt í þeim vera allt of neikvætt til þess að hægt væri að gera sér vonir um, að ríkisstj. ynni af kappi að því að leysa málið. Um það skal ég ekki ræða, en hitt er mér nokkur forvitni að fá að vita, hvort hæstv. forsrh. mælir hér fyrir munn beggja stjórnarflokkanna. Ég hef sérstaka ástæðu til þess að spyrja um þetta, vegna þess að fyrir nokkrum dögum birtist í Alþýðublaðinu forystugrein, þar sem skýrt var frá því, að verkalýðsmálanefnd Alþfl. hefði skorað mjög eindregið á ráðh. flokksins að beita sér fyrir því, að verkafólk fengi áframhaldandi verðtryggingu launa, og það duldist ekki, að Alþýðublaðið sjálft tók mjög eindregið undir þessa skoðun verkalýðsmálanefndar. Hliðstætt viðhorf birtist svo í forystugrein Alþýðublaðsins í gær. Ég hygg, að það sé ekkert vafamál, að það sé einn úr okkar hópi, hv. þm. Benedikt Gröndal, sem hefur skrifað þessar forystugreinar, og ég tel alveg fullvíst, að hann hafi gengið úr skugga um það áður en hann skrifaði þetta, að hann hefði að baki sér stuðning meiri hluta flokksins, og þ. á m. meiri hluta þingflokksins, en í þessu felst það, að upp eru komin breytt viðhorf, frá því sem var í vetur, þegar þm. beggja stjórnarflokka felldu úr gildi skilyrðislaust l. um verðtryggingu launa. Og þar sem upp virðist komið nýtt ástand, held ég, að það hefði verið ákaflega æskilegt, bæði fyrir okkur þm. og fyrir þjóðina, að fá að frétta nánar um þessi viðhorf þm. Alþfl. Mér finnst að við eigum heimtingu á að fá að vita það, hvaða veruleiki er á bak við þessar forystugreinar í Alþýðublaðinu, og hvort þess megi vænta, að Alþfl., þm. hans og ráðh., beiti sér eftir því, sem þar er boðað.