04.03.1968
Neðri deild: 69. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2186 í B-deild Alþingistíðinda. (1987)

Verkföll

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég get svarað fyrirspurn hæstv. síðasta þm. með því að minna á, að í þeirri forystugrein Alþbl., sem hann talaði um, var beinlínis vitnað í samþykkt, sem verkalýðsmálanefnd Alþfl. hafði gert. Ég vil ekki á þessu stigi ræða hana frekar, en aðeins benda á, að það var minnzt bæði á vísitölu og þau mál, sem voru sett á undan í ályktuninni, sem voru atvinnumálin. Þarna kom fram mjög sterkur vilji til þess, að það yrði leitað til hins ýtrasta eftir friðsamlegri lausn á þeim vandamálum, sem nú er við að glíma, og ég hef ekki heyrt á neinum vilja til neins annars. Ég get ekki annað sagt um það, hvað ríkisstj. hefur gert í þessu máli, en það, sem hæstv. forsrh. hefur sjálfur yfirlýst hér á fundinum. En ég hygg, að mönnum sé ljóst, að stjórnin hefur verið í fullkomnu sambandi við aðila í deilunni, og ríkisstj. hefur viljað gera allt, sem í hennar valdi stendur til þess að stuðla að friðsamlegri lausn, og það er í anda þeirrar samþykktar, sem verkalýðsmálanefnd Alþfl. gerði.