15.02.1968
Sameinað þing: 39. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2203 í B-deild Alþingistíðinda. (2033)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er frá forsetastóli, hafa 4 þm. óskað eftir því vegna fjarveru, að varaþm. taki sæti í þeirra stað, og mun ég taka fyrir hverja beiðni fyrir sig.

Er þá hér fyrst fyrir, að Ólafur Jóhannesson, 3. þm. Norðurl. v., hefur óskað eftir því, að varamaður komi í sinn stað þar sem hann, Ólafur, muni sitja þing Norðurlandaráðs og vera fjarverandi a. m. k. næstu tvær vikur. 1. varamaður Framsfl. í þessu kjördæmi, Norðurl. v., hefur þegar tekið sæti á þingi í forföllum Skúla Guðmundssonar, og er því næsti varamaður, 2. varamaður flokksins í þessu kjördæmi, Magnús H. Gíslason bóndi, Frostastöðum, beðinn um að taka sæti á Alþingi í fjarveru Ólafs Jóhannessonar. Kjörbréfanefnd hefur haft til athugunar símskeyti frá sýslumanninum í Húnavatnssýslu, þar sem segir, að Magnúsi H. Gíslasyni hafi á sínum tíma verið gefið út kjörbréf sem öðrum varaþm. Framsfl., en aftur á móti er kjörbréfið talið glatað. Við í kjörbréfanefndinni teljum ekki neitt við það að athuga, eins og á stendur, að leggja þetta símskeyti til grundvallar, og höfum því samþ. að mæla með því, að kjörbréf Magnúsar H. Gíslasonar verði samþ. og kosning hans metin gild.