15.02.1968
Sameinað þing: 39. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2203 í B-deild Alþingistíðinda. (2034)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það er ekki til þess að gera neina aths. við niðurstöður n. út af kjörbréfinu eða þeim till., sem hún gerir sem ég hef kvatt mér hljóðs. En þingið hefur nú til meðferðar breytingu á kosningal. og þær brtt. snerta aldurinn í fyrsta lagi, kosningarréttaraldurinn, að færa hann niður úr 21 ári í 20 ár. Og ég vildi nú biðja þá n., sem hefur þetta mál til athugunar, að athuga í leiðinni smávægilega breytingu eins og þá við kosningal., að kjörbréfin væru hreinlega, þegar þau eru gefin út, send skrifstofu Alþingis, svo að þau lægju fyrir úr öllum kjördæmunum hjá skrifstofunni, þegar þing kemur saman. Þetta hefur oft skapað dálítil leiðindi, aldrei neinar deilur eða neitt því um líkt, en þetta væri smábreyting, sem væri æskilegt, að menn hefðu til athugunar í sambandi við afgreiðslu málsins.