09.12.1967
Neðri deild: 36. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í B-deild Alþingistíðinda. (209)

72. mál, ráðstafanir vegna landbúnaðarins í sambandi við breyting á gengi íslenskrar krónu

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan, er úrskurðurinn vitanlega ekkert leyniplagg og alveg sjálfsagt, að hv. alþm. fái að sjá hann. En eins og hv. 5. þm. Austf. sagði hér áðan, var dómurinn ekki birtur, heldur sendur Sexmannanefnd. Hann var ekki sendur í rn. Yfirdómurinn mun hafa sent úrskurðinn beint til Sexmannanefndar. En ef með þarf, er sjálfsagt að hafa áhrif á það, að allir hv. þm. fái að sjá þennan merkilega dóm. Ég hef nú ekki heyrt menn ræða um það í alvöru, að þessi dómur sé e.t.v. ólöglegur, þar hafi eitthvað verið haft í frammi, sem ekki styðjist við lög. Ég hef engan heyrt tala um það í alvöru, og ég er hér um bil viss um, að jafn grandvar maður og hv. 1. þm. Norðurl. e. lætur sér tæplega detta í hug, að þessi dómur hafi ekki verið felldur samkv. l. Eða ég skildi hv. þm. þannig, að ýmsir hafi jafnvel ætlað, að þessi dómur eða eitthvað í honum væri ekki lögum samkvæmt. En eins og ég sagði áðan, hef ég ekki séð dóminn og ekki forsendurnar fyrir honum. En fyrir fram vil ég ætla það, að löglega hafi verið farið að öllu. Það er alveg rétt, að úrskurðurinn fellur seint. Verðlagið kemur seint að þessu sinni. En hverjum er það að kenna? Hvern á að ásaka? Það er sagt í l. um framleiðsluráð, að verðlagningunni skuli vera lokið fyrir 1. sept. ár hvert, nema samkomulag verði um annað. Meðan Sexmannanefnd fjallaði um málið, hafði verið samkomulag um, að það drægist a.m.k. þann tíma, langt fram í sept. Á meðan Sexmannanefnd kom sér saman um að vísa málinu til sáttasemjara og málið var þar, efast enginn um, að löglega hafi verið að farið. Og þegar ekki tókust sættir hjá sáttasemjara, var málinu vísað til yfirdóms, yfirdóms, sem var valinn af framleiðendum og neytendum í sameiningu, og það dróst að fella úrskurðinn. Til þess geta verið margar ástæður, sem ég kann ekki að nefna.

En ég er alveg sammála hv. 5. þm. Austf. Mér finnst það ekki æskilegt, ef til frambúðar þarf að verða slíkur dráttur. Það er vitanlega eðlilegt, að verðið komi á haustin, og við getum verið sammála um það, eins og við erum sammála um það að vera nú ekki alveg vissir um, hvern á sérstaklega að ásaka í þetta sinn fyrir það, að þessi dráttur hefur orðið. Til þess eru áreiðanlega margar ástæður.