09.12.1967
Neðri deild: 36. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í B-deild Alþingistíðinda. (210)

72. mál, ráðstafanir vegna landbúnaðarins í sambandi við breyting á gengi íslenskrar krónu

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það er í sjálfu sér erfitt að fara að ræða þetta frv., þegar það kemur fyrst í ljós á þessum fundi. Samt verð ég að segja, að mér sýnast ákvæði 2. gr. frv. brjóta í bága við lög, sem er nýbúið að afgreiða frá Alþ., ef ég misskil ekki þetta frv., og vildi þá óska upplýsinga um það frá hæstv. landbrh., hvort svo er ekki.

Í l. um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um nýtt gengi íslenzkrar krónu segir í 4. gr.:

„Þá er skilað er til banka gjaldeyri fyrir útfluttar afurðir framleiddar fyrir árslok 1967, skal hann greiddur útflytjanda á því gengi, er gilti fyrir 19. nóv. 1967. Ríkisstj. kveður nánar á um, til hvaða afurða þetta ákvæði skuli taka, og eru ákvarðanir hennar þar að lútandi fullnaðarúrskurðir.

Mismunur andvirðis skilaðs gjaldeyris á eldra gengi og andvirðis hans á hinu nýja gengi samkv. 1. mgr. skal færður á sérstakan reikning á nafni ríkissjóðs í Seðlabankanum. Fé, sem á reikninginn kemur, skal með sérstökum l. ráðstafað í þágu þeirra atvinnuvega, sem eiga viðkomandi afurðaandvirði.“

Nær ekki þetta til allra vara, hvort sem eru landbúnaðarvörur eða aðrar? Ég fæ ekki betur séð, svo að ef þessu hefur ekki verið breytt í meðförum þingsins, sem ég man ekki eftir, að hafi verið gert, þá gildir þetta um allar landbúnaðarvörur líka, og þá verður að ráðstafa þessum mismun með lögum frá Alþ., jafnt landbúnaðarvörum sem öðrum, en í 2. gr. þessa frv. er sagt: „Skal nota til þarfa landbúnaðarins samkv. ákvörðun landbrh.“ (Gripið fram í: Þetta er frv. að lögum.) Er þá meiningin, að þetta frv. breyti hinum l. síðan um daginn? (Dómsmrh.: Honum er ráðstafað með þessu frv., ef það verður að lögum.) Nú, hæstv. dómsmrh. segir, að það eigi að ráðstafa honum þannig. M.ö.o., því, sem sagt var í l. um daginn, að ráðstafa skuli með sérstökum l., á landbrh. nú að ráðstafa. Nú er ég ekki farinn að skilja hlutina, ég verð að segja það alveg eins og er.

Þetta eru þá lögin, sem eiga að koma um landbúnaðarvörurnar. Þá leiðir af sjálfu sér, að það kemur annað frv. bráðum um sjávarútveginn, þar sem segir, að viðkomandi ráðh. ráðstafi fénu líka. Ég held bara, að engum hv. þm. hafi dottið það í hug, að þeir fengju svona frv. á eftir. Það hafa allir reiknað með því, að það yrði staðið við l., þau sérstöku lög, sem Alþ. setti um það, hvernig ætti að ráðstafa gengismismuninum, en ekki búizt við því, að það ætti að fela einhverjum ráðherra að gera það. En nú er það að koma í ljós. Og ég held, að þetta sé allt annað en þm. hafi búizt við.