09.12.1967
Neðri deild: 36. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í B-deild Alþingistíðinda. (211)

72. mál, ráðstafanir vegna landbúnaðarins í sambandi við breyting á gengi íslenskrar krónu

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, til þess að hressa hv. 1. þm. Vestf., af því að hann heldur, að það eigi að fara að brjóta lög. Það er nú alveg ljóst, að þetta frv. er alveg í samræmi við l. nr. 69 frá þessu ári, sem kveða svo á, að gengishagnaður landbúnaðarins skuli notast til þarfa landbúnaðarins, og ég hafði ekki búizt við, að hv. 1. þm. Vestf. reiknaði með því, þótt ég hefði þetta vald, að ég færi að nota þennan gengishagnað í þágu annarra atvinnuvega en landbúnaðarins. Og ég held, að þeir hv. fulltrúar bænda, sem ég hef rætt við á meðan þetta frv. var á döfinni, efist ekkert um það, þótt 2. gr. frv. sé orðuð eins og hún er, að landbúnaðurinn fái allan gengishagnaðinn. Og þegar hv. 1. þm. Vestf. veit þetta, held ég, að hann láti sér það nægja.