09.12.1967
Neðri deild: 36. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í B-deild Alþingistíðinda. (213)

72. mál, ráðstafanir vegna landbúnaðarins í sambandi við breyting á gengi íslenskrar krónu

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af því, sem hæstv. landbrh. sagði. Hann benti mér á, að ég þyrfti ekkert að vera tortrygginn, hann mundi nota þetta fé í þágu landbúnaðarins. Ég er alveg sammála honum um það. Ég véfengi þetta ekki neitt og treysti honum alveg til þess að nota hvern einasta eyri í þágu landbúnaðarins. Það er ekki það, sem ég er að finna að. En til hvers voru þá l. um daginn orðuð eins og þau voru, að það ætti að ráðstafa þessu með sérstökum l.? Hví var þá ekki látið standa í þeim l., að fé á þessum reikningi skuli ráðstafað af ráðh.? Þarna var verið að gefa þm. fyllilega í skyn, að Alþ. ætti að fjalla um hað, hvernig fénu yrði ráðstafað. Og það mun enginn þm. hafa skilið þau lög öðruvísi en að þingið ætti að ákveða, hvernig fénu yrði ráðstafað. En nú kemur bara frv. um það, að ráðh. á að ráðstafa þessu, ekki hvernig á að ráðstafa því til hinna einstöku greina innan landbúnaðarins, heldur að ráðh. geri það. Þá var alveg eins hægt að hafa það þannig í hinum l., að ráðh. skuli ráðstafa fénu, og það kemur sjálfsagt í næsta frv. En þetta er allt annað en okkur var tjáð áður.

Hitt er misskilningur hreinn hjá hæstv. ráðh., að ég hafi vænt hann um það, að hann mundi misnota þetta, að það gangi ekki til landbúnaðarins. Það efast ég ekkert um. Svo vel þekki ég hann, að hann passar upp á það. En það er sitt hvað, hverjir eiga að ráðstafa eða hvernig á að ráðstafa. Hér er komið fram frv. aðeins um það, hver á að ráðstafa, ekkert um það, hvernig, og þá verður það væntanlega um aðra atvinnuvegi eins, að ráðh. verða látnir ráðstafa fénu.

Þá veit Alþ. þetta. Því er ekki ætlað að fjalla um þetta mál meira. Ráðh. eiga að hafa valdið til að ráðstafa fénu, ekki aðeins landbúnaðarfénu, heldur vafalaust hinu líka, því að annars væri ekki samræmi í þessu.