22.01.1968
Neðri deild: 52. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í C-deild Alþingistíðinda. (2144)

86. mál, hægri handar umferð

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég ætla ekki nema að sáralitlu leyti að blanda mér inn í nýjar deilur um það, hvort hér skuli verða tekinn upp hægri akstur eða ekki, og það er vegna þess, að það mál á sína sögu, og skal ég víkja nokkuð að því, hvað liggur fyrir hjá okkur um þá ákvörðun. Þó að ég muni ekki, eins og ég segi, nema að litlu leyti blanda mér inn í það, sem var þó mikill þáttur í ræðu hv. síðasta ræðumanns, vil ég taka það fram, að í hans ræðu var feikilega mikið af stóryrðum og staðhæfingum, sem engan veginn fá staðizt, og mjög mikið af rökvillum, þótt ég hirði ekki um að eltast við það, en ég mun koma að einhverju af því hér á eftir.

Fyrst er á það að líta, sem hv. 1. flm. þessa frv. vék að, að það er nú meira en aldarfjórðungur, frá því að við Íslendingar ákváðum að taka upp hægri umferð, en það var, eins og fram kom í grg. fyrir frv. um hægri handar umferð hér á Alþingi á sínum tíma, þegar Íslendingar settu sér í fyrsta sinn sérstök umferðarlög 30. maí 1940, og þá voru einnig sett ný bifreiðalög, og í hvorum tveggja þessum lögum var ákveðið, að hér skyldi vera hægri handar akstur. Fyrir rúmum aldarfjórðungi töldu þm., sem þá voru, — hvort þeir hafa þá verið eitthvað óskynsamari en aðrir, skulum við ekki fara út í að þrátta um, — en þeir töldu samt sem áður þá, að það væri ástæða til þess að taka upp hægri handar umferð, enda þótt ekki hafi orðið af því, að sú breyting kæmi í framkvæmd, af alveg sérstökum ástæðum, sem við Íslendingar fengum að vissu leyti ekki við ráðið, svo að ég segi ekki meira um það. En það hefði að mínum dómi verið mikið lán, hefði verið haldið þessu stríki þá, og sparað náttúrlega mikinn kostnað og fyrirhöfn. En út í það skal ég ekki fara. En á það er rétt að benda í þessu sambandi, að undir meðferð beggja málanna, umferðarlagafrv. og bifreiðalagafrv. 1940, komu fram till. í báðum d., brtt., sem miðuðust við það að breyta ekki í hægri akstur, en halda vinstri umferðinni. Í Ed. var slík till. felld með 9:7 atkv., og það var brtt. við umferðarlagafrv., en sams konar brtt. við frv. til bifreiðalaga var felld í Nd. með 14:8 atkv. Þetta var afstaða þingsins þá.

Strax á þessu stigi málsins kom fram í grg. frv., að enda þótt menn gætu ekki áætlað um aukin slys eða meiri slysahættu fyrir fram, hefði reynslan þegar sýnt í nágrannalöndum okkar tveimur, hér í Mið-Evrópu, í Austurríki og Tékkóslóvakíu, þar sem skyndilega og fyrirvaralaust var breytt frá vinstri akstri og yfir í hægri akstur, — þar segir í grg. frv., með leyfi hæstv. forseta: „En þar, í þessum tveimur löndum, hefur reynslan nú skorið úr, og kom í ljós, að umferðarslys fóru alls ekki í vöxt næstu mánuðina á eftir, eins og svo mjög hafði verið óttazt af ýmsum.“ Þetta bendi ég aðeins á til leiðbeiningar, en það var hvorki þriggja ára né fjögurra ára aðlögunartími í þessum löndum heldur fyrirvaralaust breytt frá vinstri og yfir í hægri umferð.

Síðan er það, að 1955 er skipuð hér n. til að gera till. um endurskoðun löggjafar um umferðarmál og bifreiðamál. Enda þótt n. legði ekki til að hverfa frá vinstri til hægri umferðar, var gerð grein fyrir þeim möguleika og niðurstaða n. þá, umferðarlaganefndarinnar, er sú, eins og þar segir: „Nm. voru allir sammála um, að frá umferðarlegu sjónarmiði væri æskilegt að koma hér á sömu umferðarreglum og gilda í flestum nágrannalöndum vorum.“ Einnig sagði þá, 1955, að allir mn. væru sammála um, að kostnaður við breytingu úr vinstri í hægri handar umferð mundi aukast stórlega með hverju ári sem liði og væri því sjálfsagt að breyta til þá þegar, með nokkrum biðtíma þó. En n. gerði hins vegar ekki till. um þetta, lét það á vald Alþingis að meta kosti breytinganna, hvort þeir yrðu taldir þyngri á metunum en kostnaðurinn eða áhættuóþægindin, sem líklegt mætti telja að yrðu breytingunni samfara. Þetta gerðist undir meðferð málsins 1955. N. skilaði áliti á árinu 1956, og frv. kom svo til meðferðar, eins og hv. þm. er kunnugt, á þingi 1956 og aftur 1957 og varð að lögum 1958, sem eru að grundvelli þau umferðarlög, sem við nú búum við.

Síðan, ef við rekjum sögu málsins, kemur till. fram á Alþingi 1962–'63, þáltill. svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta fara fram athugun á því, hvort ekki sé tímabært að taka upp hægri handar akstur hér á landi.“ Þessi till. varð ekki útrædd. En hún er aftur flutt eða sams kyns till. á þinginu 1963–'64, en þá er hún öðruvísi orðuð. Þá er hún þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta hefja hið allra fyrsta undirbúning að því, að upp verði tekinn hægri handar akstur hér á landi.“ Og þegar búið er að herða þannig á málinu frá árinu 1963–'64, samþ. Alþingi þessa till., eins og kunnugt er, 13. maí 1964. Og það er á grundvelli þessarar áskorunar og fyrirmæla Alþingis, sem dómsmrn. lét undirbúa frv. til l. um hægri handar akstur, sem lagt var fyrir Alþingi og síðan samþ., eins og kunnugt er. Skv. fyrirmælum og samþykktum Alþingis var það frv. undirbúið og lagt fyrir þingið, og síðan var það endanlega afgr. með verulegum meiri hl. í þinginu. Nú eru eftir 5 mánuðir til framkvæmda á þessum vilja Alþingis. Það hafa farið fram kosningar í millitíðinni. Mér er ekki kunnugt um, að þetta mál hafi nokkurs staðar blandazt inn í kosningabaráttuna á s.l. vori eða að kjósendur legðu áherzlu á það, að þeir væru hlynntir annaðhvort vinstri eða hægri handar akstri. Það getur verið, að aðrir hv. þm. viti um það, en hvergi varð ég var við það og fór nokkuð víða um landið, hvergi nokkurs staðar. Og svo þegar eftir eru fimm mánuðir, — það var nú ekki svo vel, að þessir hv. þm. gætu komið með sína till. um að fresta framkvæmdinni, þegar þing kom saman 10. okt., nei, heldur datt þetta frv. í jólapottinn, rétt áður en menn fóru í jólaleyfið, um það, að nú skyldi fresta framkvæmdinni. Kjarkurinn var nú ekki meiri en svo, það átti ekki að hætta því, heldur fresta framkvæmdinni og þá væntanlega til að láta þjóðina skera úr, og það er nú fallegt orð þjóðaratkvgr., láta þjóðina ráða. Og það er mikið vitnað til þess, að Svíar hafi haft þjóðaratkvgr. og við ættum að fara að dæmi þeirra. Þeir höfðu þjóðaratkvgr., sem var á móti hægri handar akstri, svo samþ. þeir nokkrum árum síðar í þinginu hægri handar akstur, án þess að hafa þjóðaratkvgr., og eru þó búnir að hafa þjóðaratkvgr., sem hafði lýst sig andvíga því að meiri hl. Af hverju vék ekki hv. 1. flm. að því, fyrst Svíar voru svo elskulegir að hafa þjóðaratkvgr. um málið, vegna hvers þeir gerðu það ekki þá, þegar málið kom til framkvæmda hjá þeim? Það er enn óupplýst í þessu máli, hvaða ástæður lágu til þess.

Eins og ég sagði í öndverðu, ætla ég ekki að fara að hefja hér nýjar deilur um það, hvort við eigum að hafa hægri handar akstur eða vinstri handar. En spurningin er í dag um það, hvort við eigum að fresta þessu, eins og lagt er til, og láta fara fram þjóðaratkvgr. um málið og þá að sjálfsögðu fara eftir því, sem meiri hl. þjóðarinnar segir til um, en þá tel ég, að viðhorf málsins sé þannig, að þessi till., þessi ráðagerð sé allt of seint fram komin, enda er málið búið að vera svo lengi til meðferðar og afgreitt hér í þinginu fyrir það löngu, að ef það hefði verið raunverulegur vilji meiri hl. þjóðarinnar, hefði það hlotið að koma fram í kosningunum, því að hvað skyldi eiga að koma fram í kosningum fremur en slíkt mál, þegar verið er að kjósa menn til Alþingis, ef menn vilja, að Alþingi breyti um skoðun og hverfi frá því, sem áður hafði verið ákveðið?

Ég held, að með því núna að hrófla við þessu máli yrði miklu spillt. Þjóðaratkvgr. gæti alveg eins farið svo, að meiri hl. yrði með því að halda hægri akstrinum, og þá hefðum við bara spillt verðmætum og tíma með því að vera að draga þetta. Og ég skal koma nánar að því síðar, að það er vefengt, að við höfum ætlað okkur nógu langan tíma og ekki jafnlangan tíma og Svíar. Til að gera hv. þd. nokkra grein fyrir því vegna hvers m.a. er hæpið að hverfa frá þessu nú, vil ég lesa hér upp grg. frá framkvæmdanefnd hægri umferðar um það, hvernig þessi mál standa í dag varðandi undirbúning og kostnað, en hún hefur 19. jan. látið mér í té eftirfarandi hér að lútandi, með leyfi hæstv. forseta.

„Framkvæmdanefnd hægri umferðar hefur þegar haldið 126 fundi. Hún hefur ráðið starfsfólk og komið upp starfsaðstöðu miðað við þau verkefni, sem henni ber að vinna. Samvinna er komin á á milli hinna ýmsu aðila, sem breytingin varðar, umferðaröryggisnefndir verið stofnaðar um byggðir landsins til aðstoðar við breytinguna, og verðmæt reynsla verið fengin frá Svíþjóð og verið hagnýtt hér, eftir því, sem aðstæður henta til. Dagurinn til breytingarinnar hefur verið valinn og kynntur, stóraukin umferðarfræðsla tekin upp og undirbúin í skólum, félögum, á vinnustöðum, í blöðum, sjónvarpi og útvarpi. Tíminn styttist óðum til 26. maí, og sérhvert hik á undirbúningi nú getur dregið úr árangri þeirrar upplýsinga- og fræðslustarfsemi, sem unnið er að, og spillt fyrir árangri hennar.“

Svo segir um umferðarfræðslu og áróður fyrir bættri umferðarmenningu:

„Í aðalatriðum byggist starfið á áætlunum, sem 4 sænskir sérfræðingar hafa samið, en sérfræðingar þessir undirbjuggu fræðslustarfið fyrir sænsku H-nefndina og búa yfir gagnlegri reynslu á þessu sviði. Er hér fyrst um að ræða eina heildaráætlun, sem skiptist í 5 aðalþætti eftir tímabilum, og gera þeir síðan séráætlun fyrir hvern aðalþátt. Þáttur 1 náði yfir tímabilið 15. 11. til 10. 12. 1967, þáttur 2 yfir tímabilið 10. 1. til 15. 3. 1968, þáttur 3 nær yfir tímabilið 15. 3 til 15. 4. 1968, þáttur 4 nær yfir tímabilið 10. 6. til 20. 6., og þáttur 5 nær yfir tímabilið 21. 6, og út sumarið. Til þess að koma fræðslunni á framfæri hafa m.a. verið gerðar eftirfarandi ráðstafanir:

1. Samstarfsnefnd hefur verið skipuð til að annast alla umferðarfræðslu í skólum. Er hún skipuð fulltrúum fræðslumálastjórnar, lögreglu og H-nefndar. N. hefur komið á nýbreytni, sem er upphaf skólaútvarps á Íslandi. Hún hefur skipulagt fræðslufundi með skólastjórum um land allt, undirbúið kerfi sambandskennara í hinum ýmsu skólum. Hlutverk þeirra á að vera að fræða aðra kennara um umferðarmál og kenna þeim umferðarfræðslu, en hún verður mjög bætt og aukin fram á H-dag.

2. Með samvinnu við Slysavarnafélag Íslands hafa umferðaröryggisnefndir verið stofnaðar víða í dreifbýlinu og verða stofnaðar um land allt. Verkefni þessara n. er að bæta umferðarkunnáttu og hegðun manna, hver á sínum stað, miðla upplýsingum um umferðarbreytinguna til almennings og aðstoða opinbera aðila, svo sem lögregluyfirvöld, í sambandi við umferðarmál, m.a. um og eftir H-dag.

3. Samið hefur verið við umferðaryfirvöld Reykjavíkurborgar um, að þau auki umferðarfræðslustarfsemi sína verulega með tilliti til breytingarinnar og taki að sér ákveðna þætti fræðslustarfseminnar, svo sem fræðslu í félögum og hvers konar samtökum. Hefur umferðarnefnd Reykjavíkur í þessu skyni stofnsett sérstaka fræðslu- og upplýsingadeild, sem vinnur í samvinnu við lögregluna og upplýsingamiðstöð H-nefndarinnar.

4. Skipulagt hefur verið kerfi, sem gerir ráð fyrir, að sjálfboðaliðar aðstoði við umferðarvörzlu fyrstu vikuna eftir H-dag. Er hér stuðzt við sænska fyrirmynd og gert ráð fyrir, að í Reykjavík einni starfi 1200–1300 sjálfboðaliðar að þessu verkefni og sjálfboðaliðar starfi einnig í nokkrum stærri kaupstöðum og kauptúnum.

5. Landssamband ísl. hestamanna og fjölmennustu félög hestamanna í landinu hafa stofnað sérstaka samstarfsnefnd, sem vinna á með nefndinni að auknu umferðaröryggi að því er lýtur að ríðandi mönnum í umferðinni og umferð hesta.

6. Samstarf er á döfinni við þau vátryggingarfélög, sem reka bifreiðatryggingar, um sameiginlegar aðgerðir til aukins umferðaröryggis. Er í athugun á hvaða sviði sú samvinna mundi vera hagkvæmust, og þá hafðar í huga hliðstæðar aðgerðir í Svíþjóð, þar sem stofnað var til slíkrar samvinnu.

7. H-nefndin hefur falið Varúð á vegum að annast sérstaklega umferðarfræðslu á vinnustöðum. Er það verk þegar hafið og verður í vaxandi mæli fram á n. k. sumar.

8. Á vegum upplýsingamiðstöðvar H-nefndar, er sérstök samstarfsnefnd starfandi skipuð fulltrúum ökukennara og F. Í. B. Nefnd þessi undirbýr m.a. aðgerðir þessara aðila og þátttöku í framkvæmd hægri umferðar.

9. Á skrifstofu upplýsingamiðstöðvar H-nefndar er starfandi sérstakur hlaðafulltrúi, sem annast samband við dagblöð o. fl., útgáfu fréttablaða, auglýsingastarfsemi o. fl., og annar, sem annast samband við hljóðvarp og sjónvarp, og skipuleggja þeir samstarf þessara aðila allra vegna breytingarinnar á grundvelli áætlana sænsku sérfræðinganna. Af hálfu útvarpsins hefur sérstakur maður verið tilnefndur til samstarfs við n., og undirbúa þessir menn saman allt efni til fjölmiðlunartækja og skipuleggja, hvernig og hvenær það skuli birt.

10. Af hálfu dómsmrn. hefur sérstökum manni verið falið samstarf við H-nefndina, m.a. við útgáfu þeirra reglugerða, sem þörf er á vegna breytingarinnar, svo sem um gerð og búnað ökutækja, að því er lýtur að hurðum, ljósum o. fl., staðsetningu umferðarmerkja, breytingu á hámarkshraða, takmörkun umferðar o. fl. Auk þess annast hann af hálfu rn. yfirstjórn löggæzlumála vegna breytingarinnar og samband við lögreglustjóra landsins um framkvæmd breytingarinnar. Hefur það atriði m.a. verið rætt á aðalfundi Dómarafélagsins.

11. Samvinna er milli H-nefndar og vegamálastjóraembættisins, m.a. um uppsetningu sérstakra H-merkja meðfram þjóðvegum til að minna á hægri umferð, auk þess, sem ráðgert er vegna breytingarinnar að hraða skiptingu akbrauta á hættulegum hæðum og blindbeygjum.

12. Meðal annarra öryggismála, sem H-nefndin beitir sér fyrir, er lækkun tolls á endurskinsmerkjum til aðvörunar á fjölförnum vegum, ef bifreið hefur bilað. Hefur sá tollur verið lækkaður úr 120% í 20%. N. beitir sér fyrir því, að sérstakt gjald af viðtækjum í bifreiðum verði afnumið. Er talið mikilsvert, að sem flestir bílar hafi útvarp, svo að unnt sé að koma umferðarfræðslu til ökumanna, sérstaklega í akstri í dreifbýlinu.“

Þessir 12 liðir lýsa í ýmsu þeim undirbúningi, sem n. hefur þegar hafizt handa um í sambandi við umferðarfræðslu og áróður fyrir bættri umferðarmenningu.

Þá eru hér nokkur atriði um frestun frá sjónarmiði kostnaðar. En þar segir svo:

„Allmiklu fé hefur þegar verið varið vegna hægri breytingarinnar. Í stórum dráttum er það sem hér segir:

Almenningsbifreiðar: Samið er um breytingarkostnað og bætur vegna 85 bifreiða. Heildarupphæð samninga þessara eru 23.125.550 kr. Búið er að greiða af upphæð þessari 12.220.300 kr. Keyptir 6 staðgönguvagnar frá Svíþjóð til að lána aðilum, meðan bifreiðum er breytt. Heildarkostnaður 6 vagna 1 millj. 245 þús. kr. Alls greitt pr. 15. jan. 1968 vegna almenningsbifreiða 13.465.300 kr. Að auki eru skuldbindingar, sem n. hefur tekið á sig 9.660.250 kr.

Vega- og gatnakerfi. Lokið er flutningi umferðarmerkja með þjóðvegum utan þéttbýlis. Vegagerð ríkisins hefur verið greiddur þessi kostnaður að upphæð 1.005.550 kr. Borgarverkfræðingurinn í Reykjavík hefur sett niður 640 undirstöður fyrir umferðarmerki í Reykjavík og breytt götuvitum fyrir 7 gatnamót. Þessi kostnaður er greiddur og er að upphæð 2.441.950 kr. Í Ísafjarðarkaupstað hafa verið settar niður undirstöður fyrir umferðarmerki. Þessi kostnaður er ógreiddur, en er að upphæð 28.850 kr. Á Akureyri hafa verið settar niður undirstöður fyrir umferðarmerki. Þessi kostnaður er ógreiddur, en er að upphæð 182.500 kr. Alls kostnaður pr. 15. 1. 1958 vegna vega- og gatnakerfis 3.655.850 kr.

Þá er í þriðja lagi öryggismál og stjórnun. Settar niður stikur fyrir sérstök áminningarskilti með þjóðvegum, kostnaður 15. jan. 1968 535.100 kr. Kostnaður vegna upplýsinga- og fræðslustarfsemi, útgáfu, vinnukostnaðar o. fl. 1. jan. 1968 2 millj. 50 þús. kr. Stjórnunarkostnaður miðað við 15. jan. 1968 2.569.050 kr., eða samtals öryggismál og stjórnun 5.154.150 kr.

Þá er tekinn saman alls kostnaðurinn pr. 15. jan. 1958: almenningsbifreiðir 13.465.300 kr., vega- og gatnakerfi 3.655.850 kr., Öryggismál og stjórnun 5.154.150 kr., eða samanlagt 22.275.300 kr.“

Samkv. framansögðu hefur nefndin alls greitt eða er gjaldfallið hinn 15. janúar 1968 þessi upphæð: 22.275.300 kr., en auk þess gert margvíslegar ráðstafanir, sem hafa fjárhagsskuldbindingar í för með sér, svo sem ráðning nauðsynlegs starfsliðs, leiguhúsnæði, prentun o. fl., auk þess sem n. er skuldbundin vegna breytinga á bifreiðum, sem byrjað er á, eins og áður var að vikið, um 9.660.250 kr. Af tveim ástæðum sérstaklega mátti ekki frá sjónarmiði kostnaðar draga breytinguna. Í fyrsta lagi var, að verulegri endurnýjun, — og þessu bið ég menn um að taka vel eftir, — í fyrsta lagi var að verulegri endurnýjun komið, þ.e.a.s. það þurfti að fara að endurnýja, það var komið að verulegri endurnýjun í bifreiðakosti ýmissa aðila, er reka strætisvagna og áætlunarbifreiðar. Þannig hafði t.d. eðlilegri endurnýjun bifreiða Strætisvagna Reykjavíkur verið frestað, sem m.a. kemur fram í því, að einungis 12 af 50 vögnum fyrirtækisins voru taldir svo verðmætir, að breyting þeirra borgaði sig, enda hafði fyrirtækið enga nýja vagna keypt síðan árið 1963, þegar Alþingi byrjaði sínar hugmyndir og tillögugerð hér um breytingu frá vinstri handar og yfir í hægri handar akstur. Óhjákvæmilegt hefði verið fyrir þessa aðila að endurnýja vagnakostinn verulega á þessu og næsta ári og þá að sjálfsögðu með bifreiðum fyrir vinstri umferð, ef umferðarhreytingin væri ekki ákveðin. Frestun framkvæmda hægri umferðar mundi þannig leiða til verulega aukins kostnaðar við breytingu nýrra bíla umfram það, sem nú verður. Í öðru lagi er nú unnið að áætlunum um framtíðarveg um Kópsvog til Suðurnesja. Til þess að hagnýta það mannvirki sem bezt þarf að miða það annaðhvort við vinstri eða hægri akstur, og er ljóst, að ef það verður byggt fyrir núverandi umferð, verður mjög kostnaðarsamt að breyta því síðar. Á raunar sama við um fleiri umferðarmannvirki, sem ráðgerð eru hér á landi á næstu árum, t.d. tenging Skúlagötu og vesturbæjar á brú yfir hafnarsvæðinu o. fl.

Frv. þetta kemur nú fyrst til umr. í d., þegar rúmir 4 mánuðir eru til þess dags, er breytingin í hægri umferð tekur gildi. Hvort sem menn eru hlynntir eða andsnúnir hægri umferð, hljóta flestir að sjá, að svo veigamikið mál sem frv. fjallar um er allt of seint fram borið.

Hugsanleg ástæða gæti verið fyrir þingið að breyta ákvörðun sinni, sem fram kom í lögum um hægri umferð, ef reynslan, sem fékkst í breytingunni í hægri umferð í Svíþjóð á s.l. hausti, hefði t.d. orðið óhagstæð eða veruleg breyting orðið á skipun Alþingis við kosningarnar á s.l. sumri. Hvorugt hefur orðið. Fregnir herma, að reynslan í Svíþjóð hafi orðið betri en við var búizt og hlutfall þeirra landsmanna, sem séu breytingunni hlynntir, fari stöðugt vaxandi þar.

Það, sem ég nú hef stuðzt við, er grg. H-nefndarinnar, framkvæmdanefndar hægri aksturs. Þar sem hún víkur að reynslunni, sem fengizt hafi í Svíþjóð, vil ég til viðbótar við það, sem segir í bréfi hennar, geta eftirfarandi:

Í Svíþjóð er gert tölfræðilegt yfirlit yfir tölu umferðarslysa, sem lögreglunni þar er kunnugt um. Slík yfirlit berast hingað jafnóðum og þau eru gefin út. Þau ná yfir 4 vikur í senn og fjalla um tölur slysa, þar sem menn hafa dáið eða meiðzt. Með svonefndri test-aðferð er gerður samanburður á samsvarandi vikum næstu ára, áður en hægri breytingin átti sér stað þar í landi. Þessi aðferð leiðir í ljós, hvernig ástandið hefur breytzt. Niðurstaðan er þessi: Fyrst eru talin tímabil og síðan er dálkur, hvað hefur skeð í þéttbýlinu, og annar um það, hvað hefur skeð 3 dreifbýlinu, annarra vegar varðandi dauðaslys og hins vegar varðandi meiðsli. Á tímabilinu 4. 9., eftir að breytingin gekk í gildi í Svíþjóð, og til 1. 10. 1967 er í dauðaslysadálkinum minna í þéttbýlinu, meiðsli sama, í dreifbýlinu minna um dauðaslys, minna um meiðsli. Á tímabilinu 2. 10.–29. 10.: í þéttbýli minna um dauðaslys, sama um meiðsli, í dreifbýlinu minna um dauðaslys og sama um meiðsli. 30. 10: 26. 11.: í þéttbýli minna um dauðaslys og minna um meiðsli, í dreifbýlinu sama um dauðaslys, minna um meiðsli. Og á tímabilinu 27. 11.–24. 12. er í þéttbýli sama um dauðaslys, minna um meiðsli, í dreifbýli sama um dauðaslys, minna um meiðsli. Og á tímabilinu 27. 11: 24. 12. er í þéttbýli sama um dauðaslys, minna um meiðsli, í dreifbýli sama um dauðaslys, minna um meiðsli.

Það er staðhæft í grg. fyrir þessu frv., sem hér liggur fyrir til umr., að það verði töluvert miklu meiri kostnaður en áætlað var, rúmar 50 millj. kr., ég held, að síðasta talan hafi verið um 55 millj. kr., þegar frv. var afgreitt sem lög frá Alþ. Þó segja flm. í grg. ekki meira en það, með leyfi hæstv. forseta: „Þess vegna má reikna með, að breyting hjá okkur kosti ekki undir 100 millj. kr. og hugsanlega mun meira.“ En hv. 1. flm. staðhæfði ekki einu sinni, heldur tvisvar og kannske oftar, ef það hefur farið fram hjá mér, að kostnaðurinn mundi verða margfalt meiri en áætlað hefði verið, og hann miðaði það við reynslu Svía. Nú áætluðu Svíar 500 millj. kr. kostnað, og hann varð 800 millj. Ég get ekki fundið út, að þetta sé margfalt meiri kostnaður en áætlað var, þó að hann sé verulega hækkaður. En út frá þessari reynslu getum við ekki dæmt um það, að okkar kostnaður verði margfalt meiri, hann mundi samkvæmt þessu, ef við eigum að miða við Svía, eins og hv. flm. vildi vera láta, geta farið úr 50 millj. kr. upp í 80 millj. kr.

Ég hef beðið framkvæmdanefnd hægri umferðar um að gefa mér yfirlit til þess að láta þinginu í té um skoðun hennar á hugsanlegum kostnaði nú, og það fer hér á eftir í bréfi n., dags. í dag, með leyfi hæstv. forseta:

„Yfirlit er nú þegar fengið yfir verulegan hluta kostnaðar við breytinguna. Telur framkvæmdanefndin að kostnaðaráætlunin muni standast í aðalatriðum, jafnvel þótt ýmsar hækkanir hafi orðið, síðan hún var gerð. Að vísu telur n., að kostnaður við breytingar á bifreiðum og vegakerfi muni hækka vegna gengisbreytingarinnar um nálægt 2 millj. kr., og enn fremur hefur n. ákveðið með heimild viðkomandi yfirvalda að verja nálega 8 millj. kr. til almennrar umferðarfræðslu og áróðurs fyrir aukinni umferðarmenningu, sem ekki var gert ráð fyrir í kostnaðaráætlun. Er talið, að það, hve vel tókst í Svíþjóð, sé verulega því að þakka, hve umferðarfræðsla, ekki sízt í skólum, var mikil og áróður fyrir betri umferðarháttum markviss. Er talið, að breytingin sjálf í hægri umferð valdi því, að almenningur sé sérstaklega móttækilegur fyrir slíka fræðslu og áróður, og því sé rétt að notfæra sér það tækifæri, enda þótt það kosti töluvert fé, en ekki var gert ráð fyrir því í kostnaðaráætlun umferðarnefndar á sínum tíma.“

Þetta segir n. um hækkun á kostnaðaráætlun. Þarna eru 10 millj. kr., 2 millj. vegna gengisbreytingar og 8 millj. í umferðarfræðslu, sem ekki var gert ráð fyrir. Nú má auðvitað segja: Þjóðin þarf á umferðarfræðslu að halda, hvort heldur við höfum hægri eða vinstri handar akstur. En það er lagt meira í umferðarfræðsluna, og það er hið sálræna rétta augnablik að nota tækifærið þegar breytt er til í umferðinni, til þess að koma miklu meiri umferðarfræðslu áleiðis til almennings heldur en ella mundi sennilega vera hægt, og þess vegna þarf í sjálfu sér ekki að skrifa þetta á reikning hægri umferðarinnar, heldur reikning öryggis í umferðinni og bættrar umferðarmenningar, sem við eigum eftir að búa að og mundum kannske ekki með öðrum hætti geta öðlazt.

Hv. 1. flm. þessa frv. sagði: „Umferðarmenning skapast ekki, þótt skipt sé frá vinstri til hægri.“ Þetta er út af fyrir sig rétt. En ég held það sé aldrei betra tækifæri til þess að auka umferðarmenninguna en einmitt á svona augnabliki, og það sýnir okkur reynslan frá Svíþjóð. Það ber öllum saman um það, sem voru við skiptin í Svíþjóð. Sjálfur átti ég kost á því að vera í Stokkhólmi, sem var eins og allt önnur borg frá því, sem ég hafði áður þekkt hana, seinustu dagana í októbermánuði, eftir að breytingin átti sér stað. Einmitt þessi skipting er líkleg til þess að geta skapað umferðarmenningu, sem við ella eigum ekki kost á, og mér er t.d. kunnugt um það, að fulltrúar umferðarmála, sem frá öðrum löndum komu til Svíþjóðar til þess að fylgjast með breytingunni, — þar hef ég sérstaklega í huga einn Dana, — þeir bjuggust náttúrlega við ýmsu ævintýralegu margir hverjir, sem ekki varð, og þessi fulltrúi Dana í umferðarmálum lét svo um mælt, þegar hann var samferða nokkrum Íslendingum heim til sín aftur á leiðinni milli Svíþjóðar og Danmerkur: „Ég sé ekki betur en við Danir verðum að skipta úr hægri yfir í vinstri umferð bara til þess að geta kennt fólkinu umferðarmenningu.“ En þetta er sagt til þess að leggja áherzlu á það, hverju er á slíku tímabili hægt að koma áleiðis, sem ella verður ekki gert.

Ég vil hins vegar leggja áherzlu á, að það hefur verið lögð mikil áherzla á meiri umferðarmenningu og fræðslu í umferðinni hér, eins og ég veit að hv. þm. hafa gert sér grein fyrir, núna alveg á síðustu árum. Og það hefur borið árangur, töluverðan árangur. Og það er mjög fyrir að þakka, hvað umferðaryfirvöld hafa lagt sig í líma um að auka umferðarfræðsluna, og það er auðvitað, eins og liggur í hlutarins eðli, alveg eins hægt, hvort sem við skiptum eða skiptum ekki. En við fáum bara ekki þetta sama tækifæri til þess að hafa jafnviðtæk áhrif, að ég hygg, eins og við slíka breytingu, sem hér er um að ræða.

Þá fer kostnaðurinn, eins og ég segi, þarna nokkuð fram úr áætlun, og segjum að hann hækkaði eitthvað af öðrum ástæðum. Þá er mér aðallega í huga löggæzlan. Mönnum hefur kannske missýnzt um það og það hafi ekki verið gert ráð fyrir öðru en ríkið borgaði aukna löggæzlu, sem um tíma a.m.k. þyrfti í þessu sambandi. Sú aukna löggæzla og aðstoð, sem þá verður veitt á vegunum, kemur náttúrlega að gagni í framtíðinni.

Það er ekki nokkur vafi á því, að það er kannske margt fólk, sem er hikandi við að fara út í hægri umferð. En margt af því sama fólki ætti ekki að aka í vinstri umferð, þó að það hafi réttindi til þess og geri það, vegna þess að það hefur alls ekki fylgzt með tímanum, með þeim öru breytingum, sem hafa orðið á umferðarreglum hér í þéttbýlinu á undanförnum árum, því miður, og sjálfsagt er þetta ein af mörgum orsökum umferðarslysa, sem okkur hrýs öllum hugur við.

Hver á þá að borga þennan kostnað? Á hann að koma á ríkissjóðinn beint eða í sambandi við hægri kostnaðinn, sem ekki verður gert nema með því að framlengja gjaldið eða hækka gjaldið, sem legðist þá bara á bifreiðaeigendur, og mönnum kannske sýnist það ekki sanngjarnt. Það er alveg rétt, að vissu leyti er það ekki sanngjarnt. En þó er gjaldið svo lágt, að það er fjöldi bifreiðaeigenda, sem ég persónulega þekki, og ég hef gert það að gamni mínu að spyrja þá að því, hvort þeir væru búnir að borga gjaldið. Nei, þeir voru ekki búnir að borga gjaldið. — Nú, ertu ekki búinn að fara í skoðun? sagði ég. — Jú, þeir voru búnir að fara í skoðun. — Nú, þá hefur þú ekki komizt hjá því að borga gjaldið. — Þeir tóku bara ekkert eftir því, þessum 240 krónum, að þeir voru búnir að borga það. Og þetta er ekki tilfinnanlegra en það, að þetta er ekki eins og ein áfylling á benzíntank á venjulegum bíl á s.l. ári, 240 kr. Það er svo gert ráð fyrir, að það verði 360 kr. á næsta ári, á árinu 1969, en ekki nema 180 kr. 1970. Annaðhvort þyrfti að endurskoða þetta, ef áætlun truflast mjög verulega, eða leggja aukinn kostnað á ríkissjóð, og ég viðurkenni fúslega, að hér er um að ræða kostnað, sem er ekki bara fyrir bifreiðaeigendur, en allir bifreiðaeigendur mega hins vegar mjög fagna því, að lagt sé eitthvað að mörkum og unnið að því, og greiða til þess nokkurn kostnað, að betri umferðarmenning skapist, og það er ég er alveg viss um, að þeir gera og meta.

Til þess að gera okkur grein fyrir þessum kostnaði t.d., þá vil ég geta eftirfarandi, að það er talið ekki óvenjulegt, að einkabílum sé ekið nálægt 20 þús. km á ári, og venjulegur 5–6 manna fólksbíll mundi eyða til þeirrar keyrslu nálægt 2400 lítrum af benzíni, en þá er miðað við 12 lítra eyðslu á 100 kr. Benzínlítri kostar nú 8.20 kr., þannig að benzíneyðslan ein mundi kosta eiganda slíkrar bifreiðar nærri 20 þús. kr., eða 19.680 kr. á ári, og þá hefur þessi bíleigandi á s.l. ári þurft að borga 240 og núna í ár 360 kr. í þetta gjald, sem á að bera kostnað af hægri umferðinni.

Það er að vísu svo, að í grg. fyrir þessu frv. er vitnað í áætlanir Félags íslenzkra vegfarenda um það, hversu gífurlegur kostnaður muni verða af þessari breytingu. Að vísu gera flm. þessa frv. þá áætlun ekki að sinni, því að eins og ég sagði áðan, þá gera þeir ráð fyrir, að hún muni ekki verða undir 100 millj., án þess að rökstyðja það nánar. En þeir vitna til þess að Félag íslenzkra vegfarenda hefur látið gera áætlun um aukið löggæzlulið, sem nauðsynlegt væri að hafa, meðan á breytingunni stendur og eftir, og það telur, að kostnaður við þann lið, við aukna löggæzlu, verði ekki undir 250 millj. kr. í eitt ár. Ég hélt fyrst, að þetta væri prentvilla og þetta mundi verða leiðrétt og kannske að þeir væru með í huga 25 millj. kr. eða eitthvað slíkt. Við getum haft það í huga, að öll löggæzlan á landinu, við sveitastjórnir og ríkislögregla og öll löggæzlan í heild, er í fjárl. ársins 1968 áætluð um 150 millj. kr., og auðvitað er ekki öll almenna löggæzlu og eftirlit í landinu, fast lið, og öll rannsóknarlögreglan er utan við þetta. Þess vegna finnst mér nokkuð vel í lagt, án þess að ég vilji nokkuð frekar um það segja, að vitna til áætlunargerðar einhvers félags og án þess að birta þessa áætlunargerð, svo að maður geti haft hugmynd um hana, um það, að aukningin verði 250 millj. kr. á ári við löggæzlu vegna breytingarinnar. Ég tel alveg sjálfsagt, að þessir hv. flm. geri þn., sem hefur þetta mál til meðferðar, nánari grein fyrir þessari áætlun, sem hefði reyndar átt að vera strax í þskj., þegar slíku er slegið fram. Þær eru mér mjög framandi, þessar tölur, enda mun ég hlutast til um það, að þeir, sem nánast hafa með yfirstjórn löggæzlunnar í landinu að gera, og fyrst og fremst þar sem þéttbýlið er, að þeir athugi þetta nánar og geri þn. grein fyrir því, hver þeirra skoðun í þessu máli er.

Ég legg hins vegar ákaflega mikið upp úr því, og það er rétt hjá hv. 1. flm., að til þess að þessi framkvæmd á breytingu, hvenær sem hún yrði, færi vel úr hendi, þá er grundvallaratriði að skapa jákvætt viðhorf hjá fólkinu, hjá almenningi, að það skapist vilji til að koma á meiri umferðarmenningu í landinu en verið hefur. Og ég segi þetta alveg af sérstöku tilefni, vegna þess að hér segir í grg. frá því, að stofnað hafi verið Félag íslenzkra vegfarenda, og um það segir: „Tilgangur þess er að vinna að bættri umferðarmenningu, enn fremur að því, að þjóðvegakerfið verði endurbætt og því komið í viðunandi og varanlegt horf.“ Tilgangur þess er að vinna að bættri umferðarmenningu, og ein leiðin til þess að stuðla að meiri og betri umferðarmenningu er að skapa jákvætt viðhorf fólksins til þess, sem gera skal í umferðinni. Ég legg þess vegna mikla áherzlu á, að það komi mjög skjótt fram hér í þinginu, hver afstaða þingsins er til þessa frv., og fari það svo, sem er mín ætlun, að þetta frv. verði fellt, þá mundi ég mjög vilja eiga að þetta Félag íslenzkra vegfarenda, sem þá mundi að sjálfsögðu samkvæmt sínum tilgangi berjast fyrir því að koma á með góðu móti hægri umferð í landinu, þar sem tilgangur þess er að vinna að bættri umferðarmenningu. Og þá hefði bætzt enn einn liðsmaður í hóp þess að gera þessa framkvæmd sem skaplegasta, þegar að henni kemur.

Auðvitað er það ljóst, þó að ég vilji ekki fara út í að deila um einstök atriði, hvort eigi að vera hægri umferð eða vinstri umferð, sem ég tel vera utan dagskrár í dag, að um þetta sýnist mönnum sitt hvað, og það er margt fundið til. T.d. sá ég einhverja útsetningu um það um daginn, hvað bílar mundu verða miklu lengur á leiðinni, vegna þess að það ætti að takmarka hámarkshraðann. Ætli það geri svo voðalega mikið til, þó að við takmörkum hámarkshraðann einhvern tíma hjá okkur, meðan við erum að aðhæfa okkur þessari miklu breytingu? En burt séð frá því er sannleikurinn sá, að það var langmest gert úr því, hvað almenningsbifreiðarnar mundu verða miklu lengur á þessari og þessari leið. En hraði almenningsbifreiða, verður sá sami fyrir og eftir breytinguna, nema í þrjá daga. En í heild, og það er rétt að ég geri hv. þm. grein fyrir því, þá er um þetta að segja svo, að í dag er hámarkshraði í þéttbýli 45 km á klst., og í lögreglusamþykktum er hámarkshraði nú víða ákveðinn lægri og yfirleitt 35 km. Í Reykjavík er hraðinn almennt 35 km, en á helztu umferðaræðum 45 km. Á Miklubraut er á kafla leyfður 60 km hraði, á svæði, sem er nánast utan þéttbýlis. Utan þéttbýlis er 70 km hraði á klst. það, sem nú gildir. Undantekningar eru þó almenningsvagnar fyrir 10 farþega og fleiri og vörubifreiðar 3,5 smálestir eða meira að heildarþyngd, þ. e. með hlassi, sem ekki mega aka hraðar en 60 km á klst. Almenningsbifreiðarnar mega ekki aka hraðar. Og bifreiðar með tengi- eða festivagna, mega ekki aka hraðar en 45 km á klst. Sérregla gildir þó á Reykjanesbraut að sumri til, þ. e. 80 km á klst. fyrir aðra en bifreiðar með tengi- og festivagna, sem mega þar aka 60 km, en Reykjanesbraut er auðvitað alveg sérstök og eina steypta brautin, sem við höfum af þessu tagi. Reglur þær, sem taka eiga gildi við breytinguna í hægri umferð, eru þessar, að í þéttbýlinu verði fyrst í stað og ótiltekið hámarkshraðinn úr 45 km lækkaður í 35 km, en utan þéttbýlis verður hann lækkaður úr 60 km í 50 km á klst. í 3 daga, en síðan 60 km á klst. og er þá hraði almenningsbifreiða og vörubifreiða óbreyttur frá því, sem nú gildir. Á vegum, sem nú hafa 60 km á klst., verður hraðinn þó áfram 50 km á klst., eins og t.d. þessi partur, sem ég talaði um áðan, af Miklubrautinni hér í Reykjavík á litlu svæði. Og á Reykjanesbraut verður hámarkshraði fyrst í stað, þar til annað verður ákveðið, 60 km á klst. í stað þeirra 80, sem leyfðir hafa verið á sumrin.

Það er gott að vitna í vísindin, en stundum er vísindalegra að hafa einhverja vísindalega tilvitnun og vita, hvaðan þessi vísindi koma, sem vitnað er til. Hv. 1. flm. talaði um, að það ætti að vera hægra stýri, þar sem væri hægri akstur, eða það væru margir, sem teldu, að það væri meira öryggi í því, og vitnaði í grein í einu norsku blaði. Vísindalegar tilvitnanir voru nú engar, en það var sagt, að þetta væru vísindalegar niðurstöður, og sú vísindalega niðurstaða, sem hv. flm. vitnar til, er, að það mundi fækka um helming slysum, þar sem hægri akstur er, ef stýrið væri flutt frá vinstri til hægri. Nú þætti mér afskaplega fróðlegt að fá þessa vísindalegu niðurstöðu og hvaða vísindamenn hafa að henni staðið. Ég veit um dálítið annað viðhorf, og við höfum gert ráð fyrir hér, að það væri eðlilegra að hafa stýrið vinstra megin í slíkri umferð og öfugt, þar sem er vinstri umferð, að í Bretlandi, þar sem er vinstri umferð, eru allir bílar að jafnaði með stýri hægra megin. En ef maður á bíl þar, sem honum er ekki bannað, með vinstri handar stýri, verður hann að greiða hærra iðgjald til vátryggingarfélaganna. Þar hefur niðurstaðan verið sú, að þessi maður sé í meiri slysahættu, meiri líkur til þess, að hann valdi slysum á óðrum og bíll hans valdi skemmdum, heldur en ef stýrið sé hægra megin, eina og þar er tíðkanlegt. Svona eru nú skoðanir manna mismunandi á þessu sviði, og ég held, að það þyrfti að fræða Breta um þennan vísdóm, að það mundi fækka hjá þeim um helming slysunum, ef þeir flyttu stýrið hjá sér frá hægri og yfir til vinstri. Ég sagði, að það væri mikið af staðhæfingum í ræðu hv. 1. flm. Þetta er ein. Hin var sú, að dæmi Svía sannaði okkur, að kostnaðurinn yrði margfalt meiri. Það var önnur staðhæfingin, og slíkar voru einnig fleiri.

Hann spurði beinlínis um kröfur, hvort það lægju fyrir kröfur um bætur, og gerði ráð fyrir, að þær mundu verða meiri en gert var ráð fyrir á hendur hægri nefndarinnar. Mér er kunnugt um eitt deilumál, sem þar er uppi, hvort n. eigi að bæta flutning á langferðabifreiðum á hurð frá vinstri yfir til hægri. N. hefur litið svo á, að hún mundi ekki bæta þetta og bíllinn ætti að aka áfram með hurðina óbreytta. Hann stanzaði á endastöðvum, þar sem ekki skipti máli, hvorum megin hurðin væri. Það væri hins vegar spurning, hvernig fara skyldi að, þegar hann ætti að stanza einhvers staðar á leiðinni. Það að fara yfir á öfugan kant til að hleypa fólki út, gæti skapað hættu og slíkur bíll þyrfti þá, þegar hann stanzar á slíkum stöðum, að stöðvast á miðri braut, meðan á þessu stendur. En þetta deilumál hefur verið á milli sérleyfishafa og framkvæmdanefndarinnar og hefur, eins og lögin gerðu ráð fyrir, farið til þess gerðardóms, sem settur hefur verið upp til þess að meta deilur, sem upp rísa, eins og þessar og hvort hægri nefndin hefur rétt fyrir sér eða ekki. Fari svo, að niðurstöður dómsins verði þær, að hægri n. eigi að bæta þetta, mun bætast við nokkur kostnaður frá því, sem ég gerði grein fyrir áðan í sambandi við áætlaðan kostnað og að hve miklu leyti hann muni standast.

Mönnum getur auðvitað sýnzt sitt hvað í umferðarmálum. Ég ætlaði aðeins til fróðleiks að minna á eitt dæmi, sem við höfum haft fyrir okkur. Þegar umferðarlögin voru sett 1958, þegar þau voru lögð fyrir þingið 1956 og 1957, var, eins og ég sagði áðan, gert ráð fyrir vinstri umferð og að ríðandi menn ættu að halda sig á vinstri vegarkanti. Þegar málið var svo komið til Ed., sýndist þeim vísu mönnum, að þetta væri ekki rétt og það væri rétt, að ríðandi menn héldu sig hægra megin og það væri meira öryggi í því, að þeir kæmu á móti bifreiðinni, heldur en bifreiðin kæmi á eftir hinum ríðandi mönnum, og þetta var samþ. Síðan áttu ríðandi menn að ríða hægra megin og gerðu það nú, þegar lögin voru komin í gildi. En þá kom í ljós, að aumingja hestarnir blinduðust alveg, þegar þeir mættu bifreiðunum. Og svo tveimur árum seinna, 1960, var þessu aftur breytt hér á hv. Alþ. og ákveðið, að á vegum skuli ríðandi menn halda sig á vinstri hluta vegarins. Við sjáum aðeins af þessu, að það er ýmislegt, sem getur verið álitamál í þessum efnum. Ég sá einhvers staðar grein í blaði um daginn, að það væri nú kannske langerfiðasta viðfangsefnið að leysa vandræðin með hestana og kenna þeim að vera hægra megin, fara yfir á hægri kantinn. Það urðu mér vitanlega engin slys eða vandræði af þessu, þó að þannig væri hringlað með blessaðar skepnurnar, á tveggja ára fresti áttu þær að vera á sinn hvorum kantinum, svo að ég held ekki heldur að það atriði, sem hefur verið haft nokkuð á oddi, komi til með að skipta hér miklu máli.

Nú skal ég ekki hafa um þetta frv. fleiri orð. Ég taldi skyldu mína að reyna að gera hv. þd. grein fyrir því, hvernig stæði um framkvæmd undirbúningsins að breytingu, sem nú er ákveðin 26. maí, og einnig, hvað ætla mætti um kostnaðarhliðina á þessu. Ég hef aðeins smávægilega vikið að efnisatriðum í sambandi við ræðu hv. 1. flm. um það, hvort þetta sé æskilegt eða ekki æskilegt. En þetta frv., sem aðeins er frestun á framkvæmdinni, snertir í sjálfu sér ekki það mál. Ég tel, að við það, sem fram hefur komið, þær upplýsingar, sem ég hef getað gefið, og ég hygg, að svo muni einnig reynast hjá þeirri þn., sem fær málið til athugunar, en á það mun nú reyna, verði það niðurstaða manna, að hér sé ekkert álitamál að fella þetta frv., sem hér liggur fyrir. Og ég beini þeim eindregnu tilmælum til hv. þn., að hún taki málið til skjótrar afgreiðslu, því að ég tel miklu varða, að allur almenningur fái að vita fyrr en síðar um það, hver afstaða þingsins í dag er til þessa máls.