22.01.1968
Neðri deild: 52. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í C-deild Alþingistíðinda. (2146)

86. mál, hægri handar umferð

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég mun nú ekki tala hér langt mál, vegna þess að hv. 4. þm. Reykv. er búinn að taka þetta mál það vel í gegn og koma inn á flest þau atriði, sem ég hefði viljað ræða, en mér finnst ekki ástæða til þess að taka þau atriði upp aftur nema þá að litlu leyti.

Eitt af því, sem hæstv. dómsmrh. sagði í sinni ræðu áðan, var það, að þetta frv. hefði verið seinbúið og hefði verið eðlilegra, að það hefði komið í þingbyrjun. Það kann að vera, að það hafi verið eðlilegra. En ég fyrir mitt leyti vil benda hæstv. dómsmrh. á það, að minn hlutur í þessu máli var ekki óeðlilegur. Ég er hér nýr þm. og var að kynna mér þetta, hvaða skoðanir menn höfðu hér á þessu máli innan þingsins, og eftir það að þrýstingur, mjög mikill þrýstingur, utan af landsbyggðinni eða úr mínu kjördæmi kom um, að þetta mál væri tekið upp, var mér skylt að athuga hug manna í þessu máli. Ég leit líka þannig á, að undirbúningur að H-deginum væri alls ekki svo vel á veg kominn, að það mundi verða tilbúið, sem nauðsynlegt er að gera fyrir þennan H-dag fyrirhugaða. Ég vil benda sérstaklega á blindbeygjurnar, sem eru víða á landinu. Þeir, sem hafa ekið bíl í mörg ár, vita mjög vel, hvernig viðbrögð manna eru, þegar eitthvað óvænt kemur fyrir. Og þessi atvik hljóta alltaf að koma fyrir á blindbeygjunum. Ég held, að það sé alls ekki tímabært að breyta um, fyrr en það er búið að setja, eins og hv. 4. þm. Reykv. sagði, tvöfaldan veg alls staðar á blindbeygjum úti á vegum.

Hæstv. dómsmrh. gat um það í ræðu sinni, að það væri miklu betra að hafa stýrið inni í umferðinni, það væri reynsla annars staðar, að það væri verra að sitja kantmegin. En það er auðheyrt, að dómsmrh. miðar við þær aðstæður, sem eru hér í Reykjavík og t.d. í öðrum löndum, en ekki við þær aðstæður, sem eru úti á íslenzkum þjóðvegum. Það er allt annað mál. Ég var það heppinn í fyrravetur, að ég var með manni héðan úr Reykjavík og lenti í mjög vondu hríðarveðri fyrir norðan, en hann var mikið með breytingunni. Hann sá, hvernig bílstjórinn þurfti að aka. Hann þurfti annað slagið að vera með höfuðið út úr bílnum eða miða aðeins við puntstráin á kantinum. Eftir að við komumst alla leið, sagði þessi góði Reykvíkingur: „Ég hef aldrei skilið þessa umferð hér úti á vegunum fyrr en nú.“

Það hefur komið fram hér í umr., að á þessum þröngu vegum blindast menn miklu frekar, ef menn eru inni á veginum heldur en úti á kantinum ljósgeislinn á móti blindar mann miklu frekar. Það er alveg það sama, þegar maður mætir bíl. Aurinn skvettist á þá hliðina auðvitað og af því truflast útsýnið.

Það er ekki hægt að miða umferðina úti í íslenzku dreifbýli við það, sem er í öðrum löndum, hvorki í Svíþjóð né annars staðar. Og það þýðir ekkert fyrir okkur að miða þessa framkvæmd eða aðra við önnur lönd, nema aðstæðurnar séu sambærilegar, en það eru þær ekki.

Við förum ekki fram á það í þessu frv., að hætt sé við þessa breytingu. Við förum fram á það, að henni sé frestað, og ég vil skora á þn., sem fær þetta til umræðu, og taka undir það með 4. þm. Reykv., að þn. athugi það, velti því fyrir sér, hvort þetta sé í raun og veru framkvæmanlegt þannig, að ekki hljótist af því stórslys. Það er auðvitað margt hægt að segja um þetta, og ég vona, að það gefist tóm til þess síðar að ræða þessi atriði, og í trausti þess, þar sem fundartími er nú eiginlega liðinn, ætla ég að ljúka máli mínu.