05.02.1968
Neðri deild: 57. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í C-deild Alþingistíðinda. (2154)

86. mál, hægri handar umferð

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Það er á margan hátt vandasamt að taka til máls eftir þá rökföstu og alvöruþungu ræðu, sem var flutt hér af þeim manni, sem talaði síðastur á undan mér. Ég harma það mjög, að þeir menn hér í hv. d., sem hafa fylgt hægri handar umferðinni og gera það ef til vill enn, skyldu ekki vera hér viðstaddir til þess að hlýða á þetta mál jafngreinilega rakið og gert var af hv. síðasta ræðumanni, því að það hygg ég, að verði yfirleitt niðurstaðan, eins og orðið hefur í þessu máli, að því fleiri verða þeir, sem snúast gegn þessari fyrirhuguðu breytingu, sem — eins og var svo rækilega rakið af hv. síðasta ræðumanni — var ráðizt í af fljótræði og ég vil segja af hugsunarleysi, og þá sérstaklega að við hér á Alþingi gerðum okkur ekki nægilega grein fyrir því, hvað það var, sem raunverulega var að gerast og verið var að ákveða, þegar lög um hægri handar umferðina voru sett.

Ég hef ætlað mér í þessari ræðu að víkja að nokkrum atriðum, sem komu fram hjá hv. frsm. meiri hl. Raunar er nú sumt af því orðið óþarfi, vegna þess að það hefur verið svo rækilega á það minnzt, bæði af hv. frsm. minni hl. og líka af hv. síðasta ræðumanni, en þó finnst mér rétt að víkja hér að nokkrum heim röksemdum, sem hann færði fram fyrir hægri handar umferðinni og raunar eru ekki nýjar, vegna þess að ekkert nýtt kom fram hjá honum, heldur var það eiginlega upptalning á því, sem áður hefur verið haldið fram af þeim hægri handar aksturs mönnum í þessu máli. En eigi að síður finnst mér rétt, áður en þessari umr. lýkur hér, að vikið sé að þessum röksemdum með nokkrum orðum einu sinni enn.

Það kom að sjálfsögðu fram hjá hv. frsm. meiri hl., að aðalrökin fyrir þessu máli eða fyrir breytingunni væru þau, að þetta væri algengast hjá öðrum þjóðum og það hefðu ýmsar þjóðir tekið upp þessa breytingu á undanförnum árum. En eins og oft hefur komið fram í þessum umræðum, er þetta ekki nema hálfsögð sagan. Hægri handar umferðin er þannig til komin, að það eru í upphafi nokkrar stórar meginlandsþjóðir, sem taka hana upp, vegna þess að þar, sem lönd liggja saman, þykir eðlilegt að hafa samræmda umferð, og þess vegna hefur það farið svo, að ýmsar hinar minni meginlandsþjóðir hafa tekið upp sömu umferðarreglur og stærri meginlandsþjóðirnar höfðu í upphafi. Þannig hefur þróunin orðið, t.d. á meginlandi Evrópu. En þess verður svo jafnframt að gæta, að þær þjóðir, sem ekki hafa sameiginleg landamæri við önnur ríki eða önnur lönd, hafa undantekningarlaust ekki tekið þessa breytingu upp, ef þær hafa verið með vinstri handar umferð áður. Þetta gildir t.d. um Englendinga, um Íra, um Kýpurmenn, um Möltumenn og Japani. Hvers vegna skyldu þessar þjóðir ekki hafa tekið upp hægri handar umferðina, ef hún er jafnnauðsynleg og réttlætanleg og haldið er fram af ýmsum meðhaldsmönnum hennar? Væri ólíklegt t.d., ef hér væri um mjög nauðsynlega nýjung að ræða og gagnlega, að þjóð eins og Japanir væri ekki búin að taka hana upp? Ég held, að það sé ekki neitt last um aðrar þjóðir, þó að það sé sagt um Japani, að á síðari árum eða áratugum hefur engin þjóð verið eins fljót að tileinka sér nýjungar í tækni, sem fram hafa komið í heiminum, enda hefur niðurstaðan orðið sú, að japanskur iðnaður hefur farið sigri hrósandi svo að segja um allan heim. En hvers vegna taka þá Japanir ekki þessa breytingu upp, hægri handar umferð, eins og við, Skýringin á því er ákaflega einföld. Hún er sú, að þeir gera sér ljóst, að þeir hafa enga þörf fyrir þessa breytingu, að hér er aðeins um eftiröpun að ræða á venju, sem meginlandsþjóðirnar hafa, og Japanir eru þekktir fyrir það að vera ráðdeildarmenn, þeir eyða fjármunum yfirleitt ekki að óþörfu, og þess vegna kasta þeir ekki tugum og hundruðum millj. í breytingu, sem er ekkert annað en eftiröpun, sem þeir geta vel verið án. Sama gildir um aðrar eyþjóðir, eins og Breta, Íra, Möltumenn og Kýpurmenn. Þeir hafa ekki sameiginleg landamæri við önnur ríki og geta þess vegna fylgt sínum gömlu umferðarreglum áfram, án þess að nokkur háski hljótist af því í sambandi við umferð yfir landamærin.

Það er alveg rétt, sem kom hér fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að það vantar alveg upplýsingar um það frá umferðarnefndinni, sem ætti þó að hafa þær, hvaða þjóðir það eru í dag, sem hafa hægri umferð, og hvaða þjóðir vinstri umferð. En ég held samt skv. þeim upplýsingum, sem ég hef, að það sé ekki hægt að benda á, að nokkur eyþjóð hafi gert breytingar í þessum efnum, sem við erum að gera nú. Við erum undantekning í þessu eins og ýmsu fleiru. Það er galli á okkur Íslendingum, sem við verðum hreinlega að játa og á mikinn þátt í því, að komið er í efnahagsmálum okkar eins og raun ber vitni eftir það mikla góðæri, sem við höfum búið við á undanförnum árum, að við erum allt of nýjungagjarnir, allt of fljótir til þess að apa eftir öðrum án þess að hugsa nokkuð út í það, hvort við höfum þörf fyrir það og hvort við höfum efni á því, og það er þessi eiginleiki okkar, sem ekki er góður, sem veldur því fyrst og fremst, að við erum að ráðast í þá breytingu, sem við erum nú að ræða um. Það er þessi heimskulega og dýra nýjungagirni okkar, sem veldur því fyrst og fremst — og ég vil segja eingöngu, að verið er að reyna að knýja þessa breytingu fram nú hér á landi.

Ég skal þá víkja nokkra nánar að öðrum röksemdum hv. fram. meiri hl. Hann hélt því m.a. fram, að það væri nauðsynlegt að gera þetta vegna sjómanna, á sjónum væri vikið til hægri og það gæti komið fyrir menn, sem stjórnuðu þar, að þegar þeir ættu að fara að stýra bíl á landi, þá vildu þeir fylgja sömu reglu og væri á sjónum. Ég skal játa það, að ég er hvergi nærri nógu kunnugur málum sjómanna eða þeim óskum, sem þeir hafa borið fram, en ég held, að ég hafi þó fylgzt það vel með, að ég minnist ekki þess, að frá samtökum eða fundum sjómanna hafi nokkurn tíma komið ósk um þessa breytingu og þeir teldu það vera sér sérstaklega hættulegt að vera í vinstri umferð á landi, þó að það væri hægri umferð á sjó. Ég minnist þess ekki heldur, að því hafi verið haldið fram eða bent á það með nokkrum rökum eða tölum, að það verði meiri umferðarslys af völdum sjómanna en annarra, nema síður sé. Ég held þess vegna, að ekki sé hægt að fara á bak við sjómenn í þessu máli og segja, að þetta sé m.a. gert vegna þeirra. Ég held, að það sé allt annað, sem sjómenn hafa áhuga á og við ættum að reyna að vinna að, að leyst yrði af þeirra málum, heldur en þessi umferðarbreyting. Ég held, að það sé ekki ofsögum sagt, að þessi röksemd þeirra, sem mæla með hægri handar umferðinni, sé meira en haldlaus.

Þá er sagt, að þessi breyting sé nauðsynleg vegna íslenzkra námsmanna erlendis og vegna íslenzkra ferðamanna erlendis. Ég hef orðið var við það hér á hv. Alþ., að það hafa komið ýmis tilmæli frá íslenzkum námsmönnum erlendis, sem því miður hafa fengið heldur lakar undirtektir. En ég man aldrei eftir því, að íslenzkir námsmenn erlendis hafi óskað eftir þessari breytingu eða látið í það skína, að það væri nokkurt áhugamál þeirra, og ég minnist þess ekki heldur, að það hafi komið fram af hálfu Íslendinga, sem hafa ekið bíl erlendis, að þeir hafi óskað eftir þessari breytingu. Ég hef þvert á móti heyrt það á sumum þeirra, að þeir teldu þessa breytingu alls ekki æskilega frá því sjónarmiði, sem hér hefur verið rætt um. Þeir hafa sagt það, a.m.k. sumir hverjir, að vegna þess að það gilti að ýmsu leyti önnur umferðarregla erlendis í þessum efnum en hér heima, þá sýndu þeir meiri varúð en ella, þegar út væri komið. Hitt væri það, að ef umferðin hér væri færð í sama horf og t.d. á meginlandinu, þá gæti það orðið til þess, að varúð þeirra yrði minni en ella. Þannig má færa rök bæði með þessu og móti. Ég held, að það sé ákaflega erfitt, ef menn vilja líta sanngjarnt og hlutlaust á þessi mál, að færa rök fyrir því, að það sé rétt að ráðast í þessa dýru breytingu og óþægilegu fyrir fjölda manna vegna Íslendinga, sem nota bifreiðar erlendis.

Þá er það ein röksemdin, að það sé nauðsynlegt að gera þetta vegna erlendra ferðamanna, sem hingað koma og aka bíl hér. Ég hef ekki séð neinar tölur um það eða upplýsingar um það, að það hafi hlotizt nein sérstök slys af völdum erlendra ferðamanna hér á landi af þessum ástæðum eða það hafi komið fram neinar sérstakar óskir frá þeim í þessum efnum. Hins vegar höfum við þá reynslu fyrir augunum, að hér hafa verið bandarískir hermenn um tugi ára, en í landi þeirra er hægri umferð, þeir hafa ekið mikið eftir íslenzkum þjóðvegum, og ég minnist þess ekki, að því sé haldið fram, að það sé nein sérstök meiri slysahætta af þeim en öðrum vegfarendum hér á landi, nema síður sé, því að það vill oft vera þannig, að þegar menn koma til annars lands og þurfa að semja sig að öðrum háttum eða öðrum umferðarreglum þar heldur en í sinu eigin landi, þá sýna þeir meiri varúð en ella. Ég held þess vegna, að þegar menn kryfja þessa röksemd til mergjar, komist þeir að þeirri niðurstöðu, að hún sé líka meira en haldlaus

Þá held ég, að ég sé búinn að minnast nokkurn veginn á aðalröksemdirnar, sem komu fram hjá hv. frsm. meiri hl. fyrir breytingunni. Ég held, að það sé sannast sagna um þetta mál, sem fram kom í ræðu hæstv. dómsmrh., þegar hann lagði þetta mál fyrir Alþ., að þar sem vegir eru sæmilega góðir, skipti ekki meginmáli, hvort menn hafi vinstri eða hægri handar umferð, það megi leggja það nokkurn veginn að jöfnu, þegar menn eru orðnir vanir annarri hvorri umferðarreglunni, en hins vegar þar sem vegir eru þröngir eins og hér og þar sem vegbrúnir eru lélegar eins og þér, að þá sé sú umferðarreglan heppilegri, sem tryggir það, að stýrið sé þeim megin, sem vegkanturinn er, og það réttlætir fullkomlega það, sem hér hefur verið haldið fram, að við höldum áfram vinstri handar umferðinni.

Það mætti að sjálfsögðu hafa um það mörg fleiri orð og rekja það ýtarlegar, að þau rök, sem eru færð fyrir breytingunni í hægri handar akstur, eru haldlaus og hér er því eingöngu verið að ráðast í eftiröpun, sem er óþörf og dýr og veldur fjölda manna miklum erfiðleikum. Um slysahættu í þessu sambandi vil ég ekki fjölyrða svo mikið, ég vil ekki hafa neina spádóma uppi í þeim efnum, en mér finnst hins vegar það koma glöggt fram hjá almenningi, að það sé mikill uggur í sambandi við breytinguna. Og það er alveg tilgangslaust að vera að bera okkur saman við Svía í þessum efnum, því að allar aðstæður eru svo ólíkar í Svíþjóð og hér. Eins og hefur verið bent á í þessum umræðum, er umferðarmenning á hærra stigi í Svíþjóð en í nokkru öðru landi. Ég hygg, að það megi fullyrða það. Hér er umferðarmenning ákaflega lítil, það verðum við að viðurkenna. Þó að það finnist kannske eitthvað af þröngum malarvegum í Svíþjóð, þá vitum við það, að meginhluti veganna þar er miklu betri og breiðari en hér, þar að auki hafa Svíar sterkt lögregluvald og beittu því alveg hiklaust í sambandi við breytinguna. Aðstaðan hjá okkur og Svíum er þess vegna alveg gerólík, og það þýðir ekkert að vera með neinn samanburð í þeim efnum.

Þá held ég að ég víki að þeirri röksemd hv. frsm. meiri hl., sem eiginlega snertir ekki það, hvort það væri neitt til bóta að breyta í hægri handar umferð eða ekki, en hann virtist þó leggja ákaflega mikið upp úr og er, held ég, mest lagt upp úr í nál. meiri hl., ef ég man það rétt, og þessi röksemd er sú: Alþ. er búið tvisvar eða þrisvar sinnum að samþ. þessa breytingu, og því, sem Alþ. er búið að gera tvisvar eða þrisvar sinnum, má alls ekki breyta. Það er eiginlega niðurlæging við Alþ., verið að misbjóða Alþ. að fara fram á, að því, sem það er búið að samþ. tvisvar eða þrisvar sinnum, skuli verða breytt, og í þessu sambandi fór frsm. allþungum orðum um okkur flm. fyrir að dirfast að fara fram á að fá því breytt, sem Alþ. er búið að samþ. tvisvar eða þrisvar sinnum. Ég held, að það væri gott í þessu sambandi, áður en maður fer lengra, að rifja upp fyrir hv. flm. ræðukafla, sem að Björnstjerne Björnson hélt einu sinni. Hann var mikill málafylgjumaður og flutti sitt mál jafnan af miklum þrótti og tilfinningu, en það kom ekki ósjaldan fyrir, að hann lauk sínum ræðum á þá leið, að hann mælti mjög eindregið með þessu máli, en hins vegar áskildi hann sér rétt til þess, ef annað réttara og sannara kæmi fram, að skipta um skoðun. Ég held, að þetta sé sú regla, sem við alþm. eigum yfirleitt að hafa. Við erum vafalaust margir hverjir oft og tíðum iðulega mjög sannfærðir um ýmsa hluti og álítum okkur vera að gera rétt, en ég álít okkur ekkert minni menn fyrir það, þó að við betri yfirsýn yfir málin eða vegna nýrra upplýsinga, sem koma fram, ellegar vegna þess, að menn hugsa málin nánar, skipti þeir um skoðun og fylgi því, sem þeir við nánari athugun álita réttara og sannara. Það má líka benda á það Alþ. til lofs, að það hefur breytt fjölmörgum samþykktum sínum. Við erum eiginlega á hverju þingi að gera meira eða minna að því að breyta eldri lögum, vegna þess að það hafa orðið breytingar, sem gera þessar lagabreytingar nauðsynlegar, og eins vegna þess, að okkur finnst, að annað réttara og sannara hafi komið í ljós og þess vegna sé rétt að breyta til. Og ef menn hugsa eins og Björnson, þá held ég, að sé ekki erfitt fyrir þá þingmenn, sem greiddu á sínum tíma atkv. með hægri handar umferðinni, að breyta nú til og falla frá þessari löggjöf, eftir að þeir hafa kynnt sér málið betur og annað sannara og réttara komið í ljós, sem réttlætir það, að þeir skipti þannig um skoðun.

Ég verð líka að segja, að það eru um þessar mundir að gerast atburðir á Alþ., sem valda því, að sérstaklega hv. frsm. ætti ekki að hampa svo mjög þessari skoðun, að það, sem væri búið að tví- eða þrísamþykkja á Alþ., ætti að vera óumbreytanlegt. Einn amerískur stjórnmálamaður komst þannig að orði á s.l. hausti, og það þótti nokkuð djarft til orða tekið, að hann hefði verið heilaþveginn af vissum sérfræðingum, en við nánari athugun hefði hann komizt að raun um, að þessir sérfræðingar hefðu ekki haft rétt fyrir sér og þess vegna væri hann alveg óragur við að halda því fram, að hann hefði skipt um skoðun. Það kemur fyrir hv. alþm., alveg eins og þennan ágæta ameríska stjórnmálamann, að þeir eru stundum heilaþvegnir af sérfræðingum, og með þessu vil ég ekki segja neitt illt um sérfræðingana, því að ég álit rétt, að við leitum álits þeirra og tökum tillit til þess, sem þeir segja, en þó með allri gát. Og það hefur nú komið fyrir þennan hv. frsm. meiri hl., að hann hefur verið heilaþveginn af sérfræðingunum á þessu þingi. Hann á sæti í fjvn., og ég man ekki betur en að núna, áður en við fórum heim í jólafríið, héldi hann því fram, sem fjvn.maður, að með gengislækkuninni væri búið að tryggja alveg fullkomlega hlut sjávarútvegsins, og þess vegna lagði hann til í nál. meiri hl. fjvn., að felldar yrðu niður allar uppbætur til sjávarútvegsins. Hann stóð að löggjöf um það, að hluti af gengishagnaði útgerðarmanna og sjómanna yrði gerður upptækur, vegna þess að þessir aðilar þyrftu ekkert á honum að halda. Og hann tók enn fremur undir það, að það væri til loforð um, að tollarnir skyldu lækkaðir um nálægt 300 millj. kr. Allt var þetta byggt á þeim útreikningum, sem stjórnin og hennar sérfræðingar höfðu gert, og ég lái hv. þm. það ekki neitt, þótt hann tryði þessu og léti heilaþvo sig í þeim efnum, ef mætti nota það orð um þetta. Nú blasir allt annað við. Nú verður hv. þm. innan tíðar hér á Alþ. að greiða atkv. með því, að það verði teknar upp verulegar uppbætur til sjávarútvegsins, þó að hann væri með því fyrir jólin, að þessar uppbætur væru felldar niður. Hann verður einnig að greiða atkv. með því, að tollalækkunin verði miklu minni en lofað var og haldið var fram af fjvn. Ég er ekkert að lá hv. þm. það, þó að hann skipti hér um skoðun og fylgi því að lokum, sem hann telur vera sannara og réttara og óhjákvæmilegt, þó að hitt sé svo annað mál, og það kemur ekkert við skoðanaskiptunum, að ég álit t.d. í sambandi við tollalækkunina, að þá eigi menn að leggja kapp á það að standa við loforð sín, því að loforð verða menn að efna, hvað sem öðru líður. En hitt, þó að menn breyti afstöðu til mála, eftir að annað nýtt hefur komið í ljós, sem þeir álíta sannara og réttara, það álít ég, að sé ekki neinum til niðurlægingar. Þess vegna vildi ég vænta þess, að þegar þessi hv. þm. íhugar nú betur afstöðu sína til hægri umferðarinnar og allar þær röksemdir, sem hafa komið fram í því máli, sjái hann, að hér er nokkuð líkt á ferðinni og í sambandi við efnahagsmálin, sem ég minntist á áðan. Hann hefur fest of mikinn trúnað á það, sem sérfræðingarnir sögðu, en við nánari athugun og frekari upplýsingar ber honum að skipta um skoðun frá því, sem hann áður hélt fram.

Hv. frsm. meiri hl. vék nokkuð að afstöðu minni til þessa máls og þótti hún að sumu leyti einkennileg. Ég skal játa það og gerði það raunar, þegar málið var til 1. umr., að þegar það kom fyrst hér til umr. á Alþingi að undirbúa þessa breytingu, tók ég ekki þátt í þeim umr., og einnig eftir að búið var að semja frv. um hægri handar akstur og leggja það fram hér á Alþingi, tók ég ekki heldur þátt í þeim umr. Ég hef gert grein fyrir því og get gert það aftur, af hverju það stafaði. Það stafaði í fyrsta lagi af því, að þetta mál var mjög hart sótt af ýmsum sérfræðingum, sem héldu því fram, að þessi breyting væri nauðsynleg, og þó að ég féllist ekki á þeirra röksemdir, þá treysti ég mér ekki til þess að mæla gegn þeim á því stigi, þó að ég svo að lokum þó, af því að ég sannfærðist ekki um þessar röksemdir, greiddi atkv. á móti málinu við lokaafgreiðslu á Alþingi. En annað hafði miklu meiri áhrif á afstöðu mína að þessu sinni og var þess valdandi, að ég tók ekki þátt í umr. um málið á sínum tíma. Þegar þetta mál var hér til meðferðar á Alþ., þegar lög um hægri handar umferð voru afgreidd, virtist það liggja fyrir, að svo að segja öll sú stétt, sem mesta þekkingu hefur á íslenzkum þjóðvegum, bílstjórastéttin, væri breytingunni meðmælt. Frá flestum þeim félögum, sem bílstjórar eru í, eða stjórnum þeirra félaga lágu fyrir umsagnir um það, að breytingin væri heppileg. En við nánari athugun hefur komið í ljós, að þetta er algerlega rangt. Eftir að málið var samþ. og maður fór að hlera bifreiðastjórana, kom það í ljós, að fámennar stjórnir í þeirra samtökum höfðu tekið upp hjá sér að mæla með þessari breytingu án þess að bera það nokkuð undir fundi í bílstjórafélögunum. Og það, sem breytti afstöðu minni fyrst og fremst til málsins og gerði það, að ég ákvað að reyna það, sem ég gæti, til að sporna gegn breytingunni, var einmitt það, að þeir menn, sem hafa langsamlega mesta reynsluna í þessum málum, og bezt þekkja þjóðvegina, bílstjórarnir, meginþorri þeirra er andvígur breytingunni. Þetta lá hins vegar ekki fyrir, heldur hið gagnstæða, þegar lögin voru hér til meðferðar í þinginu, og þess vegna voru þau samþ. á algerlega röngum forsendum. Þm. stóðu í þeirri trú, að mennirnir, sem mesta þekkingu hafi í þessum málum, bifreiðastjórarnir, væru breytingunni meðmæltir, en hið gagnstæða er nú komið í ljós. Þetta mál bar þannig að með einhverjum hætti, sem ég ætla ekki að rekja hér, að það var farið á bak við bifreiðastjórastéttina í málinu og aðeins fáeinir menn í hópi þeirra komu á þeirri skoðun í fyrstu, að eiginlega öll stéttin væri þessu meðmælt. Eftir að það var þannig komið í ljós, að þeir menn, sem hafa mesta reynslu og þekkingu í þessum málum, voru andvígir breytingunni, þá taldi ég mér rétt og skylt að styðja þá í þeirri baráttu. Mér finnst það vera skylda okkar alþm. í hverju máli að leggja mest upp úr áliti þeirra manna, sem bezt þekkja til viðkomandi máls, og það er það, sem hefur ráðið afstöðu minni í þessu máli.

Eins og ég lýsti hér við fyrri umr. málsins, hafði ég mikinn áhuga á því á síðasta þingi að bera fram þáltill. um það, að þjóðaratkvgr. færi fram um málið í sambandi við alþingiskosningarnar. En vegna tilmæla ýmissa flokksbræðra minna og ekki sízt fyrir tilmæli formanns flokks míns féllst ég á að flytja þessa till. ekki. Og rökin fyrir því voru þau, að það gæti að ýmsu leyti orðið til þess að rugla kosningarnar, ef svo mætti segja, og leiða til þess, að menn færu að kjósa menn á þing eftir því, hvort þeir væru með eða móti hægri handar akstri, ef þessi þjóðaratkvgr. færi fram samtímis þingkosningum. Slíkt væri óheppilegt, því að í þingkosningunum sjálfum ættu menn að velja fulltrúa eftir öðrum sjónarmiðum heldur en því einu, hvort menn væru með eða móti hægri handar akstri. En strax eftir að ég tók sæti á þessu þingi, fór ég að vinna að því ásamt öðrum mönnum, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, yrði flutt. En ég var hins vegar ekki hér á fyrri hluta þingsins, og þess vegna hefur það kannske átt einhvern þátt í því, að frv. er ekki fyrr fram komið en raun ber vitni um.

Hv. þm. var að tala um, að það fylgdi því mikill kostnaður að hafa þjóðaratkvgr. Ég vil aðeins benda honum á það, að á næsta sumri eiga að fara fram forsetakosningar og ætti að vera auðvelt að láta þjóðaratkvgr. um hægri handar akstur fara fram samhliða þeim, og þess vegna verður kostnaðarauki af þjóðaratkvgr. miklu minni en ella.

Hv. frsm. meiri hl. virtist hafa litlar mætur á þjóðaratkvgr. um þetta mál og telja hana óheppilega, og rök hans voru einkum þau, að menn væru alltaf ófúsir til þess að samþykkja á sig skatta, og það kynni að eiga sinn þátt í því, að menn snerust á móti breytingunni frekar en ella. Ég held, að þetta sé ekki rétt mat á kjósendum. Ég held, að kjósendur geri sér fullkomlega grein fyrir því, að eiginlega allar þær umbætur, sem þeir vilja koma fram; hverjar sem þær eru, geta því aðeins orðið, að menn leggi eitthvað á sig á móti, og ég er alveg viss um það, að ef menn teldu þessa breytingu nauðsynlega og hún yrði til þess að auka öryggi í umferðinni og þannig síðar meir að draga úr ýmsum kostnaði, sem af umferðarslysum hlýzt, og öðru slíku, mundu menn fúslega samþykkja þetta, þó að einhver kostnaður hlytist af því. Ég minnist t.d. þess í þessu sambandi, sem er ekki ófróðlegt að rifja upp, að ég dvaldist í Bandaríkjunum í nóvembermánuði s.l., þegar kosningar fóru þar fram, og á þeim stað, þar sem ég dvaldist, í New York, fór fram sérstök atkvgr. um það, hvort ríkinu, þ. e. New York-ríki, væri heimilað að taka lán, sem skipti mörgum millj. dollara, til þess að bæta vegakerfið. Menn vissu, að ef þeir samþykktu þessa lántöku, yrðu þeir að borga hana aftur í sköttum, bæði vegatollum og öðru slíku. Þrátt fyrir það, þó að menn vissu, að þessi kostnaðarauki og þessar álögur fylgdu breytingunni, var hún samþ. með 2/3 hlutum atkv. Svo mikilsvert töldu menn það að fá betri vegi, bæði greiðari samgöngur og meira öryggi, sem mundi af því hljótast, og ég er alveg viss um það, að íslenzkir kjósendur mundu hugsa á sömu leið. Ef þeir kæmust að þeirri niðurstöðu, eins og hv. frsm. meiri hl. virðist halda fram, að þessi breyting yrði til að auka umferðaröryggið, mundu þeir samþykkja hana, jafnvel þó að einhver kostnaður fylgdi. En væri það hins vegar mat manna, eins og mitt og annarra, að ekkert öryggi fengist með þessari breytingu, heldur fylgdi henni kostnaðurinn einn, mundu þeir að sjálfsögðu verða á móti.

Mér virðist það koma mjög greinilega fram, að þrátt fyrir það, þó að meðhaldsmenn hægri umferðarinnar tali þannig, að þeir hafi mikla trú á þessari breytingu, sé trúin ekki svo ýkjamikil, þegar til kemur, og það sé meginástæðan til þess, að þeir þora ekki að láta þetta mál sitt ganga undir þjóðaratkvgr. Og ég heyri það líka á fjöldamörgum þessara manna nú, að þeir segja sem svo : Það var kannske ekki rétt að ráðast í breytinguna og hún gerir kannske lítið gagn, en við erum bara komnir svo langt með undirbúninginn í þessu máli, að þess vegna getum við ekki snúið aftur. Það er búið að stofna til svo mikils kostnaðar í sambandi við þessa breytingu, að við getum ekki snúið aftur eftir þetta, þrátt fyrir það að þetta sé kannske, þegar allt kemur til alls, hálfgerð vitleysa. — En þetta er alls ekki rétt röksemd, og þess vegna skal ég nú víkja að því, sem er ein aðalmótbáran á móti þessu frv. núna, að það sé búið að stofna til svo mikils kostnaðar, að það sé ekki rétt að snúa til baka úr því sem komið er.

Það er sagt, að það sé búið að stofna nú til kostnaðar vegna breytingarinnar eitthvað milli 20 og 30 millj. kr., búið ýmist að greiða þetta beint ellegar það sé búið að stofna til skuldbindinga, sem nemi þessari upphæð. Þetta er vafalaust rétt. En þess er að gæta í þessu sambandi, að fjölmargt af þessum kostnaði er þannig lagað, að hann þarf ekki að verða að eyðslueyri, jafnvel þó að breytingin verði ekki gerð, svo að þessi upphæð öll yrði ekki tap, þó að horfið yrði frá breytingunni, ég skal ekki segja, hve mikið, en áreiðanlega mjög verulegt. Og ég vil líka láta það koma alveg skýrt fram, að jafnvel þó að ekki væri horfið að þessari breytingu, álit ég óhjákvæmilegt, að það yrðu gerðar ráðstafanir til þess að auka umferðarmenningu hér, bæði með strangara lögreglueftirliti og með upplýsingastarfsemi, svo að ég álít, að sá undirbúningur væri ekki unninn fyrir gýg, jafnvel þó að ekki yrði horfið að breytingunni. En segjum nú svo, látum það gott heita, að það sé búið að eyða 20–30 millj. í breytinguna og þetta fé muni allt tapast. Ég segi, að þrátt fyrir það er stórhagnaður að því að hverfa frá breytingunni, og ég skal með stuttu máli gera nokkra grein fyrir þessari skoðun minni.

Samkv. þeirri kostnaðaráætlun, sem upphaflega var gerð um breytinguna, var reiknað með, að hún kostaði milli 50 og 55 millj. kr., eftir því sem hæstv. dómsmrh. sagði hér í umr. á dögunum. Síðan hefur þessi áætlun verið hækkuð um 10 millj., eins og ráðh. gerði grein fyrir, svo að áætlunin sjálf er núna komin upp í 60–65 millj., en það er tvöföld sú upphæð, sem búið er að eyða. En þess verður svo að gæta, að inn í þessa áætlun vantar fjöldamarga kostnaðarliði. Í þessari áætlun er ekki sá kostnaður, sem mun hljótast af aukinni löggæzlu í sambandi við breytinguna, en sá kostnaður hlýtur að vera mjög verulegur, og ég vil segja, að ef haldið er uppi þeirri löggæzlu, sem þörf er fyrir, geti þessi kostnaður farið upp í 10 millj. kr. Ég vil í þessu sambandi láta í ljós fullkomna undrun yfir þeirri áætlun, sem, lögreglustjórinn hefur gert í þessu sambandi, því að ég tel, að sú aukning löggæzluliðs, sem hann hefur gert ráð fyrir í sambandi við breytinguna, sé allt of lítil og það sé fullkomlega óábyrgt að gera ekki ráð fyrir sterkari og meiri löggæzlu en gert er ráð fyrir í till. lögreglustjóra. Inn í þessa áætlun vantar einnig allan þann kostnað, sem leiðir af breytingum á ljósaútbúnaði bifreiða. Því hefur verið haldið fram í þessum umr., og því hefur ekki verið mótmælt, að heildarkostnaður í sambandi við þetta sé í kringum 20–30 millj. kr. Þar að auki eru engar áætlanir til og er erfitt að gera nokkrar áætlanir um það tjón eða þann kostnaðarauka, sem bæði einstaklingar og atvinnufyrirtæki verða fyrir vegna þeirra tafa á umferðinni, sem mun fylgja þessari breytingu. En það er ekki óeðlilegt, þó að áætlað sé, að sá kostnaður geti einnig skipt tugum millj. kr. Það er þannig víst, að þessi breyting, ef í hana verður ráðizt, á eftir að kosta — ég vil segja hundrað millj. kr. eða jafnvel enn þá stærri upphæð til viðbótar því, sem búið er að eyða. Og ég satt að segja skil ekki þá hagfræði hjá hv. frsm. meiri hl., þegar hann virðist telja það meiri ráðdeild að eyða kannske 120–130 millj. kr. heldur en eyða 20–30 millj. kr. En af því, sem ég nú hef rakið, er alveg augljóst, að enn þá mundi hljótast allt að 100 millj. kr. sparnaður beint eða óbeint af því, ef ekki verður ráðizt í breytinguna. Og hvað væri hægt að gera við þessa peninga? Væri úr vegi, að menn athuguðu það, hvað væri hægt að gera fyrir þessar 100 millj., sem enn þá er eftir að sóa í þessa breytingu? Jú, það mætti t.d. koma upp akreinaskiptum á öllum blindbeygjum og öllum blindhæðum og auka þannig öryggi í umferðinni. Það mætti breikka ræsi, þar sem þau eru mjórri en vegurinn. Og þrátt fyrir það að þetta allt væri gert, væri samt veruleg fjárfúlga afgangs til þess að endurbæta og fullkomna vegakerfið.Ég segi: það er miklu hyggilegra að nota þetta fé, þessar 100 millj. eða hvað það er, sem eftir er að eyða vegna umferðarbreytingarinnar, til þess að bæta vegina heldur en að fleygja því í þessa breytingu, sem engum kemur að gagni, en mun valda miklum óþægindum, a.m.k. meðan verið er að framkvæma hana. Og ég verð satt að segja hissa á hv. alþm., ef þeir gera sér grein fyrir því, hvernig nú er ástatt í okkar þjóðfélagi, að nú er verið að fella gengið, nú er verið að leggja á nýja og nýja skatta, nú er verið að boða, að það eigi að draga úr alls konar nauðsynlegum útgjöldum hjá ríkinu, en þá skuli þeir telja efni á því að stofna hér til útgjalda upp á tugi eða jafnvel hundruð millj. kr., sem ekkert fæst fyrir í aðra hönd. Ég held, að a.m.k. þeir þm., sem geta staðið að slíkum fjárútgjöldum, ættu að spara sér allt tal um það, hvað ástandið sé alvarlegt í efnahagsmálum landsins og nú þurfi menn að herða sultarólina og nú megi menn ekki fara fram á verðtryggingu launa eða neitt annað þess háttar, nú verði menn bara að spara Og svo stofna þeir til útgjalda upp á tugi eða hundruð millj. kr. algerlega að þarflausu. Er nokkur heil brú í málflutningi þessara manna? Ég get ekki séð hana. Og ég verð að segja það, að mig undrar, að hæstv. ríkisstj. skuli ekki grípa þetta frv., sem hér liggur fyrir, fegins hendi. Hún segir, að það þurfi að spara og það verði að leggja á álögur og það verði að draga úr nauðsynlegum framlögum til verklegra framkvæmda og annað þess háttar. Hvers vegna tekur hún þá ekki fegins bendi, þegar kemur fram till. frá þm., studd af ég verð að segja mjög stórum hluta, jafnvel meiri hl. almennings í landinu, — hvers vegna tekur hún þá ekki slíka till. sem þessa fegins hendi og framkvæmir þann sparnað, sem hér er um að ræða? Nei, það er ákaflega erfitt að finna nokkra heila brú í málflutningi þessara manna, sem annað veifið eru að tala um það, hve ástandið sé alvarlegt, hvað þjóðin hafi orðið fyrir miklum skakkaföllum og nú verði menn að spara, og samt beita þeir sér fyrir annarri eins ráðleysu og þessari.

Gallinn við þetta mál er sá, þó að það sé ljótt að þurfa að segja það, að þetta mál virðist vera orðið eins konar metnaðarmál vissra manna í þjóðfélaginu og vissra áhrifamanna. Menn virðast af einhverjum ástæðum, sem ég ætla ekki að skýra hér, vera búnir að leggja metnað sinn í það að knýja þessa breytingu fram, hvað sem það kostar, og vilja ekki hlusta á nein rök í því sambandi. Þeir segjast vera búnir að samþykkja þetta og það sé búið að stofna til það mikilla útgjalda, að nú verði ekki aftur snúið, þrátt fyrir það að sýnt sé fram á það með glöggum rökum, að það, sem búið er að kosta til vegna þessarar breytingar, er ekki nema lítill hluti af því, sem eftir er, og þess vegna er sparnaðurinn mikill og ótvíræður.

Ég vil nú skjóta því til hv. frsm. meiri hl. og annarra, sem eru á sama máli og hann, að þeir íhugi nú vel þau ummæli, sem ég hafði hér eftir Björnson áðan og einnig ummæli hins ameríska stjórnmálamanns, sem viðurkenndi það, að hann hefði verið heilaþveginn, en taldi sig þó ekkert minni mann eftir en áður, þó að hann breytti um skoðun, eftir að annað og réttara var komið í ljós. En það var sagt, að sá maður hefði heldur tapað á því að taka svona stórt upp í sig, a.m.k. fyrst eftir að hann lét þessi ummæli frá sér fara. En mér sýnist á ýmsu nú, að álit hans fari vaxandi að nýju, og það er vegna þess, að hann hefur verið fullkomlega ærlegur. Hann hefur játað sín mistök og séð í hverju þau væru fólgin og er ekkert að lemja höfðinu við steininn, er ekki að halda við einhverja ákveðna skoðun af metnaðarástæðum, heldur skiptir um skoðun vegna þess, að hann álítur, að það sé rétt, eins og er líka vafalaust í umræddu tilfelli.

Ég skal svo að síðustu minnast á það, sem hefur komið bæði fram hjá hæstv. ráðh. og eins hjá hv. frsm. meiri hl. n. varðandi það, hvað við, sem erum andvígir hægri handar umferð, munum gera, ef svo ólíklega færi, að þetta frv. yrði fellt. Það hefur verið margframtekið af okkar hálfu, að ef svo færi, teldum við sjálfsagt, að sem allra flestir tækju saman höndum um það að forða frá slysum af þeirri breytingu, sem hér er um að ræða. En við gerum þá jafnframt kröfu til þess, að eitthvert tillit sé til þess tekið, sem við höfum fram að færa. Það hefur komið mjög greinilega fram í því bréfi frá Félagi ísl. vegfarenda, sem alþm. hafa fengið sent, hvað það er, sem það félag leggur áherzlu á að gert verði, áður en ráðizt verði í hægri handar umferð, og ég tek fullkomlega undir það. Fari svo, að þetta frv. verði fellt, finnst mér ekki ólíklegt, að það komi fram till. hér á Alþ. um, að þær umbætur verði sem allra fyrst gerðar á þjóðvegunum, að tekin verði upp akreinaskipting á blindbeygjum og blindhæðum og einnig verði vegræsi breikkuð, þar sem þau eru nú mjórri en vegurinn. Þetta teljum við, sem viljum leggja áherzlu á sem mesta varúð í þessum efnum, eitt meginskilyrði þess, að þessi breyting geti farið slysalaust fram. Og þó að hv. þm. vilji kannske ekki sumir hverjir styðja þetta frv., ber að vænta þess, að þeir vilji þó styðja það, að gerðar verði þessar umbætur á þjóðvegunum, sem þeir menn, sem bezt þekkja til, telja nauðsynlegar, ef þessi breyting á að ganga fyrir sig slysalaust. Annað, sem hlýtur einnig að koma hér til umr. á Alþingi, ef svo kynni að fara, að þetta frv. yrði fellt, væri till. um það, að skorað yrði á hæstv. ríkisstj. að sjá um, að löggæzla væri nægileg í sambandi við breytinguna og eins lengi og þörf er á. Það hlýtur einnig að koma til athugunar mjög gaumgæfilega og meira en hefur átt sér stað til þessa, að almenningsvagnar, hvort sem þeir eru í þéttbýli eða strjálbýli, verði þannig útbúnir, að fólki verði ekki sleppt út í umferðina. Við, sem erum andvígir hægri umferð, ef svo fer, að við bíðum ósigur í sambandi við þetta mál, erum reiðubúnir til samstarfs um allar þessar breytingar og annað það, sem gæti orðið til þess að auka öryggi og koma í veg fyrir slysahættu, sem af breytingunni kynni að leiða.

Ég get ekki komizt hjá því í sambandi við þessi atriði að láta þá skoðun mína í ljós, að mér finnst, að þeir tveir sérfræðingar, sem einna mest hefur borið á þessu máli, vegamálastjórinn og lögreglustjórinn í Reykjavík, hafi sótt þetta mál meira af kappi en forsjá. Mér finnst t.d. mjög einkennilegar og undarlegar undirtektir hjá vegamálastjóra undir þær óskir, að áður en breytingin fari fram, verði gerðar þær umbætur á þjóðvegunum, að komið verði á akreinaskiptingu á blindbeygjum og blindhæðum og eins að vegræsi verði breikkuð. Mér skilst svo á vegamálastjóranum, að hann telji ekki svo ýkjamikla þörf á þessum breytingum. Ég verð að láta í ljós undrun mína yfir þessu. Og ég hygg, að þetta stafi af því, að þrátt fyrir alla þá ágætu þekkingu og sérfræðimenntun, sem hann hefur í þessum efnum, hafi hann ekki sömu þekkingu og reynslu af þjóðvegunum og þeir menn hafa, sem mest nota þá. Vegna þessara ummæla vegamálastjórans tek ég a.m.k. því með fullkominni gát, sem frá honum kemur um þessi efni. Og ég kemst því miður ekki hjá að láta svipuð ummæli falla um lögreglustjórann, að mér finnst hann ekki sýna nægilega gætni, þegar hann telur ekki þörf fyrir meiri aukningu á löggæzlu í sambandi við þessa breytingu en kemur fram í þeim till., sem hér hefur verið greint frá.

En það held ég, að við hljótum allir að vera sammála um, að ef svo fer, að þetta frv. verði fellt og breytingin verði knúin fram af ofurkappi, má ekkert láta ógert til að tryggja það, að hún fari sem slysaminnst fram og gangi sem bezt. Þó að ég sé að prédika sparnað í þessu sambandi, þegar ég legg til, að horfið sé frá breytingunni, treysti ég mér ekki til annars en að mæla með mjög verulegum útgjöldum, ef að breytingunni verður horfið, bæði til að bæta vegina og eins til að bæta lögreglueftirlitið. Ég tel allt annað vera ábyrgðarleysi, og ég vara þá menn við því, sem fyrir þessari breytingu standa og ætla að knýja hana fram af ofurkappi, ef þeir gæta þess ekki jafnframt í sambandi við framkvæmdina, að gerðar verði nauðsynlegar endurbætur á vegunum og lögreglueftirlitið verði haft miklu meira en nú er ráð fyrir gert. Það þýðir ekkert í þessu sambandi að vera að vitna til reynslu Svía og segja það, að þeir hafi ekki þurft að auka löggæzlu í sambandi við umferðarbreytinguna nema svo og svo mikið, því að við vitum það ósköp vel, að löngu áður en breytingin kom þar til framkvæmda, mörg undanfarin ár eða áratugi, hafa Svíar haft mjög sterkt lögreglukerfi til þess að tryggja, að umferðarreglum væri hlýtt, eins og sést líka á því, sem ég minntist hér áðan á, að Svíar hafa sennilega verið komnir allra þjóða lengst í umferðarmenningu, þannig að umferðarslys voru þar miklu færri en — ég held, að það sé óhætt að segja heldur en í nokkru öðru landi, og t.d. hef ég heimildir fyrir því, að í Stokkhólmi á undanförnum árum hafi verið hlutfallslega helmingi færri umferðarslys en í Kaupmannahöfn, og er þó tvímælalaust umferðarmenning á hærra stigi í Danmörku en hjá okkur.

Ég vil í þessu sambandi líka segja það, að mig undrar á þessari áætlun lögreglustjórans í Reykjavík, vegna þess að honum er áreiðanlega mjög vel kunnugt um það, að umferðarmenning hér í höfuðborginni er hvergi nærri eins góð og hún ætti að vera. Vegna þess að hann er hér fjarstaddur, vil ég ekki fara um það þeim orðum, sem ég ella kysi, en vegna þess, hve grunnurinn er lélegur, sem hér er byggt á, þ. e. það lögreglueftirlit í sambandi við umferðina, sem nú á sér stað, er að sjálfsögðu nauðsynlegt að herða enn þá lögreglueftirlitið í sambandi við umferðarbreytinguna miklu meira en ella mundi vera þörf á.

Ég verð líka að segja það, — dómsmrh. er nú víst ekki viðstaddur, en ég tel samt rétt að láta það koma fram, að mér finnst, að hann hafi sýnt mikið gáleysi í því að ætla að hafa hér fjölmarga almenningsvagna þannig útbúna, að farþegum sé sleppt út í umferðina, því að þótt það sé nú ætlazt til þess, að þessir vagnar stanzi aðeins á ákveðnum stöðum, veit maður, að það gerist alltaf meira og minna, að stoppstaðirnir eru fleiri, ef svo mætti segja, heldur en ætlazt er til, og það mun halda áfram eins og verið hefur þrátt fyrir breytinguna, og þess vegna fylgir því augljós hætta, ef ekki verður gerð breyting á þessum vögnum þannig, að farþegum sé ekki sleppt út í umferðina. Og ég skil satt að segja ekki, vegna hvers þarf að vera að gera einhvern sérstakan mun á dreifbýli og þéttbýli í þessum efnum. Ég á ákaflega erfitt með að skilja það. En það, sem mér finnst mestu máli skipta í þessum efnum, er, að öryggis sé gætt eins vel og frekast er kostur, og það verður ekki í þessu sambandi gert á annan veg en þannig, að allir langferðabílar eða almenningsvagnar verði þannig útbúnir, að farþegum verði ekki sleppt út í umferðina.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð öllu fleiri, þó að ærin ástæða væri til þess að greina margt fleira en það, sem ég hef nú gert. En ég held, að mönnum verði það ljóst, því meira og betur sem þetta mál er rætt, að það er engin þörf af öryggisástæðum á þessari breytingu. Við höfum enga þörf fyrir þessa breytingu, eins og mörg önnur lönd, t.d. Svíþjóð, sem hafa sameiginleg landamæri við önnur ríki, þar sem hægri umferð hefur verið upp tekin. Það er óþarft að gera þessa breytingu vegna sjómanna, óþarft að gera hana vegna íslenzkra ferðamanna erlendis eða námsmanna þar, eins og hér hefur verið haldið fram, óþarft að gera hana vegna erlendra ferðamanna, sem hingað koma. Það er í stuttu máli sagt ekki hægt að færa nein haldbær rök fyrir þessari breytingu. Hins vegar er það dómur hinna fróðustu og reyndustu manna í þessum efnum, bílstjóranna, eða a.m.k. yfirgnæfandi meginhluta þeirra, að vegir okkar séu þannig, að þessi breyting henti þeim ekki, til þess séu þeir of þröngir og til þess séu vegbrúnirnar of lélegar, og þess vegna tryggi það okkur bezta umferð, mest öryggi að fylgja þeim umferðarreglum, sem eru í gildi í dag. Það liggur jafnframt í augum uppi, að þessari breytingu mun fylgja mjög mikill kostnaður, og þó að það sé búið að eyða nokkru fé í breytinguna núna, er það ekki nema örlítill hluti heildarkostnaðarins, sem af henni hlýzt. Það ætti einnig að vera öllum ljóst, að hér á landi eru nú erfiðir tímar, og þess vegna er full ástæða til þess, að við reynum að spara það, sem hægt er að spara með góðu móti, nýta okkar fjármuni eins vel og kostur er, og það að falla frá þessari breytingu væri verulegur þáttur í slíkri starfsemi, slíkum sparnaði. Við vitum einnig, þarf ekki að lýsa því með neinum orðum, að okkar vegakerfi er ákaflega ábótavant, og ef menn vildu leggja eitthvað af mörkum vegna umferðarinnar, verður þeim fjármunum miklu betur varið til þess að bæta vegina heldur en til þess að fleygja þeim í þessa umferðarbreytingu.

Ég vil svo að lokum vænta þess, að þeir þm., sem áður hafa greitt atkv. með hægri handar breytingunni, íhugi vel þau ummæli Björnsons, sem ég minntist á hér áðan. Það er ekkert við því að segja, þó að menn sæki mál sitt af kappi og haldi skoðunum sínum fast fram, eins og þeir hægri handar menn hafa oft gert. En enn þá meiri manndómur er þó fólginn í því, þegar menn sjá við nánari og betri athugun, að annað er sannara og réttara, að þá skipti þeir um skoðun í samræmi við það.

Ég segi svo að lokum, að ég treysti því, að hv. þm. láti engan misskilinn metnað, ekkert ofurkapp ráða í þessu máli, heldur kalda skynsemi, og þá efast ég ekki um, hver úrslitin verða hér á Alþ. í þessu máli.