08.02.1968
Neðri deild: 59. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í C-deild Alþingistíðinda. (2159)

86. mál, hægri handar umferð

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég bjóst við því, þegar hv. frsm. meiri hl. kom hér upp í ræðustólinn, að maður fengi nú að heyra færð ýtarleg og glögg rök fyrir breytingunni í hægri handar umferð, þar sem hann hafði nú haft tvo daga til þess að undirbúa ræðu sína og margt var búið að færa fram hér á móti henni og hann hefði af þeim ástæðum mörgu að svara henni til málsbóta. En þrátt fyrir þennan undirbúningstíma hv. frsm. varð ég ekki var við það, að hann hefði ýkjamikið að segja þessari breytingu til málsbóta. Mér fannst, að hann héldi sig aðallega við þau atriði í ræðu okkar, sem hefðum talað á móti breytingunni, sem vora einna lítilvægust og voru meira sögð í léttum tón heldur en í alvöru, gins og t.d. það, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. sagði um árekstra á milli bíla og flugvéla og bíla og skipa, og það, sem ég var að segja um heilaþvottinn og annað þess háttar. Þetta gerði hann að aðalatriðum í sinni ræðu, en vék sáralítið að hinu, sem fram hafði komið hjá okkur og við höfum fært fram til að sýna fram á, að þessi breyting væri óþörf og dýr og ætti þess vegna að hverfa frá henni.

Þó var það eitt atriði hjá ræðumanni, sem virtist gefa til kynna, að hann áliti þessa breytingu ákaflega nauðsynlega og mikilvæga, því að hann var að bera hana saman við símann. Og manni skildist á því, sem hann sagði, að hann teldi, að hér væri um alveg jafnnauðsynlega nýjung og framkvæmd að ræða og síminn hefði verið á sínum tíma. Ég held nú satt að segja, að þegar menn kryfja þessa fullyrðingu mannsins til mergjar, verði þeir sárafáir, sem geta með góðu móti komizt að þeirri niðurstóðu, að hér sé um jafnmerka og mikilvæga nýjung að ræða og síminn var á sínum tíma. Og ég held, þó að síminn sé í dag ekki eins mikilvæg nýjung og hann var á sínum tíma, vegna þess að við höfum orðið fleiri fjölmiðlunartæki, að þeir verði nú sárafáir í landinu, sem mundu vilja skipta á símanum og hægri umferðinni. Ég held næstum því, að hv. frsm. sjálfur mundi ekki vilja gera það, ef hann ætti val í þessum efnum. Og ég held, ef hann bara ber þetta saman, sjái hann, hvílík fjarstæða þetta er, eins og yfirleitt er allur málflutningur þeirra manna, sem mæla með þessari breytingu.

Hv. frsm. var að fetta fingur út í það, að ég hefði komizt að orði eitthvað á þá leið í ræðu minni á dögunum, að þegar frv. um hægri umferðina var til meðferðar hér á Alþ., hafi ég verið nánast sagt skoðanalítill eða skoðanalaus í málinu. Og ef ég hefði nú verið það, t.d. skoðanalaus í málinu, hvers vegna hefði ég þá ekki frekar átt að greiða atkv. á móti breytingunni heldur en hið gagnstæða. Ég skal skýra þetta nánar fyrir hv. ræðumanni. Ég mun síðar víkja að því, af hverju ég hafði ekki sterkar skoðanir á þessu máli, þegar málið var til meðferðar. Og ég ætla að gera það með því að vitna til þess leiðtoga Sjálfstfl., sem ég tel að hafi verið þeirra fyrr og síðar gáfaðastur og mikilhæfastur, og þar á ég að sjálfsögðu við Jón Þorláksson. Það hefur verið sagt um Jón Þorláksson, að hann hafi að mörgu leyti verið íhaldssamur maður, og það er rétt. En þrátt fyrir það er hann tvímælalaust mesti framfaramaðurinn, sem Sjálfstfl. hefur átt, eins og má sanna með því að benda á baráttu hans fyrir ýmsum framfaramálum, eins og járnbrautinni á sinni tíð, þjóðnýtingu fossaflsins, forustu hans sem borgarstjóra Reykjavíkur að því að koma fram í samvinnu við þáv. vinstri stjórn fyrstu Sogsvirkjuninni og með því að vera sá borgarstjóri Reykjavíkur, sem lagði grundvöllinn að hitaveitunni. Þetta sýnir það, að Jón Þorláksson var öðrum þræði mikill framfaramaður, þó að hann væri öðrum þræði íhaldssamur, og það, sem ég vil vitna til í sambandi við hann og snertir þetta deilumál okkar hv. frsm. sérstaklega, er í ritgerð, sem hann birti í Eimreiðinni 1926 og ég las þá sem unglingur, en man þó eftir nokkrum atriðum enn þá, þar sem hann var að gera grein fyrir þeirri stefnu, sem hann taldi flokk sinn fylgja, sem þá kannaðist við það að vera íhaldsflokkur og sín stefna væri íhaldsstefna. Og það, sem Jón Þorláksson segir m.a. í þessari merku grein að mörgu leyti, er það, að þó að flokkurinn sé íhaldssamur, eigi hann ekki að vera á móti nýjungum, en því aðeins eigi að breyta til, að menn séu búnir að kynna sér það vandlega áður, hvort skipt sé um til bóta, og það sé þá fyrst, þegar menn séu komnir að þeirri niðurstöðu, að nýjungin sé betri, sem þeir eigi að fallast á breytinguna. Og þó að ég hefði á þeim tíma, þegar þetta mál var hér til meðferðar, ekki neitt sérstaklega fastmótaðar skoðanir gegn breytingunni, var ég hins vegar ekki búinn að sannfærast um það, að hún væri neitt til bóta, og undir þeim kringumstæðum taldi ég mér því skylt að greiða atkv. gegn breytingunni. Því aðeins eiga menn að breyta til, að þeir séu sannfærðir um, að það sé breytt um til bóta.

En ég skal svo koma að því, hver var meginástæðan til þess, að ég var dálítið á báðum áttum, — ég játa það alveg hreinlega, — þegar frv. um hægri umferðina var hér til meðferðar í þinginu. Það stafaði einfaldlega af því, að þm. höfðu þá fengið að mörgu leyti blekkjandi upplýsingar um þessi mál, og það er ég viss um, að hefur ráðið afstöðu margra þeirra, þannig að þeir voru með málinu. Og það er sérstaklega tvennt, sem ég vil nefna í því sambandi og ég tel, að hafi verið villandi og blekkjandi. Í fyrsta lagi virtist það liggja fyrir, að kostnaðurinn við breytinguna mundi ekki verða neitt verulegur, því að við þm. erum nú orðnir það vanir háum tölum, að við teljum það ekki neina stóra upphæð, þó að eitthvað sé áætlað að kosta 50–55 millj. En nú er það löngu upplýst, sem menn áttuðu sig ekki á þá, að þessar tölur voru villandi, vegna þess að inn í þessa kostnaðaráætlun voru ekki teknir nema tiltölulega fáir kostnaðarliðir. Það vantar inn í þessa kostnaðaráætlun mjög stóra og veigamikla kostnaðarliði. Það vantar t.d. alveg inn í þessa áætlun, hver kostnaðurinn við löggæzlu muni vera, en ég fullyrði það, að ef þessi löggæzla á að vera í sæmilegu lagi, hljóti hún að kosta milljónir og jafnvel tugi milljóna. Það vantaði t.d. líka alveg inn í þessa áætlun, hver kostnaður yrði við ljósabreytingar á bifreiðum. Það er fullyrt hér, og því hefur ekki verið á móti mælt, að þessi kostnaður gæti alltaf numið 20–30 millj. kr. samanlagt. Það vantaði líka alveg inn í þessa áætlun, að reynt væri að gera sér nokkra grein fyrir því, hvaða kostnaður hlytist af þeim töfum í umferðinni, sem hlýtur að leiða af breytingunni um lengri tíma og koma hart niður á mörgum atvinnufyrirtækjum og einstaklingum. Hvaða áhrif hafa t.d. þær tafir, sem verða á umferðinni í sambandi við breytinguna á mjólkurflutningum til bæjarins og um bæinn? Það er að vísu ákaflega erfitt að gera sér grein fyrir því, hve mikill sá kostnaður verður, en það er alveg víst, að hann verður verulegur, og það á eftir að heyrast eitthvað um það, hver eigi að borga þann kostnað, vegna þess að það er ekki eðlilegt, að bændurnir beri hann einir eða hann verði lagður sérstaklega á neytendurna. Sem sagt, sú kostnaðaráætlun, sem var lögð fyrir þingið, þegar málið lá hér fyrir, var villandi og blekkjandi.

En annað atriði var þó enn þá meira villandi, og það hefur e.t.v. haft áhrif á afstöðu margra í þessu máli, en þar á ég við það, að það virtist liggja fyrir, þegar þetta mál var rætt hér í þinginu og afgreitt frá þinginu, að bílstjórastéttin stæði svo að segja einhuga á bak við þessa breytingu. Það lágu hér fyrir álit flestra stjórna í samtökum bílstjóra og bifreiðaeigenda um það, að þessir aðilar væru breytingunni meðmæltir. Hvað hefur svo komið á daginn? Að stjórnir þessara samtaka tóku upp á sitt eindæmi að skýra Alþ. frá því, að þessir aðilar væru fylgjandi breytingunni. Þegar hins vegar að því kom, að félagsmenn í þessum samtókum fóru að láta eitthvað til sín heyra og taka afstöðu til málsins, kom hið gagnstæða upp. Meginþorri þessara aðila er á móti breytingunni. Og það er þetta, sem hefur ráðið því, að þó að ég væri skoðanalítill í þessu máli áður, af því að ég tel mig engan sérfræðing í því, hef ég talið sjálfsagt að taka upp baráttu gegn breytingunni, sökum þess að í þessum málum eins og öðrum er það skoðun mín, að við eigum að taka mest tillit til þeirra manna, sem mesta hafa reynsluna. Og það er tvímælalaust, hvað sem líður þekkingu vegamálastjóra, hvað sem líður þekkingu lögreglustjóra, að þá eru þessir menn ekki dómbærir um íslenzka þjóðvegi á við atvinnubílstjórana, sem fara svo að segja daglega um þessa vegi, kynnast þeim í öllu ástandi, í vondum veðrum og góðum og í góðri færð og lélegri. Ég tek miklu meira mark á þessum mönnum heldur en bæði vegamálastjóranum og lögreglustjóranum og hvaða öðrum skrifstofumanni sem vera skal, vegna þess að þessir menn hafa þá reynslu, sem mestu skiptir í þessu sambandi. Og það, sem að sjálfsögðu skiptir mestu um það, hvort þessi breyting heppnast eða heppnast ekki eða fer sæmilega úr hendi, er það, hvernig vegakerfið er, og ég fullyrði, eftir það að hafa kynnt mér reynslu þessara manna, að íslenzka vegakerfið er í dag ekki þannig, að það þoli þessa breytingu, svo að með góðu móti sé.

Ég held, að með því að nefna þessi tvö atriði, kostnaðaráætlunina og álit frá bílstjórafélögunum, sem fyrir lá, þegar þetta mál var til meðferðar á Alþ. á sínum tíma, nægi það alveg til að sýna, að það var farið eftir upplýsingum, sem voru villandi og hlekkjandi um þetta mál, og þess vegna var niðurstaðan á þinginu eins og raun bar vitni um. Ég er alveg sannfærður um það, að ef nú ætti að greiða atkv. um þetta mál á Alþingi eftir allar þær upplýsingar, sem fram eru komnar í málinu, mundi verða önnur niðurstaða en sú, sem varð fyrir tveimur árum. Þá er ég alveg sannfærður um, að það mundi verða þingmeirihl. fyrir því að halda áfram vinstri handar umferðinni. En sökum þess að menn eru búnir að binda sig í málinu, það er farið að byrja nokkurn undirbúning, þá telja menn, að það sé eiginlega metnaðar- og sæmdaratriði fyrir sig að hverfa ekki frá því, sem þeir hafa einu sinni verið búnir að ákveða.

Því miður gerist það ákaflega oft, að menn taka ákvörðun vegna villandi upplýsinga eða vegna einhvers kapps, gera sér svo ekki grein fyrir því á eftir, að afstaðan er röng, og vilja því ekki sökum metnaðar eða einhverrar misskilinnar sæmdar hverfa frá því, sem þeir hafa áður átt þátt í að ákveða. Og það geta menn verið vissir um, að ef niðurstaðan verður sú hér á Alþ. að þessu sinni, að þetta frv. verður ekki samþ., verður það misskilinn metnaður þm., sem mikinn þátt á í því, að svo verði. Það er ekki vegna þess, að þeir séu lengur innilega sannfærðir um það, að það sé rétt, sem hér er verið að gera. Það er bara þessi tilfinning hjá mönnum að halda, að þeir verði einhvern veginn minni menn, ef þeir skipta um skoðun. En ég segi það enn og aftur og ég er alveg óhræddur við það, ef ég kemst að því eftir á, að ég telji, að eitthvað sé réttara en það, sem áður er gert, að sýna það í verki, því að ég tel þann málflutning Björnstjerne Björnsons alveg hárréttan, að þó að menn hverju sinni fylgi fast fram þeirri skoðun, sem þeir telja þá rétta, skulu þeir jafnan hafa þann fyrirvara, að ef í ljós kemur annað, sem er sannara og réttara, áskilji þeir sér rétt til þess að skipta um skoðun.

Hv. frsm. var að vitna í það, að ég hefði sagt í fyrri ræðu minni við þessa umr., að ég hefði m.a. gert það vegna tilmæla Framsfl. að flytja ekki till. á seinasta þingi um þjóðaratkvgr. í málinu. Og af því virtist mega skilja, að ég hefði látið einhver flokksfyrirmæli ráða um þetta atriði. Þó að hv. frsm. orðaði þetta þannig, vissi hann vel, að þetta var rangt. Ég sagðist hafa gert það vegna þess, að ég hefði fallizt á þau sjónarmið, sem hefðu komið fram bæði hjá formanni flokksins og öðrum flokksbræðrum mínum, að það væri óheppilegt að láta fram fara þjóðaratkvgr. um þetta mál samfara alþingiskosningum, vegna þess að það gæti haft þær afleiðingar, að þetta mál blandaðist eitthvað inn í kosningabaráttuna og þeir, sem hefðu mjög ákveðna afstöðu með eða móti hægri handar umferðinni, kynnu að fara að velja sér þm. eftir því, hvort þeir væru með eða móti þessari breytingu. Ég játa það fullkomlega við nánari athugun, að ég tel þetta óheppilegt, vegna þess að þegar verið er að kjósa menn á Alþingi, eru það önnur mál, þjóðmálin sjálf eða afstaðan til þeirra, sem eiga að ráða því, hvernig menn velja sér umboðsmenn á Alþingi.

En vegna þess að hv. frsm. var að tala um flokksvald og flokksræði í þessu máli eða gefa til kynna, að ég hefði eitthvað látið stjórnast af því, er það atriði hér upplýst. En hitt finnst mér rétt að láta koma í ljós í því sambandi, að það má mikið vera, ef nú í fyrsta sinn í þessu máli á Alþ. er ekki flokksræði og flokksvald að koma til sögunnar. Hingað til hefur það verið þannig eða var í þau tvö eða þrjú skipti, sem málið hefur áður verið til meðferðar á Alþ.,þm. fengu að vera nokkurn veginn frjálsir um það, hvort þeir tækju afstöðu með eða móti þessu máli, en það má mikið vera, ef nú er ekki í sumum flokkum búið að breyta þessari afstöðu og hvort það verður ekki flokksvaldið og flokksræðið, sem kemur endanlega til að ráða a.m.k. afstöðu manna í sumum flokkum við atkvgr. um þetta mál. Ég skal ekkert fullyrða um það á þessu stigi. Þetta kemur í ljós við atkvgr., og þarf þess vegna ekki að fara fleiri orðum um það nú.

Hv. frsm. ræddi hér lengi eða nokkuð lengi um heilaþvottinn, sem ég hafði gert að nokkru umtalsefni í ræðu minni, og var auðsjáanlega feginn að fá tækifæri til að minnast á það mál og ræða um eitthvað annað en málið sjálft, og það get ég ákaflega vel skilið. En þó að hann teldi, að það, sem ég sagði, snerti þetta mál ekki sérstaklega, því að ég hafði m.a. nefnt dæmi í sambandi við sjávarútvegsmálin, finnst mér rétt að rifja það aðeins upp í stuttu máli, sem ég hafði um þetta atriði að segja, til þess að skýra þetta enn þá betur fyrir hv. ræðumanni. Það, sem ég sagði, var í stuttu máli, að það kæmi iðulega fyrir, að menn létu sérfræðinga villa sér sýn. Ég vil taka það skýrt fram, að ég tel sérfræðinga nauðsynlega og við eigum að leita til þeirra í sem allra flestum málum og fá álit þeirra. En ég tel það hins vegar jafnsjálfsagt, að við teljum okkur ekki skuldbundna til þess að fara eftir áliti þeirra. Við eigum að vega það og meta og fylgja aðeins því, sem við komumst við nána athugun að raun um, að sé rétt. Illu heilli hefur frsm. meiri hl. bersýnilega ekki gert það í þessu máli, því að það var alveg auðheyrt á honum, að hann lagði sitt traust í þessum efnum fyrst og fremst á vegamálastjórann og lögreglustjórann, og það var þeirra álit, sem hann taldi eiginlega meginatriðið í þessu máli. Hann lét sem sé sérfræðingana ráða fyrir sig og hirti ekki um það að gera sér sjálfur nægilega grein fyrir málinu. Þetta er nú það, sem á amerísku máli hefur verið nefndur heilaþvottur eða það, að menn láti blekkja sig, þó að þar sé ekki átt við þann heilaþvott, sem stundum er sagt að gerist í vissum fjarlægum löndum, hins vegar það, að ráðamenn leggi of mikið upp úr því áliti, sem sérfræðingarnir segja, og láti það stjórna gerðum sínum. Og þetta kom, eins og ég benti hv. frsm. á, alveg átakanlega í ljós rétt fyrir jólin í sambandi við afgreiðslu fjárl. Þá voru sérfræðingarnir búnir að reikna út gengislækkunina og komast að þeirri niðurstöðu, að hún nægði til þess, að sjávarútvegurinn þyrfti ekki á neinni aðstoð að halda. Og í framhaldi af því lagði þessi hv. þm. til sem einn fulltrúanna í meiri hl. fjvn., að það yrðu felldar úr fjárl. allar uppbætur til sjávarútvegsins, og hann lofaði jafnframt mikilli tollalækkun. Nú eftir jólin eða eftir að þingið kemur saman aftur verður hann að viðurkenna, að allt þetta sé tóm vitleysa, það verði aftur að taka upp uppbætur í stórum stíl, það sé ekki hægt að standa við fyrirheitið um tollalækkunina og það verði sennilega að leggja á nýja skatta. Þetta hlýzt af því, þegar menn trúa of blint á sérfræðingana, láta þá heilaþvo sig, eins og kallað er á ameríska vísu. Og það virðist ekki hafa aðeins hent hv. frsm. í sambandi við sjávarútvegsmálin og fjármálin, eins og ég var nú að vitna til, heldur hafi hann látið bæði vegamálastjórann og lögreglustjórann heilaþvo sig í sambandi við þetta mál, sem við erum nú að ræða um.

Hv. frsm. meiri hl. var að vara mig við því, að ég skyldi ekki vera að reyna að nota mér óánægju manna í sambandi við þetta mál, því að þessi óánægja væri nú miklu minni en ég héldi. Og hann nefndi það því til sönnunar, að það hefði sérstakur flokkur tekið þátt í seinustu þingkosningum og haft það eitt af sínum aðalmálum að vera á móti hægri umferðinni, en útkoman hefði ekki orðið betri en það, að hann hefði engum manni komið að. Ég held, að það sé ákaflega rangt af hv. ræðumanni að vera að dæma afstöðu manna til þessa máls eftir því, hvaða atkvæðamagn flokkur Áka Jakobssonar fékk í síðustu kosningum, því að þær kosningar fóru fram með þeim hætti, að menn yfirleitt tóku ekki afstöðu með eða móti hægri umferð, og ég held, að ég þori að fullyrða það, þó að ég þekki það ekki, að það fólk, sem kaus flokk Áka Jakobssonar, hafi ekki kosið hann vegna afstöðu hans í þessu máli, heldur alls konar óánægju við þá flokka, sem fyrir voru. Sannleikurinn var sá, að í síðustu kosningum kusu menn ekkert um þetta mál, en kusu Sjálfstfl., Framsfl., Alþfl. og Alþb. alveg án tillits til þess, hvort viðkomandi þm. væru með eða móti hægri umferð eða hvaða skoðun viðkomandi kjósandi hefði á þessu máli. Þess vegna er það mjög rangt af hv. ræðumanni að vera að nefna þennan flokk eða útkomu hans sem einhverja sönnun um það, að það sé lítil andstaða á móti þessari breytingu. En hinu vil ég svo mótmæla, að ég sé nokkuð í sambandi við þetta mál pólitískt að ætla að reyna að nota mér þá aðstöðu, sem er gegn þessu máli, því að það er langt í næstu kosningar og það verða önnur mál, sem verður kosið um þá, heldur en þetta, og vonandi tekst framkvæmd þessa máls, hver sem niðurstaðan verður, þannig, að það verði þá ekki mál, sem verður kosið um. Ég berst eingöngu gegn þessari breytingu vegna þess, að eftir að ég tel mig hafa fengið þá þekkingu í þessu máli, sem byggð er á þeirri beztu reynslu, sem fáanleg er, sé rétt og sjálfsagt að verða á móti því.

Hv. frsm. gerði ákaflega mikið úr því, að þetta væri áhugamál sjómanna, og sagðist hafa talað við fjölda sjómanna, sem óskuðu eftir breytingu í þessum efnum. Ég er nú ekki að halda því fram, að hv. þm. sé neitt ósannsögull eða hann fari með ýkjur. En ég er hálfhræddur um, að hann fari með ýkjur í sambandi við þetta atriði, því að eins og hann sjálfur viðurkenndi, hefur ekki komið fram ein einasta rödd opinberlega, svo að ég viti til, frá sjómönnum um þetta atriði. Sjómenn hafa mörg félög og halda oft fundi og bera fram alls konar kröfur, sem þeir telja að séu nauðsynlegar vegna þeirra starfa og þeirra hagsmuna. En ég held, að þó að það sé leitað með logandi ljósi í öllum þeim fundargerðum, komi það hvergi fram, að þeir hafi óskað eftir þessari breytingu. Og ég hef líka hvergi heyrt því haldið fram, hvorki munnlega né skriflega, að bílslys stafi af því, að það sé vikið til hægri handar á sjó, eða að sjómenn séu eitthvað meira valdir að umferðarslysum á landi heldur en aðrar stéttir. En það sýnir hins vegar, hvað takmörkuð eða lítil rök eru fyrir þessari breytingu, þegar menn eru að tína fram önnur eins atriði og þessi, að það sé verið að gera þetta vegna sjómanna.

Hv. þm. var að vitna í það, og það er nú raunar búið að víkja að því, að það hefðu orðið tiltölulega færri umferðarslys í Svíþjóð síðustu mánuði fyrra árs heldur en sambærilega mánuði 1966, og vildi þakka það hægri umferðinni. Ég held, að sannleikurinn sé sá, eins og raunar er búið að benda á hérna, að þetta stafi af allt öðrum ástæðum. Þetta stafar af því, að allt lögreglueftirlit hefur verið miklu strangara í Svíþjóð undanfarna mánuði en það var á sama tíma á árinu 1966, og þetta stafar líka af því, að umferðarhraðinn er þar miklu minni en var á árinu á undan, og þetta tvennt hefur náttúrlega verulega að segja til þess að draga úr slysum, á meðan það er í gildi. Það kemur ekki full reynsla á breytinguna í Svíþjóð, fyrr en lögreglueftirlitíð er komið í sitt eðlilega horf og fyrr en aksturinn er kominn upp í þann hraða, sem áður var. Það er þá fyrst, sem hægt verður að dæma um það, hvort nokkur árangur hafi náðst af breytingunni. En við skulum vona það, að niðurstaðan verði sú, að umferðarslysum fari ekki fjölgandi aftur í Svíþjóð, enda væri það líka í samræmi við þá þróun, sem þar hefur verið á undanförnum árum, því að tölur frá Svíþjóð sýna, að umferðarslysum hefur alltaf farið þar tiltölulega fækkandi, vegna þess að umferðarmenning hefur farið þar vaxandi. Þess vegna, þó að umferðarslysum kynni að fækka í Svíþjóð í framtíðinni, er engan veginn rétt að halda því fram, að það stafi af breytingunni til hægri handar umferðar einni saman, heldur sé það aðeins áframhald þeirrar þróunar, sem í Svíþjóð hefur verið og er fólgin í því, að umferðarslysum hefur alltaf verið að fækka.

Ég veit nú ekki, hvort það er ástæða til að vera að elta sérstaklega ólar við einstakar fullyrðingar hv. frsm. En sannleikurinn er sá, eins og ég hef áður vikið að, að í ræðu hans kom ekkert nýtt fram og hann gerði mjög litla tilraun til þess að svara þeim röksemdum, sem við stuðningsmenn þessa máls höfum haldið fram. En áður en ég lýk máli mínu, vil ég víkja nokkrum orðum að því, sem fram undan er.

Þegar ég talaði við 1. umr. þessa máls, sagði ég, að tilgangurinn með flutningi þess væri tvíþættur. Í fyrsta lagi væri það tilgangur okkar flm. og það væri aðaltilgangurinn að fá þetta mál stöðvað og fram færi um það þjóðaratkvgr. og það yrði svo að fara eftir niðurstöðum hennar, hvort breytingin næði fram að ganga eða ekki. Þetta var okkar aðaltilgangur með frv., sem við vonum enn þá, að nái fram að ganga. Hinn tilgangur okkar var sá, að ef það þrátt fyrir allt fengist ekki fram, að málið væri stöðvað og þjóðaratkvgr. látin fara fram um það, yrði flutningur þessa máls og þær umr., sem um það yrðu, til þess að tryggja öruggari og betri framkvæmd breytingarinnar. Við vildum a.m.k. alltaf ná þeim ávinningi, að það yrði rætt og athugað betur, hvort undirbúningur breytingarinnar væri í því horfi, að hann væri viðunandi, og þess vegna væri óhætt að ráðast strax í þessa breytingu hinn 26. maí n. k. Og þess vegna vil ég biðja þm., þó að þeir séu mótfallnir þjóðaratkvgr. um þetta mál og þó að þeir vilji fá hægri handar breytinguna fram, að íhuga það alveg sérstaklega, hvort þeir telji undirbúning málsins í því horfi, að það sé rétt að ráðast í þessa breytingu innan þriggja mánaða.

Ég leyfi mér að halda því fram, að í mörgum efnum, sem ég mun nánar víkja að, er undirbúningurinn enn á því stigi, að það er ekki forsvaranlegt að láta þessa breytingu fara strax fram 26. maí, nema það verði lagt stóraukið kapp á það að bæta undirbúninginn, og þó mundi ég ekki telja það nægjanlegt, heldur væri heppilegt að fresta breytingunni enn þá í nokkurn tíma. Ég vil nefna það nem dæmi í þessum efnum, að ég var að frétta það í dag, og ég hygg, að það sé rétt, — hæstv. ráðh., sem mun tala hér á eftir, getur upplýst það, ef svo er ekki, — en það var fullyrt við mig og sagt, að eftir breytinguna, eftir 26. maí, ætti áfram að vera vinstri handar umferð á aðalumferðargötunni í Reykjavík. Mér hefur verið sagt það, að eftir 26. maí eigi að vera áfram vinstri handar akstur á Laugaveginum, sem liggur í því, að mér skilst, að stöðumælarnir, sem eru margir við Laugaveginn, eru enn þá hægra megin við götuna, og það mun ekki vera talið, að það sé ráðrúm til þess að flytja þá, áður en breytingin verður gerð, enda mun fylgja því verulegur kostnaður, og þess vegna verði talið, að það sé óhætt að láta það slarka að hafa vinstri handar umferð áfram á Laugaveginum, vegna þess að þar sé einstefnuakstur, en svo strax þegar menn eru komnir út af honum, eiga þeir að breyta um og taka upp hægri handar umferðina. Mér finnst þetta ákaflega ótrúleg saga, en þó er mér sagt, að þetta hafi verið upplýst m.a. á fundi, sem var haldinn fyrir nokkrum kvöldum í Ökukennarafélaginu, og þar hafi komið fram till. um það, sem hafi verið samþ. shlj., að skora á umferðarnefnd Reykjavíkur að láta vera hægri handar umferð á Laugaveginum, ef í breytinguna almennt væri ráðizt. En ég held, að það væri ákaflega einkennilegt og það væri nú verið að stofna eins konar ríki í ríkinu, land í landinu, ef áfram ætti að vera vinstri handar umferð á Laugaveginum, en svo allt í kring hægri handar umferð. Ég held, að það verði þá að bæta einum kostnaðarliðnum við og færa stöðumælana, svo að það sé hægt að taka þar upp hægri handar umferð. Hæstv. ráðh. upplýsir, hvort þetta er rangt með farið hjá mér eða ekki, en þetta var mér sagt í dag, og ég hygg, að það séu fyrir því nokkuð góðar heimildir. Mér var einnig sagt, að það væri ráðgert á nokkrum fleiri stöðum en við Laugaveginn, á nokkrum fleiri einstefnugötum að hafa vinstri handar umferð vegna stöðumæla og ýmissar aðstöðu. En mér finnst þetta satt að segja ákaflega ótrúlegt og á erfitt með að trúa því, en ég hef samt þær heimildir fyrir þessu, að ég vil ekki vefengja þær, fyrr en annað kemur í ljós, og hæstv. ráðh. getur sjálfsagt upplýst á eftir, hvort þetta er rétt hjá mér eða ekki.

Það held ég, að liggi í augum uppi líka, að ýmsar breytingar, sem átti að gera hér á götum í Reykjavík fyrir hægri handar umferðina, verði ekki komnar fram fyrir H-dag. Mér er sagt, að það sé t.d. alveg útilokað, að það verði búið fyrir þann tíma að færa í burtu húsin við Hverfisgötuna, sem skaga út í hana hægra megin og eru mjög til truflunar, sérstaklega eftir að hægri handar umferð hefur verið tekin upp. Hvort það verður búið að breyta Lækjargötunni og færa þá Kristján IX og Hannes Hafstein alveg upp að dyrum Stjórnarráðshússins fyrir þessa breytingu, skal ég ekki segja, en hún er talin nauðsynleg vegna hægri handar umferðarinnar, en ég hef heyrt það, að þessa dagana sé Hörður Bjarnason eða einhver góður maður að gera módel af því, hvernig þeir Kristján og Hannes muni taka sig út, þegar þeir eru komnir alveg upp að dyrum Stjórnarráðsins. Þetta er nú aðeins það, sem við kemur umferðinni hér í bænum.

Það liggur alveg skýrt fyrir í bréfum frá vegamálastjóra og upplýsingum, sem hann hefur gefið, að það sé útilokað fyrir H-dag, að mögulegt sé að koma á akreinaskiptingu á blindbeygjum og blindhæðum, en sú breyting væri þó óhjákvæmileg að margra dómi, ef þessi umferðarbreyting ætti að heppnast. Mér finnst þetta svo stórt mál, að það sé ástæða til þess, að þingið ræði það alveg sérstaklega síðar eða áður en því lýkur, og þó einkum ef þetta frv. nær ekki fram að ganga, því að ég get ekki séð annað en það fólk, sem í dreifbýlinu býr, hljóti að leggja meginkapp á að fá það öryggi í sambandi við umferðina þar, sem felst í því, að tekin sé upp akreinaskipting og komið sé á akreinaskiptingu á blindhæðum og blindbeygjum, því að mér finnst, að allir séu sammála um það eða einróma um það, nema kannske helzt vegamálastjórinn, að þetta séu nauðsynlegar og aðkallandi breytingar, sem megi ekki dragast, og sama gildi um það, þar sem vegræsi séu of mjó eða þröng eða vegir yfir þau. Þá finnst mér, að það sé einnig óhjákvæmilegt, eins og hefur verið bent á hér, að áður en H-breytingin verður, verði búið að breyta almenningsvögnum og sérleyfisbílum í það horf, að farþegar þurfi ekki að fara út umferðarmegin. Ég er þeirrar skoðunar, að það eigi ekki að veita neinum bíl skoðunarleyfi, nema það sé búið að gera áður á honum þessa breytingu, jafnvel þó að hún hafi einhvern kostnað í för með sér. En það vil ég segja og láta koma alveg skýrt fram, að ef að þessari breytingu verður horfið, mun ég ekki telja eftir þann kostnað, sem af henni leiðir, ef hann gæti orðið til þess að skapa aukið öryggi, því að við eigum ekki að telja eftir þá peninga, sem til þess fara að skapa aukið öryggi. Ég verð jafnframt að segja það, að ég tel þá áætlun, sem lögreglustjórinn hefur gert um aukið lögreglulið í sambandi við breytinguna, algerlega ófullnægjandi og það sé skylda hans og skylda ríkisstj. að sjá um það, ef í breytinguna verður ráðizt, að þá verði hafður miklu meiri viðbúnaður í þessum efnum en nú er gert ráð fyrir.

Ég vil svo segja það, að í sambandi við framkvæmd þessarar breytingar og raunar í sambandi við alla löggjöf hefur Alþingi að mínum dómi tvíþætt verkefni. Alþingi hefur það verkefni að setja lögin, og það hefur líka það verkefni að fylgjast með framkvæmd þeirra. Og ég held, að það sé alveg sérstakt verkefni Alþingis að fylgjast vel með framkvæmd laga eins og þessara. Því held ég, að það hafi verið fullkomlega tímabært og nauðsynlegt, að við fluttum þetta frv. hér á þinginu, jafnvel þó að okkur heppnist ekki sá aðaltilgangur þess að koma málinu fram.

Ég vil svo alveg sérstaklega brýna það fyrir þeim þm., sem eru okkur ekki sammála um, að það eigi að stöðva málið og láta þjóðaratkvgr. fara fram, en ætla að láta breytinguna ná fram að ganga, þá hvílir á þeim sú ábyrgð að sjá um það, að ekkert verði látið ógert til þess að tryggja sem bezta og öruggasta framkvæmd þessa máls. Þeir þm., sem greiða atkv. gegn okkar frv. að þessu sinni, taka á sig ábyrgðina á því að sjá um, að framkvæmdin á breytingunni fari vel fram og sem mest öryggi verði tryggt í sambandi við hana.

Það hefur verið talað um það alveg réttilega, að til þess að slík breyting eins og þessi fari vel fram, þurfi að skapa um hana sem mesta þjóðareiningu. Það höfum við nú einmitt viljað gera með þessu frv., því að það tel ég alveg víst, að ef þjóðaratkv. færi fram um málið og niðurstaðan yrði sú, að breytingin yrði samþ., mundi öll þjóðin einhuga fylgja því fram á eftir. En þrátt fyrir það, þó að því ofríki verði beitt í þessu máli, að neitað verði um þjóðaratkvgr., mun ekki standa á okkur, sem erum andvígir þessari H-breytingu, að vinna að sem beztri framkvæmd hennar. En við gerum þá jafnframt kröfu til þess, alveg ákveðna kröfu, að það sé tekið tillit til þeirra ábendinga, sem við færum fram, og þeirra skilyrða, sem við teljum að þurfi að fullnægja, til þess að breytingin geti farið sæmilega fram að okkar dómi. Þess vegna getur vel farið svo, ef ekkert tillit verður til okkar tekið í þessum efnum og þetta mál nær ekki fram að ganga, að það eigi eftir að koma fleiri mál á þessu þingi að þessu sinni til þess að halda málinu vakandi. Og það væri ekkert annað en í samræmi við þá skyldu þm., að þeir eiga ekki aðeins að setja lög, þeir eiga einnig að fylgjast með því, hvernig lög eru framkvæmd.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð mín öllu fleiri. Ég vil láta þá ósk í ljós að lokum, að þm. geri sér grein fyrir því, að það er rétt mál að fresta þessari breytingu og fá álit þjóðarinnar sjálfrar um það. En ef menn eru þessu andvígir, ef þeir fella þetta frv., taka þeir á sig ábyrgðina á því að sjá um það, að þessi breyting fari fram svo, að ekki hljótist af henni tjón.