08.02.1968
Neðri deild: 59. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í C-deild Alþingistíðinda. (2162)

86. mál, hægri handar umferð

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef áður, eftir því sem mér er lagið og ég hef getað aflað mér gagna til, gert grein fyrir afstöðu minni til þessa máls og hvers vegna ég styð það frv., sem hér liggur fyrir, um, að frestað verði framkvæmd hægri umferðar hér á landi og leitað álits þjóðarinnar við atkvgr. um þetta mál. Ég hef í rauninni ekki miklu við það að bæta sem ég þá sagði. Mér þykir það leitt, að þeir, sem eru fylgjandi hægri umferð og telja hana til bóta, skuli ekki hafa stuðlað meira að því en þeir hafa gert í þessum umr., að málið yrði rætt með rökum, því að það er auðvitað það, sem máli skiptir í þetta sinn eins og endranær, að mál sé rætt með rökum og þegar rökin koma fram, er alltaf von til þess, að rétt niðurstaða fáist, en miklu síður, þegar menn halda sig frá umr., eins og nú hefur gerzt, því að þá er eins og menn einhvern veginn telji ekki ástæðu til þess að hlýða á rök eða láta rök koma fram.

Hv. frsm. meiri hl. talaði í dag og vék nokkrum orðum að ræðu minni. En hann gerði það ekki á þann hátt, að ég telji ástæðu til neinna andsvara við því. Hann ræddi einkum atriði, sem litlu máli skipta, eitt og annað, sem komið hafði fyrir í umr. eða sagt hafði verið og fremur varðaði hin minni atriði málsins heldur en hin stærri atriði. Ég mun því ekki gera ræðu hans að neinu umræðuefni hér.

Hæstv. dómsmrh. talaði hér áðan, og eins og áður, þegar hann hefur rætt þetta mál, kom hann að rökum þessa máls að vísu ekki mörgum, en sumum rökum þessa máls og endurtók sumt af því, sem hann hefur áður sagt í því efni.

Það eru örfá atriði í ræðu hæstv. ráðh., sem ég vildi aðeins minnast á. Hann gerði það að umræðuefni, sem fram hefur komið og m.a. að einhverju leyti hjá mér, að umsögn stjórnar Félags ísl. bifreiðaeigenda og stjórnar Sambands vörubifreiðastjóra hafi að líkindum leitt til misskilnings á þessu máli í öndverðu. Ég ræddi ekkert um það í ræðu minni, að neinn hefði blekkt neinn í þessu máli, og geri ekki ráð fyrir, að neinn hafi gert það, a.m.k. ekki viljandi. En ég tel, að þetta sé það rétta orðalag, sem um þetta megi hafa, að þessar umsagnir hafi leitt af sér misskilning í þessu máli. Ég held sem sé, eins og ég sagði áður, að þm. hafi almennt skilið það svo og verið í góðri trú á það, að þegar stjórn Félags ísl. bifreiðaeigenda og stjórn Landssambands vörubifreiðastjóra sem slík gefur umsögn um mál, tali hún fyrir hönd félagsmanna sinna og að meiri hl. félagsmanna a.m.k. standi á bak við álit hennar. Eftir því sem ég man bezt, var þetta ekki sagt í umsögnum stjórnanna, heldur aðeins að þær væru málinu meðmæltar. En það var ekki óeðlilegt, að þm. skildu umsagnirnar á þann veg, að það væru félögin, sem stæðu að umsögninni, og þannig skildi ég það og hef raunar gögn fyrir því, að ég skildi það svo. Ég hugsa, að ég hafi ekki verið einn um það. En þannig er þetta í raun og veru, að það var upplýst af sjálfum formanni Félags ísl. bifreiðaeigenda á fundi allshn. í viðurvist sennilega 20 manna og endurtekið, þegar nánar var innt eftir því, að meiri hl. félagsmanna í Félagi ísl. bifreiðaeigenda væri án efa mótfallinn áliti félagsstjórnarinnar. Mér kom þetta dálítið kynlega fyrir, og ég innti eftir því, hvort þetta væri svo, hvort ég hefði heyrt rétt, og það var staðfest, að það væri svo. Þarna hefur sem sé átt sér stað misskilningur. Hins vegar er það rétt, og hæstv. ráðh. fór alveg rétt með það, sem vænta mátti, að á aðalfundi í þessu félagi hafi afstaða stjórnarinnar verið samþ. En á þessum aðalfundi Félags ísl. bifreiðaeigenda mætir ekki nema örlítið brot af þeim 13 þús. félagsmönnum, sem í þessum félagsskap eru. Það var mér kunnugt um, og það sagði ég líka í ræðu minni, þegar ég nefndi þetta áðan.

Um umsögn stjórnar Landssambands vörubifreiðarstjóra er þetta að því leyti á annan veg, að þar hefur engin yfirlýsing komið um það frá formanni, að meiri hl. af vörubifreiðastjórum landsins sé á öðru máli en stjórnin. Þar hefur engin yfirlýsing komið um það eða játning, eins og frá hinum formanninum. En það virðist eftir öllum sólarmerkjum vera svo, því að á þeim undirskriftarskjölum, sem borizt hafa Alþingi, eru vörubifreiðastjórar ákaflega fjölmennir.

Þetta er ekki neitt meginatriði varðandi efni málsins. En af því að hæstv. ráðh. bar þetta í tal, vil ég endurtaka það, sem ég í raun og veru sagði um þetta mál, þessi tvö atriði, og ég bar það í tal í öndverðu vegna þess, að það er skýring á því, hvernig málið hefur borið að hér á Alþingi. Það er a.m.k. nokkur skýring á því, hvernig málið hefur borið að og þróazt á undanförnum árum hér á Alþingi.

Ég gat um það einnig, að hinn þriðji aðili, sem gefið hefði umsögn eða ráð um þetta mál, hefði komizt svo að orði, að yfirgnæfandi meiri hl., ég held flestallir þeir, sem með umferðarmál hefðu að gera, væru fylgjandi umferðarbreytingunni. Þetta hafði auðvitað sín áhrif á þróun þess máls. Ég er ekki að átelja þessa aðila fyrir að hafa ekki skýrt nógu rækilega umsagnir sínar, hvernig þær eru til komnar, þó að það hefði verið æskilegt, en aðeins að skýra þetta mál frá sjónarmiði alþm.

Það kom glögglega fram hjá hæstv. ráðh, að ástæðan til þess, að hann ákvað á sínum tíma að fylgja þessu frv. og virðist einnig hafa ákveðið nú að vilja ekki ljá máls á frestun framkvæmdarinnar, að ástæðan til þess er fyrst og fremst ein. Ég vona, að ég greini þarna rétt frá miðað við ræðu hans áðan. Og ástæða ráðh. er sú, að að þessu muni koma fyrr eða síðar, jafnvel þótt við frestum málinu nú. Jafnvel þótt við ákveðum nú að hætta við að taka upp hægri handar umferð, muni að þessu koma fyrr eða síðar og þá muni það verða miklu fyrirhafnarmeira og dýrara. Ég er engan veginn viss um, að að þessu þurfi nokkurn tíma að koma, ef ekki kemur að því nú. Og ég styð það með því, að miklu fjölmennari þjóðir, mörgum sinnum fjölmennari þjóðir, sumar af allra fjölmennustu þjóðum heims hafa enn vinstri handar umferð. Hvað er það fyrir 800 þús. Íslendinga í framtíðinni, eins og hæstv. ráðh. nefndi, eða í millj. eða 2 millj. Íslendinga einhvern tíma á næstu öldum að breyta umferðinni, hjá því, sem það er nú þegar fyrir þjóðir eins og Japani, sem eru 100 millj., og þjóðir eins og íbúa Bretlandseyja, sem eru 60 millj.? Hvað er það hjá því? Og ég hef hugsað sem svo, að meðan þessar þjóðir telja ekki þann vanda á ferðum, að þær þurfi að breyta til, getum við beðið. Og þetta, að segja, að það verði alltaf dýrara fyrir okkur að breyta til, held ég, að sé vafasöm kenning. Það er að vísu miklu dýrara fyrir okkur Íslendinga í dag í krónum talið að breyta um umferð heldur en hefði verið 1940. En það er ekki rétt að miða við slíkt. Krónan okkar er nú því miður miklu minni en hún var þá. Um það leyti hafði verkamaður í kaup svona 2 krónur á klukkutímann eða innan við það í stríðsbyrjun. Við vitum, hvað hann hefur nú. Svona hefur krónan minnkað. Það má ekki bera saman upphæðir. En jafnvel þótt svo væri, og auðvitað er það svo, að verðmæti kostnaðarins verður í raun og veru meira, eftir því sem árin líða, er ekki þar með sagt, að það verði þungbærara, því að geta þjóðarinnar hefur aukizt, og við vonum, að geta þjóðarinnar haldi áfram að aukast á komandi tímum. Hvort eitthvað sé þungbært fyrir þjóð fjármálalega séð, á auðvitað ekki að miðast við það, hvað það kostar í peningum eða í verðmætum, heldur hvers þjóðin er umkomin. Þess vegna læt ég það alveg ósagt, að það yrði nokkuð dýrara fyrir þjóðina, við skulum segja eftir 20, 30, 50 ár, að breyta til í þessu efni heldur en það er nú. Ég læt það alveg ósagt, ég er ekki maður til þess að dæma um það. Mér sýnist þessi kenning mjög vafasöm.

Og á sama hátt er það vafasamt, sem sagt er um tæknina í þessu sambandi. Það er gaman að tala um tæknina. Það er gaman að hugsa um tæknina, hvernig hún kunni að breytast. Maður getur hugsað sér, að það verði einhvern tíma í framtíðinni til farartæki, sem fara á sjó og á landi og í lofti, allt sama farartækið. Ég held nú satt að segja, að það verði nokkuð langt þangað til. Ég hef ekki meira ímyndunarafl en það. Ég held, að það verði nokkuð langt þangað til sömu farartæki fara um loftið, úthöfin og á landi, þótt nú séu gerðar tilraunir í þessa átt. En við getum þá kannske hugsað lengra. Við getum kannske hugsað okkur, að tæknin nái svo langt, að við hættum að nota vegi, að við þurfum ekki lengur neina vegi. Þá má okkur náttúrlega vera alveg sama, hvort það er hægri handar eða vinstri handar regla á vegum, sem eru ekki lengur til. Þess vegna er það, að þessar hugleiðingar okkar, spádómar um tæknina og áhrif hennar á komandi tímum, hafa ekki mjög mikið gildi í þessu efni. Við verðum að miða okkar ákvarðanir við það, sem nú er, og það, sem fyrirsjáanlegt er í næstu framtíð.

Í þessu máli dregur nú til úrslita. Hér hefur nú í þessari hv. d. verið gerð úrslitatilraun til að fá frestað í þessu máli, áður en það er of seint, og fá hv. Alþ. til að leita álits þjóðarinnar um mikið vandamál, sem ágreiningur er um meðal þm., mál, sem á sínum tíma, eins og hér hefur komið fram, hlaut undirbúning, sem var að ýmsu leyti áfátt, svo að ekki sé sterkara að orði kveðið, að ýmsu leyti áfátt, og að því hefur verið vikið. Það var eindregin og ákveðin ósk mikils fjölda manna um land allt, að þessi úrslitatilraun yrði gerð. Vera má, en það er ekki útséð um það enn, eins og hæstv. ráðh. sagði, að hún beri ekki þann árangur, að breytingunni verði frestað og þjóðinni leyft að greiða atkv. Fari svo, taka aðrir en Alþingi við framkvæmd þessara mála, yfirvöld landsins og löggæzla og þó fyrst og fremst hinir mörgu stjórnendur ökutækja í þessu landi, sem mjög margir hafa látið í ljós, að þeir teldu breytinguna varhugaverða. Þess er vænzt og þess ber að óska, hvernig sem þetta mál fer hér, að allir leggist á eitt um að stuðla að öryggi manna og ökutækja á vegum landsins. Ég hef ekkert umboð til þess að lýsa neinu yfir um þetta fyrir einn eða neinn. En ég vona, að það verði svo. Og eitt hefur Alþingi enn á valdi sínu. Þó að það sleppi frá sér þessu máli, án þess að gera þar neitt að, þá hefur það samt enn eitt á valdi sínu, og það er að láta sér skiljast og sýna það í verki, að umferðarbreytingin, ef úr henni verður, stóreykur þá miklu nauðsyn, sem á því er að byggja þannig upp og ekki á allt of löngum tíma hið ófullkomna vegakerfi landsins, að það verði eitthvað í líkingu við vegi þeirra landa, sem nú er svo oft til vitnað í sambandi við þetta mál. Þetta vona ég, að allir þm. hafi í huga, ef eða þegar á reynir.