08.02.1968
Neðri deild: 59. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í C-deild Alþingistíðinda. (2163)

86. mál, hægri handar umferð

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég hef nú ekki tíma fyrir nema stutta aths. og mun þess vegna ekki fara út í það að þessu sinni að ræða einstök málsatriði, enda hef ég nokkuð gert það. En það voru aðeins tvö eða þrjú atriði hjá hæstv. ráðh., sem ég vildi minnast örlítið á.

Hæstv. ráðh. mótmælti því, að málið hefði að ýmsu leyti legið villandi fyrir, þegar það var hér til meðferðar á Alþingi á sínum tíma. Vafalaust hefur hann beint þessum orðum að einhverju leyti til mín, því að ég mun hafa látið falla orð á þessa leið eða svipað því. En ég vil aðeins taka það fram, að ádeila mín í þeim efnum beindist ekki sérstaklega gegn ráðh., því að ég álít, að af hans hálfu hafi málið verið lagt fyrir Alþ. á þeim tíma með eðlilegum hætti og með öllum upplýsingum, sem þarf að búast við í sambandi við slík frv., svo að ég álasa þann undirbúning ekki. En hinu verður hins vegar ekki móti mælt, að sú kostnaðaráætlun, sem þar kemur fram, var að ýmsu leyti villandi, og á ég þar við álit umferðarnefndarinnar, því að það var hvergi nærri gerð nægileg grein fyrir öllum kostnaðarliðum, eins og hér hefur verið rakið. Og hitt tel ég, að hafi verið enn þá meira villandi, að af þeim umsögnum frá samtökum bifreiðastjóra, sem þar lágu fyrir, gat maður eiginlega ekki ályktað annað en það, að bílstjórastéttin stæði nokkurn veginn einhuga að þessu máli. En mér finnst alveg sjálfsagt að láta það koma fram, að ríkisstjórnina er ekki eina um að saka í þeim efnum, heldur forustumenn þeirra samtaka, sem hér réðu mestu. Og það er ég alveg viss um, að sá þáttur málsins hefur villt um fyrir hv. alþm., og ef á þeim tíma hefði komið fram jafn einbeitt afstaða mikils hluta bílstjóranna eða jafnvel meiri hluta, eins og nú á sér stað, þá er ég alveg sannfærður um, að málsúrslitin hefðu orðið önnur á sínum tíma á Alþingi en þau urðu.

Annað atriði, sem kom fram hjá ráðherranum og ég vildi minnast á, var það atriði, sem hann taldi ráða mestu um það, að hann fylgdi fram þessari breytingu. Sú ástæða er í stuttu máli á þá leið, að við getum búizt við því, þó að við þurfum ekki endilega að breyta í dag, þá verðum við tilneyddir til þess af einhverjum tæknilegum ástæðum, sem við sjáum ef til vill ekki fyrir í dag, að koma þessari breytingu á. Það gildir náttúrlega jafnt um okkur alla í þessum efnum, að við sjáum það ekki fyrir, sem kann að gerast í framtíðinni, og ekki þetta heldur. Satt að segja á ég erfitt með að sjá það í dag, að við verðum af tæknilegum ástæðum tilneyddir að gera þessa breytingu. En maður neitar samt engu, því að svo margt hefur gerzt í þessum hlutum á undanförnum árum og á vafalaust eftir að gerast. En ég vil hins vegar halda því fram og er að því leyti ósammála ráðh., að ég álít, að við mundum að mörgu leyti vera betur undir það búnir eftir 20–30 ár t.d. að gera þessa breytingu heldur en nú. Það stafar af því, að ég tel, að fjöldi bílanna sé ekki neitt höfuðatriði í þessu máli, eins og komið hefur fram í Svíþjóð, þó að það sé að vísu stórt atriði. En það, sem ég tel skipta langsamlega mestu máli, til þess að slík breyting geti heppnazt vel, er tvennt. Í fyrsta lagi, að við höfum góða vegi, og í öðru lagi, að umferðarmenning sé í góðu lagi. Ég hef fullkomlega þá trú, að það eigi eftir að gerast hér á landi, eftir t.d. 20–30 ár, svo að maður nefni þann tíma, að þá verði vegirnir orðnir miklu betri en í dag. Ég vil hafa þá trú, að þá verði komnir steinsteyptir, tvíbreiðir vegir víðast um landið, okkur takist að ná því marki í þeim efnum. Og ég vil líka hafa þá trú, að þá verði umferðarmenning hjá okkur miklu betri en er í dag. Þá verður ástandið orðið miklu líkara því, sem nú er í Svíþjóð. Og undir þeim kringumstæðum álít ég, að það verði miklu auðveldara fyrir okkur að framkvæma þessa breytingu með farsælum hætti heldur en þurfa að gera það nú. Ég skal svo ekki ræða meira um þetta atriði.

Ég vil svo að síðustu í tilefni af því, sem ráðh. sagði, endurtaka það, sem við höfum áður sagt, sem stöndum að þessu frv., að þó að við að sjálfsögðu leggjum fyrst og fremst megináherzlu á, að það nái fram að ganga, þá verðum við fyrst og fremst að sætta okkur við það, ef þingmeirihl. vill fara aðra leið, og það mun ekki á okkur eða þeim, sem eru andvígir þessari breytingu, það mun ekki standa á þessum aðilum að taka upp samvinnu um það, að framkvæmdin geti heppnazt sem bezt. En það gildir svo um alla samvinnu, það verður að taka tillit til allra aðila, sem eiga þátt í henni. Það er ekki hægt að ætlast til þess, að einn aðili geti ráðið öllu og geti sagt alveg fyrir verkum og hinn aðilinn geti ekki sagt annað en já og amen. Þess vegna legg ég áherzlu á það, að jafnhliða sem slíku samvinnutilboði verður tekið, ef málin snúast á þá leið, að þessi breyting nær fram að ganga, þá verða líka þeir, sem ráða, að taka skynsamlegt tillit til óska þeirra, sem æskja sem mests öryggis í sambandi við þessa breytingu, það sé ekki eingöngu um það að ræða fyrir þann aðilann, sem undir verður í málinu, að segja já og amen, heldur fái hann að hafa sín áhrif í málinu á það, hvernig framkvæmdin verður. Að sjálfsögðu ber hann ekki ábyrgð á öðru en því, sem hann stendur að. En við skulum vænta þess, hvernig svo sem þessi mál fara, hvort sem þetta frv. verður samþ. eða ekki, ef breytingin nær fram að ganga, að þá takist að halda giftusamlega á málinu.