12.02.1968
Neðri deild: 60. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í C-deild Alþingistíðinda. (2167)

86. mál, hægri handar umferð

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Þegar frv. um hægri umferð var til afgreiðslu í hv. Nd. 1966, greiddi ég atkv. gegn því, þar sem mér var ekki ljós nauðsyn breytingar til hægri umferðar og er það ekki enn þá. Hins vegar leit ég svo á, að þar sem Alþ. hafði afgreitt lög um hægri umferð, næði hún fram að ganga og ég yrði að sætta mig við þá breytingu, þó að ég væri henni andvígur. Þann tíma, sem liðinn er síðan frv. þetta kom fram, hef ég notað til að kynna mér, hvað liði framkvæmd vegna breytingarinnar. Því miður hef ég orðið þess áskynja, að hún er tiltölulega skammt á veg komin og nauðsynlegar breytingar, eins og skipting á blindhæðum á vegum, eru lítt framkvæmanlegar á þeim stutta tíma, sem eftir er, þar til breytingin er áformuð. Ég tel tímann illa valinn, þar sem breytinguna á að gera að vorinu, þegar umferð er að aukast og vegir eru oft illa farnir, og svo mun verða eftir jafnmikinn frostavetur og nú er. Þar við bætist, að útlitið um afkomu ríkissjóðs er þannig, að í undirbúningi eru sérstakar ráðstafanir um breytingar á fjárlögum, svo sem boðað hefur verið hér á hv. Alþ. vegna aðgerða í efnahagsmálum. Ljóst er, að áætlun um kostnað vegna fyrirhugaðra breytinga til hægri umferðar mun á engan hátt geta staðizt, ekki sízt þar sem vitað er, að kostnaður verður meiri en þurft hefði að vera vegna þess, hve aðlögunartíminn er stuttur.

Ég tel með öllu óforsvaranlegt að beina fjármunum ríkissjóðs til þessara framkvæmda umfram nauðsynleg verkefni, sem nú verða að sitja á hakanum, auk þess sem ég tel, að lengja þurfi aðlögunartímann, til þess að undirbúningur vegna breytingar til hægri umferðar verði svo góður sem auðið er. Af þeim ástæðum, sem ég hef nú greint, segi ég já.