25.11.1967
Neðri deild: 26. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í C-deild Alþingistíðinda. (2176)

59. mál, vegalög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni að síðustu setningunni, sem hv. þm. sagði hér áðan, að ég mundi gangast fyrir því að sannreyna það, hvort meiri hluti væri fyrir því að hafa þessa heimild í l., sem er. Hv. flm. gengst fyrir því með því að flytja þetta frv., og ef meiri hluti hv. þm. vill afnema heimildina, þá vitanlega verður það gert. Hins vegar hef ég aldrei efast um það, að meiri hluti alþm. lítur líkt á þetta mál nú og var, þegar þessi heimild var lögfest.

Annars er það í rauninni ekki fleira, sem er ástæða til þess að segja í tilefni af þessari seinni ræðu hv. flm. En það er rétt að minna á, að það er nauðsynlegt fyrir hv. flm. að kynna sér þetta mál betur en hann virðist hafa gert til þessa. Ég efast ekkert um, að það er hægt að hitta marga menn á Suðurnesjum, sem gjarnan vilja vera lausir við að borga þetta gjald. Það merkir ekki það, að þeir séu óánægðir út af fyrir sig með gjaldið, en þegar hv. flm. talar við menn og segir við þá, að hann ætli nú að reyna það sem hann geti, til þess að fá þetta afnumið, þá finnst mér eðlilegt, að þeir sem borga gjaldið, út af fyrir sig samþykki það og segi eitthvað á þá leið, að það væri gott að vera laus við að borga þetta. En það þýðir ekki það, að þeir séu óánægðir. Það þýðir ekki það, að þeir telji ósanngjarnt að greiða þetta gjald. Og ég ætlast til þess, að hv. 2. þm. Reykn. (VG) kynni sér þetta mál og sannfærist um það, hvað er rétt og sanngjarnt í þessu, hann tali við sérleyfishafann, sem ég vitnaði til hér áðan, sem sagðist geta notað eldri bílana á Keflavíkurleiðinni, en þeir væru ekki nothæfir á malarveginum, hann tali við vörubílstjórana, sem voru óánægðir í fyrstu, en hafa nú sannfærzt um, að þeir græða stórfé á því að fara þennan veg, þótt þeir borgi gjaldið, hann tali við aðra, sem nota veginn og eiga bíla, og kynni sér þetta. Ég þekki þennan mann ekki rétt og hann hefur breytzt mjög mikið frá því í gamla daga, ef hann vill ekki leitast við að vita, hvað er rétt og sanngjarnt í þessu máli. Og noti hann svo tímann til þess, þá held ég, að háan flytji ekki frv. t þessum dúr aftur, þótt hann komi inn í Alþingi, ef hann notar nú tímann rétt, á meðan hann er utan þings, til þess að kynna sér þetta mál alveg til botns.