13.12.1967
Neðri deild: 38. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í B-deild Alþingistíðinda. (218)

72. mál, ráðstafanir vegna landbúnaðarins í sambandi við breyting á gengi íslenskrar krónu

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., var lagt fram hér á hv. Alþ. s.l. laugardag og þá þegar tekið til 1. umr., en til þess þurfti samkv. þingsköpum að leita afbrigða. Síðan var fundur boðaður í landbn. hv. d. kl. 11 á mánudagsmorgun, og var ætlun meiri hl. n. að afgreiða málið þá fyrir hádegi. Við, sem skipum minni hl., fengum þó fundi frestað til seinni hluta dagsins, en okkur var tjáð, að n. yrði að ljúka störfum og skila áliti þann dag, þar sem málið ætti að takast fyrir á næsta fundi d., þ.e.a.s. í gær. Þannig virðist það vera orðin regla hjá hæstv. ríkisstj. að keyra mál í gegnum þingið með þeim hraða, að engin leið sé að gera þeim viðhlítandi skil. Af þessum ástæðum varð landbn. hv. d. að fjalla um þetta frv. á sama tíma sem þingfundur stóð yfir í Sþ., þar sem fjárlög fyrir árið 1968 voru til umr. Þessi vinnubrögð hljóta að vera fáheyrð og ekki hægt að komast hjá því að átelja þau mjög harðlega. Hæstv. ríkisstj. ætti ekki að vera minna ætlandi en að mál fái sæmilega þinglega afgreiðslu og nefndir þingsins, sem um þau eiga að fjalla hverju sinni, fái hæfilegan tíma til að setja fram afstöðu sína á viðhlítandi hátt og þurfi ekki að vanrækja önnur störf þingsins þess vegna, að þeir þurfi að sinna nefndarstörfum á sama tíma og þingfundir standa yfir. Það væri áreiðanlega hægt að skipuleggja störf þingsins betur, ef vilji væri fyrir hendi, svo að til svona vinnubragða þyrfti ekki að koma.

Ég fór þess á leit við hæstv. landbrh., að hann hlutaðist til um, að yfirdómurinn yrði birtur, svo að hv. alþm. gæfist kostur á að lesa það furðulega plagg og ræða það jafnhliða þessu frv. En við þeirri ósk hefur hæstv. landbrh. ekki orðið, þrátt fyrir endurteknar óskir um þetta í landbn. og þá yfirlýsingu hæstv. ráðh., að yfirdómurinn sé ekkert leyniplagg. Hins vegar hef ég fengið þennan dóm í hendur, en að sjálfsögðu er það ófullnægjandi fyrir aðra þm.

Það er engu líkara en að valdhafarnir og oddamaður yfirnefndar séu eitthvað feimnir við að birta almenningi þennan dóm og rökstuðninginn fyrir honum, og ég verð nú að segja það, að eftir að hafa lesið dóminn og grg. meiri og minni hl. fyrir honum undrar mig ekki, þótt þeir, sem bera ábyrgð á niðurstöðum dómsins, séu nokkuð uggandi, hver verði viðbrögð bændastéttarinnar við þvílíkum rangindum, sem bændastéttinni eru sýnd með þessum dómi, þar sem niðurstöður dómsins sýna, að sá tilgangur laganna er gersamlega sniðgenginn, að verðlagningin sé við það miðuð, að þeir, sem landbúnað stunda, fái svipaðar tekjur og viðmiðunarstéttirnar hafa á hverjum tíma. Og það er viðurkennt í grg. oddamanns, að gengið hafi verið fram hjá þessu ákvæði. Það er líka viðurkennt í grg. oddamanns, að ekki sé farið eftir 4. gr. framleiðsluráðslaganna um að tilfæra ársvinnutíma bóndans og skylduliðs hans, og því borið við, að gögn hafi skort til þess, að hægt væri að fara eftir þessu ákvæði. Nú er það sem sé komið fram, sem mig grunaði og ég deildi um við hæstv. landbrh., þegar breytingin á framleiðsluráðslögunum var hér til umræðu á dögunum, að sniðganga ætti lögin um vinnulið verðlagsgrundvallarins, en hins vegar datt mér ekki í hug, að svo langt yrði gengið, að ekkert tillit yrði tekið til þess aukna rekstrarkostnaðar, sem orðið hefur, og minni afurða af sauðfé. Að verðlagsgrundvöllurinn yrði úrskurðaður óbreyttur, án nokkurs tillits til þessara staðreynda, datt víst engum í hug, enda vilja menn ógjarnan fyrirfram ætla mönnum það, að þeir framkvæmi verk sín, sem þeim hefur verið sýndur trúnaður til að gera, á þennan hátt. Það er engu líkara en að einhver hafi hvíslað því í eyru þessara manna: Haldið þið ykkur við núllið, hvað sem öðru líður.

En furðulegast af öllu í sambandi við niðurstöðu yfirdóms er svo það, að oddamaður segir í sinni grg., að hann hafi farið fram á breytinguna, sem gerð var á framleiðsluráðslögunum, að verðleggja til eins árs í stað tveggja. Og hann segir einnig, að hann hafi ekki farið eftir 4. gr. l. um að virða ársvinnutíma bóndans og skylduliðs hans. En fyrst hann treysti sér ekki til að fara eftir þessu fyrirmæli, því bað hann ekki einnig um breytingu á þessu? Og þá hefði verið eðlilegast, að hann hefði lagt til að breyta l. um vinnuliðinn á þann veg, sem var í l. fyrir breytinguna, þ.e.a.s. eftir úrtaki viðmiðunarstéttanna. Finnst ekki hæstv. landbrh. það hljóma undarlega, þar sem oddamaður yfirdóms segir það berum orðum í sinni grg., að rétt hafi þótt, eins og ástatt var, að verðleggja til eins árs í stað tveggja og biður um breyt. á l. þar að lútandi og bíður með að ljúka störfum yfirdóms, eftir því að þessi umbeðna breyting yrði lögfest, en biður ekki um breyt. á 4. gr. um vinnuliðinn, þó að þar stæði eins á að því leyti, að oddamaður telur, að hann hafi ekki getað farið að l.?

En við nánari athugun rekur maður sig fljótlega á ástæðuna fyrir því, að yfirborgardómarinn má ekki — getur ekki farið þá leið með vinnuliðinn að óska eftir lagfæringu á honum. Við skulum ekki missa sjónar á því, að útkoman átti að vera núll. Það skiptir engu máli, þótt á borðinu lægi, að afurðir af grundvallarbúinu hefðu minnkað, rekstrarvörurnar hefðu stóraukizt og búið væri að vinnumæla á viðhlítandi hátt 3/4 hluta vinnuliðarins. En nú vil ég spyrja: Hvernig var hægt að verðleggja eftir anda laganna, án þess að taka tillit til þessa alls? En hefði nú l. verið breytt þannig, að vinnuliðurinn hefði verið ákveðinn samkv. því, sem var fyrir lagabreytinguna síðustu, hvernig hefði útkoman þá verið? Samkv. úrtaki viðmiðunarstéttanna hefði liðurinn átt að hækka a.m.k. um 22–26%. Er ekki þarna komin skýringin á því, að ekki var óskað eftir breytingu á þessari umræddu grein? Það hefði óneitanlega verið erfitt að halda sér við núllið með grundvöllinn. Hefði vinnuliðurinn verið úrskurðaður samkv. úrtaki og hefði breytingar verið óskað, var ekki þægilegt að komast fram hjá því, að eðlilegast væri í þetta sinn að verðleggja samkvæmt þeirri reglu, sem áður gilti hvað þetta snerti. Og það er ekkert vafamál, að það hefur ekki verið vandalaust að finna frambærileg rök fyrir þessari niðurstöðu, enda tók það meiri hluta yfirdómsins rúmar 6 vikur að klúðra saman grg. fyrir óbreyttum grundvelli, grg., sem þó allir vilja hliðra sér hjá að birta. Þannig er nú réttlætinu fullnægt hvað þetta snertir.

Meginrök meiri hluta yfirdómsins fyrir þessum úrskurði eru þau, að samið var um verðbreytinguna í fyrra, og af því draga þeir þá ályktun, að Sexmannanefnd hafi verið sammála um verðlagninguna í það sinn. Þótt fulltrúar bænda í Sexmannanefnd hafi samið heldur en að skjóta verðlagningunni til yfirdóms, þýðir það engan veginn, að n. hafi verið sammála um verðlagninguna, heldur hitt, að af tvennu illu hafi fulltrúar bænda í n. talið það þó skárri kostinn að semja. Því má ekki heldur gleyma í þessu sambandi, að samhliða verðlagningunni sömdu fulltrúar bænda um ýmsar hliðarráðstafanir við ríkisstj., sem voru tímabundnar að mestu leyti og höfðu úrslitaþýðingu um, að samið var. Má telja víst, að ekki hefði verið samið á þann hátt, sem gert var, án þessara hliðarráðstafana, og það er engin launung, að stjórn Stéttarsambands bænda var af mörgum bændum í landinu átalin fyrir að semja í fyrrahaust, þrátt fyrir hliðarsamningana. Af þessu leiðir, að um leið og yfirnefndin fellir sinn dóm, sem er byggður á því, að um það sama hafi verið samið í fyrra, hljóta hliðstæðar fjárveitingar að felast í þessum úrskurði, sem bændur eiga að fá úr sameiginlegum sjóði þjóðarinnar eftir einhverjum öðrum leiðum en í gegnum verðlagninguna sjálfa. Ef svo væri ekki, er rökstuðningur meiri hl. yfirnefndar haldlaus með öllu. Eru þessar hliðarráðstafanir, sem um var samið í fyrra, ekki hluti af tekjum bændastéttarinnar fyrir s.l. ár? Án þeirra hefði verðlagið verið ákveðið hærra. Því vil ég spyrja hæstv. landbrh., hvort hann hafi gert ráðstafanir til, að bændur haldi hlut sínum að þessu leyti. Sé það ekki og fáist engin viðhlítandi svör við því, skora ég á stjórn Stéttarsambands bænda að gera tilraun til að ógilda úrskurð meiri hl. yfirdóms með dómi, þar sem hvorki niðurstaða né rökstuðningur geti staðizt samkv. þeim l., sem verðleggja á eftir. Kemur þá í ljós, hvort l. um framleiðsluráð o.fl., sem hæstv. ríkisstj. stóð að að lögfesta, tryggir bændum sambærilegar tekjur við viðmiðunarstéttirnar eða hvort þau eru haldlaust pappírsplagg eins og ætla mætti eftir úrskurði meiri hl. yfirdóms.

En það er ekki nóg með þessa furðulegu niðurstöðu yfirdómsins. Hann felur þó enn verra í sér, sem kemur ekki beint fram, en er við nánari athugun nokkurs konar kóróna á þessu verki. Að hefðhundinni reglu hefur verð á ull og gærum verið ákveðið sem næst því, sem heimsmarkaðsverð hefur verið á þessum vörum á hverjum tíma. Hefði verðlagningin verið gerð eins og lög mæla fyrir um í septembermánuði og alltaf hefur verið gert fram að þessu, hefði átt að miða við það heimsmarkaðsverð, sem þá var á gærum, um 20 kr., og á ull 8.33 kr. Hefði verið farið eftir þessari reglu, hefði kindakjötið átt að hækka sem þessu nam. Þessi tilfærsla hefði numið í heild ekki minni upphæð en 40 millj. Nú segir í niðurstöðu grg. meiri hl. yfirdómsins, að verð á ull og gærum hafi verið ákveðið eftir að gengisfellingin var gerð og með fullu tilliti til áhrifa, sem af gengisfellingunni leiði. Og takið þið nú eftir. Nú ætla ég að lesa hér orðrétt upp úr grg. yfirdómsins, með leyfi forseta:

„Loks er að geta þess, að ákvörðun um verðlag á ull og gærum var einnig af hálfu Sexmannanefndar skotið til yfirnefndar. Um þessi atriði fékk yfirnefndin gögn um söluhorfur, og eftir að gengisbreytingin var komin, kannaði hún einnig fáanleg gögn til þess að geta gert sér grein fyrir því, hver gengishagnaður yrði af ull og gærum og hvert yrði sennilegt útborgunarverð þeirra. Voru yfirnefndinni og flutt þau skilaboð frá ríkisstj., að ákveðið hefði verið, að allur gengishagnaður af landbúnaðarafurðum rynni til landbúnaðarins, fyrst og fremst til verðuppbótar á ull og gærum af framleiðslu verðlagsársins 1967–1968. Verð á nefndum framleiðsluvörum var ákveðið með tilliti til þessara atriða.“

Það þykir sem sé vissara að undirstrika það sérstaklega, að ekki hafi verið um að ræða beint samband á milli hæstv. ríkisstj. og meiri hl. yfirdómsins. Hinu er aftur á móti ekki haldið á lofti, hver hljóp með skilaboðin þarna á milli. Þarna kemur fram, svo að ekki verður um deilt, að hæstv. ríkisstj, er búin, samkv. áður greindum skilaboðum, að ráðstafa öllum gengishagnaði landbúnaðarvara, ekki í þágu bænda, eins og hæstv. landbrh. var búinn að lýsa yfir að gert yrði og l. um gengisráðstafanirnar mæla fyrir um, heldur til að borga kjötið niður til neytenda. Gengishagnaðurinn er áætlaður um 40 millj., og get ég því ekki betur séð en þetta dæmi gangi upp. Það virðist því vera þarna hver silkihúfan upp af annarri, og meginreglan stendur enn, þegar öllu er ráðstafað, að bændur skulu ekkert hafa. Við stöndum enn á núlli.

Frsm. minni hl. landbn., hv. 5. þm. Austf., er búinn að lýsa brtt. okkar, og hef ég litlu við það að bæta. Ég vil þó undirstrika það sérstaklega eftir þau furðulegu vinnubrögð, sem hafa verið viðhöfð á þessu hausti og vetri af neytendahluta Sexmannanefndar og meiri hl. yfirdóms, að ég er búinn að fá meira en nóg af þeirra vinnubrögðum og hef því ekki áhuga á að standa að því að láta þessa aðila fá ný verkefni til úrlausnar fyrir bændastéttina. Ég tel, að niðurstaða dómsins sé ekki í samræmi við gildandi lög þar að lútandi og nota því þetta tækifæri til að mótmæla honum mjög harðlega.

Um till. okkar um 2. gr. frv. er það að segja, að samkv. grg. meiri hl., eins og áður segir, hefur hæstv. ríkisstj. nú þegar ráðstafað öllum gengishagnaði af útfluttum landbúnaðarvörum til niðurgreiðslu á kindakjöti til neytenda, og leggjum við því til samkv. því, að fénu verði ráðstafað til hlutaðeigandi aðila, sem er Framleiðsluráð landbúnaðarins. En síðar munum við að sjálfsögðu krefjast þess, að við það verði staðið, að sú upphæð, sem gengishagnaðurinn sýnir, að verða muni, verði greiddur af tekjuafgangi ríkisins á næsta ári. Það er a.m.k. ofar mínum skilningi, að hægt sé að ráðstafa sömu krónunni tvisvar. Það er e.t.v. ein hagræðingin hjá hæstv. ríkisstj. Annars virtist landbrh. í ræðu í dag ekki skilja það sjálfur, og er ég ekkert hissa á því.

Því er haldið fram af sjálfstæðismönnum, að viðreisnarstjórnin hafi reynzt bændum mjög vel og hagur þeirra hafi aldrei staðið með meiri blóma en nú eftir öll viðreisnarárin. Því var haldið fram, þegar efnahagsmálafrv. var til umr., að hagvextinum hafi verið deilt út til þjóðarinnar jafnóðum og því þurfi að taka hluta af honum aftur, þegar heildartekjur þjóðarinnar minnkuðu. Því var einnig haldið fram, að aðalverðbólguvaldurinn væri of hátt taxtakaup launþega og of hátt afurðaverð á búvörum bænda. Eigum við ekki að staldra við þessi atriði um stund og athuga ögn þessar fullyrðingar. Ef fyrsta atriðið er athugað niður í kjölinn, kemur í ljós, að efnahagur bænda hefur stórversnað á þessum árum. Um 1960 voru t.d. föstu lánin um eða yfir 60% af heildarskuldum bænda, en síðan hefur þetta alveg snúizt við. Nú eru lausaskuldirnar komnar yfir 60%, þrátt fyrir það, að miklum hluta af lausaskuldum bænda 1960 var breytt í föst lán með sérstakri löggjöf 1962, að mig minnir. Og þegar ég tala um, að lausaskuldirnar séu yfir 60%, tel ég ekki með í þeirri tölu þær 90–100 millj., sem bændur eiga nú eftir að borga af sínum föstu lánum, og sýnt er, að mikill hluti þessara afborgana og vaxtagreiðslna verður óborgaður um næstu áramót. Vitna þessar tölur um aukna hagsæld í landbúnaði á viðreisnarárunum? Og hvað segir hæstv. landbrh. nú um stofnlánadeildina, sem í reynd hefur ekki reynzt þess umkomin að fullnægja lánsþörf bændastéttarinnar hlutfallslega nema að hálfu leyti miðað við það, sem áður var fyrir viðreisn? Og svona er ástandið þrátt fyrir það, að vextir hafa stórhækkað af stofnlánunum og þrátt fyrir stofnlánasjóðsgjaldið, sem er á 4. þús. kr. á grundvallarbúið. Sé verðlagsgrundvöllurinn tekinn sem heimild að þessu leyti og vextir og stofnlánagjald lagt saman, er útkoman ömurleg mynd af því ástandi, sem ríkir í þessum málum. Þá kemur út úr dæminu, að til stofulánadeildarinnar borga bændur nú að meðaltali 9056 kr. eða rúmlega 11.3% vexti af föstum lánum sínum. Það eru engin undur, þó að þessir herrar séu hreyknir yfir því, hve vel þeir hafa stjórnað þessum málum!

Árið 1959 var vinnuliður verðlagsgrundvallarins 61 % af niðurstöðutölum, en fyrir síðasta verðlagsár 59% eða 2% lægri en fyrir viðreisn. Af þessu sést einnig, hvað bændur hafa fengið í sinn hlut af hagvextinum þessi síðustu ár. Þess vegna er tómt mál að tala um það, að bændur skili aftur einhverju af hagvextinum, sem í þeirra hlut hafi komið á liðnum árum. Það er ekki hægt að krefjast endurgreiðslu af þeim, sem ekkert hafa fengið af auknum þjóðartekjum liðinna ára. Hverjum er svo að kenna verðbólguvöxtur liðinna ára? Ég tel mig hafa sýnt fram á það með nægilegum rökum, að bændur hafi verið hlunnfarnir á viðreisnarárunum, hvernig sem á málið er litið, og það sé því algerlega út í hött að krefjast neins af þeim í þessu sambandi. En við skulum aðeins staldra við og athuga það, hver sé ástæðan fyrir hinum raunverulega verðbólguvexti í þjóðfélaginu.

Það er alveg hægt að sýna fram á það með ýmsum dæmum, að það er alls ekki of hár taxti hjá launafólki, ekki síður en ég er búinn að færa rök fyrir því, að það er ekki af of háu verði á búvörum landbúnaðarins. Það hefur verið vegna þeirrar þenslu, sem hefur verið hér á Faxaflóasvæðinu. Þeir, sem hér hafa haft ýmsar framkvæmdir, hafa boðið í vinnuaflið, og það er fyrst og fremst ástæðan fyrir verðbólguvexti undanfarinna ára. Það er vegna stjórnleysisins fyrst og fremst í fjárfestingarmálum þjóðarinnar.

Þar sem till. okkar, sem skipum minni hl. landbn. hv. d., ásamt grg. fyrir þeim byggist fyrst og fremst á dómi og grg. yfirnefndar, sem þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir hefur ekki fengizt birt, sé ég mig tilneyddan að lesa grg. hér upp, svo að hv. alþm. gefist kostur á að mynda sér skoðanir á þeim till., sem við höfum hér lagt fram fyrir hv. d. Ég leyfi mér þá að lesa hér grg., með leyfi forseta:

Grg. oddamanns yfirnefndar samkv. l. nr. 101 1966. Með l. nr. 55 frá 13. maí 1966 var gerð breyting á l. nr. 59/1960 um Framleiðsluráð landbúnaðarins o.fl. Var breyting þessi því næst felld inn í áðurnefnd lög frá 1960, og þau voru gefin út sem lög nr. 101/1966. Samkv. 1. mgr. 4. gr. nefndra laga skal söluverð landbúnaðarafurða á innlendum markaði miðast við það, að heildartekjur þeirra, er landbúnað stunda, verði í sem nánustu samræmi við tekjur annarra vinnandi stétta. Hefur þessi viðmiðunarregla verið í lögum allt frá 1947 án frekari ákvæða um það, hvernig þessu marki skyldi náð. Með 2. mgr. 4. gr. sömu laga var gerð sú breyting frá eldri ákvæðum laga, að nú skal í verðlagsgrundvelli tilfæra ársvinnutíma bóndans, skylduliðs hans og hjúa á búi af þeirri stærð, sem við er miðað hverju sinni. Í 8. gr. l. eru svo reglur um það, að Hagstofa Íslands skuli afla fullnægjandi gagna um framleiðslukostnað landbúnaðarvara og afurðamagn. Skal Búreikningaskrifstofa ríkisins, nú Búreikningastofa landbúnaðarins, sbr. lög nr. 20 1967, afla árlega rekstrarreikninga frá bændum, er sýni raunverulegan framleiðslukostnað landhúnaðarvara. Þá eru og í nefndri gr. fleiri fyrirmæli, er að öflun gagna um nefnd atriði lúta. Ákvæði áðurnefndrar 4. gr. um tilfærðan ársvinnutíma bóndans er, svo sem sagt var, nýmæli í l. og miða ákvæði 3. gr. að því, að hægt sé að afla fullnægjandi upplýsinga um hann með skýrslusöfnun þeirri og rannsóknum, sem nefnd gr. mælir fyrir um. Rannsókn með sérstöku tilliti til þessa hófst með vinnumælingum sumarið 1966, en skýrslusöfnun eftir hinum nýju lagaákvæðum um s.l. áramót, og gat verðlagsgrundvöllur sá, sem gerður var haustið 1966, því að sjálfsögðu ekki byggzt á niðurstöðum slíkrar rannsóknar eða athugunar samkv. hinum sérstöku fyrirmælum 8. gr. Var ársvinnutími bóndans því eigi tilgreindur í verðlagsgrundvelli og önnur viðmiðun höfð, þegar laun bónda voru ákveðin. Er ekki fram komið, að um þetta hafi verið ágreiningur í Sexmannanefnd, er í það sinn varð sammála um verðlagsgrundvöllinn, en niðurstöðutölur hans hækkuðu þá um 10.8% frá því, sem áður var haustið 1965.

Samkv. 7. gr. l. nr. 101/1966 skal verðlagsgrundvöllur gilda um tveggja ára tímabil og átti það ákvæði að koma til framkvæmda frá 1. sept. þessa árs. Þegar til þess kom á s.l. sumri að ákveða verðlagsgrundvöll fyrir tímabilið 1. sept. 1967 til 31. ágúst 1969, náðist eigi samkomulag í Sexmannanefnd, og skaut hún þá málinu til yfirnefndar samkv. 6. gr. l. með bréfi dags. 14. okt. s.l. Yfirnefndin er svo skipuð samkv. 6. gr. ofannefndra l. nr. 101/1966, að fulltrúar framleiðenda tilnefndu Inga Tryggvason bónda, Kálfhóli, en fulltrúar neytenda Árna Vilhjálmsson prófessor. Oddamaður var Hákon Guðmundsson yfirborgardómari, er Sexmannanefnd varð sammála um að nefna til þessa starfa. Samkv. áður nefndu bréfi Sexmannanefndar var til yfirnefndar skotið að úrskurða:

1. Alla gjaldaliði verðlagsgrundvallar.

2. Bússtærð og afurðamagn.

3. Frádráttarliðinn „heimanotuð mjólk“.

4. Upphæð tekna af aukabúgreinum og

öðru en búskap.

Þann 17. okt. var einnig skotið til yfirnefndar að úrskurða verð á ull og gærum. Þegar yfirnefnd tók framangreind atriði til athugunar, en hún hóf störf sín 15. okt. s.l., þótti meiri hl., HG og ÁV, sýnt, að eigi væru þá enn fyrir hendi eftir nokkurra mánaða skýrslusöfnun samkv. reglum áðurnefndrar 8. gr. l. nr. 101/1966 fullnægjandi gögn til þess, að hægt væri að byggja á þeim tilfærslu á verðlagsgrundvelli á ársvinnutíma bóndans og skylduliðs hans samkv. ákvæðum 4. gr., og væri því eigi unnt að framfylgja þessu ákvæði, enda þótt nokkrar upplýsingar um þessi atriði mætti fá úr eldri búreikningum, en gildi þeirra hins vegar vefengt og umdeilanlegt, hvað mikið mætti upp úr þeim leggja. Taldi meiri hl. yfirnefndar, HG og ÁV, rétt eins og á stóð að ákveða laun bóndans í verðlagsgrundvellinum án tilfærslu af ársvinnutímanum, eins og Sexmannanefnd hafði gert haustið 1966. Aftur á móti var yfirnefndin sammála um það, að eigi væri sanngjarnt, að verðlagsgrundvöllur, sem byggði ákvörðun um laun bóndans á óhjákvæmilegu fráviki frá ákvæði 4. gr. l., gilti lengur en eitt ár, eða til 31. ágúst 1968. En þá mætti gera annars ráð fyrir því, að eigi minna en hálfs árs sérstakar rannsóknir gætu gefið viðhlítandi upplýsingar um hinn raunverulega ársvinnutíma bóndans og skylduliðs hans. Var því hlutazt til um það, að gerð yrði sú breyting á 7. gr. l. nr. 101/1966, sem nú hefur verið samþ. á Alþ., að verðlagsgrundvöllur sá, er nú væri gerður, skyldi eigi gilda nema í eitt ár. Hefur þessi lagabreyting átt þátt í því, að störf yfirnefndar hafa tekið lengri tíma en ella, þar sem rétt þótti, að hún væri lögtekin áður en endanlega væri gengið frá verðlagsgrundvellinum. Með skírskotun til nefndra atriða og með hliðsjón af því, að hér verður um eins konar bráðabirgðaverðlagsgrundvöll að ræða, þar sem svo stendur á, eins og áður er fram tekið, að eigi er unnt, að áliti meiri hl., vegna skorts á gögnum að tilfæra ársvinnutíma bóndans, taldi meiri hl. yfirnefndar, HG og ÁV, rétt að hagga eigi í neinum meginatriðum við þeim grundvelli, sem Sexmannanefnd var sammála um haustið 1966 að byggja verðlag landbúnaðarafurða á, en um mörg þeirra atriða, er áður hefur verið samið um að leggja til grundvallar, deila fulltrúar framleiðenda og neytenda, enda er það mála sannast, að mörg þeirra hvíla eigi á traustum grunni, þó draga megi ýmsar líkur af þeim upplýsingum, sem fyrir hendi eru. Hins vegar verður að gera ráð fyrir því, að þegar nægileg gögn eru fengin til ákvörðunar á ársvinnutíma bóndans og skylduliðs hans, er rannsókn samkv. 8. gr. l. nr. 101/1966 hefur farið fram, til upphafs næsta verðlagstímabils, komi einnig skýrar í ljós ýmis önnur undirstöðuatriði, sem varða verðlag landbúnaðarafurða, er gefi þá fullt tilefni til þess, að rækileg heildarendurskoðun verðlagsgrundvallarins fari fram.

Í þessu sambandi virðist réttmætt að vekja athygli á því, hvort eigi sé þá einnig ástæða til að taka í lög heimild til þess, að setja megi einhverjar skorður við of snöggum sveiflum milli framleiðslu sauðfjárafurða annars vegar og mjólkurafurða hins vegar. Væri þá og jafnframt tækifæri til að íhuga, hvort það sé þjóðhagslega hagkvæmt, að afurðaverðið eitt sé talið einhlít leið til þess að bændur fái þær tekjur af búum sínum, sem að virðist stefnt með ákvæðum l. nr. 101/1966. Þegar framangreind atriði voru virt, ákvað meiri hl. yfirnefndar, eins og áður hefur verið vikið að, að byggja í meginatriðum á síðasta verðlagsgrundvelli. Hefur bússtærð samkv. því verið haldið óbreyttri. Með vísun til þessarar afstöðu hefur meiri hl. yfirnefndar, HG og ÁV, talið rétt að gera eigi aðrar breytingar á gjaldalið verðlagsgrundvallarins en þær, að fjárhæð nokkurra liða hefur vegna verðbreytinga verið færð til samræmis við framreikning Hagstofu Íslands, er gerður var í ágústmánuði s.l. af þeim sömu gjaldaliðum. 2. meiri hl., HG og IT, samþykkti að hækka vexti af stofnlánasjóðslánum úr 5.5% í 6.6%, en það telur Búnaðarbanki Íslands vera meðalvexti af þessum lánum miðað við árið 1966. Meiri hl. yfirnefndar, HG og ÁV, taldi rétt, að liðurinn laun bónda stæði áfram óbreyttur. Hafði Sexmannanefnd haustið 1966 gengið þannig frá honum, að við þann lið í grundvellinum haustið 1965, sem þá var ákveðinn með brbl., var bætt kauphækkunum, er orðið höfðu frá haustinu 1965 til haustsins 1966, miðað við 1. Dagsbrúnartaxta. Leiðir sama viðmiðun á tímabilinu 1. sept. 1966 til jafnlengdar 1967 eigi til hækkunar á þessum liðum. En framvegis, þegar ársvinnutíminn verður tilfærður samkv. 2. mgr. 4. gr. l. nr. 101/1966, skal virða vinnutíma til samræmis við kaupgjald eins og það er í upphafi hvers verðlagstímabils.

Við ákvörðun tekjuliðar framleiðslugrundvallarins var samstaða um það, að við sama stæði um magn mjólkurafurða, en meiri hl., HG og ÁV, réð úrslitum um það, að sama skyldi gilda um afurðir af sauðfé. 2. meiri hl., HG og IT, samþykkti, að liðurinn heimanotuð mjólk stæði óbreyttur og samþykkti einnig nokkra lækkun á áætluðum tekjum af aukabúgreinum og launatekjum utan bús.

Vegna breytingar þeirrar, er varð á gengi íslenzkrar krónu nú í nóv., þegar hartnær þrír mánuðir voru liðnir frá upphafi verðlagstímabilsins, þykir rétt að geta þess, að framangreindir liðir verðlagsgrundvallarins eru að sjálfsögðu miðaðir við þær aðstæður og það verðlag, sem þá var búið við. Hins vegar er það eins og á stendur löggjafaratriði, hvernig mætt verði þeim nýju viðhorfum, sem gengisbreytingin veldur á þeim hluta verðlagstímabilsins, sem ekki er enn liðinn.

Loks er að geta þess, að ákvörðun um verðlag á ull og gærum var einnig af hálfu Sexmannanefndar skotið til yfirnefndar. Um þessi atriði fékk yfirnefndin gögn um söluhorfur og eftir að gengisbreytingin var komin á, kannaði hún einnig fáanleg gögn til þess að geta gert sér grein fyrir því, hver gengishagnaður yrði af ull og gærum og hvert yrði sennilegt útborgunarverð þeirra. Voru yfirnefndinni og flutt þau skilaboð frá ríkisstj., að ákveðið hefði verið, að allur gengishagnaður af landbúnaðarafurðum rynni til landbúnaðarins, fyrst og fremst til verðuppbótar á ull og gærum af framleiðslu verðlagsársins 1967 og 1968. Verð á nefndum framleiðsluvörum var ákveðið með tilliti til þessa.

Reykjavík, 1. desember 1967,

Hákon Guðmundsson.

Samþykkur: Árni Vilhjálmsson.“

„Til viðbótar þeim upplýsingum, sem fram koma í framanskráðri grg. oddamanns yfirnefndar, vil ég undirritaður taka fram, að ég tel niðurstöðu úrskurðarins í heild brot á því ákvæði framleiðsluráðslaganna, að verðlagning landbúnaðarvara skuli við það miðast, að heildartekjur þeirra, sem landbúnað stunda, verði í sem nánasta samræmi við tekjur annarra vinnandi stétta. Veigamestu ástæður þess, að bændur geta ekki náð því tekjujafnrétti við aðrar stéttir, sem lög gera ráð fyrir, tel ég þessar:

1. Vinnuliðurinn er ekki metinn samkv. upplýsingum búreikninga og vinnumælinga. Sé miðað við meðaltekjur viðmiðunarstéttanna 1966, ætti launaliðurinn að vera ca. 22% hærri.

2. Magn kjarnfóðurs er stórlega vanreiknað í grundvellinum. Sama er að segja um áburðarmagn. Og rökstuddum óskum bænda um leiðréttingu á vélakostnaðarliðum er ekki sinnt.

3. Flutningskostnaðarliðurinn er ekki í samræmi við afurðamagn búsins og rekstrarvöruþörf.

4. Vextir eru vanreiknaðir.

5. Afurðir af sauðfé eru ofreiknaðar og enn fremur garðávextir.

Ýmsar fleiri veilur tel ég, að finnist í verðlagsgrundvelli þeim, sem yfirnefnd skilar nú, þótt ég geri það ekki að þessu sinni að nánara umræðuefni.

Ingi Tryggvason.“

Þannig hljóða nú þessar greinargerðir.

Ég tel mig hér að framan hafa rökstutt það, að full ástæða sé fyrir því að komast fram hjá Sexmannanefnd og yfirdómi landbúnaðarvara með það verkefni, sem þetta frv. felur í sér, að framkvæma skuli. Ég sýndi einnig fram á, að þar sem hæstv. ríkisstj. er þegar búin að ráðstafa gengishagnaði af útfluttum landbúnaðarvörum til að borga niður kindakjöt á innlendum markaði, beri að skila gengishagnaðinum til Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Það hefur einnig komið fram hér að framan, að rökstuðningur oddamanns yfirdóms fæli það í sér, að fjármagn eftir öðrum leiðum, sem ekki kemur fram gegnum búvöruverðið á sama hátt og samið var um í fyrra, hlyti nú einnig að koma til, þar sem það hafi verið hluti af búvöruverðinu síðasta verðlagsár.