01.04.1968
Efri deild: 79. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í C-deild Alþingistíðinda. (2206)

58. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, kveður á um það, að stofna skuli tæknideild við Fiskveiðasjóð Íslands, sem hafi það hlutverk með höndum að veita útvegsmönnum upplýsingar um skip, vélar, tæki og annan útbúnað varðandi fiskiskip og togara. Verkefni tæknideildarinnar á einnig að vera það að safna gögnum um reynslu og notagildi og annað, sem máli skiptir í þessum efnum. Það fer ekki milli mála, að með hliðsjón af þeim tækni- og vísindalegu framförum, sem átt hafa sér stað á undanförnum árum, verður að telja nauðsynlegt, að slík starfsemi eða þjónusta, sem hér er lagt til að komið verði á fót, sé fyrir hendi og að almenningur eigi þess kost að eiga þar greiðan aðgang að. Um það munu flestir sammála. Hins vegar er það álit n., eins og fram kemur í nál. á þskj. 465, að réttara sé að ná þessu marki á annan veg en hér er lagt til.

Auk þess sem n. hefur rætt mál þetta á fundum sínum, sendi hún málið til umsagnar til þeirra aðila, sem málið snertir sérstaklega og hér eiga mestra hagsmuna að gæta. Þar er fyrst að geta þess, sem fram kemur í umsögn fiskveiðasjóðs, en við þá stofnun er samkv. frv. þessu gert ráð fyrir, að umræddri tæknideild verði komið á fót, þar segir m.a., að í grg. fyrir þessu frv. gæti nokkurs misskilnings um, hver háttur hafi verið á hafður af hendi fiskveiðisjóðs við undirbúning skipabygginga, og er vísað í því sambandi í grg. frá skipaskoðunarstjóra, þar sem fjallað er um starfsemi hans fyrir sjóðinn, eins og henni hafi verið háttað um allmörg undanfarin ár. Kemur þar fram, að skipaskoðunarstjóri hefur samkv. beiðni fiskveiðasjóðs athugað samninga um smíði fiskiskipa, smíðalýsingar og fyrirkomulag teikninga á allri nýsmíði fiskiskipa, jafnt þeirra, sem byggð hafa verið innanlands sem utan. Á s.l. 8 árum hefur skipaskoðunarstjóri þannig látið fiskveiðasjóði í té um 200 slíkar umsagnir og hafa þær náð yfir ýtarlegar athuganir á samningum, smíðalýsingum og fyrirkomulagsteikningum. Hafa þar verið gerðar aths., bæði við verð skipanna og einnig tæknileg atriði, eftir því sem tilefni hefur gefizt til. Í þessum umsögnum skipaskoðunarstjóra telur stjórn fiskveiðasjóðs að komið hafi fram fjöldi till. um endurbætur á skipunum og ábendingar um margt, sem betur mátti fara en smíðalýsingar og teikningar höfðu gefið tilefni til. Þá skýrir stjórn fiskveiðasjóðs frá því, að snemma á s.l. ári hafi fiskveiðasjóður komið á samvinnu við Fiskifélag Íslands, sem þá hafi komið á fót nokkurri leiðbeiningastarfsemi og vísi að tæknideild við stofnunina. Með þeirri samvinnu telur fiskveiðasjóður, að hann hafi gerzt aðili og tryggt tækniþjónustu, sem fullnægi þörfum sjóðsins, og jafnframt stuðlað að því, að slík þjónusta sé fyrir hendi fyrir útgerðina almennt.

Í umsögn Landssambands ísl. útvegsmanna segir, að samtökin telji mjög nauðsynlegt, að fyrir hendi sé tæknideild, sem veitt geti útvegsmönnum ýmsar upplýsingar og þá þjónustu, sem frv. þetta gerir ráð fyrir. Það er hins vegar álit L.Í.Ú. eins og stjórnar fiskveiðasjóðs, að frekar beri að efla þá tæknideild, sem komin sé upp hjá Fiskifélagi Íslands, en að stofna sérstaka tæknideild við Fiskveiðasjóð, eins og frv. gerir ráð fyrir.

Eins og fram kemur í nál., er sjútvn. sammála um afgreiðslu málsins. Þó skal það tekið fram, að tveir nm. hafa fyrirvara varðandi afgreiðslu málsins og munu, ef þeir telja ástæðu til, gera frekari grein fyrir afstöðu sinni. N. er sammála flm. um nauðsyn aukinnar tækniþjónustu, en hún telur, að því marki verði auðveldast að ná með því að auka og efla tæknideild Fiskifélags Íslands.

Ég vil því, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að málið verði afgreitt með þeirri dagskrártill., sem fram kemur á þskj. 465.