31.10.1967
Efri deild: 10. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í C-deild Alþingistíðinda. (2215)

31. mál, byggingasamvinnufélög

Flm. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég vil nú mjög þakka hæstv. ráðh. fyrir niðurlagið á hans ræðu, þar sem hann lofaði því, að það frv., sem hér um ræðir, verði tekið til vinsamlegrar athugunar ásamt öðrum þeim leiðum, sem til greina koma í þessu máli. Og fyrir mér er það vissulega aðalatriðið í þessu sambandi, að frv. fái vinsamlega athugun og þá afgreiðslu, sem ég óskaði eftir og bað um í fyrstu ræðu minni hér.

Viðkomandi því, að skapazt hafa biðraðir hjá húsnæðismálastjórn og fjármagn er nú ekki til, til þess að afgreiða þær og það sé ekki ný saga, er það vissulega rétt hjá hæstv. ráðh. Það hefur sjálfsagt mjög sjaldan verið þannig ástatt hér, að hægt væri að uppfylla allar þær umsóknir, sem borizt hafa. En hann vildi hugsa gott til þess, eftir því sem mér fannst, að honum hafði bætzt nýr liðsmaður í sinni baráttu við það að hafa alltaf nægilegt fjármagn til húsbygginga. Ég vil í því sambandi, án þess að ég ætli að fara að gera þetta að neinu stóratriði, aðeins minna á það, að núv. löggjöf um húsnæðismálastjórn er sett á þeim tíma, þegar Framsfl. var í stjórn. Þegar Framsfl. var í stjórn ásamt fleirum, voru í fyrsta skipti teknir upp sérstakir tekjustofnar byggingarsjóðs, þar sem var skyldusparnaðurinn, og mér vitanlega hefur aldrei staðið á framsóknarmönnum að ljá þessu máli lið, þannig að hæstv. félmrh. þarf ekki að koma áhugi okkar í því efni á óvart.