23.11.1967
Neðri deild: 21. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í C-deild Alþingistíðinda. (2233)

48. mál, loðdýrarækt

Flm. (Jónas Pétursson) :

Herra forseti. Mér kom nú ekkert á óvart afstaða hv. 5. þm. Vesturl. gegn þessu máli, því hann var sá af alþm. á síðasta kjörtímabili, sem harðast beitti sér á móti samþykkt þessa frv. hér. Ég skal ekki fara út í miklar deilur við hann. Ég vil þó drepa á aðeins örfá atriði, sem fram komu hjá honum.

Hann sagði, að þessi atvinnugrein hefði verið deyjandi atvinnuvegur, um það leyti sem minkaeldi var hætt eða það var bannað hér fyrir um það bil hálfum öðrum áratug. Ég held, að þetta sé ekki rétt hjá honum. Það er að vísu alveg rétt, að flest þessara búa og flestar þær tilraunir, sem gerðar höfðu verið, höfðu gefið heldur lélega raun. En ég veit a.m.k. örugglega um eitt bú, sem þá var komið yfir þessa örðugleika, var búið að tileinka sér þá þekkingu, sem þurfti til þess að reka minkaeldið, og farið að hafa af þessu góðar tekjur. Okkur þarf ekkert að undra það, þótt það eigi sér stað í upphafi við nýja atvinnugrein margs konar mistök. Við þekkjum það allt of vel og það jafnvel þótt ekki sé um nýjar atvinnugreinar að ræða. Þetta er sífellt að gerast í okkar atvinnumálum því miður. En það er enginn vafi á því, að því lengur sem við stundum þær, því færri verða mistökin. Og það er mjög ólíku saman að jafna nú að því leyti, að hin almenna þekking, t.d. bara hjá nágrönnum okkar á Norðurlöndum er nú orðin mikil og nærtæk um það, hvernig þarf að standa að þessari framleiðslu.

Hv. þm. sagði, að nú væri risin mikil alda áhuga og skilnings fyrir náttúruvernd. Þetta er mikið rétt, og það er að vissu leyti síður en svo ástæða til þess að harma það. En þó verð ég að segja, með allri virðingu fyrir náttúruvernd, þá þurfum við þó fyrst og fremst að gæta þess, að við þurfum að lifa í landinu og hagnýta gæði þess, hagnýta þau að vísu ekki þannig, að við eyðum þeim um leið, heldur hagnýta þau þannig, að þau verði landsins börnum sem mest lifibrauð og til sem mestrar farsældar. Hann sagði, að við ættum ekki að endurvekja þær hættur, sem steðja að íslenzkri náttúru, með því að flytja inn að nýju mink til að rækta í búrum. Ég kom aðeins að því áðan í sambandi við þá umsögn, sem forstjóri náttúrufræðistofnunarinnar sendi hv. landbn. á sínum tíma, að það má mjög deila um það, hvað mundi gerast, ef einstaka dýr mundi sleppa, sem mér dettur ekki í hug að sverja fyrir, að gæti ekki átt sér stað, síður en svo. Hins vegar tel ég, að það sé of mikið gert úr þeim hættum og alls ekki hægt að draga ályktanir af því, hvernig tókst til með þá tilraun, sem gerð var hér áður. Það er allt önnur og meiri þekking, sem nú er til staðar á því, hvernig þarf að standa að þessum málum.

Þá sagði hv. 5. þm. Vesturl., að allir náttúruverndarmenn mundu mótmæla enn frekar en áður. Um þetta skal ég ekkert segja, en ég fæ ekki séð rökin fyrir því, ég verð að játa það, ég fæ ekki séð rökin fyrir því, — nema það væri enn þá síður, einmitt vegna þess, sem ég var hér að drepa á, þeirrar nauðsynjar, sem er okkar þjóðfélagi að skjóta fleiri stoðum undir okkar efnahagslíf og fjölga okkar framleiðsluþáttum. Hv. þm. sagði, að ég hefði í raun og veru dregið mjög úr þessu með því að benda á það, að nú væri mikið verðfall á minkaskinnum í heiminum, á svipaðan hátt og gerðist yfirleitt á okkar framleiðsluvörum. Það er mikið rétt, að við búum núna við viðskiptaverðfall, og það hefur einnig orðið á þessari framleiðslu, minkaskinnum. En það er alls ekki þar með sagt, að þetta hljóti ætíð svo að vera, að allir þættir okkar framleiðslu hljóta að lenda í verðfalli í senn, og ég tel það vera minni líkur, því minni líkur sem við höfum fleiri framleiðsluþætti.

Þetta voru helztu atriðin, sem ég vildi taka fram. Það er alger misskilningur hjá hv. þm., að við flm. höfum verið eitthvað feimnir við að nefna minkinn. Og ég vil nú benda á það, af því að það er ein af þeim fáu breytingum, sem í þessu frv. eru, að við höfum lengt reynslutímabilið, sem var í því frv., sem lá hér fyrir áður, aðeins 2 ár, upp í 4 ár, og það er einmitt mikilvægt atriði, sem ég skal játa, að því meir sem ég hugsa um þetta mál, hef ég talið, að sá tími væri ekki of langur, að væri nauðsynlegt að hafa nokkur ár til þess að skapa hér þennan reynslutíma. Ég er nú ekki meiri ævintýramaður í mér en þetta, hvað sem hv. þm. heldur um það. Og við höfum undirstrikað það í þessu frv. að fara að þessu með allri gát, án þess að það dragi á nokkurn hátt eða beri á nokkurn hátt merki þess, að við höfum ekki trú á því, að þessi framleiðsla geti orðið okkur til stórfelldra hagsbóta.