13.11.1967
Efri deild: 15. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í C-deild Alþingistíðinda. (2247)

39. mál, togarakaup ríkisins

Flm. (Gils Guðmundsson) :

Herra forseti. Frv. það um togarakaup, sem hér er flutt, er samhljóða frv., sem við þm. Alþb. hér í þessari hv. d. fluttum á þinginu í fyrra.

Það frv. var svæft í n., og þau hafa orðið örlög allra þeirra frv. og till. um endurnýjun togaraflotans, sem við Alþb.-menn höfum flutt á hverju þingi allt síðasta kjörtímabil. Hæstv. ríkisstj. og hv. þm. stjórnarflokkanna hafa sýnt þessu stórmáli, íslenzkri togaraútgerð og endurnýjun togaraflotans, þvílíkt tómlæti, að ég á engin orð yfir það. Oftast nær hafa virðulegir þingfulltrúar meiri bl. og hæstv. ráðh. steinþagað, þegar við höfum mælt fyrir frv. okkar og till. um málefni togaranna, og síðan verið einkar samtaka um að grafa frv. okkar og till. í nefndum.

Undir lok síðasta þings voru þó uppi af hálfu hv. stjórnarsinna nokkrir tilburðir varðandi þessi efni, varðandi tillögugerð um endurnýjun togaraflotans. Þetta var líka undir lok síðasta þings fyrir kosningar. Og hæstv. sjútvmrh. gaf þá hér á Alþingi yfirlýsingu um þessi mál fyrir ríkisstj. hönd, og mun ég koma að þeirri yfirlýsingu síðar. Ég vænti þess, að hæstv. sjútvmrh. sjái sér fært að verða við umr. um þetta mál.

Í grg. fyrir því frv., sem hér er til umr., er að finna nokkurt yfirlit um það, hvernig íslenzkur togarafloti hefur a.m.k. þrívegis verið í allra fremstu röð um búnað og veiðihætti. Í grg. er á það bent, að íslenzkir togarasjómenn voru löngum hinir vöskustu og fengsælustu, sem um getur. Í grg. er það enn fremur rakið, hvernig togarafloti landsmanna reyndist hvað eftir annað, ekki sízt á örðugum tímum, einhver traustasta máttarstoð sjávarútvegs og færði þjóðinni allri ómetanlega björg í bú. Í grg. eru enn fremur leidd rök að því, að svo framarlega sem við Íslendingar ætlum á komandi tímum að nytja öll þau fiskimið, sem okkur hafa verið og okkur geta orðið tiltæk, verður það ekki gert til hlítar án þess að gera út togara. Og það er einnig á það bent í grg., að slíkt verður ekki gert, án þess að við komum okkur upp flota togskipa af nýrri gerð, þar sem nútímatækni er hagnýtt, þar sem vinnuhagræðingu verður við komið, þar sem skilyrði eru sköpuð til að stórbæta meðferð aflans og auka verðmæti hans. Ekkert af þessu, sem allt er rakið nokkuð ýtarlega í grg., tel ég ástæðu til að endurtaka í einstökum atriðum hér.

Rekstur íslenzkra togara hefur verið miklum örðugleikum háður nú um áratugaskeið eða vel það. Ástæðurnar eru margar: Lokun fiskimiða, sem áður voru tiltæk og togurum mikilvæg á vissum tímum árs. Aukin samkeppni við erlenda togara og minni fiskgengd en áður á þau mið við Ísland, Grænland og Nýfundnaland, sem togarar okkar hafa einkum sótt á. Þó hefur verið nokkur áramunur á aflabrögðum, eins og einatt vill verða, og undanfarið ár eða þar um bil hefur togaraafli glæðzt nokkuð aftur, og hann mun á þessu ári ekki minni á skip en hann var fyrir svona 10–12 árum. Stóraukin verðbólga innanlands og margvíslegur hækkaður útgerðarkostnaður, sem af henni hefur leitt, á að sjálfsögðu ríkan þátt í versnandi afkomu togaraflotans. Enn er þó ótalið það, sem ef til vill veldur mestu og ráðið hefur úrslitum um þá þróun, sem hér hefur orðið, að því er varðar togaraútgerð. Við höfum setið uppi með gamla og að flestu leyti nú orðið úrelta togara, á sama tíma sem stórfelldar framfarir hafa orðið annars staðar, að því er snertir smíði slíkra skipa, útbúnað þeirra og annað í sambandi við togararekstur. Margar aðrar fiskveiðiþjóðir hafa hlýtt kalli tímans í þessum efnum og komið sér upp stórum, nýtízku togaraflota, auk þess sem þær hafa a.m.k. sumar hverjar lagt á það verulegt kapp og hagað sér ólíkt og við að því leyti að auðvelda togurum reksturinn. Meðan þessu hefur farið fram hjá keppinautum okkar á sviði fiskveiða, hefur íslenzk togaraútgerð verið að veslast upp. Skipin hafa ýmist verið seld úr landi fyrir sáralítið verð eða þau hafa verið látin ryðga niður í höfnum. Engin endurnýjun hefur átt sér stað, ekki gerð ein einasta tilraun með skuttogara af nútímagerð. Afleiðingin hefur orðið sú, að togurum okkar hefur á valdaskeiði núverandi hæstv. ríkisstj. fækkað snöggt um meira en um helming, og þau fáu skip, sem enn eru gerð út, eru flest eða öll rekin með miklu tapi, enda eru skipin, eins og ég áðan sagði, mannfrek, dýr í rekstri og uppfylla ekki þær kröfur, sem gerðar eru til fyrsta flokks togskipa í dag.

Þessi öfugþróun í útgerðarmálum íslenzkra togara hefur átt sér stað nú um áratugs skeið eða vel það, án þess að ráðamenn þjóðfélagsins hafi gert neitt teljandi til umbóta í þessu efni. En þegar á það er litið, hvílík máttarstoð togaraflotinn var árum saman íslenzku þjóðarbúi, og þegar það er jafnframt haft í huga, hvers vel búinn, nýtízku togarafloti væri megnugur, hlýtur sinnuleysi þeirra, sem með völdin hafa farið og hafa horft upp á þessa þróun án þess að hreyfa svo að segja hönd eða fót — hlýtur það sinnuleysi að vekja hina mestu furðu. Nefndir hafa að vísu verið skipaðar til að fjalla um vandamál togaraútgerðar. Þær n. eru víst fleiri en ein og jafnvel fleiri en tvær. Þessar n. hafa samið álitsgerðir og lagt fram till., sumar þeirra a.m.k., — að vísu misjafnlega róttækar og ef til vill misjafnlega raunhæfar till., en frekari árangur en þetta, nál. og tillögugerð, hefur mér vitanlega enginn orðið af þessum nefndarstörfum. Álitsgerðirnar og till. hafa hlaðizt upp á borði sjútvmrh. eða verið holað niður í skúffur, og þar gulna þær, séu þær þá ekki komnar í pappírskörfuna. Í stað þess að taka rekstrar- og endurnýjunarmál togaraflotans föstum tökum, hefur ár frá ári verið gripið til algerlega ófullnægjandi bráðabirgðaúrræða, svo sem lítils háttar rekstrarstyrkja úr ríkissjóði, en látið undir höfuð leggjast að gera þær ráðstafanir, sem varanlegar gátu orðið. Og afleiðingin blasir nú við: síminnkandi floti, að mestu leyti gamalla og úreltra skipa, og undir hælinn lagt, hvenær þeir aðilar, sem gera þessi fáu skip út, gefast einnig hreinlega upp.

Við Alþb.- menn höfum ár eftir ár gagnrýnt hæstv. núv. ríkisstj. og þá stjórnarstefnu, sem hún fylgir, fyrir afstöðu hennar til mikilvægra þátta íslenzks sjávarútvegs. Við höfum hvað eftir annað lagt áherzlu á, að með beinum stjórnarvaldaaðgerðum annars vegar, en afskipta- og skipulagsleysi hins vegar, hlyti ríkjandi stjórnarstefna að sigla útgerðinni í strand. Nú er líka svo komið, að ekki er aðeins um stórfelldan samdrátt og gífurlega örðugleika að ræða að því er togaraútgerðina varðar, heldur er sá hluti bátaflotans, sem lagt hefur stund á þorskveiðar fyrst og fremst, í svipuðum og ekki öllu minni vanda staddur. Þar hefur einnig orðið háskaleg stöðnun og nú síðustu árin stórfelldur samdráttur. Fiskibátar hafa verið að týna tölunni. Öðrum er lagt, þar sem rekstrargrundvöll skortir. Og um endurnýjun fiskibáta af minni gerð, þeirra sem þorskveiðar stunda, hefur alls ekki verið að ræða nú um sinn. Við horfum þess vegna fram á það að öllu óbreyttu, að báðar þær tegundir fiskiskipa, sem borið hafa uppi hraðfrystiiðnaðinn í landinu, línu- og netabátar annars vegar og togarar hins vegar, báðar þessar tegundir fiskiskipa hljóta sömu örlög, að við sitjum uppi með síminnkandi flota, sem eldist með hverju ári, og rekstrargrundvöllurinn sé gersamlega brostinn. Og þessi ömurlega þróun hefur vitaskuld leitt af sér nýjan vanda. Hann er sá, að nú er allur hinn mikilvægi hraðfrystiiðnaður landsmanna stórlega lamaður og í rauninni á heljarþröm. Af um 90 hraðfrystihúsum hefur um það bil 20 hreinlega verið lokað, og mörg hinna, sem enn er haldið opnum, starfa með lágmarksafköstum. Og nú hefur það verið boðað, að svo framarlega sem rekstrargrundvöllur verði ekki stórbættur, muni öllum hraðfrystihúsum á landinu skellt í lás um áramót, við upphaf vetrarvertíðar.

Ástæðurnar til þess, að rekstrargrundvöllur hraðfrystiiðnaðarins virðist nú brostinn, eru að sjálfsögðu margar. Óhagstæð verðlagsþróun undanfarin ár hér innanlands, lækkað útflutningsverð nú um sinn, skipulagslaus og hóflaus fjölgun fiskverkunarstöðva, allt á þetta sinn þátt í því, hvernig komið er. En stærsti bölvaldurinn er þó áreiðanlega ótalinn. Hann er sá, að fiskiskipaflotinn, sá floti, sem hefur það hlutverk að draga aflann úr djúpi hafsins og færa hann á land, hefur verið að hraðminnka. Það hefur verið látið viðgangast, að mörg stórvirkustu veiðiskipin væru seld úr landi, án þess að neitt kæmi í þeirra stað. Og þau skip, sem eftir eru í eigu landsmanna, jafnt togarar sem fiskibátar, hafa svo bágan rekstrargrundvöll, að mörgum þeirra er lagt, önnur gerð út skamman tíma á ári hverju, en þeir útgerðarmenn, sem enn eru að reyna að halda hörkunni og gera út, búa sig margir hverjir undir að leggja fleytum sínum við festar.

Hafi menn verið í einhverjum vafa um, að skortur á nægu og góðu hráefni væri hraðfrystiiðnaðinum mestur fjötur um fót, tel ég, að sönnun fyrir því hafi verið lögð upp í hendurnar á okkur núna alveg nýlega. Fyrir um það bil viku átti Stefán Jónsson fréttamaður einkar fróðlegt viðtal við nokkra Hornfirðinga, þ. á. m. við kaupfélagsstjórann á Höfn í Hornafirði, en kaupfélagið þar á og rekur hraðfrystihúsið á staðnum. Í viðtali þessu kom fram, að frystihúsið á Höfn í Hornafirði hefur getað starfað með eðlilegum afköstum mestallt árið nú um nokkuð langt skeið og yfirleitt hefur það fengið góðan fisk til vinnslu. Og þetta hraðfrystihús hefur ekki aðeins borið sig, heldur hefur það greitt fiskseljendum eins konar ágóðahlut, þ. e. 7–8% uppbót á fiskverð, og kaupfélagsstjórinn sagði, að þrátt fyrir allt gerði hann sér vonir um, að rekstrarafkoma frystihússins á þessu ári yrði ekki verri en það, að hægt yrði að greiða föstum viðskiptavinum einhverja uppbót, þótt ekki lægi neitt fyrir um það að svo stöddu, hversu mikil hún gæti orðið. Þessi reynsla frystihússins í Höfn virðist sanna það, að þar sem saman fer góður rekstur og nægilegt hráefni, sem dreifist nokkuð jafnt á árið, er þrátt fyrir ýmsa erfiðleika grundvöllur til að reka frystihús taplaust jafnvel með hagnaði. Mér finnst ástæða til að rifja þetta upp, ekki sízt til þess að leggja áherzlu á, að hráefnisöflunin er vitanlega alger forsenda þess, að hraðfrystiiðnaður geti þrifizt og hraðfrystihús verði rekin. Sé hráefnisöflunin ekki í lagi, ef fiskur berst aðeins með höppum og glöppum, en stórar eyður eru á milli, eru þau frystihús, sem þannig er ástatt um, dæmd til þess að vera rekin með tapi, og það tap er vitanlega þeim mun meira sem meira skortir á, að þessi stórvægilegi liður, hráefnisöflunin, sé í lagi.

Ég sagði áðan, að við Alþb.-menn höfum oft og lengi gagnrýnt hæstv. núv. ríkisstj. fyrir dæmafátt tómlæti og afskiptaleysi af mörgum mikilvægum málefnum sjávarútvegsins. Við höfum bent á það, bæði fyrr og síðar, að sú stjórnarstefna gagnvart sjávarútvegi, sem hér hefur verið rekin um langt skeið, hlyti að verða örlagarík og háskaleg og koma þessum mikilvæga atvinnuvegi á kaldan klakann. Við höfum lagt á það áherzlu, að einungis með því að taka upp gjörbreytt vinnubrögð og viðhorf, með því að taka upp stefnu, sem við höfum kallað markvissa framleiðslustefnu, yrði hægt að snúa hjólinu við. Við höfum sagt, að einungis með skipulegri uppbyggingu og endurnýjun allra þátta útvegsins, svo og margvíslegum stjórnvaldaráðstöfunum, sem tryggðu eftir föngum full afköst og hallalausan rekstur þessa langsamlega mikilvægasta útflutningsatvinnuvegar okkar, — einungis með slíkri heildarstefnu og slíkum samræmdum aðgerðum yrði hægt til frambúðar að efla hag og afkomu útvegsins og þar með þjóðarinnar allrar. En að því er tekur til stjórnarvalda og stuðningsliðs þeirra hér á hinu háa Alþingi, finnst mér, að við höfum talað fyrir heldur daufum eyrum. Þar hefur því miður hentistefnan og fátækleg bráðabirgðaúrræði ráðið meiru en góðu hófi gegndi, með þeim afleiðingum, sem nú blasa við.

Eins og ég sagði í upphafi þessa máls, höfum við Alþb.-menn m.a. á hverju þingi allt síðasta kjörtímabil flutt þáltill. og frv., sem fjölluðu um ráðstafanir til að hefja endurnýjun togaraflotans, þar sem nútímamöguleikar um togarasmíði og togaraútgerð væru prófaðir og hagnýttir við íslenzkar aðstæður. Af hálfu hæstv. ríkisstj. og fylgismanna hennar hér í þingsölunum hefur þessum málum lengst af verið býsna lítið sinnt. Till. okkar og frv. hafa undantekningarlaust farið til 2 umr. og n., oftast án þess, að hæstv. ráðh. eða hv. stjórnarþm. sæju ástæðu til að segja um málið aukatekið orð. Í n. hefur síðan alltaf gerzt sama sagan. Þar hafa þessi þingmál okkar um endurnýjun og bættan rekstrargrundvöll togaranna naumast fengizt tekin til umr., því síður til afgreiðslu. Þar hafa þau verið látin sofna svefninum langa. Það var loks undir þinglok á þriðja þingi síðasta kjörtímabils, sem hæstv. núv. sjútvmrh. sá ástæðu til að ræða dálítið vandamál togaraútgerðarinnar og tilraunastarfsemi í sambandi við ný skip. Hæstv. ráðh. skýrði þá frá því, að hann hefði í hyggju að gera ráðstafanir til þess, að hingað yrði tekinn á leigu um stundarsakir einn skuttogari og hann prófaður við íslenzkar aðstæður. Mér og ég held ýmsum fleirum fannst nú satt að segja, að ekki mætti fyrsta tilraunin til að endurnýja íslenzka togaraflotann lítilfjörlegri vera en þetta. En hæstv. ráðh. var þá nýr í þeim stóli, sem hann hefur setið í síðan, og mér flaug í hug, að ef til vill væri það af tillitssemi við flokksbræður hans og flokksformann, hæstv. núv. utanrrh., sem þá hafði um langt skeið farið með sjávarútvegsmálin, sem hinn nýi sjútvmrh. færi svona ákaflega stillt af stað. Annars kynnu mönnum að þykja viðbrigðin heldur snögg og áberandi um of, hvílíks tómlætis hefði gætt hjá fyrirrennaranum um alla meðferð þessara mála. Ef nú kæmi allt í einu nýr maður í ráðherrastól, hugmyndaauðugur, fullur af eldlegum áhuga og framtakssemi, teldi hann með hliðsjón af fortíðinni réttara, eins og ég sagði, að fara stillt af stað, en síga þeim mun fastar á og láta þannig margt og mikið eftir sig liggja, þegar upp væri staðið. Og vissulega hefði ég getað unnt hinum unga ráðh. þess, að um hann mætti segja í þessu efni sem öðrum, að sígandi lukka væri bezt. Það er engin hræsni, þó að ég segi, að ég hefði kosið að fá tækifæri til þess nú á þessum stað og þessari stundu að þakka hæstv. ráðh. fyrir ötula forgöngu um endurnýjun og uppbyggingu íslenzks togaraflota. En því miður verður það þakklæti að bíða, a.m.k. þangað til hæstv. ráðh. hefur gert grein fyrir afrekum sínum í þessu efni, mér eru þau því miður ókunn. Svo mikið er víst, að árið 1966 leið, án þess að nokkur skuttogari, keyptur eða leigður, flytti afla sinn til íslenzkra hafna.

Árið 1967 gekk í garð. Við Alþb.-menn vorum við sama heygarðshorn og áður, kröfðumst þess af meiri einbeitni en nokkru sinni, að vandamál sjávarútvegsins væru rædd og skoðuð niður í kjölinn í því skyni, að gerðar væru margvíslegar ráðstafanir til þess, að þessi undirstöðuatvinnuvegur yrði rekinn með sem mestri hagkvæmni og sem fyllstum afköstum. Þetta var síðasta þing fyrir alþingiskosningar. Og loks kom að því í marzmánuði á þessu ári, að hinir virðulegu stjórnarliðar hér á Alþingi, þeir sem þagað höfðu þó með sann, mestallt kjörtímabilið, fengu nú málið. Ekki var heldur seinna vænna, réttir 3 mánuðir til kosninga. Athyglisvert var þó, að ekki var það hæstv. ríkisstj., sem fyrst vaknaði af dvalanum, heldur tóku nú einstakir þm. úr stjórnarherbúðunum að nudda stírur úr augum. Ljóst var, að þessum hv. stjórnarþm. fannst aðgerðaleysi ríkisstj. í sjávarútvegsmálum svo yfirgengilegt orðið, að þeir fengu ekki orða bundizt lengur, eins og á stóð. Fyrst báru 3 hv. þm. úr báðum stjórnarflokkunum fram ósköp fróma till., sem þeir gáfu nafnið: „Till. til þál. um athugun á sérstökum ráðstöfunum til endurnýjunar smærri vélbáta og bættum rekstrargrundvelli fyrir þá.“ Það var sízt að ófyrirsynju, þótt hv. stjórnarþm. reyndu að ýta við ríkisstjórn sinni í sambandi við þetta mál. Fyrir um það bil ári hafði n., kjörin af Alþingi, ef ég man rétt, skilað ýtarlegu áliti um rekstrarvandamál hinna smærri fiskibáta og gert till. um margvíslegar ráðstafanir til úrbóta í sambandi við þann rekstur. Þessar till. höfðu síðan verið að þvælast fyrir hæstv. ríkisstj. og efnahagssérfræðingum hennar, án þess að þær, nema þá að mjög óverulegum hluta, hefðu komizt til framkvæmda, og ég veit ekki betur en við það sitji að mestu eða öllu leyti enn í dag. Hæstv. sjútvmrh. leiðréttir mig, ef ég fer hér ekki með rétt mál. En varðandi það atriði, hvort hér var og er þörf úrbóta, þörf sérstakra ráðstafana, leyfi ég mér að vitna til grg. þeirrar, sem fylgir fyrrgreindri þáltill. þeirra hv. stjórnarþingmanna. Sú grg. er mjög fróðleg, og ég vil leyfa mér að lesa hér lítinn kafla hennar, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir, og er 1. mgr. þeirra orða, sem ég les, tilvitnun í 3. tölublað Ægis 1967: „Þróunin undanfarin ár hefur verið á þá leið, að eldri bátarnir af stærðinni 20–120 rúmlestir hafa verið að heltast úr lestinni, og á undanförnum 6 árum hefur fjöldi þeirra, sem strikaðir hafa verið út af skipaskrá, verið sem hér segir: Samt. 101 bátur, 5465 rúmlestir. Endurnýjun á þessari bátastærð hefur verið á þessu 5 ára tímabili 22 bátar, 1624 rúmlestir. Þetta segir sína sögu, og er því miður ástæða til að óttast, að þessi þróun haldi áfram, ef ekkert verður að gert, og hlýtur að stofna fiskvinnslunni í landinu í beina hættu, þar sem vitað er, að einmitt bátar af þessari stærð afla verulegs hluta af því hráefni, sem vinnslustöðvar víðs vegar um land fá til úrvinnslu.“ Enn fremur segir í þessari fróðlegu grg.:

„Ef litið er í Sjómannaalmanakið fyrir þetta ár, kemur í ljós, að aldur vélbáta af umræddri stærð er sem hér segir: 4 ára og yngri: 16 bátar, 5–10 ára 67 bátar, 11–15 ára 83 bátar, 16–20 ára 16 bátar, 21–25 ára 101 bátur, 26 ára og eldri 80 bátar. Samtals eru þetta 363 bátar af stærðinni 20–120 rúml., og sést af þessu, að um helmingur fiskibáta af umræddri stærð er orðinn 20 ára og eldri. Elzti báturinn á skipaskrá um s.l. áramót var frá 1878, er umbyggður 1942, en hann hefur nú á þessu ári verið tekinn úr umferð. Sýnir þetta,“ segir enn fremur, „að full ástæða er til að óttast, að sú þróun, sem verið hefur, haldi áfram, að tala þeirra báta, sem falla burt af skipaskrá, verði mun hærri en tala þeirra nýrra báta, sem við bætast. Á skipaskrá bættist aðeins einn nýr bátur af þessari stærð árið 1966, 2 bátar árið 1965, 4 árið 1964 og 9 árið 1963. Virðist af þessu mega ráða, að nær alger stöðnun sé komin í byggingu fiskibáta af umræddri stærð, þ. e. 20–120 rúml. Hljóta allir að vera sammála um, að þessa óheillaþróun verði með einhverjum ráðum að stöðva.“

Þetta var úr grg. þeirra hv. stjórnarþm., sem ég gat um áðan, og þetta var aðeins byrjunin hjá þeim hv. stjórnarþm. Það mátti, fannst mér, um þá þarna í marzmánuði s.l. segja eitthvað svipað og Alexander Kjelland leggur Worse skipstjóra í munn, þegar Worse skipstjóri lagði skútu sinni að bryggju í heimahöfn eftir langa útivist og stranga og hafði verið talinn af: „Ég kom seint, útgerðarmaður, en ég kem myndarlega.“

Það var miklu meira blóð í kúnni. Hv. stjórnarliðar höfðu nú loksins fengið málið, og þótt seint væri, sáu þeir nú hvarvetna þörfina á því að efla íslenzkan skipaflota og íslenzkan sjávarútveg. Næst tróðu fram með skörulegu yfirbragði 4 hv. sjálfstæðismenn með Pétur alþm. og sjómann Sigurðsson í broddi fylkingar. Nú höfðu þessir ágætu menn komizt að þeirri niðurstöðu, að vísu nokkuð seint á kjörtímabili, að eitthvað þyrfti að gera fyrir togaraútgerðina. Og till. þeirra hljóðaði um endurbyggingu togaraflotans o. fl. Hún var vel rökstudd, eins og vænta mátti, enda var þar hægt um vik, því að við Alþb.- menn höfðum fært fram margvíslegar röksemdir um nauðsyn slíkrar endurbyggingar þing eftir þing. Og nú var skammt stórra högga milli. Í kjölfar þessarar till. fluttu svo 8 hv. Sjálfstfl.-menn í Nd. frv. til l. um fiskimálaráð, mikinn og myndarlegan lagabálk Þetta ráð skyldi hvorki meira né minna en móta heildarstefnu í uppbyggingu sjávarútvegs og í markaðsmálum.

Í ýtarlegri og fróðlegri grg., sem þessu myndarlega frv. fylgdi, voru færð ljós rök að því, að engin heildarstefna í þessum mikilvægu málum sé nú til, þar hafi skipulagsleysið og happa- og glappastefnan ráðið allt of miklu og úr þessu verði nú tafarlaust að bæta.

Meðan þessum till. og frv. þeirra hv. stjórnarþm. rigndi niður, jafnframt því sem almennar umr. urðu hér á þingi um ástand sjávarútvegsmála yfirleitt, fór hæstv. ríkisstj. meira að segja að rumska. Undir umr. hér í þessari d. hinn 10. marz s.l. gaf hæstv. sjútvmrh. svofellda yfirlýsingu, með leyfi hæstv. forseta:

„Mér þykir rétt,“ sagði ráðh., „að nota þetta tækifæri, sem hér gefst, til að lýsa því yfir, að til athugunar er nú hjá ríkisstj., með hvaða hætti bezt verði greitt fyrir kaupum á 3–4 togveiðiskipum af skuttogaragerð. Áætlað er, að skip þessi verði af mismunandi gerðum og stærðum, þannig að sem raunhæfastur grundvöllur fáist undir framtíðarskipan þessara mála varðandi endurnýjun togaraflotans.“

Svo mörg voru þau orð. Skömmu síðar var frá því skýrt, að ráðh. hefði skipað sérstaka n. til að hafa þessa athugun með höndum og gera till. um, hvernig bezt verði að þessum málum öllum staðið. Fyrir kosningarnar í vor var því síðan slegið upp í stjórnarblöðunum, ekki sízt í málgagni hæstv. sjútvmrh., að stjórnin sæti nú ekki aldeilis auðum höndum að því er tæki til endurnýjunar togaraflotans. Þá var óspart vitnað í fyrrgreinda yfirlýsingu og nefndarskipun þessu til sönnunar.

Síðan hæstv, ráðh. mælti hin tilvitnuðu orð hér úr þessum ræðustól, eru nú liðnir 8 mánuðir og þó nokkrum dögum betur Kosningar eru um garð gengnar fyrir 5 mánuðum. Hæstv. ráðh. situr hér enn þá í sama stól og hann sat í fyrir kosningar, og hann á það e.t.v. í og með að þakka fyrirheiti sínu um endurnýjun togaraflotans. Nú vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh.: Hvað hefur verið gert í þessum málum undanfarna 8 mánuði? Hvaða ákvarðanir hafa verið teknar, og hvers er að vænta á næstunni? Um þetta hefur ekkert heyrzt mér vitanlega nú um langan tíma. Ég ætla að spara mér öll stór orð um það, a.m.k. þangað til ég hef heyrt svör hæstv. ráðh. við þessum spurningum mínum. En varðandi till. þær og frv. um vandamál sjávarútvegsins margvísleg, sem hv. stjórnarþm. fluttu undir lok síðasta þings, finnst mér nú alveg tími til þess kominn að fara að lýsa eftir þeim að nýju eða svipuðum frv. Ekkert þeirra mála fékk endanlega afgreiðslu þá, ef ég man rétt. Ég trúi því naumast, að hinn síðborni, en mikli áhugi, sem lýsti sér í öllum þeim málatilbúnaði, sem ég var að lýsa, sé nú rokinn út í veður og vind. Eða finnst flm. þessara mála hagur útvegsins hafa vænkazt svo hina síðustu mánuði, að óþarfi sé þar um að bæta, að þessi mál séu þar fyrir orðin úrelt? Varla getur það verið. Ég vona, að þessi auglýsing mín eftir sjávarútvegsmálatill. hv. stjórnarþm. komist til skila, enda þótt játa beri, að allir þessir áhugamenn áttu á þinginu í fyrra sæti í Nd., hvernig sem á því stóð. Einn flm. tveggja þessara mála er nú kominn hingað til okkar í þessa hv. d., það er sjálfur hæstv. forseti d. Vona ég, að hann geri nú annað tveggja, hnippi í meðflm. sína frá síðasta þingi eða leggi málið fram sjálfur og þá með þeim áhugamönnum, sem hann vill þar til kveðja.

Satt að segja er ferill hæstv. ríkisstj. og hv. stjórnarþm. slíkur í þessum málum sjávarútvegsins öllum nú um mörg undanfarin ár, að ég held, að þeir megi illa við því að láta sannast, að hin snöggvakti áhugi þeirra í marzmánuði s.l. hafi verið kosningavindur einber og ekkert annað.

Það frv., sem hér er til umr., gerir ráð fyrir því, að fyrir forgöngu ríkisins verði keyptir allt að 6 nýir eða nýlegir skuttogarar, a.m.k. af tveim stærðum og gerðum, e.t.v. fleiri, ef ástæða þætti til, svo að sem fyrst Náist nauðsynleg reynsla til að styðjast við og byggja á frekari endurnýjun íslenzks togaraflota. Eftir að slík reynsla væri fengin og hefði gefið jákvæðan árangur, teljum við flm. liggja fyrir að gera nokkurra ára áætlun um endurnýjun togaraflotans, þannig að honum bætist t.d. 4–6 skip hið minnsta á ári. Gerð þessa frv. okkar er sniðin eftir þeirri löggjöf, sem á sínum tíma var sett um kaup nýsköpunartogaranna svonefndu. Ríkið keypti skipin, tók lán til kaupanna að verulegu leyti erlendis. Síðan tóku hinir einstöku kaupendur skipanna við lánum. Sami háttur yrði hafður á nú.

Þar sem hér verður í upphafi um tilraunastarfsemi að ræða, a. m. k öðrum þræði, tilraunastarfsemi, sem á að geta orðið þýðingarmikil fyrir frekari endurnýjun flotans, kemur vissulega til greina, að hið opinbera styrki slíka tilraunagerð í byrjun með einhverjum þeim hætti, sem sanngjarn og eðlilegur má teljast. Við höfum þó ekki séð ástæðu til að setja ákvæði um slíkan fjárstuðning inn í þetta frv., enda er það engan veginn víst, að til beinna styrkveitinga þurfi að koma umfram það, sem felst í sem hagkvæmustum lánum til skipakaupanna og ríkisábyrgð fyrir þeim lánum. Sýni reynslan hins vegar, að frekari fyrirgreiðslu sé þörf, meðan um tilraunastarfsemi er að ræða, teljum við flm. ástæðu til, að það mál verði athugað sérstaklega.

Það er vissulega mál til þess komið að hefjast nú banda um útgerð skuttogara frá íslenzkum höfnum. Þótt rekstur gamalla og að mörgu leyti úreltra togara gangi erfiðlega, megum við ekki láta það draga úr okkur kjark og koma í veg fyrir, að prófað sé, ég vil segja þrautreynt sé hér við okkar aðstæður, hvernig tekst til um útgerð nýtízkutogara. Útgerð fiskibáta gengur einnig erfiðlega nú, og vafalaust þarf að gera ýmsar ráðstafanir til að bæta rekstrargrundvöll íslenzkra fiskiskipa yfirleitt. Það efa ég ekki. En ef við erum þeirrar skoðunar, og ég er það alveg hiklaust, að mörg þau fiskimið, sem við Íslendingar höfum hagnýtt með árangri um langan aldur, verði ekki nytjuð til neinnar hlítar nema með togaraflota, ber okkur að starfa samkv. því. Og ef við erum þeirrar skoðunar, sem ég tel einnig rétta, að botnvörpuveiðar séu í ýmsum tilvikum hagfelldasta veiðiaðferðin, eiga togskip fullan rétt á sér. Sé það sannfæring okkar, og um það er ég fullviss fyrir mitt leyti, að hentugir skuttogarar, sem færir eru um að flytja góðan og óskemmdan fisk að landi, séu öðrum skipum líklegri til mikillar hráefnisöflunar fyrir stór og vel búin hraðfrystihús framtíðarinnar, er það ekkert áhorfsmál, að þessa tegund útgerðar ber okkur að prófa og efla, ef hún reynist eins og vonir standa til.

Máli mínu til stuðnings hvað þetta snertir vil ég nú vitna í ummæli nokkurra skipstjóra og útgerðarmanna, sem allir hafa á undanförnum missirum lagt áherzlu á nauðsyn þess, að togaraflotinn verði endurnýjaður. Þessi ummæli sýna, að menn, sem hafa til að bera þekkingu á þessum málum og sumir hverjir a.m.k. hafa kostað kapps um að kynna sér nútímatogskip með öðrum þjóðum, telja, að slík skip eigi brýnt erindi hingað, og þeir eru fúsir til að prófa skuttogara og hagnýta þá hér, ef þeim gefst tækifæri til.

Fyrst vil ég leiða hér sem vitni hinn mikla og kunna aflamann, Halldór Halldórsson skipstjóra á togaranum Maí frá Hafnarfirði. Hann sagði s.l. vor í blaðaviðtali, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég er jafnbjartsýnn á togaraútgerð og þegar ég byrjaði til sjós og allt gekk vel fyrir togurunum. Það er nóg af fiski í sjónum, og við þurfum ekki að hætta við togarana vegna þess, að ekki aflist. En við verðum að fylgjast vel með öllum nýjungum og megum ekki dragast aftur úr, eins og við höfum gert að undanförnu. Við erum ekki einungis að dragast aftur úr við útbúnað skipanna, heldur er líka sú hætta fyrir hendi, að við stöndum uppi vankunnandi í öllum vinnubrögðum um borð í nýtízku togara. Okkur er lífsnauðsyn að búa betur að togaraútgerðinni á öllum sviðum.“ Og Halldór Halldórsson heldur áfram: „Má þar benda á, að óhæfa er, að hver togari þurfi í rauninni að vera leitarskip í hverjum túr. Á þessu sviði er ekkert gert fyrir togarana, þótt reynsla sé fyrir því, að í þau fáu skipti, sem skip hafa verið gerð út gagngert til leitar, hefur árangurinn ekki brugðizt.“

Annar í hópi fremstu og reyndustu togaraskipstjóra okkar, Auðunn Auðunsson, kemst svo að orði í viðtali í sjómannablaðinu Víkingi, með leyfi hæstv. forseta:

„Satt að segja ber ég mjög mikinn kvíðboga fyrir framtíðinni, ef ekki verður fljótlega söðlað um og togaraútgerð endurreist og rekin jafnhliða bátaútgerð. Ég tel fráleitt að gefa úthafið og bolfisksvæðin fyrir norðan og austan og reyndar allt í kringum landið algerlega í hendur útlendinga, sem veiða þar með allgóðum árangri djúpt og grunnt. T. d. má segja, að á miðunum fyrir norðan Ísland séu Englendingar allsráðandi.“

Síðar í viðtalinu segir Auðunn skipstjóri:

„Við verðum að fá okkur ný skip og þá af skuttogaragerð með mikilli sjálfvirkni. Við þurfum tvenns konar togara, eina gerð 500 tonna, sem veiða sérstaklega á heimamiðum fyrir Norður- og Austurlandi, og aðra gerð 1600–2000 tonna fyrir fjarlæg mið og djúpmiðin. Ef við íhugum erfiðleikana í atvinnumálum Norðurlands,“ heldur Auðunn skipstjóri áfram, „sjáum við, að 10 skuttogarar, 500 tonna skip, mundu áreiðanlega bæta þar mikið úr. Ég hef þá í huga að láta skip þessi stunda veiðar á fiskimiðunum fyrir Norðurlandi. Þar er oftast sæmilegur afli frá því í marz og fram í ágúst eða september, og fiska Englendingar á þessum slóðum með góðum árangri, enda eru þeir að heita má einir um hituna þar. Þá er þarna talsverður kafli, sem ekki verður nýttur öðruvísi en af frystihúsunum. Einnig mætti láta skipin veiða fyrir Suður- og Austurlandi, þegar fiskur héldi sig þar. Auk þess gætu svona skip vel farið til Grænlands á vissum árstíma.“ Og þessi kunni togaraskipstjóri heldur áfram: „Úthafsveiðar megum við alls ekki leggja niður. Ísland liggur svo miðsvæðis við fiskimiðum norðurhvels, að við ættum að eiga mesta möguleika af öllum þjóðum til þess að láta þær veiðar bera sig. En við komumst ekki hjá að endurnýja skipaflotann til þess að stunda þær veiðar. Við verðum að fá 1500–2000 tonna skuttogara með fyllstu sjálfvirkni. Frysting með allt að 70 tonna afköstum á sólarhring yrði að vera í skipunum, svo að hægt yrði að taka við aflahrotum, sem oft koma á Grænlands- og Nýfundnalandsmiðum. Aðeins yrði tekið innan úr fiskinum og hann síðan heilfrystur með haus og úrgangurinn unninn. Skipin þyrftu að hafa frystilest, sem tæki a.m.k. 500 tonn af fiski. Meiri fiskur gæti geymzt á sama hátt og nú tíðkast, ca. 200 tonn ísfiskur, þar eð fremur stutt yrði, þar til honum yrði landað. Á þessum skipum þurfa hásetarnir að vera undir þiljum við vinnu sína vegna frostanna. Skipin þurfa líka að vera þetta stór til að geta mætt þeim veðrum, sem oft geisa á þessum slóðum. Þá gefur fiskurinn á Nýfundnalands- og Grænlandsmiðum sig mest til í brælum. Hann leggst þá á botninn, t.d. karfinn, og verður þá að vera hægt að ná honum. Útlendingar stunda þessar veiðar á stórum skipum allt árið með góðum árangri. Þetta þurfum við líka að gera og fara með aflann beint til frystihúsanna, sem vantar tilfinnanlega hráefni.“

Næstan vil ég leiða hér til vitnis Guðmund Jörundsson skipstjóra og útgerðarmann. Í fróðlegu útvarpserindi, sem hann flutti í fyrravetur og síðar birtist í tímaritinu Frosti, kemst hann m.a. að orði á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta :

„Fyrir nokkrum árum hófu Bretar og Þjóðverjar tilraunir með skuttogara, sem búnir voru hraðfrystitækjum, ýmist til frystingar á fiskiflökum eða heilum fiski Við það vannst einkum tvennt. Menn losnuðu við alla skemmdahættu og þurftu ekki að láta skipin sigla að landi með mjög litla farma. Óhætt er að fullyrða, að árangur þessara tilrauna hafi orðið mjög jákvæður, enda er nú svo komið, að öll þau togarafélög, bæði í Bretlandi og Þýzkalandi, sem láta smíða stóra togara, láta smíða þá sem hraðfrystiskip eingöngu. Eðlilegt mætti telja, að við Íslendingar færðum okkur í nyt reynslu stórþjóðanna í þessum efnum og létum smíða skip af svipaðri gerð, en þó nokkru minni fyrir framtíðarrekstur okkar. Sérstaklega yrði að hafa í huga að gera skipin þannig úr garði, að þau hæfðu sem bezt veiðum fyrir innlendan markað. Á ég þar einkum við náin tengsl og viðmiðun við stóru hraðfrystihúsin, sem nú eru naumast starfhæf vegna hráefnaskorts. Sú tegund togara, sem ég tel, að nú muni hæfa bezt íslenzkum aðstæðum, er í aðaldráttum sem hér segir: Skuttogarar 1000–1200 lestir að stærð búnir hraðfrystitækjum fyrir frystingu á hvers konar heilum fiski og afköstuðu þeir á að gizka 35 lestum á sólarhring.“ Síðan lýsir Guðmundur Jörundsson þessari gerð togara nánar, en ég mun ekki fara út í það. Að því búnu víkur hann að annarri tegund togskipa, sem hann telur einnig, að geti átt framtíð hér. Hann segir: „Þá kem ég að annarri gerð togara, sem mjög kæmi til greina, að smíðaðir yrðu. Ættu þeir að geyma aflann ísvarinn og landa honum síðan til vinnslu í hraðfrystihús. Álít ég, að þar komi helzt til greina skuttogarar 500 brúttólestir að stærð með 1000–1200 hestafla aðalvélum búnir hvers konar sjálfvirkni. Lestar skipsins séu sérstaklega við það miðaðar að geta haft allan farm þess í alúminíumkössum og væru þeir fluttir í frystihúsin að lokinni hverri veiðiferð, en aðrir teknir þar í staðinn. Venjulega mundi sparast bæði tími og kostnaður við löndun fisks á þennan veg, að því ógleymdu, að þar yrði um gæðavöru að ræða. Jafnframt skapaðist möguleiki fyrir frystihúsin til að geyma kassafiskinn óskemmdan í kæliklefum 1–2 daga, ef á lægi.“

Það eru mörg fleiri athyglisverð atriði í þessari grein Guðmundar Jörundssonar. Hann bendir á þá miklu breytingu, sem yrði, ef verulegt magn af heilfrystum fiski yrði að miklu eða verulegu leyti undirstaða að rekstri hraðfrystihúsanna. Með þeim hætti mundu skapast möguleikar til fastrar, daglegrar vinnslu, þar sem 1. flokks hráefni væri jafnan eða a.m.k. dögum og jafnvel vikum saman tiltækt. Þá væri hægt í þessum húsum að miða vinnu við hóflegan vinnudag í stað þess, sem nú tíðkast, að oft verður að vinna eftir- og næturvinnu, þegar aflinn berst, en síðan koma langar eyður, þegar ekkert er að gera fyrir starfsfólkið og vélar eru stöðvaðar.

Þá vil ég að lokum vitna til greinar eftir Pál Guðmundsson skipstjóra, sem birtist í vor í sjómannablaðinu Víkingi. Hann ræðir þar um hættuna, sem því er samfara að byggja stöðugt fleiri og fleiri skip, sem eru miðuð við síldveiðar eingöngu. Páll telur, að hægt sé með því að byggja um það bil 500 tonna skuttogara að sameina alla helztu kosti togskips og síldveiðiskips. Hann bendir á ákveðin dæmi þessu til sönnunar og segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Ég læt fylgja þessu spjalli mynd af rúmlega 500 tonna tvíþilja togara, sem reynzt hefur vel sem togskip. Búið er að smíða 8 skip af þessari gerð. Ég hef látið mér detta í hug, að slík skip henti okkur vel. Þetta er skuttogari, sem jafnframt væri fullkomið síldveiðiskip. Þá skal þess getið,“ segir Páll enn fremur, „að Norðmenn eiga tveggja þilja skip heldur stærra en þetta, sem gert hefur verið út á línuveiðar nú á annað ár og reynzt mjög vel. Í sumar kom það með óhemjuafla af Grænlandsmiðum, og aflaðist hann á 400 faðma dýpi. Í viðtali, sem norska blaðið Fiskaren átti við útgerðarmann og skipstjóra skipsins, kemur margt fram, og eru þeir bjartsýnir um útgerð þess. Um meðferð aflans á svona skipi hef ég látið mér detta í hug, að athyglisverð væri aðferð, sem notuð er hjá Bandaríkjamönnum við heilfrystingu á túnfiski og smærri fisktegundum. Það er nýjung í pækilfrystingu í þar til gerðum tönkum, sem hafðir eru á þilfari. Ef þessi aðferð eða önnur svipuð hentar okkur, mætti einnig heilfrysta talsvert af síld, ef verið er á síldveiðum, en á bolfiskveiðum yrði allur fiskur heilfrystur á þennan hátt, jafnvel án þess að vera aðgerður. Þegar þessum afla er landað, er hann settur í frystiklefa verkunarstöðvarinnar og þaðan er hann sendur óunninn eða þíddur með þar til gerðri aðferð, eftir því sem viðkomandi vinnslustöð afkastar hverju sinni. Á svona skip þarf fámenna skipshöfn. Úthaldstími skipsins er ekki eins takmarkaður eins og þegar afli er ísaður. Hjá vinnslustöðvum ætti að hverfa að mestu nætur- og helgidagavinna, en nýting hverrar vinnslustöðvar ætti að geta aukizt, en það gæti þýtt hækkað hráefnisverð til útgerðar og skipshafnar.“

Ég mun nú láta þessum lestri lokið, þótt margt fleira sé athyglisvert í þeim greinum og viðtölum, sem ég hef vitnað hér til.

Að síðustu vil ég leggja á það áherzlu, að endurnýjun togaraflotans er stórmál, sem þolir ekki lengur neina bið. Við höfum raunar beðið allt of lengi með að hefjast handa um slíka endurnýjun. Sú bið hefur áreiðanlega orðið okkur til skaða, og hún er fyrir löngu orðin nokkuð til vansa. Áhugi framsækinna útgerðarmanna og skipstjóra er þegar fyrir hendi í sambandi við slíka endurnýjun togaraflotans. Hér eru til aðilar, sem vilja glíma við það verkefni að gera út nútíma skuttogara, ef þeim verður gert fjárhagslega kleift að eignast slík skip. Alþ. og ríkisstj. á að koma til móts við þessa aðila. Að því ber tvímælalaust að stefna, og það má verja til þess verulegum fjármunum, ef þörf er á, og það er það vafalaust. Að því ber tvímælalaust að stefna, að togaraútgerð geti á ný orðið gildur þáttur í íslenzku atvinnulífi.

Herra forseti. Ég óska þess, að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og sjútvn.