14.12.1967
Efri deild: 33. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í B-deild Alþingistíðinda. (225)

72. mál, ráðstafanir vegna landbúnaðarins í sambandi við breyting á gengi íslenskrar krónu

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta hefur verið samþ. í hv. Nd., en frv. er, eins og sjá má, flutt til þess að opna möguleika fyrir því, að ráðstafanir séu gerðar til þess að fá inn í verðlagið það, sem álitið er rétt að þangað komi vegna gengisbreytingarinnar, verðlag landbúnaðarvara. Yfirdómur felldi úrskurð 1. des. s.l. um verðlagningu á búvöruverði, miðað við það, sem hafði gilt til þess tíma, en eftir 1. des. fara áhrif gengisbreytingarinnar að koma fram, hækkað kaupgjald, hækkaður fóðurbætir, hækkun á olíu og benzíni og fleiri rekstrarvörum. Kaup bóndans kemur sjálfkrafa inn í grundvöllinn, þótt ekkert frv. hefði verið flutt í líkingu við þetta. Það sama má einnig segja um dreifingarkostnaðinn. Hann á að geta komið af sjálfu sér inn í verðlagið. En það er fleira, sem kemur til. Það eru fóðurbætiskaup og fleiri rekstrarliðir, sem ekki hafði verið reiknað með og ekki væri unnt að taka inn í verðlagið fyrr en næsta haust, nema með því að gera sérstakar ráðstafanir til þess. Og samkv. 1. gr. frv. er þessi möguleiki opnaður, sem sjálfsagt er til þess að bændur beri ekki skarðan hlut frá borði.

1. gr. frv. var breytt nokkuð eftir till. eins fulltrúa bænda í Sexmannanefnd, þannig að hagstofan var tekin þar inn og talað um, að þessi breyting skuli gerð eftir að Sexmannanefnd hafi fengið skýrslur og gögn frá hagstofunni. Þessar skýrslur og gögn hefði Sexmannanefnd vitanlega fengið, þótt það væri ekki tekið fram í l., enda er það vitað, að hagstofan hefur nú þegar aflað þeirra gagna, sem nauðsynleg eru um hækkað verð vegna gengisbreytingarinnar. En þetta þarf að liggja fyrir, þegar Sexmannanefnd fer að fjalla um verðlagninguna að þessu leyti. Þá er og gert ráð fyrir því, að ef Sexmannanefnd kemur sér ekki saman, verði málinu vísað til yfirnefndar til endanlegrar lausnar.

Samkv. 2. gr. er kveðið á um það, hvernig nota skuli þann hagnað, sem verður vegna útfluttra landhúnaðarafurða vegna gengisbreytingarinnar, og þar er sagt, að það fé skuli nota í þágu landbúnaðarins eftir ákvörðun landbrh. Það var að þessu fundið í hv. Nd. af nokkrum hv. þm., að gefa landbrh. þetta vald. En þess ber að geta, að þetta frv. er samið og því hefur verið breytt í mörgum atriðum í samráði við fulltrúa bænda, Stéttarsambandsins og fulltrúa bænda í Sexmannanefnd. Þegar frv. var flutt, stóð ég í þeirri meiningu, að það væri í samræmi við vilja og óskir bænda, og ég held, að óhætt sé nú að segja, að það sé það. Enda þótt það sé í þessu formi og enda þótt ýmsir hv. þm. í Nd. hafi séð ástæðu til að gera brtt. við það og finna að því að nokkru leyti, þá held ég, að þeir, sem eru kunnugastir þessum málum og þekkja þau bezt, séu eftir atvikum ánægðir með frv. eins og það er. Og það er löngu vitað, a.m.k. vita þeir það, sem hafa mest með þessi mál að gera, að mikill hluti af gengishagnaðinum fer til þess að borga með ull og gærum, sem vitað er nú að hafa selzt á of lágu verði. Það þykir eðlilegt að hækka það verð og nota það fé að nokkru leyti, sem gengishagnaðinum nemur. Nú er það augljóst, að bæði ull og gærur seljast betur eftir gengisbreytinguna og gærur hafa selzt betra verði en út leit fyrir í haust, þannig að ekki er víst, að það þurfi nú að nota eins mikið og annars leit út fyrir á tímabili, af því að þessar afurðir geta hækkað nokkuð á erlendum markaði umfram það, sem gengisbreytingunni nemur.

Hvað gengishagnaðurinn verður mikill, er ekki hægt að fullyrða um, en 40–50 millj. kr. hefur verið talað um, lágmark 40 millj. Ég geri mér vonir um, að hann verði allmiklu meiri, sérstaklega vegna þess, að kjötið mun seljast á betra verði en áætlað var. Það er talsvert hærra kjötverð í Bretlandi nú en út leit fyrir í haust, bæði á nautgripakjöti og dilkakjöti. Og þess vegna er það, að líklegt er, að gengishagnaðurinn verði allmiklu meiri en áætlað hefur verið, en það var vitanlega sjálfsagt að áætla hann varlega, þannig að öruggt væri, að hann næði því, sem áætlað var, því að hitt skaðar áreiðanlega ekki, þótt hann verði allmiklu meiri. Ég mundi segja, að það væri æskilegt, að hann yrði miklu meiri, aðeins vegna þess, að sala á afurðunum gengi betur en áætlað væri, og það er vitanlega landbúnaðinum í hag.

Hv. framsóknarmenn fluttu í Nd. brtt. við þetta frv., eins og hv. Ed.- menn hafa sjálfsagt fylgzt með, en frv. var samþ. í Nd. óbreytt að öðru leyti en því, að það er talað um, að Sexmannanefnd og/eða yfirnefnd ljúki störfum ekki síðar en 23. þ.m. í staðinn fyrir 20. þ.m., eins og stóð upphaflega í frv. Mun ýmsum sýnast þetta mjög skammur tími og að erfitt verði að ljúka nefndarstörfum á ekki fleiri dögum en eftir eru til 23. þ.m. En þá ber þess að geta, að hagstofan er tilbúin með sína útreikninga, þau gögn og skýrslur, sem hún þarf að láta af hendi, að Sexmannanefnd hefur setið á rökstólum undanfarið og þetta liggur allt ljóst fyrir nm. og miklu ljósara en þegar svona n. kemur saman fyrst á haustin. Sexmannanefnd hefur áfrýjað dreifingarkostnaðinum til yfirnefndar, þeim dreifingarkostnaði, sem átti að koma inn í verðlagið fyrir 1. des., en fram að þeim tíma hefur hann verið óbreyttur frá því í fyrra, sem kannske kemur ekki að mikilli sök, þar sem kaupgjald hafði ekki hækkað á árinu til þess tíma og ekki heldur rekstrarliðir að neinu ráði. Og yfirnefndin er því starfandi nú til þess að úrskurða þetta. Ég held, að þótt ekki sé langur tími til 23. þ.m., sé engin ástæða til að ætla annað en nefndin eða nefndirnar geti lokið störfum fyrir þann tíma, vegna þess að gögnin eru nú öll fyrir hendi, sem nota þarf. Og það er vitanlega höfuðatriði, að það geti tekizt að ljúka þessu það fljótt, að nýja verðið geti tekið gildi hinn 1. jan., eins og gert er ráð fyrir í frv.

Það er vitanlega allt annað, sem kveðið er á um samkv. 1. gr. þessa frv., heldur en í framleiðsluráðsl. Þar er talað um, að verðlagningu skuli lokið fyrir 1. sept. ár hvert, nema samkomulag verði um annað. Hér er hins vegar talað um það, að störfum skuli lokið fyrir 23. des. án nokkurs fyrirvara. Þess vegna verður að gera ráð fyrir því, að þetta muni takast, og ég veit, að hv. Ed.- menn skilja það ekkert síður en hv. Nd.-menn, að það er nauðsynlegt að hraða þessu máli eftir því sem unnt er, og vil ég mælast til þess, að það verði gert, til þess að frv. verði að l. sem allra fyrst, enda þótt Sexmannanefnd sé farin að undirbúa sín störf með tilliti til þess, að þetta frv. er á ferðinni og verður væntanlega að I. fljótlega.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta frv. að sinni, en legg til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.