14.12.1967
Efri deild: 33. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í B-deild Alþingistíðinda. (226)

72. mál, ráðstafanir vegna landbúnaðarins í sambandi við breyting á gengi íslenskrar krónu

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Það er föst formúla við þau mál, sem hæstv. ríkisstj. flytur þessa dagana, að það sé óskað eftir, að þeim verði hraðað. Hitt mundi þykja tíðindum sæta, ef þessa væri ekki getið í upphafi, þegar mál eru flutt af hæstv. ríkisstj. á Alþingi, svo tíður hefur málflutningur á þennan veg verið að undanförnu hjá hæstv. ríkisstj. Ég ætla ekki að tefja þetta mál með langri ræðu, en ég vil þó minna á nokkur atriði þegar við 1. umr. þess.

Ég býst við, að um meginkjarna þessa máls séum við allir sammála, en hann er sá, að reikna skuli verðhækkanir á rekstrarvörum landbúnaðarins vegna gengislækkunarinnar inn í verðgrundvöll landbúnaðarafurðanna. Um þetta geri ég ráð fyrir, að við séum sammála, að þessi útreikningur sé framkvæmdur og að þetta komi strax inn í verðlag landbúnaðarafurða. Hitt er svo annað mál, að það er ekki sama, hver framkvæmir þessa útreikninga og hvernig þeir eru gerðir. Það er ekki sama. Ég er sammála því, sem komið hefur fram hér á hv. Alþ., að fela Hagstofu Íslands útreikninga á verðhækkunum og að meta þær hækkanir, sem ekki liggja ljóst fyrir við útreikninga. Ég er líka sammála því, að Framleiðsluráð landbúnaðarins skuli verðskrá landbúnaðarafurðir samkv. útreikningi hagstofunnar.

Varðandi 2. gr. þessa frv., sem fjallar um það að fela landbrh. að ákveða, á hvern hátt því fé er varið, sem kemur inn vegna útflutnings á landbúnaðarafurðum samkv. 4. gr. l. nr. 69/1967, þ.e. varðandi gengishagnaðinn, þá er ég þessu ekki sammála, og liggja margar ástæður til þess, að ég treysti hvorki hæstv. núv. landbrh. né sálufélögum hans í ríkisstj. til þess að hafa þessi mál með höndum. Ég vil í fyrsta lagi minna á nýfallinn úrskurð yfirnefndar um verðlag til bænda. Samkv. þeim úrskurði er ekki farið að lögum. Bændur fá ekki inn í verðgrundvöllinn sannanlega útgjaldaliði í rekstri né heldur raunverulegt afurðamagn. Þetta veldur því, að bændur fá á yfirstandandi verðlagsári samkv. þessum úrskurði 22% minna fyrir vinnu sína en þeim ber, sem þýðir það, að meðalbóndinn fær um 40 þús. kr. minna í árslaun en þær viðmiðunarstéttir, sem grundvöllur verðlagsins er byggður á. Þetta nemur í heild fyrir bændastéttina í landinu nokkuð á 3. hundrað millj. kr. eða sennilega um það bil tvöfaldri þeirri upphæð, sem kemur til með að verða lánuð úr stofnlánadeild landbúnaðarins á þessu ári.

Ég vil líka minna á það, að í sambandi við samninga um verð landbúnaðarafurða haustið 1966 var í leiðinni samið um ýmis önnur mál, sem áttu að verða til þess að bæta upp það verð, sem ekki náðist í samningunum sjálfum. Vil ég minna á það, að stjórn Stéttarsambands bænda barðist fyrir því, að komið væri á jarðakaupasjóði ríkisins, framleiðnilánasjóði landbúnaðarins og að varið skyldi 20 millj. kr. til veðdeildar Búnaðarbankans og fé til hagræðingar, svo að eitthvað sé nefnt af þessum atriðum. Þegar verðlagsúrskurðurinn var felldur, var í engu tekið tillit til þessara atriða, sem voru viss þáttur í verðlagningunni fyrir ári síðan. Það, sem miðað er við, er verðlagsgrundvöllurinn 1966–1967, eins og hann er á pappírnum, án þess að tekið sé tillit til nokkurra annarra atriða þar. Það gefur því auga leið, að þessi verðlagning nú spáir ekki góðu um framtíðina, því að ekki er fortíðin svo fögur heldur. Ég vil minna á þá staðreynd, sem kom fram á aðalfundi Stéttarsambands bænda á s.l. sumri, að lausaskuldir bænda hafa hraðvaxið hin síðari ár. Lán í stofnlánadeild og veðdeild eru einungis 40% af heildarskuldum bænda, lausaskuldir um 60%. Og meðalskuld á bónda var 266 þús. kr. við síðustu áramót, og öllum má ljóst vera, að þetta dæmi hefur ekki snúizt til hagræðis bændastéttinni á yfirstandandi ári, eins og árferði hefur verið örðugt og heyfengur manna um langt árabil ekki verið jafnlítill og í sumar.

En ég vil líka í leiðinni geta þess, að fyrir 10 árum voru föstu lánin, sem bændur höfðu fengið, 60% af heildarskuldum, eða eins og lausaskuldirnar eru núna af heildarlánunum, en lausaskuldir alls 40%. Þróun þessara mála hefur verið hröð, eftir að stofnlánadeild landbúnaðarins tók til starfa. Það er auðsær tilgangur lagasmiðanna. Hann var sá og er sá hinn sami og annars staðar að þrengja hag bændastéttarinnar. Bændur verða líka samkv. þessum l. að greiða til stofnlánadeildarinnar 2 kr. af hverjum 3, sem stofnlánadeildin fær til umráða umfram þær lántökur, sem eru inntar af hendi fyrir stofnlánadeildina. Það segir líka allt til sín í efnahag bænda, styttri lánstími og háir vextir, að ógleymdum stofnlánadeildarskattinum. Þetta segir allt sína sögu og hefur á þeim árum, sem liðin eru, orðið á allan hátt til óhagræðis bændastéttinni. Ég játa það, að ég hef aldrei búizt við góðu landbúnaðinum til handa af núv. stjórnarflokkum, því að þar ráða ekki þau öfl, sem neins mega sín, þótt þau fyrirfinnist að sjálfsögðu innan þessara flokka. Ég vil í lokin minna á það, að réttur bænda hefur ekki alltaf verið hátt skrifaður hjá núv. stjórnarflokkum, eins og t.d. haustið 1959, þegar tekinn var samningsréttur af bændum og verðlag búvara ákveðið með sérstöku lagaboði. Að þeirri stjórn stóð Alþfl. með góðum stuðningi Sjálfstfl.

Þá vil ég líka minna á það, að búnaðarráð, sem skipað var af nýsköpunarstjórninni 1944, lækkaði afurðaverð til bænda um 9.4%. Og eldri menn, ef farið er lengra aftur í tímann, muna sjálfsagt eftir harðri baráttu Sjálfstfl. móti afurðasölumálum landbúnaðarins 1934. Þetta segir allt sína sögu og það er sami rauði þráðurinn í gegnum öll þessi mál á öllu þessu tímabili, þegar þessir hv. flokkar hafa farið með völd.

Forsaga þessara flokka, sem nú fara með völdin, er á einn og sama veg varðandi landbúnaðinn. Það heyrist nú aldrei orð um það á þingi, ekki einu sinni frá hæstv. landbrh., að eitthvað þurfi að gera fyrir unga fólkið í sveitinni, enda eru flestir bændur nokkuð við aldur og bændabýlum fækkar og jafnvel heilar sveitir hafa farið í eyði.

Herra forseti. Ég tel mig hafa gert grein fyrir ástæðum þeim, sem liggja að baki því, að mér finnst ekki hægt að fela yfirdómsmeirihluta í verðlagsmálum framkvæmd laga þessara, né heldur hæstv. landbrh. og hans fylgdarliði í ríkisstj. að fara með framkvæmd mála um að skipta niður gengishagnaðinum.