16.04.1968
Neðri deild: 97. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í C-deild Alþingistíðinda. (2265)

5. mál, þóknun fyrir innheimtu opinberra gjalda

Landbrh. (Ingólfur Jónsson) :

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að blanda mér inn í þessar umr., en það er aðeins vegna umr. um aðstöðugjaldið af áburðinum, að ég vildi segja nokkur orð í sambandi við till. hv. 5. þm. Norðurl. e., sem var felld hér fyrir nokkrum dögum. Ég hef ekki þessa till. fyrir mér, en ég man nokkurn veginn, hvernig hún var og hún endaði með því, að ekki verði lagt aðstöðugjald á áburðarverksmiðjuna. Það hefði verið alveg óþarfi að samþykkja það, vegna þess að það er ekkert aðstöðugjald lagt á áburðarverksmiðjuna. Ég tel rétt, að það komi hér fram, vegna þess að eins og till. hv. þm. var orðuð. hefði mátt ætla, að svo væri, þar sem það er tekið fram í henni, að það verði ekki lagt aðstöðugjald á áburðarverksmiðjuna. En þrátt fyrir þetta má vera, að aðstöðugjald sé lagt á áburðinn hjá einstökum verzlunum, og þá eru það sveitarstjórnirnar þar, sem ákveða það. Hv. 1. þm. Norðurl. v. nefndi nú dæmi um það, að a.m.k. ein sveitarstjórn hefði talið eðlilegt að leggja ekki aðstöðugjald á áburð, og það finnst mér satt að segja alveg eðlilegt. Og ég held, að það mætti nefna mörg dæmi um það, að það hefði ekki verið gert. Og að bændur borgi kannske yfirleitt allt að 1000 kr. í aðstöðugjald af sínum áburði, held ég, að fái ekki staðizt, a.m.k. ekki þar, sem ég þekki til. Ég tel, að þetta þurfi að koma hér fram, að bæði sveitarstjórnir hafa þetta í sinni hendi og að það er hægt að vitna í það, að margar þeirra telji ekki ástæðu til að leggja hátt aðstöðugjald á áburðinn, því að yfirleitt er hann seldur til bænda án álagningar.