16.04.1968
Neðri deild: 97. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í C-deild Alþingistíðinda. (2266)

5. mál, þóknun fyrir innheimtu opinberra gjalda

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég gat þess áðan í ræðu minni, að síðast þegar ég fékk upplýsingar um álagningu aðstöðugjalda á tilbúinn áburð, hefði ég komizt að þeirri niðurstöðu, að eitt sveitarfélag eða sveitarstjórnin í einu kauptúni hefði sleppt því að leggja aðstöðugjald á áburðinn, en annars staðar á verzlunarstöðunum hefði álagið verið frá ¼% og upp í 2%. Og það eru mörg þrep þar á milli. Þetta er ákaflega mismunandi eins og á mörgum fleiri vörum. Og ég veit, að það er rétt, og vegna þess var þessi till. frá hv. 5. þm. Norðurl. e. um, að gjaldið skyldi ekki fara yfir ½% á áburðinn, að það mun mega finna dæmi þess, að meðalbóndi verði að borga 1000 kr. í aðstöðugjald af áburðinum á túnið sitt í ár, því að ég geri alls ekki ráð fyrir því, að aðstöðugjöldin verði lækkuð, verði lægri nú en þau voru árið áður. Og þetta er óhæfilegt. En þetta voru menn í raun og veru að ákveða, þeir sem felldu till. Stefáns Valgeirssonar, hv. 5. þm. Norðurl. e., á dögunum. Hvort hæstv. landbrh. hefur verið í þeim hópi, veit ég ekki.