23.10.1967
Neðri deild: 7. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í C-deild Alþingistíðinda. (2273)

3. mál, æskulýðsmál

Jónas Árnason:

Herra forseti. Hér er komið fram frv. til l. um æskulýðsmál, og ég sé ástæðu til þess að fagna því og þakka þeim, sem að því hafa unnið. Það hefur margt verið með töluverðum losarabrag hér í þessu þjóðfélagi okkar nú um skeið og ekki hvað sízt líf æskulýðsins, og það er full ástæða til að fagna hverri viðleitni til úrbóta í þeim efnum.

Fullyrða má, að hér sé á ferðinni þaulhugsað frv. og vel unnið. Sú 10 manna n., sem hæstv. menntmrh. fól fyrir ekki skemmri tíma en þremur árum að semja frv., var skipuð ýmsum helztu áhrifamönnum á sviði íslenzkra æskulýðsmála, svo að varla þarf að efa, að störf hennar hafi markazt af mannviti, reynslu og þekkingu, sízt þegar þess er gætt, að nm. höfðu náið samráð við öll helztu félög og samtök æskulýðsins í landinu og efndu m.a. til sérstakrar ráðstefnu í því sambandi. Enn fremur var svo að sjálfsögðu kvaddur til útlendur sérfræðingur.

Að sjálfsögðu, segi ég, vegna þess að það er að verða þjóðarsiður hér hjá okkur Íslendingum að kalla á útlendinga í tíma og ótíma og spyrja þá, hvernig við eigum að haga okkur hér norður á þessu afskekkta landi okkar. Sérþekking útlendinga getur vitaskuld oft komið að góðum notum, en hitt er jafnvíst, að vegna fámennis okkar og stærðar landsins er margur okkar vandi þannig vaxinn, að jafnvel hinir lærðustu útlendingar munu eiga erfitt með að skilja hann betur en við sjálfir. Og svo er til að mynda að mínum dómi um þann vanda, sem að okkur steðjar í sambandi við þroska og uppeldi æskulýðsins.

Þess vegna varð mér það undrunarefni að lesa í grg. fyrir frv. þessu, hve mjög hinn útlendi sérfræðingur virðist hafa komið við sögu þess. Hann dvaldist hér að vísu aðeins í 10 daga. En að þeim tíma liðnum vissi hann nógu mikið til þess að leggja fram till., sem frv. þetta virðist að allmiklu leyti byggjast á. Þó eru þær till. á engan hátt svo nýstárlegar, að þær hafi ekki alveg eins getað orðið til í huga einhvers Íslendings með litla sem enga sérfræðiþekkingu á málinu. Ég nefni sem dæmi einn tillöguliðinn af 9, þann 6., sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Sökum þess, hve Reykjavík er í örum vexti, þarf að huga sérstaklega að vandamálum æskunnar þar og gera ráðstafanir til úrbóta hið allra fyrsta.“

Svo mörg eru þau orð. Og þetta er vissulega alveg rétt athugað. En þó mundu flestir telja, að þeir vitru menn, sem falið var að semja frv. þetta, hefðu hver um sig og upp á eigin spýtur getað komizt að þessari niðurstöðu.

Nú segja kannske einhverjir, að ástæðulaust sé að gera veður út af þessu, því að þessi sérfræðingur hafði komið hingað okkur að kostnaðarlausu, og það er alveg rétt. UNESCO, Menningar- og vísindastofnun Sameinuðu þjóðanna, sú gagnmerka stofnun, gekk í að útvega manninn og fékk ríkisstj. hans, þ. e. hollenzku stjórnina, til að borga ferðir hans og uppihald hér. Það virðist að vísu orðið viðhorf furðumargra Íslendinga, að við hljótum að taka með fögnuði öllu því, sem okkur berst ókeypis frá útlendingum, en þó munu ýmsir telja, að okkur hefði verið sæmra að borga þennan kostnað sjálfir og benda um leið kurteislega á, að samsvarandi fjárhæð hefði verið betur varið á vegum Sameinuðu þjóðanna til hjálpar einhverju því fólki, sem á við að stríða meiri þrautir og neyð af fátæktar sökum heldur en við Íslendingar.

Að sérfræðingurinn kom frá Hollandi, er mér einnig nokkurt undrunarefni. Ísland er með strjálbýlustu löndum heims og margur okkar vandi og þar á meðal sá vandi, sem snertir æskulýðsmálin, jafnt þann hluta æskulýðsins, sem í þéttbýlinu býr, eins og þann, sem á heima í sveitunum, er á einhvern hátt tengdur þessum landsháttum og verður einnig að leysast með tilliti til þeirra. Holland aftur á móti er eitt af þéttbýlustu löndum heims. Vandamál Hollendinga hljóta því að vera um margt gerólík okkar vandamálum, og æskulýðsvandamál þeirra verða að leysast með tilliti til þeirra staðreynda fyrst og fremst, að það er þröngt í landinu. Það er vegna þessa, sem ég undrast, að valinn skyldi maður einmitt frá Hollandi til að hjálpa til við undirbúning þessa frv. Ég held í fáum orðum sagt, að Hollendingur, jafnvel þótt sérfræðingur sé, geti ekki skilið æskulýðsvandamál okkar betur en okkar eigin menn, þeir sem af mestri einlægni hafa unnið að lausn þeirra.

Ég bið hæstv. forseta velvirðingar á því, að ég skuli með þessu víkja nokkuð út fyrir þrengstu takmörk þess máls, sem hér er til umr. En fyrir þá sök vek ég máls á þessu hér, að mér eins og mörgum öðrum er farið að þykja nóg um það, hversu mjög við Íslendingar setjum traust okkar á útlendinga við lausn okkar eigin vandamála. Þetta er að mínum dómi vanmetakennd, sem er okkur til lítils sóma. Það er eins og við þorum varla, ef svo mætti að orði komast, að snúa okkur við lengur án þess að spyrja fyrst útlending, hvort við séum ekki að gera einhverja bölvaða vitleysu. Og munu þó ýmsir telja, að við höfum gert þeim mun fleiri bölvaðar vitleysur sem við höfum haft fleiri útlendinga með í ráðum.

Höfundar þessa frv. hefðu að mínum dómi vegna þekkingar sinnar og reynslu varðandi vandamál æskulýðsins hér í þessu strjálbýla fjallalandi okkar — hver um sig getað upp á eigin spýtur skilað því í þeirri mynd, sem það liggur hér fyrir. En samt töldu þeir vissara að kalla sér til halds og trausts á mann frá því þéttbýla, blauta og flata Hollandi, samkv. þeirri viðteknu venju að spyrja útlendinga álits um hvað eina það, sem til stendur að gera í opinberum málum á Íslandi. Með þessu tel ég, að þessir ágætu menn hafi sýnt sjálfum sér vantraust, sem er ekki aðeins ástæðulaust, heldur einnig mjög svo óviðeigandi.

Ég vil ítreka það, sem ég sagði áðan, að staðhættir í þessu þjóðfélagi eru um svo margt svo gerólíkir því, sem annars staðar gerist, og vandamál okkar þess vegna svo sérstæð, að við getum á enga treyst nema sjálfa okkur til lausnar þeim, og meðal þessara vandamála eru þau, sem snerta æskulýðinn. Hitt vil ég líka ítreka, að með þessu er ég ekki að halda því fram, að við getum í engri grein haft gagn af áliti útlendra sérfræðinga, fjarri því. Við eigum að leita álits erlendra sérfræðinga, þegar ástæðurnar krefjast þess, en annars ekki. Og sízt vildi ég með þessu kasta rýrð á Hollendinga sem slíka, þekkingu þeirra og vitsmuni. Þeir geta eflaust margt nytsamlegt kennt okkur. Ef við hygðum á einhver stórræði til að mynda í túlípanarækt, teldi ég sjálfsagt að kalla á Hollending.

Gildi þessa frv. er ekki í því fólgið, að með því sé bent á endanlega lausn á æskulýðsvandamálum okkar, enda er slíkt ekki tilgangur höfundanna né heldur þess hæstv. ráðherra, sem fól þeim verkið. Tilgangurinn er sá að koma á skipulagi, sem hægt væri að byggja á lausn þessara mála, og í því er gildi frv. fólgið. Það vekur vonir um, að hið opinbera muni nú loks fara að taka til hendinni, svo að um munar, í þessum efnum, og það eitt er ærið fagnaðarefni, enda ekki seinna vænna. Um skipulagið sjálft, eins og það er hugsað í frv., mun ég ekki ræða að þessu sinni, og gætu þó virzt á því einhverjir annmarkar. En hitt skiptir þó mestu, hvernig lögunum verður beitt, að hverju verður helzt með þeim stefnt.

Hverjar eru helztu orsakir þess, að svo er komið sem komið er? Hvernig stendur á því, að við erum í svona miklum vandræðum með æskulýð okkar? Orsakirnar eru að sjálfsögðu margar, fleiri en svo, að það sé á mínu færi að rekja þær allar til hlítar, en ég vildi leyfa mér að fjalla hér um þær, sem ég tel einna helztar.

Íslenzkt þjóðfélag hefur á hinu öra breytingaskeiði undanfarinna áratuga haft æ meiri tilhneigingu til að stía þegnum sínum sundur eftir aldursflokkum. Í fremstu stíunni eru unglingar. Nokkru innar kemur svo stía fyrir miðaldra fólk, eins og við erum allflestir hv. alþm., og í innstu stíunni, þeirri sem við eigum eftir að lenda í, sumir okkar a.m.k., hefur gamalmennum verið komið fyrir. Hlutskipti þessara síðastnefndu, sú staðreynd, að nú á tímum hinnar margrómuðu velferðar eru gamalmenni sennilega þjökuð meira af einmanaleik en löngum fyrr í sögu þjóðarinnar, gefur vissulega tilefni til alvarlegrar íhugunar, en sleppum því að þessu sinni. Það er ástandið í fremstu stíunni, sem hér er til umr.

Sem kennari hef ég á undanförnum árum haft allnáin kynni af fólki á aldrinum 13–14 til 16–17 ára, og ég þykist því geta talað af nokkurri reynslu um hugsunarhátt æskulýðsins og þær innri hræringar, sem hafa verið nefndar sálarlíf.

Þess er þá fyrst að geta, að unglingar hafa í dag býsna ákveðnar meiningar um það, hvað valdi þeim sálarlífs- og tilfinningatruflunum, sem þeir verða fyrir. Ef þeir haga sér á einhvern hátt öðruvísi en sæmilegt getur talizt, ætla allt að æra með hávaða eða vinna jafnvel spjöll á umhverfi sínu og maður spyr, hvers vegna í ósköpunum þeir láti svona, þá horfa þeir gjarnan á mann með innilegum sakleysissvip og segja: „Við erum á svo erfiðum aldri.“ Maður reynir kannske að halda því fram, að það sé ekki endilega víst, að þeir séu á neitt erfiðari aldri en t.d. maður sjálfur eða bara mannfólkið upp og ofan. En það kemur fyrir lítið. Unglingarnir eru sannfærðir um algera sérstöðu sína í þessum efnum, enda telja þeir sig hafa fengið hana rækilega staðfesta af ummælum ýmissa sálfræðinga og annarra málsmetandi manna en fyrst og fremst þó af greinum í vikuritum og öðrum skemmtiritum, sem þeir gleypa í sig af hvað mestri áfergju.

Þegar unglingur, sem reynzt hefur hið mesta prúðmenni, fer allt í einu að valda leiðindum eða jafnvel vandræðum með framkomu sinni, eins og stundum kemur fyrir, er allt eins líklegt, að hann hafi lesið einhverja ómerkilega sálarlífsspeki í uppáhaldsskemmtiritinu sínu og dregið af því þá ályktun, að hann hljóti að vera kvalinn af ýmsum annarlegum kenndum, einfaldlega vegna þess að hann sé unglingur, og nú sé um að gera að ná sér niðri á einhverjum fyrir þetta. Það er jafnvel hugsanlegt líka, að hann hafi þennan vísdóm frá einhverjum viðurkenndum sálfræðingi. Ég hef heyrt unglinga vitna í ýmsa slíka menn til afsökunar á vafasömu framferði sínu. Þetta er yfirleitt allt saman einhverjum svokölluðum komplexum að kenna. Komplexar eru, þótt ótrúlegt megi virðast, eitt af aðalumræðuefnum unglinganna. Mér er jafnvel ekki grunlaust um, að sumir þeirra séu betur að sér í komplexum en flestum eða öllum þeim námsgreinum, sem þeir eiga að læra í skólanum. Og raunar engin furða, svo mjög sem um þessi fyrirbæri er rætt og ritað opinberlega.

Í hlaði einu, sem nýtur mikilla vinsælda meðal unglinga, sá ég einhverju sinni grein, þar sem nákvæmlega voru raktir allir þeir komplexar, sem þjáð geta fólk á þessum aldri, allt frá þeim komplex, sem stafar frá snöggri stækkun á nefinu, til þeirra, sem orsakast af breytingum á tiltekinni kirtlastarfsemi. Þetta var mikill bálkur, og ég er viss um, að eftir lestur þessarar greinar hefur margur unglingurinn verið orðinn a.m.k. einum komplexinum ríkari en áður

Með þessu vildi ég segja það, að hið mikla umtal í ræðu og riti, sem uppi er haft um vandamál æskulýðsins, hafi á margan hátt orðið til þess að auka þessi vandamál frekar en hitt.

Stundum þegar mál þessi ber á góma, geri ég samanburð á jafnöldrum mínum, þegar við vorum ungir, og æskulýðnum í dag, og slíkan samanburð hygg ég, að margir ykkar hafi einnig gert, hv. alþm. Við áttum að sjálfsögðu við ýmis vandamál að stríða. En okkur skorti alla fræðilega undirstöðu til þess að rökræða þau hver við annan eða orsakir þeirra. Ég er ekki viss um, að við höfum nokkurn tíma heyrt orðið komplex, og við hefðum eflaust ekki einu sinni skilið það, þótt við hefðum heyrt það, og allra sízt hefðum við getað gert vangaveltur út af slíkum fyrirbærum að tómstundadútli, eins og ungt fólk nú til dags. Það má eflaust segja, að við höfum vitað of lítið um tilfinningalíf okkar og leyndardóma kirtlastarfseminnar. Má vel vera, að okkur hefði veitzt auðveldara að yfirstíga margs kyns erfiðleika, ef við hefðum vitað meira. Þó fullyrði ég, að við nutum lífsins betur og með eðlilegri hætti en ungt fólk gerir í dag. Þá var líka sú skoðun ríkjandi, að það væri gaman að vera ungur, og við trúðum þessu og fundum það reyndar oftast nær sjálfir. Okkur fannst það gaman. Nú er það hins vegar fullyrt af ábyrgum aðilum jafnt sem óábyrgum, að það sé fyrst og fremst erfitt að vera ungur. Og vissulega má með sanni segja, að það sé á ýmsan hátt erfiðara nú en fyrrum, vegna þess að lífið er orðið flóknara og margt svo mjög á hverfanda hveli, að slíkt hljóti að valda öryggisleysi í sálum hinna ungu. En margt er líka orðið miklu tryggara nú og möguleikar þeir, sem við þessu fólki blasa, miklu fleiri og glæsilegri en nokkru sinni fyrr.

Þær staðreyndir skipta hins vegar furðulitlu máli, þegar þetta fólk metur hlutskipti sitt. Sá, sem segist gleðjast yfir hlutskipti sínu, af því að það sé gaman að vera ungur, hefur að þess dómi ekki fylgzt með tímanum og er haldinn úreltum sjónarmiðum. Það telur sig vita betur, vísindalegar niðurstöður hafi sýnt það og sannað, að það sé fyrst og fremst erfitt að vera ungur. Í fáum orðum sagt, allt hið mikla tal um tilfinningalíf æskulýðsins og vandamál þau, sem því eru samfara, hefur alið með honum sjálfsvorkunn, sem birzt getur sem mjög slæm móðursýki. Meðalhófsins hefur hér ekki verið gætt sem skyldi.

Nú mundi líklega vissara að taka það fram, — ég tala nú ekki um, ef einhverjir gamlir og góðir nemendur mínir fengju spurnir af þessum ummælum mínum hér, — að íslenzkur æskulýður, eins og ég hef kynnzt honum, er ekki allur undir þessa sök seldur, fjarri því. En þó tel ég, að þessi meinsemd sé orðin það útbreidd og djúpstæð, að tvímælalaust megi telja hana eina af helztu orsökum þess, að við erum í vandræðum með æskulýð okkar.

Mér er líka ljúft að játa það, að þrátt fyrir alla galla þessa fólks getur maður haft hina mestu ánægju af samvistum við það. Menn mega ekki halda, að það hafi glatað allri heilbrigðri lífsgleði. Allt í einu getur það gleymt öllum sínum komplexum og hagað sér á allan hátt eðlilega, og þá kemur í ljós, að þetta eru inn við beinið hinar elskulegustu manneskjur og satt að segja að ýmsu leyti miklu skemmtilegri en afgangurinn af mannfólkinu. Slíkar stundir valda því, að maður getur ekki annað en látið sér þykja vænt um þetta fólk. En slíkar stundir mættu svo sannarlega vera fleiri.

Ég vænti þess, að af því, sem ég hef verið að segja hér, sé það einnig ljóst orðið, að stór hluti æskufólksins lítur á sig sem sérstaka manntegund. Hann telur sig hafa öðlazt mikinn og vísindalegan skilning á sjálfum sér, en hefur að sama skapi takmarkað álit á skilningi okkar hinna eldri og sér í lagi þó þeirra, sem næstir honum standa. Það, sem til að mynda veldur einna flestum gráum hárum í höfðum íslenzkra foreldra nú til dags, eru áhyggjur út af því, hvað börn þeirra séu einþykk og óráðþæg.

Sambandið milli kynslóðanna hefur rofnað. Þær umgangast ekki lengur hver aðra eins og eðlilegt væri, taka lítinn sem engan þátt í lífi hver annarrar, hafa lokazt inni hver í sinni stíu.

Og hvað hefur valdið þessu? Ég tel mig hafa bent á eina ástæðuna. Nú skal ég nefna aðra.

Sú viðleitni, sem að undanförnu hefur verið höfð í frammi til hjálpar æskulýðnum í félagslegum efnum, virðist byggð á þeirri meginhugsun, að vandamál hans verði helzt leyst með því að halda honum sem mest aðskildum. frá öðru fólki. Sérstök æskulýðsheimili eru að sjálfsögðu góðra gjalda verð og æskulýðsdansleikir undir eftirliti samvizkusamra manna munu sjálfsagt geta minnkað hættuna á því, að unglingar lendi á glapstigum. Þó hef ég séð mörg dæmi þess í sveitinni, þar sem ég á heima, að þau böllin heppnast einmitt bezt, þar sem kynslóðirnar, ungir jafnt sem gamlir, dansa í einum sal. Og ég fullyrði hiklaust, að margt það tilstand, sem gert er með æskulýðinn sem slíkan og alveg sér á parti, er alveg ástæðulaust og sumt mjög varhugavert. Þegar til að mynda Sinfóníuhljómsveit Íslands vill bæta tónlistarsmekk ungs fólks, sem sannarlega er ekki vanþörf á, með því að bjóða því afsláttarmiða, færi bezt á, að hún gerði það án þess að auglýsa endilega sérstaka æskulýðstónleika, eins og hún hefur gert. Enda sýnist mér, að ungt fólk ætti að geta notið og haft ánægju af klassískri músík, þó að einhverjir fullorðnir séu viðstaddir. Og þó að ég þykist vita, að gott eitt vaki fyrir þeim prestum, sem nú eru í vaxandi mæli farnir að auglýsa sérstakar æskulýðsguðsþjónustur, efast ég ekki um það, að guð almáttugur mundi kunna bezt við það að sjá unga sem gamla sitja hlið við hlið í húsi sínu.

Slík dæmi mætti nefna fjöldamörg fleiri, og enda þótt þau kunni að virðast smávægileg hvert fyrir sig, á þetta þó allt sinn þátt í þeirri sorteringu, sem tvímælalaust er komin út í öfgar. Sérstakar æskulýðsguðsþjónustur gætu jafnvel virzt vottur þess, að farið sé að reikna með því, að til sé sérstakur æskulýðsguð. Víst er, að þessi sortering er vægast sagt ekki líkleg til þess að draga úr þeirri sannfæringu æskulýðsins, að hann sé sérstök manntegund. Og minnir þetta reyndar óskemmtilega mikið á það, sem gerist í löndum, þar sem kynþáttamismunun ríkir og tilteknu fólki er bannað að láta sjá sig nema á tilteknum stöðum.

Og hér er ég kannske kominn að sjálfum kjarna málsins. Allar hinar miklu umr. um vandamál æskulýðsins og tilstandið, sem stundum er verið að gera út af honum, hvað sannar það? Að eldri kynslóðin og það þjóðfélag, sem rekið er á hennar ábyrgð, láti sér í raun og veru annt um þetta fólk ?

Í þessu sambandi væri freistandi að taka t.d. skólamálin til rækilegrar athugunar. Um þau væri margt að segja og ekki allt þar fallegt. Fjárveitingar til þeirra eru skornar svo við nögl, að margir skólar mundu án efa lognast út af með öllu, ef ekki væri fyrir þrautseigju og fórnfýsi þeirra, sem stjórna þeim. Ég kenndi tvo undanfarna vetur við heimavistarskóla, þar sem ekki er að heitið geti nein aðstaða fyrir unglingana að nota tómstundirnar sér til gagns og þroska, og er þó slík aðstaða engu þýðingarminni í slíkum skólum heldur en sjálfrar kennslustofurnar. Og þó hefur þessi skóli búið við batnandi hag að því er aðstöðu snertir undanfarin ár, en ástandið er sem sagt enn eins og ég hef verið að segja. Og fyrir fáeinum árum kenndi ég við skóla hér í Reykjavík, sem hafði fyrir náð og miskunn fengið inni hjá fyrirtæki, sem annaðist bílaviðgerðir á neðstu hæð hússins. Það voru stundum böll á laugardagskvöldum, og þá urðu nemendurnir að dansa í einni kennslustofunni og þröngum gangi fyrir framan hana og jafnvel niðri í stigum. Kennslan var stunduð við stöðugt undirspil frá skröltandi vélum og hömrum, sem dundu á stálum. Og þegar vindur stóð upp á útidyrnar, fylgdi þessum skarkala stybba af margs kyns málningartegundum, benzíni og olíu.

Þetta sérkennilega skólahúsnæði mun nú að vísu aflagt sem slíkt, en þó er enn víða kennt við aðstæður, sem eru litlu betri en þessar. Og þetta gerist á sama tíma og bifreiðainnflytjendur byggja sér æ stærri og glæsilegri hallir, þar sem þeir hafa til sýnis sína fjórhjóluðu gæðinga. Samanburður á þeim höllum og skólum okkar talar sínu máli um það, hverjir velþóknunar njóta í þessu þjóðfélagi. Lúxusbílar búa við miklu glæsilegri húsakynni, meðan þeir bíða eftir kaupanda sínum, heldur en íslenzkur æskulýður, meðan hann býr sig undir lífið.

Ég held, að ég láti þetta nægja um skólamálin að sinni. Það gefst án efa tækifæri til að ræða þau nánar og það frekar fyrr en síðar á þessu þingi.

Í framhaldi af þessu væri þó kannske ekki úr vegi að minnast hér á annað atriði, sem veldur mér áhyggjum, og það er aðstaða hæstv. menntmrh. Aðstaða hans veldur mér áhyggjum, vegna þess að hún er svo óskemmtileg, að ég ekki segi átakanleg, og mér finnst, að maðurinn eigi fyrir margra kosta sakir miklu betra hlutskipti skilið. Ég veit, að það er honum metnaðarmál að láta sem mest gott af sér leiða í þessum efnum. Ég er viss um, að hann mundi feginn vilja reisa marga skóla, sem að glæsileik væru sambærilegir við a.m.k. miðlungsbílasölu. En hann hefur orðið að sæta þeim hörmulegu örlögum að vera ekki aðeins menntmrh., heldur og ráðh. viðskiptamála í ríkisstj., sem fyrst og fremst lýtur vilja þeirra þjóðfélagsafla, sem alla hluti meta samkv. sjónarmiðum gróðahyggjunnar og hafa lítinn sem engan skilning á skólamálum eða öðru því, sem til menningar horfir. Það er eins og þar stendur: Illt er tveim herrum að þjóna. Það getur enginn þjónað menntagyðjunni af trúmennsku án þess að valda um leið styggð í röðum þeirra, sem dýrka mammon. Og samstarfið í þeirri stjórn, sem hæstv. ráðh. á aðild að, byggist á því fyrst og fremst, að í þeim röðum ríki gleði og fögnuður. Hann hefur sem sé lent í slæmum félagsskap, og fyrir þá sök getur hann ekki komið í framkvæmd nema litlu einu af öllu því góða, sem hann vill í menningarmálum. Hann mundi án efa vera miklu hamingjusamari maður í öðrum og betri félagsskap, sem hann og ætti skilið, í annarri og betri ríkisstj. En það er sennilega til lítils að benda honum á það. Kannske er það orðið um seinan.

En þessi staðreynd, þessi vafasami félagsskapur, sem hæstv. ráðh. hefur valið sér, veldur mér einnig nokkrum beyg í sambandi við framkvæmd þeirra mála, sem ráðgerð eru í þessu frv. Það er talað um fjárveitingar. Það er hins vegar lítið talað um það, hve háar þær eigi að verða, né heldur, hvernig þær verði tryggðar. Margt bendir sem sé til þess, að eftir að hæstv. menntmrh. hefði fengið frv. þetta samþ., færi fyrst verulega að reyna á einlægni hans í málinu og dugnað, hvernig honum tækist til með að fyrirbyggja óæskileg áhrif þess mammonssafnaðar, sem mestu ræður um aðgerðir hæstv. ríkisstj., og tryggja nægan stuðning fjárveitingavaldsins. Það hygg ég, að verði þrautin þyngst. Það er nefnilega fast, sem sumir halda.

Sízt vildi ég þó gerast sekur um ástæðulausar hrakspár. Ég leyfi mér að vona allt hið bezta um framkvæmd þessa frv.

En sem sagt, árangurinn veltur að mínum dómi fyrst og fremst á því, að þeir, sem framkvæmdinni eiga að stjórna, hafi hliðsjón af þeim grundvallaratriðum, sem ég hef hér reynt að gera grein fyrir. Framkvæmdin verður fyrst og síðast að miða að því að venja æskulýðinn af þeirri hugsanaskekkju, að hann sé sérstök manntegund. Eldri kynslóðin verður þá líka að hætta að haga sér gagnvart honum eins og svo sé. Hún verður að hætta að stugga honum frá sér. Hún verður að taka meiri þátt í lífi hans.

Áður en tímabil hinnar skefjalausu sorteringar hófst, var það helzta einkennið á félagalífi okkar Íslendinga, að ungir sem gamlir tóku jafnan þátt í því. Aldursmunur var þá ekki talinn neinn þröskuldur í vegi fyrir því, að menn gætu verið góðir félagar. Og þannig er þetta raunar enn í vissum byggðarlögum Ég á þar við ungmennafélögin. Mörg þeirra hafa að vísu dáið drottni sínum. En það eru líka til ungmennafélög, sem enn starfa af furðumiklu tápi og fjöri. Ég get um það vitnað af eigin raun. Tvo undanfarna vetur starfaði ég í tveim ungmennafélögum, og ég hef ekki í annan tíma fundið betur sannleiksgildi hins fornkveðna, að maður er manns gaman. Starfsemi þessara félaga byggist á því gamla og góða viðhorfi, að aldursmunur þurfi ekki að vera til trafala í samskiptum manna, heldur geti hann þvert á móti orðið til að auka ánægjuna af slíkum samskiptum og orðið til þroska öllum aðilum. Menn teljast vera jafngóðir og nýtir ungmennafélagar, hvort sem þeir eru fimmtugir eða 15 ára.

Ég vek athygli á þessu hér, vegna þess að mér sýnist, að starfshættir ungmennafélaganna gætu um margt orðið til fyrirmyndar við framkvæmd þessa frv. Raunar er gert ráð fyrir einhverjum stuðningi við ungmennafélögin sem og önnur skyld samtök í landinu, og það er gott. Þeim mun meiri sem sá stuðningur verður, þeim mun betra. Kannske yrði það einmitt happasælasti árangurinn af þessu frv., ef það gæti blásið nýju lífi í ungmennafélögin og hafið aftur til vegs hinar gömlu hugsjónir þeirra.

Því yrði þó eflaust haldið fram, að starfshættir ungmennafélaganna mundu ekki eiga við í Reykjavík eða annars staðar í þéttbýlinu, og rétt mun, að þeir hæfi betur þar, sem færra fólk er saman komið og minni gauragangur í daglegu lífi, þ.e.a.s. úti á landsbyggðinni, í kaupstöðum og í sveitum. En þess ætti maður þó að mega æskja, að einnig í Reykjavík yrði sem mest reynt að starfa í þeim anda, sem enn þá einkennir ungmennafélögin. Þar — í þéttbýlinu — kallar líka mest á um lausn vandans, þar er mest í húfi, að kynslóðirnar fari aftur að gefa vinsamlegan gaum hver að annarri, þar ríður á mestu, að rofin verði einangrun þeirra hverrar um sig, felld niður spilverkin og afnumdar stíurnar.

Að endingu þessa ítrekun: Þó að frv. þetta nefnist frv. til l. um æskulýðsmál, lít ég svo á, að framkvæmd slíkra laga eigi ekki að vera bundin einvörðungu við æskulýðsmál í þröngri merkingu. Ég vil vona, að framkvæmdin verði með þeim hætti, að frv. hefði eins mátt nefnast frv. til l. um heilbrigð samskipti og sættir milli ungra og gamalla Íslendinga.